17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal heldur ekki orðlengja um málið. En mig langaði aðeins til að segja nokkur orð. Það kann að vera, að ég hafi ekki lesið þessa þáltill. nógu vel eða borið saman við fjárhagsráðslögin. Það hef ég ekki gert nákvæmlega. En mér skilst, að þetta geti borið þannig að, að ákvæði þáltill. stangist verulega á við þau. — Hv. þm. V-Húnv. sagði, að framkvæmd á þessu yrði þannig, að það yrði úthlutað til landsfjórðunga ákveðnum leyfum til innflutnings á þessum nauðsynjavörum, ef efni till. yrði framkvæmt. Síðan gætu þessar verzlanir farið með leyfin og annaðhvort aflað sér viðskiptasambanda erlendis eða keypt gegnum umboðsmenn í Reykjavik. (PZ: Eða annars staðar á landinu.) Já, hvar á landinu sem þeir vilja. En hvar er þá tryggingin fyrir því, að hagkvæmustu kaupin verði gerð, ef ekkert er um það fyrir fram ákveðið af viðskiptan. eða fjárhagsráði, að verzlunin skuli vera við þá innflytjendur, sem skila vörunni ódýrast inn í landið, hvað gjaldeyri snertir og álagningu í afhendingu varanna til almennings? Mér hefði fundizt, að eðlilegt væri að veita þeim innflytjanda, sem flytti vöruna ódýrast inn, leyfi til að flytja inn, en gera honum svo það skilyrði að dreifa henni milli landshluta í hlutfalli við íbúafjölda og þarfir. En mér finnst, að eftir þessari till. sé byrjað á öfugum enda, þannig að því sé slegið föstu að veita leyfin til aðila í landsfjórðungunum án tillits til þess, hvar varan er keypt og fyrir hvaða verð. Þegar maður á Austfjörðum eða Akureyri t. d. hefur fengið leyfi í sínar hendur, skilst mér, að hann eftir þáltill. sé ekkert við bundinn um það hvar hann notar þau. Getur vel verið, að hann í ýmsum tilfellum notaði þau í því landi, þar sem varan er ódýrust. Og við skulum segja, að hann sé búinn að kaupa hana frá ákveðnu landi. En þar getur þó verið verðmunur og gæðamunur, sem hann hugsi um á annan hátt heldur en gjaldeyrisyfirvöldin mundu gera, ef leyfin væru veitt eftir þeim leiðum og sjónarmiðum, sem fjárhagsráðslögin segja til um. — Ég skal ekki fara langt út í að deila um þetta á þessu stigi, því að hv. flm. hefur fallizt á, að málinu verði vísað til n. En ég vildi vænta þess, að hv. allshn. tæki málið upp til athugunar í sambandi við viðskiptan. og fjárhagsráð og þá ekki sízt viðskmrh., ef henni fyndist ástæða til, og reyndi að gera sér grein fyrir þeim till., sem uppi eru í þessu efni, og hvort ekki væri hægt að samræma þær og þessar till., sem hér koma fram.