10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég átti þátt í því að fresta till. fyrir jólin og hét því þá að gangast fyrir betra samstarfi menntamálaráðs og viðskiptanefndar um þessi mál. Ég hef haldið fundi með þessum aðilum, og samkomulag hefur orðið um, hvernig þessu skuli hagað. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa hér kafla úr bréfi, er staðfestir þetta samkomulag.

„2) Viðskiptanefnd og menntamálaráð komi sér saman um reglur um yfirfærslur til námsmanna, hversu mikið skuli yfirfært til hvers námsmanns í hverju landi um sig. 3) Viðskiptanefnd og menntamálaráð hafi sérstaklega samráð um veiting gjaldeyrisleyfa og styrkja til nýrra nemenda. 4) Fyrst og fremst séu veittir styrkir og gjaldeyrisleyfi til þeirra, sem leggja stund á efni, sem eigi verða numin hér á landi, en teljast þó nauðsynleg. 5) Sendiráðum Íslands sé falið að afla upplýsinga um meðalkostnað við námsdvöl í hinum ýmsu löndum, sem unnt sé að leggja til grundvallar við veiting styrkja og gjaldeyrisleyfa“ — samkvæmt framansögðu.

Ég skal taka fram út af síðasta liðnum, að þarna yrði um að ræða nýjar upplýsingar, sem krafizt yrði. Það eru eldri upplýsingar, sem byggt er á til bráðabirgða. En ráðgert er, að þetta verði endurskoðað, eftir að nýjar upplýsingar koma fram.