24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3200)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vænti þess, að það hafi ekki verið meiningin í niðurlagi ræðu hv. þm. Str., að óréttlæti ætti sér stað í úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa. (HermJ: Það var yfirlýsing um, að ef till. yrði felld, þá hlyti að gæta misréttis.) Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. væri að drótta því að n., að hún hefði upp á síðkastið sýnt óréttlæti varðandi úthlutun á leyfum. Það er nú vitað mál, að sá mikli samdráttur, sem orðið hefur í veitingu gjaldeyris- og innflutningsleyfa, hefur orðið til þess, að verzlunarfólk um allt land hefur rekið upp ramakvein, og hafa deilur um þetta ekki aðeins verið milli landshluta, heldur á hverjum stað og ekki sízt hér í Reykjavík. Það, hversu mjög hefur dregið úr innflutningnum, gerir nauðsynlegt, að settar verði reglur um vörudreifinguna, svo að hún megi koma sem jafnast niður, og eru allir sammála um, að nauðsyn sé á réttlátri vörudreifingu.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, er ekki til þess löguð að koma á réttlæti í þessum efnum, og sízt er hún til að lækka vöruverðið. Í l. um fjárhagsráð er gert ráð fyrir því, að þeir, sem selji vöruna ódýrast, fái sem flest leyfi. Þetta ákvæði tryggir þó ekki rétta vörudreifingu. Það mundi leiða til, misréttis, ef vörudreifingin væri miðuð við íbúatölu. Tökum t. d. síldarvertíðina á Norðurlandi. Meðan hún stendur yfir, koma þúsundir manna til Siglufjarðar og verzla mikið. Ef till. sú, sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þyrfti að segja við þetta fólk: „Þið verðið að kaupa nauðsynjavörur ykkar í Reykjavík eða Ísafirði eða á þeim stað, sem þið eruð frá.“ En allir hljóta að sjá, að slíkt kemur ekki til mála.

Það hefur verið sagt, að raunverulega væri verzlunarstríð í landinu út af gjaldeyris- og innflutningsmálum, en það stafar af því, að menn hafa enn ekki gert sér grein fyrir, hversu gífurlega hefur verið dregið úr innflutningnum. Úthlutun leyfa í stórum stíl hefur ekki átt sér stað, bæði vegna þess, að leyfisbeiðnirnar hafa verið svo háar og innflutningurinn verið svo lítill, að viðskiptan. hefur haft mjög bundnar hendur. Við fórum þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún setti reglur, sem kæmu í veg fyrir svarta markaðinn. Almenningur hefur mikið fé handa á milli, og þess vegna er slegizt um flestar vörur, sem koma. Menn verzla á svörtum markaði, því að hann hefur að bjóða ýmsa nauðsynjavöru. Hér er tvennt, sem kemur til, og því erfitt að taka í taumana, annars vegar hin mikla kaupgeta fólksins og hins vegar hinn litli innflutningur.

Ég sé, að oft er auglýst í blöðunum af hinum og þessum, að hægt sé að útvega þetta og hitt gegn innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Það er ekki, einungis þetta, heldur margt fleira, sem hæstv. ríkisstj. verður að komast fyrir ræturnar á og taka alveg fyrir.

Ég skal ekki lengja mál mitt meira en orðið er, en vil ítreka það, að vöruskorturinn annars vegar og kaupgetan hins vegar gera það nauðsynlegt, að settar séu reglur og komið á réttlátri vörudreifingu jafnframt því sem fólkið sé upplýst um, að það verði ábyggilega ekki í bráðina hægt að fullnægja vöruþörf landsmanna.