17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. flm. fór, eins og vænta mátti, alveg rétt með það, sem í fjárhagsráðsl. stendur, að það eigi að hafa til hliðsjónar við úthlutun innflutningsleyfa, að innkaupin séu gerð á sem ódýrastan hátt og varan geti verið seld innanlands fyrir sem ódýrast verð. En hann vildi halda fram, að erfitt væri að fást við þetta og að þessi regla hafi alls ekki verið framkvæmd. Ég geng inn á þetta hvort tveggja. En hann minntist ekki á það einu orði, sem mér er kunnugt um, að viðskiptan. hefur um alllangan tíma verið að reyna að setja í kerfi reglur um þetta á þeim grundvelli, sem fjárhagsráðsl. gera ráð fyrir. Og ég hef hugmynd um, að þessir aðilar séu einmitt komnir allvel á veg með það um nokkrar vörutegundir að setja reglur um flutning til landsins á þessum vörutegundum. einmitt á þeim grundvelli, sem fjárhagsráðsl. gera ráð fyrir, sem er sá eini eðlilegi grundvöllur, meðan þau lög eru í gildi. Hins vegar viðurkenni ég, að margir vöruflokkar geti verið, sem ákaflega erfitt — að ég ekki segi ómögulegt — sé að nota þessa reglu við. En það virðist vera, að þó nokkuð margir séu þeir vöruflokkar, sem hægt sé að beita þessari reglu við. Og ég hef hugmynd um, að viðskiptan. og fjárhagsráð séu nú vel á veg komin með að undirbúa reglur um þetta einmitt á þessum grundvelli, sem að vísu ná ekki til nærri allra vörutegunda, en þó til ærið margra.

Hv. flm. sagði líka, að í þessum l. væri þess getið, að neytendur ættu að fá að verzla þar, sem hagkvæmast væri fyrir þá. Það ættu þeir að geta með því að þeim væri gefinn kostur á að fá vörurnar sem ódýrastar, því að ef um sambærilegar vörur er að ræða að gæðum, vilja menn jafnan fá þær ódýrustu. Og ef við úthlutun leyfa eru sett skilyrði um að hafa sem ódýrastan innflutning, þá hygg ég, að þetta geti tekizt. (SkG: Það þarf að taka með í reikninginn flutningskostnað innan lands.) Það þarf að taka með alla liði. En ég hygg, að með þessu, að úthluta til ákveðinna landshluta leyfum fyrir ákveðnu vörumagni án þess að vita neitt um, fyrir hvaða verð verzlanir þar geti keypt inn vörurnar, þá sé ekkert öryggi í því fyrir því, að vörurnar séu sem ódýrastar til neytenda eftir gæðum. Þess vegna vil ég, að n. athugi, hvert hér væri ekki farið öfugt að, ef farið væri eftir þessari till. Ég hygg, að réttast væri að tryggja fyrst, að varan fengist sem ódýrust — og skipta henni síðan niður á landsfjórðunga, gera það á eftir, en ekki á undan.