20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Mig langaði til í sambandi við þessa till. að beina nokkrum orðum til hæstv. menntmrh. og raunar líka hæstv. fjmrh. Fjárl. þessa árs, sem nú er að líða, voru, sem kunnugt er, ekki afgreidd fyrr en komið var langt fram á vor. Þetta leiddi til þess, að menntamálaráð úthlutaði ekki námsstyrkjum fyrr en komið var fram á sumar, að ég hygg. En allir vita, sem til þekkja, að sumir námsmenn, sem höfðu nokkurn styrk og nutu hans áfram, fengu engar styrkveitingar síðari hluta síðasta vetrar. Og þetta kom sér mjög bagalega. Nú er ljóst, að nú mun nokkur frestur verða á afgreiðslu fjárl., og því líklegt, að sagan endurtaki sig um úthlutun styrkja til námsmanna erlendis, ef ekkert verður aðhafzt. Ég vil beina því til hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., hvort þeir sæju sér ekki fært að gefa menntamálaráði heimild til þess að athuga það nú þegar, hverjum það mundi óska að úthluta námsstyrkjum af þeim mönnum, sem nú dvelja við nám erlendis, og hvort hæstv. ráðh. þá vildu heimila að leyfa einhverjar yfirfærslur til þeirra, þó að ekki sé búið að samþykkja fjárlagaheimild um væntanlega styrki. Mér sýnist, að þetta mundi vera áhættulaust. Ég skil það vel, að hæstv. ráðh. vilja vita einhvern vilja á bak við sig í þessu efni. En menntamálaráð verður að fá fram frá hæstv. ráðh. ákvörðun í þessu efni, áður en það getur úthlutað nokkrum slíkum styrkjum áður en fjárl. eru afgr. Ég trúi ekki öðru en að þetta sé hægt, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. muni vilja hlutast til um að koma í veg fyrir, að námsmenn verði í vetur fyrir þeim óþægindum, sem þeir urðu fyrir í fyrra af þeim sökum, sem ég hef tekið fram.