17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3159)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skilst, að mismunurinn á þessum brtt., sem fyrir liggja, brtt. 434 og brtt. 477, sé ekki ýkja mikill. Mér skilst, að það megi a. m. k. túlka brtt. 434 þannig, að í námskostnaðinum felist, hjá þeim sem nú eru við nám, kostnaður við konur þeirra og börn. En yrði brtt. 477 samþ., þá segir hún, að þetta gildi líka fyrir þá, sem hér eftir fara í nám. Og vitanlegt er það, að í vetur hafa 4 menn siglt til náms og fengið vilyrði fyrir því að fá nógan gjaldeyri með konu og börn. Hitt er svo allt annað mál með menn, sem hafa farið fyrir fleiri árum — os þá giftir. Þeir hafa allt aðra aðstöðu.

En spurningin er þá: Eigum við framvegis að slá því föstu, að hver maður, sem ætlar að sigla, til náms, gifti sig fyrst og sigli svo með sína konu? Við segjum honum að bíða með það, ef við samþykkjum brtt. 434, en veitum hins vegar heimild til þess, að þeim verði sinnt, sem nú eru við nám, en gefum ekkert vilyrði fyrir því í framtíðinni, sem við gerum, ef við samþykkjum brtt. hv. þm. Barð. Ég hef átt syni erlendis, gifta og ógifta, sem hafa þurft gjaldeyri, en aldrei verið gerður neinn munur á því, hvort þeir eru giftir eða ógiftir.