19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (3111)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ræðu hæstv. menntmrh. vil ég leyfa mér að gera nokkrar aths. Mér finnst, að það hafi verið upplýst hér, að stefnt sé að því, sem sízt má stefna að í íslenzkum fjármálum. Og ég fagna, ekki hvað sízt, að þessi þáttur hefur komið til umr., ef það gæti orðið til þess að sporna við því, að farið yrði lengra inn á þá braut. Hér hefur verið lýst yfir því af hæstv. ráðh., að það verði ákveðið af fjárhagsráði, hve mikið verði yfirfært í heild af gjaldeyri til námsmanna erlendis. Út af fyrir sig ætla ég ekki að deila á það fyrirkomulag hér, ef það byggist á réttum upplýsingum. En slík yfirfærsla verður vitanlega fyrst og fremst að takmarkast af því, hve mikil þörf er á yfirfærslu þessa gjaldeyris, og ekki neinu öðru. Hæstv. ráðh. sagði, að menntamálaráð yrði beðið að gefa upplýsingar um þessa úthlutun, og síðan mundi ekki verða meira yfirfært til námsmanna erlendis en hægt væri að gera að dómi fjárhagsráðs, og yrði þá að stöðva menn, sem ætluðu til útlanda til náms, ef ekki væri annað eða meira fé fyrir hendi fyrir þann fjölda námsmanna, sem vildu leita út til náms erlendis. Þetta sama kemur hér fram hjá hv. 1. þm. N-M. Hann leggur á það áherzlu, að ekki séu látnir fleiri menn nema úti í öðrum löndum en fyrir fram er hægt að ákveða, hvað landið þurfi með. En þetta megum við sízt fara inn á. Ef nokkuð á að vera frjálst í þessu landi, þá verður það að vera það, hvort menn vilja nema gagnleg fræði erlendis eða ekki. Það er hægt að setja einokun á áburð og brennivín og mjölpoka. En það er sannarlega ekki hægt að setja einokun á þarfir manna um að nota sínar andlegu gáfur. Ef það væri gert, væri það sama og að afnema prentfrelsi, málfrelsi og yfir höfuð einstaklingsfrelsi í landinu. Við skulum hugsa okkur, að það fengju ekki leyfi til að nema, nema svo sem fjórði partur þeirra manna, sem vilja nema gagnleg fræði. Hver er þá dómbær til þess að úthluta þessu? Eru það einhverjar nefndir? Eða einhverjir pólitískir ráðherrar? Ætli það yrði ekki skrítið umhorfs í okkar þjóðfélagi, ef búið væri að takmarka þannig námsmöguleika manna, að einhverjir menn, sem styðja vissar pólitískar skoðanir, gengju fyrir, fyrst með því að veita þeim gjaldeyri eftir pólitískum skoðunum og síðan með því að tryggja þeim stöður eftir pólitískum skoðunum o. s. frv.? Ég held, að þetta væri hin hættulegasta braut, sem við gætum farið inn á. Ég get skilið, að hægt sé kannske að segja, Þeir menn, sem ætla að stunda nám erlendis, sem hægt er að nema á Íslandi og sérstök skilyrði eru fyrir hendi til þess að þeir geti numið sínar námsgreinar við íslenzkan háskóla, til þess að gegna vissu embætti, þurfa ekki að fá styrk eða fyrirgreiðslu til að stunda nám erlendis nema framhaldsnám. — Ég get skilið þá, sem svo tala. En það má ekki vera takmarkað af nokkrum hlut, að menn geti erlendis numið vandlega fræði þau, sem ekki er hægt að nema hér á landi, nema af vilja mannanna sjálfra, sem námið vilja stunda. Og svo á gjaldeyrisúthlutunin til námsmanna erlendis að takmarkast af því, að þess sé gætt, að þeir séu við nám, sem taldir eru við nám erlendis, en hafi það ekki sem skálkaskjól að segja, að þeir ætli að nema erlendis, til þess að geta fengið gjaldeyri. Og ég vil ekki, að inn á þá braut verði farið, sem hæstv. menntmrh. minntist á í sambandi við þetta og hv. 1. þm. N-M. tók einnig undir. Ég vil í sambandi við þetta benda á: Hver vildi bera ábyrgð á því nú, að Einar Jónsson myndhöggvari hefði ekki getað farið út til þess að nema á sínum tíma? En á þeim tíma gat enginn sagt um það, hvað Einar Jónsson gæti gert. Og hver vildi hafa stöðvað Jón Sigurðsson, svo að hann hefði ekki getað notið sín við nám erlendis? Og hver gat sagt um það, þegar hann fór utan til náms, að hann yrði sá maður, sem hann varð? Ef þessi regla yrði tekin upp, sem þessir tveir hv. þm. hafa talað um hér, þá er áreiðanlegt, að það er enginn sá maður til, sem sé fær um að ákveða rétt, hver á að fara utan til náms og hver á að sitja heima.

