20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Ég bjóst ekki við miklum umr. um þetta mál.

Allshn. mundi hafa talað um þetta mál við hæstv. menntmrh., ef ekki hefði verið svo ástatt hjá hæstv. ríkisstj. undanfarið, að hún hefði haft miklum störfum að sinna. Okkur virtist, að mjög væri erfitt að tefja hæstv. ráðh. með þessu máli, þar sem ekki var heldur um neina þá breyt. að ræða að hún hefði torveldað ráðh. að hafa afskipti af þessum málum eða valdið honum óþægindum, því að það held ég, að þetta mál geri ekki. Sama má segja viðvíkjandi menntamálaráði. Og þar sem við gátum ekki fengið frekari upplýsingar frá viðskiptan., þá var svo naumur tími að snúa sér til fleiri aðila, að við tókum þann kostinn að afgreiða málið. Þess vegna áttum við tal við form. fjárhagsráðs um málið, því að við vildum fá sem gleggstar upplýsingar um það, og þess vegna sendum við það til þess aðila, sem við töldum, að væri býsna fróður um málið, þar sem viðskiptan. var. Vonuðum við, að n. mundi miðla okkur nokkru af fróðleik sínum, sem hún hafði yfir að ráða. Hver sá fróðleikur hefur verið, hygg ég, að menn geti bezt dæmt um, ef ég les upp bréf það, sem allshn. barst frá viðskiptan. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðskiptanefnd hefur tekið við bréfi allsherjarnefndar sameinaðs Alþingis, dags. 24. nóv., um þingsályktunartillögu frá hr. Gylfa Þ. Gíslasyni um yfirfærslu vegna námsmanna erlendis. Út af þessu vill nefndin tjá hæstvirtri allsherjarnefnd, að samkvæmt lögum fer viðskiptanefndin nú með þessi mál. Óski Alþingi að hafa á því aðra skipan, hefur nefndin að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, þó að hún hins vegar sjái ekki, að með nýrri nefnd verði betur séð fyrir gjaldeyri handa íslenzkum námsmönnum erlendis.“

Eftir þetta bréf vorum við náttúrlega engu nær um efni málsins. Það sem þar er upplýst, hvað Alþ. geti gert, þurftum við ekki að spyrja n. um. Þrátt fyrir þetta ætlaði n. að fá upplýsingar hjá viðskiptan. Ég óskaði því eftir því við form. hennar, að hann kæmi til viðtals við okkur. Hann átti þá svo annríkt, að hann gat ekki sinnt því starfi. Ég deili ekki á hann fyrir það. Honum er kunnugra um það en mér, hvaða erindi það eru, sem mest kalla að hjá honum, og hvaða störfum hann þarf fyrst og fremst að sinna.

Ég hafði haldið, að það gæti ekki spillt til um meðferð þessa máls, þó að menntamálaráð vildi sinna því. Það verður hvort sem er að setja sig inn í þetta mál gagnvart námsmönnum erlendis. Það veitir þeim styrk og úthlutar því fé, sem Alþ. veitir í þessu skyni. Menntamálaráð getur ekki gert slíkar ákvarðanir nema það kynni sér þörf námsmanna, hvar og hvað þeir ætla að nema, hvað námið sé dýrt o. s. frv. Allt þetta verður menntamálaráð að kynna sér, áður en það tekur sínar ákvarðanir. Það stendur því vel að vígi að segja til um þörf námsmanna. Það er fyrst og fremst aðili, sem hefur kunnugleika á málinu og mun láta það sig miklu máli skipta, að greitt sé fyrir námsmönnum, og m. a. er þá trygging fyrir, að það fé, sem menntamálaráð úthlutar í þessu skyni, komi að notum og séð verði fyrir þörf námsmanna, svo að þeir af þeim ástæðum geti lokið námi sínu.

Hv. þm. Ísaf. leggur allt of mikið upp úr ákvæðum þáltill. Ég get hvergi séð, að verið sé að banna námsmönnum að ljúka námi sínu erlendis, þó að þeir gætu stundað sama nám heima. Það stendur hvergi orð um, að það eigi að flytja þá heim til að ljúka námi sínu. Till. fjallar, óbeint að vísu, aðeins um það gagnstæða, að þeir fái notið sín og lokið námi í gagnlegum fræðum. Ég vona, að þegar hv. þm. athugar þetta betur, þá sjái hann, að það var síður en svo tilgangurinn að gera mönnum erfiðara fyrir með að fá gjaldeyri yfirfærðan vegna náms erlendis. Ég held, að það gæti fremur orðið til styrktar námsmönnum, að þessir aðilar fjalli um það en að það gæti orðið til að torvelda þeim að fá námsstyrk.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, og því síður hef ég ástæðu til að fjölyrða um það, þar sem það er vitanlegt, að námsmenn marga skortir stórkostlega gjaldeyri, og það ætti að vera nóg ástæða til þess, að betur sé gengið frá því og sem bezt greitt fyrir, að þeir fái yfirfærslu. Þó að lítill gjaldeyrir kunni að vera til, þá tel ég, að í lengstu lög megum við ekki láta námsmenn okkar svelta erlendis, sem það opinbera hefur þó léð máls á að styrkja til náms, ef fært er að fá það aukið.

Skal ég svo láta máli mínu lokið.