20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Finnur Jónsson:

Það mun standa í þingsköpum „ef umr. dragast úr hófi fram eftir atvikum“. Ég get ekki séð, að þessar umr. hafi að neinu leyti dregizt úr hófi fram, þar sem fundur hefur ekki staðið nema þrjá stundarfjórðunga.

Hvað við víkur þessu máli, þá hefur viðskiptan. hér engan málsvara. Ég er hér enginn málsvari hennar. Það situr því á engan hátt á mér að verja hana árásum, sem á hana kunna að vera gerðar. Mér er þó kunnugt, að n. hefur borizt ákaflega mikið af beiðnum um námsstyrki. Ég veit ekki betur en viðskiptan. hafi gert allt, sem í hennar valdi stóð, til að greiða úr þeim málum. En þar sem um er að ræða um 1200 menn, sem fá námsstyrk yfirfærðan, þá hlýtur að vera talsverður vandi fyrir n. að vinza úr öllum þeim beiðnum.

Í sambandi við það, sem hv. frsm. sagði, að ekki sé gert ráð fyrir, að þeir, sem nú eru við nám erlendis, verði kallaðir heim, ef þeir geta stundað sama nám hér heima, þá skil ég ekki mælt mál, ef þetta felst ekki í till., því að þar er aðeins gert ráð fyrir, að gjaldeyrir verði veittur þeim mönnum að sinni, sem stunda nám, sem ekki verður stundað hérlendis. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því, að þetta yrði upp tekið meðan gjaldeyrisástandið er eins og það er. Ég hygg þó, að misráðið sé að stefna að því að yfirfæra ekki til þeirra, sem eru langt komnir með nám sitt erlendis.

Nú er það svo, að menntamálaráð hefur með l. ákveðið verksvið. Alþ. getur því ekki með þál. breytt því verksviði, sem því er ákveðið með l. Ég hygg að Alþ. geti ekki sett þá skyldu eða kvöð á menntamálaráð, að það yfirtaki þúsundir umsókna um gjaldeyrisyfirfærslur og gefi úrskurði um þá, því að það er ekki lítið verk, sem Alþ. með þessu leggur á menntamálaráð. Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að viðskiptan. er með l. falin gjaldeyrisúthlutun, en ekki ríkisstj. Og ef Alþ. ætlar að taka upp þá stefnubreyt., sem vel má vera, að sé mjög heppilegt, þá getur þingið ekki breytt því nema meðlöggjöf. Það er ekki hægt að skylda stj. til að fara að úthluta gjaldeyri, en það er verið að gera með þessari till. Ég geri ráð fyrir, að þeim, sem hafa haft það verk á undanförnum árum að úthluta gjaldeyri, þyki það tímafrekt starf ofan á annað, þar sem menn, sem hafa ekkert annað að gera. kvarta mjög undan ágangi af þeim orsökum. Ég skil till. að vísu svo, að hún sé nokkurs konar blanda, sem sé frekar fram borin til að sýnast en til að verða að nokkru liði í þessu máli. Mér er kunnugt um það, að 2–3 síðustu mánuðina hafa öll yfirfærsluleyfi, sem til bankanna hafa borizt frá viðskiptan., verið yfirfærð jafnóðum viðstöðulaust. Af þeim ástæðum þarf því ekki að samþykkja þessa till. Spursmálið er aðeins, hvort viðskiptan. hefur vanrækt starf sitt. Það er hvorki á valdi allshn.Alþ. að kveða upp dóm um það að alveg órannsökuðu máli. Ég skal að vísu viðurkenna. að allshn. fékk heldur lítið svar frá viðskiptan., en í raun og veru fékk hún það svar, sem viðskiptan. bar að láta í té, þar sem allshn. átti að vita það, sem tekið var fram í svarinu, að það er skylda viðskiptan. að úthluta gjaldeyrinum og einskis annars. Nú er n. send þáltill. og brtt., þar sem gert er ráð fyrir, að annar háttur verði á því hafður, og þá er ekki nema rétt að svara því, að ef Alþ. kjósi að hafa aðra aðferð, þá sé það á þess valdi að breyta til. Ég get vel skilið, að þeir, sem hafa hvorki frið heima hjá sér né annars staðar fyrir þessum gjaldeyrisbeiðnum, verði fegnir að losna við það, en mér þykir ólíklegt, að ríkisstj. eða menntamálaráð vilji taka við þeim ágangi, sem hvílir á viðskiptan. í þeim efnum.