En það er annað atriði þessa máls, sem er kannske mjög umdeilanlegt og kannske væri meiri ástæða til að stöðva yfirfærslur fyrir, og það eru þeir menn, sem ekki ætla að koma heim að loknu námi, en fara í þjónustu annarra þjóða að því loknu. Það má segja frá vissu sjónarmiði, að þessir menn séu Íslandi glataðir. En eru þeir Íslandi glataðir, þessir menn? Það getur verið, að þeir séu bezta landkynningin, sem við eigum kost á fyrir Ísland. Og ég minnist þess, að þegar ég var í Englandi á s. 1. sumri, þá var mjög deilt um það þar, hvort ensku þjóðinni væri glatað það fólk, sem flyttist út og dveldi annars staðar í löndum utan Bretlands. Og sú varð niðurstaðan þar í því máli, að það væru e t. v. beztu þegnarnir. því að það væri bezti hornsteinn undir brezka veldinu, að Bretar hefðu út á við ákveðinn fjölda manna í sínum nýlendum til þess að sinna sínum hagsmunum.

Ég vildi svo spyrja hæstv. menntmrh., hvort hann hugsi og menntamálaráð, að aðeins þeir menn, sem hafa styrk til náms erlendis frá ríkissjóði, njóti yfirfærsluréttinda. (Menntmrh.: Ríkisstj. hefur ekkert með yfirfærslur að gera). Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. um þetta, því að hann sagði, að þetta mundi verða gert í samráði við menntmrh. og menntamálaráð. (Menntmrh.: Það er óklárað enn). Ef hæstv. menntmrh. álítur, að sér komi þetta ekki við sem ráðh., er náttúrlega óþarfi að spyrja hann um þetta. En ég vil segja n., að það á ekki að setja takmarkanir um þetta þannig, að um úthlutunina á gjaldeyri til námsmanna erlendis verði eingöngu farið eftir því, hvort nemendur hafa ríkisstyrk eða ekki. Það hefur verið erfiðara að fá yfirfærslur á gjaldeyri fyrir nemendur, sem eru erlendis við nám og ekki hafa fengið ríkisstyrk. En ég er á móti þessu. Nemendur, sem þannig eru settir, að þeir hafa ekki þurft að sækja um ríkisstyrk og þess vegna ekki gert það, hafa ekki sótt um styrk af þeim ástæðum, að ef þeir hefðu getað þvingað styrk handa sér í gegn á Alþ., þá hefði það verið á kostnað annarra, sem fremur þurftu styrksins við. En ég er á móti því, að fyrir þetta eigi að þrengja þannig að þeim, sem ekki sækja um ríkisstyrk til náms erlendis, að þeir geti ekki fengið gjaldeyrisyfirfærslur.

Ég er sammála hæstv. menntmrh., — þó að hann segi, að sér komi þetta lítið við, — að það sé ekki þörf á að setja á stofn neinar sérstakar nýjar nefndir til þess að fjalla um þetta. Ég álít, að það sé hægt að gera þetta í samvinnu við menntmn. og að sjálfsögðu við menntmrn.

Þá ætla ég aðeins að koma hér nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Ísaf. sagði nú í ræðu sinni, að ég hefði sagt, að hann hefði tekið illa undir kvartanir námsmanna. Ég held, að ég hafi aldrei sagt þetta. Hann hefur misskilið orð mín, ef hann heldur, að ég hafi sagt þá setningu. En ég sagði, að honum væri í fjárhagsráði kunnugt um kveinstafi þeirra út af gjaldeyriserfiðleikum, og m. a., að hann hafi haldið fram hér í útvarpsræðu, að hér væru spangólandi námsmenn. En ég sagði ekkert um það, hvernig hann hefði tekið undir kvartanir út af gjaldeyriserfiðleikum. Ég veit ekki um, hvort kvartanir um þetta hafa komið til hv. þm. Ísaf.

