20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa verið mikil vandkvæði á því að fá yfirfærslur á gjaldeyri á undanförnum mánuðum, sem stafar beinlínis af þeim gjaldeyrisskorti, sem við nú erum komnir í. Það má segja, að menn hafi þurft að ganga á milli Heródesar og Pílatusar til þess að fá gjaldeyri á síðustu mánuðum. Og ég veit það, að viðskiptanefndin, sem hefur þurft að taka við gjaldeyrisbeiðnum, hefur orðið fyrir ákaflega miklum átroðningi og naumast getað sinnt að fullu þeim mikilvægari störfum fyrir viðtölum við einstaka menn. Nú sé ég, að í þessari till. er gert ráð fyrir, að enn eina nefnd eigi að fara að setja í þessi gjaldeyrismál. Og ég hefði haldið, að nóg væri fyrir þá, sem sækja um að fá gjaldeyri, að fara í viðskiptanefnd og síðan í bankana til þess að fá yfirfærslur, þó að ekki væri farið að bæta menntamálaráði við. Ég tel, að þessi till., að bæta þarna við þriðja aðila í þessu efni, sé til þess að skapa þarna óþarfan millilið, sem verði einungis til tafar og óþæginda fyrir þá, sem sækja um gjaldeyrinn. Mér er kunnugt um, að viðskiptan. hefur lagt mjög mikla vinnu í það að koma gjaldeyrismálum námsmanna þannig fyrir, að menn hefðu ekki ástæðu til að kvarta. En það ber að athuga, að viðskiptanefnd tók ekki við störfum fyrr en komið var fram á mitt ár. Og þá var margt fólk farið til útlanda til þess að stunda nám, sem hægt hefði verið að stunda hér heima. Ég veit, að eins og gjaldeyrismálum okkar er nú komið, þá er nauðsynlegt. að menn stundi ekki það nám erlendis, sem hægt er að stunda hér heima. Mér skilst, að þó ættu að vera einstöku undantekningar frá þessu, þar sem menn væru byrjaðir nám og væru kannske langt komnir með það. Ég tel, að í slíkum tilfellum gæti þessi till. orðið ýmsum námsmönnum til talsverðra óþæginda. Það getur verið, að þá vanti ekki nema 2–3 mánuði til að ljúka námi sínu. Samkvæmt till. eiga slíkir menn ekki að fá yfirfærslur á gjaldeyri. Mér virðist þess vegna, að till. geti komið að ýmsu leyti óþægilega við þá, sem hafa verið byrjaðir utan lands, ef þeir yrðu kallaðir heim, eins og till. fer fram á. Í öðru lagi er hér bætt við óþörfum millilið, menntamálaráði, og í þriðja lagi finnst mér breyt. óþörf og til óþæginda fyrir námsmenn. Ég mun því greiða atkv. á móti henni.