20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3134)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Skúli Guðmundsson:

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefur verið athugað í allshn., sem fékk það til athugunar 20. nóv. Ég vil ekki gera lítið úr þessu máli. Það er þörf á að athuga það og koma á það sem beztu lagi. En ég vil segja, að ég hef orðið fyrir vonbrigðum í sambandi við það, að n. hefur ekki enn skilað áliti um 2 till., sem ég er 1. flm. að, þ. e. till. um áfengismál, en þær till. fóru til hennar alllöngu fyrr en þessi kom fram. Um þetta þýðir nú ekki að fást, þar sem við erum staddir á þingfrestunarfundi, en mér þykir það þó leitt.

Um málið, sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að ég teldi heppilegast, úr því sem komið er, að málið yrði tekið af dagskrá og athugað þar til þing kemur saman aftur. Vænti ég, að gert verði það sem unnt er til þess að greiða fyrir yfirfærslu til námsmanna þennan tíma. svo að það hafi ekki mikla þýðingu fyrir málið, þó að við komum ekki saman til fundar fyrr en eftir nýár.