20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (3137)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Sigfús Sigurhjartarson:

Það er aðeins örstutt aths. — Í sambandi við þetta mál eru komnar fram mjög merkar upplýsingar um það, hvers konar embættismenn það eru, sem núv. ríkisstj. er að hefja til valda í ríkisstofnunum. Það hefur nýlega verið lesið hér upp embættisbréf af viðskmrh., sem einn af hans nýju embættismönnum hefur skrifað. Það voru ósannindi og rógur um ákveðinn stjórnmálaflokk. Nú hefur verið lesið annað bréf, sem annar maður hefur skrifað þingnefnd, og hvílíkt bréf!

Annars vil ég um þetta mál segja það, að það er furðulegur áhugi, sem fram hefur komið fyrir því. að drepa þessu máli á dreif á þessu þ. Einkanlega hefur þessi áhugi komið fram hjá hv. þm. Ísaf.

Loks hefur komið fyrirspurn frá hv. þm. V-Húnv. varðandi afgreiðslu allshn. á málum, sem liggja hjá henni. Hef ég oft spurt form., hvernig á þessum drætti stæði, en það hefur ekki borið neinn árangur. Verður það að teljast óhæfilegt með öllu, að þn. leggist þannig á mál og hindri þar með afgreiðslu þeirra.