Ef talið er, að 1200 námsmenn séu nú í útlöndum við nám, eins og hv. þm. Ísaf. hélt fram, þá kemur fram alveg það sama og ég minntist á, að ekki hefði verið gætt nægilega vel að þeirri hlið málsins á undanförnum árum að láta ekki gjaldeyri nema til þeirra manna, sem stunda nám, þ. e. a. s. í þeirri meiningu, að gjaldeyririnn fari til námsmanna. Og ég tel það eitt af nauðsynlegustu atriðunum í þessu máli, að gengið sé mjög ríkt eftir því, að nauðsynleg skilríki séu veitt gjaldeyrisyfirvöldunum í þessum efnum áður en gjaldeyrisleyfi eru veitt, sem meint eru til námsmanna. Því að maður verður að gera þá kröfu, að þeir menn. sem styrk fá til náms erlendis og svo gjaldeyrisyfirfærslur, séu við nám í raun og veru. En mér er kunnugt um, að þeir, sem ráðið hafa í þessum efnum, hafa metið undirrituð vottorð frá merkustu skólum, sem til eru í veröldinni, og frá sendiherrum okkar þannig, að eftir þeim hefur ekki verið farið fremur en engin slík skilríki hefðu legið fyrir. Og þetta ólag mun vera ein af aðalástæðunum fyrir því, að þessi upphæð hefur orðið eins há og hún hefur orðið árið 1946. Og þessu er nauðsynlegt að kippa í lag.

Þá sagði hv. þm. Ísaf., að ástandið væri þannig nú, að mjög mikill vafi væri á því, að fólk, sem dveldist hér heima, gæti haft fyrir lífsnauðsynjum. Mér afbýður yfirleitt þessi sífelldi rógur bókstaflega, sem hafður er í frammi gagnvart atvinnuvegum okkar, vitandi það, að á þessu ári hefur verið selt fyrir þær fjárhæðir út úr landinu, að aldrei hefur selzt annað eins á jafnskömmum tíma. Það hefur aldrei eins og á þessu ári verið flutt inn fyrir jafnmiklar upphæðir, — aldrei. Og svo þegar maður úr fjárhagsráði hefur komið hvað eftir annað og talað um, að hér sé allt að velta um, þá ofbýður mér. En á sama tíma eru reyndar fluttar inn hundrað glansandi bifreiðar, sem að vísu ekki er hægt að éta. Halda þessir menn, að þjóðin sé svo fávís, að hún skilji ekki, að það hlýtur að liggja eitthvað hér á bak við allt þetta tal. Ég held, að ekkert mannsbarn sé svo heimskt í þessu landi, að hægt sé að segja því það, að það sé nauðsynlegt að fara niður í hungursskammt með nauðsynjavörur landsmanna meðan þjóðin horfir á, að hundrað glansandi bifreiðar eru fluttar inn í landið á sama tíma. Það hlýtur að vera einhver sérstakur tilgangur á bak við þetta tal hjá þessum mönnum, sem haldið hafa því fram í blöðum og útvarpi og á Alþ., að þjóðin væri að sigla á móti einhverri hungurpest, vitandi, að aldrei hefur verið flutt eins mikið út og í ár. Og líklega hefur heldur aldrei verið flutt inn eins mikið af óþarfa á einu ári hér hjá okkur og nú í ár. — Ég veit ekki, hvort það er árangur þessarar iðju þessara manna, að nú m. a. hef ég fengið bréf frá viðskiptamálarn., þar sem mér er tilkynnt, að bæði mér og öðrum sé neitað um að senda matvælapoka til námsmanna, sem stunda nám erlendis. Ég veit ekki nema það sé ástæða fyrir hæstv. Alþ. að grípa inn í, þegar málin eru komin þannig. Ég held, að á öllum tímum hafi það verið stoð fyrir íslenzka námsmenn í útlöndum, fyrr og síðar, að heimili þeirra á Íslandi hafa getað sent þeim eitt og annað. Það hefur, að ég hygg, ekki aðeins verið siðferðislegur styrkur fyrir þá að halda sambandi við land sitt og þau heimili sín hér á landi, sem hafa stöðugt getað sent þeim klæðnað, mat og annað, sem þeim hefur komið vel að fá. En nú er þetta stöðvað fyrir iðju þessara manna, sem hrópa það út um landsbyggðina í útvarpi og á annan hátt, að hér sé allt að fara í hungur. Það er ekki óglæsilegt!

