24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3195)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins í tilefni af ummælum hv. þm. V-Húnv. og aðalflm. þessarar till., sem ég finn ástæðu til að segja nokkur orð. Hann virtist telja það ótvírætt, að ef þessi till. yrði samþ. með breyt. n., væri ekki annað fyrir ríkisstj. að gera en framkvæma liðina 1.–4. orðrétt. Þetta er misskilningur. Þótt brtt. okkar verði samþ., er þáltill. aldrei bindandi fyrir neina ríkisstj. og sérstaklega þegar benda má á, að fyrir eru ákvæði í l., sem jafnvel fara í bága við liðina, og er auðséð, að þessir liðir verða aldrei framkvæmdir bókstaflega. Ef menn vilja hafa þetta bindandi, er ekkert annað en að bera fram um það lagafrv. Ég skal ekki fara út í gallana á 1.–4. lið, enda höfum við ekki séð ástæðu til að bera fram breyt. við þá, en tveir þm. hafa þegar rakið nokkur atriði. Það er talað um fjórðungaskiptingu, sem kemur ekki við okkar verzlunarskipulagi. Það hefur læðzt inn gömul hugmynd, sem á ekki við, þ. e. verzlunarsvæði, sem þarf að taka tillit til. Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta frekar.