Hv. þm. Ísaf. taldi, að ástæðan fyrir, að svo væri, að gjaldeyri til námsmanna erlendis væri ranglega skipt enn, væri sú, að fjárhagsráð hefði tekið við þessari úthlutun á miðju ári. En vill þessi hv. þm. upplýsa mig um það, hvaða munur það er, að Sigtryggur Klemenzson, sem ásamt fleirum hefur úthlutað þessum styrk, hefur verið fluttur í annað ráð stærra og breytir þó ekkert um hugsunarhátt í þessu efni? Eða Oddur Guðjónsson, var það ekki hann, sem hélt þessum rétti fyrir námsmönnum í viðskiptaráði? Og svo hélt hann þessum rétti enn fastar fyrir námsmönnum eftir að hann komst í hið nýja fjárhagsráð. Það er áreiðanlega ekki hægt að skjóta sér undan ábyrgðinni með því að segja, að það hafi verið skipt um menn. Það hefur aðeins verið skipt um hlutverk, sem þeim hefur verið falið. En það er á fleiri sviðum en þessu, sem þetta hefur verið notað. Þetta er notað á öllum sviðum. Óskar Jónsson er fluttur í þessa n. og Sigtryggur Klemenzson í þessa o. s. frv., en sameiginlega bera þeir ábyrgð á þessu öllu saman.

Hæstv. forseti benti á það, að ekki væri hægt að bera upp til atkv. till. mína. Það var rætt hér áður, að ég væri fús til samkomulags um að breyta till., orðalagi hennar, ef það þætti heppilegt. En ég vil í sambandi við þetta benda á það, að á fyrsta þinginu, sem ég var, þá var einmitt þessi hv. þm., þm. Ísaf., á allt annarri skoðun og við ræddum mjög mikið um þetta, ég og hann. Ég hélt því fram, að ekki væri hægt að afnema l. með þál. einni, og ég veit ekki til, að það hafi verið gert. Þá hélt hv. þm. því fram, að auðvelt væri að gera það og mikill meiri hl. þingsins ætlaðist til, að slíkt væri gert. Þetta var út úr bílaúthlutuninni. Ég hélt því fram, að ekki væri hægt af Alþ. að samþykkja þáltill. gegn l. um bifreiðaeinkasölu, en þáltill. var samt samþ., m. a. af þessum hv. þm., þótt síðar gengi um það hæstaréttardómur á þann veg, að ekki væri hægt að gera það og ekki væri ætlazt til, að það væri gert. En ég neita því, að svo mikið vald hafi verið gefið þessari n. af Alþ., að það gætt aldrei gripið inn í með þáltill. til ríkisstj. um að láta framkvæma verkin eins og vilji þingsins væri á hverjum tíma. Því að hvað sem l. segja, má fullyrða, að svo eru lög sem þau eru virt, og ef það er vilji Alþ., að þetta skuli gert svona, er hægt að skjóta sér undan ábyrgðinni og segja, að flest l. séu brotin, en það er siðferðislega rangt, eins og það er siðferðislega rangt, að þessi n. gangi í berhögg við skoðun ríkjandi ríkisstj. á. hverjum tíma. Og einmitt þess vegna eru n. skipaðar eins og þær eru skipaðar nú, að ætlazt er til, að þær vinni í nánu sambandi við ríkisstj., enda yfirlýst, að þessar n. gera ekkert annað en það, sem ríkisstj. biður þær um, og allt, sem ríkisstj. biður þær um. Þessu er beinlínis yfirlýst af ráðh. Enda hefði þá ríkisstj. það afl, að hún gæti skotið þeim mönnum út úr þessum stofnunum og sett aðra menn inn, án þess að spyrja Alþ., ef svo væri komið samvinnu milli ríkisstj. og n., að þær gerðu þvert ofan í vilja ríkisstj. Það verður því að líta svo á, að meðan þessar n. eru skipaðar eins og þær eru skipaðar nú, eigi þær fyrst og fremst að framkvæma vilja ríkisstj., bæði í þessum málum og öðrum. Svoleiðis, að hæstv. menntmrh. þarf ekkert að standa upp og segja, að hann úthluti ekki þessum leyfum. Ég veit vel, að hann undirskrifar ekki þau leyfi, en hann hefur sín áhrif á þessi mál og honum ber skylda til þess sem menntmrh. að hafa bein áhrif á þessi mál til góðs, sem ég veit, að hann mun gera, eftir því sem hann talaði hér áðan.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta mál, en vænti þess, og beini því sérstaklega til form. hv. allshn., að hann taki þetta mál til ýtarlegrar athugunar, einmitt vegna 4. liðsins í brtt. minni, og reyni að fá afgreiðslu á því eins fljótt og hægt er, því að mér er umhugað um, að það fáist fram, hvort þingvilji er fyrir því, að það sé hægt fyrir þennan tíma, fyrir jól, að bæta úr því, sem vanrækt hefur verið á þessu sviði, því að ég veit persónulega, að fjöldamargir námsmenn hungra úti nú, gagnstætt því, sem Íslendingar gera heima. Ég þekki þá hugi Íslendinga illa, ef þeir una við það að hafa fulla diska sjálfir um jólin, en vita börn sín hungra í öðrum löndum á sama kvöldi og sama degi.