04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er nú orðið alllangt síðan eindregnar óskir og kröfur um fjölgun lyfjabúða í Rvík hafa komið fram. Þarf slíkt engan að undra, því að síðan 1928 hafa aðeins verið fjórar lyfjabúðir hér í bænum. Á þessum tíma hefur lyfjabúðum verið fjölgað úr tveimur í fjórar. En um þær mundir, sem þessi fjölgun fór fram, var íbúatala höfuðstaðarins um 25 þúsundir. Síðan þessi breyt. var gerð, hafa íbúar Rvíkur tvöfaldazt og eru nú um 50 þúsund. Auk þess hefur byggðin þanizt geysilega út, og í sumum hlutum Rvíkur hafa raunverulega myndazt nýir bæir, sem eru fjölmennari en aðrir bæir á Íslandi. Menn skyldi því ekki undra, að er byggð hefur færzt svona út og mannfjölgun hefur orðið eins mikil og raun ber vitni um, komi fram kröfur um það, að lyfjabúðum verði fjölgað í bænum. Ég held, að kröfur um fjölgun lyfjabúða hafi fyrst og fremst komið frá einum aðila, en hann er Lyffræðingafélag Íslands. Þeir hafa samþykkt áskorun í þessu efni og vilja taka að sér rekstur lyfjabúða, ef heilbrigðisstjórnin leyfir þeim það. Hins vegar hefur lyffræðingunum ekkert orðið ágengt í þessum efnum, þar sem ríkisvaldið hefur verið tregt til að koma á móts við þessar óskir lyfjafræðinganna, og hefur sama orðið uppi á teningnum, þótt þessir aðilar hafi rætt um mál þetta við landlækni ásamt fulltrúa úr bæjarstjórn Reykjavíkur og frá borgarstjóra Reykjavíkur. Það hefur verið daufheyrzt, við þessum beiðnum. Ég get upplýst hér, að eftir að Lyffræðingafélag Íslands hafði rætt þetta mál allýtarlega við mig fyrir ári síðan, rituðu lyffræðingarnir bæjarstjórn Rvíkur um málið. Það var í janúar fyrir ári síðan. Bæjarráð beitti síðan áhrifum sínum til þess að styðja að því, að lyfjabúðum yrði fjölgað í Rvík. Um leið og bæjarráð krafðist þess, að lyfsölubúðum yrði fjölgað í bænum, benti það á, að nauðsynlegt væri að staðsetja hinar nýju útsölur í hinum nýju hverfum bæjarins. Þessa var beiðzt í bréfi, sem dags. var 15. jan. 1947, en þar sem engin svör bárust frá heilbrigðisstjórninni, var beiðnin ítrekuð í febrúarlok 1947. Svar barst frá heilbrmrn., og var þar greint frá því, að málið hefði verið sent landlækni til umsagnar, en þaðan hefði ekkert svar borizt. Síðan þetta skeði hefur ekkert heyrzt frá landlækni um málið. En nú hefur hæstv. heilbrmrh. gefið hér þær upplýsingar, að málið lægi hjá honum til athugunar, og er gott að vita það.

Hér þarf vart að ræða mikið um það, hve nauðsynin er brýn, að lyfjaútsölum verði fjölgað hér í bænum. Íbúafjöldinn og víðátta bæjarins tala sínu máli. Hér er fullkomin nauðsyn, sem þarf að bæta úr hið bráðasta, og getur verið um mikinn háska að ræða, ef ekki rætist úr þessu. Lyfjafræðingarnir hafa bent á, að ef slæm farsótt brytist út t. d. í miðbænum, þá væri algerlega ómögulegt, að þær þrjár lyfjabúðir, sem þar eru, gætu sinnt hlutverki sínu. Það hefði ef til vill mátt afsaka þann drátt, sem orðinn er á fjölgun lyfjabúðanna, með því að bera fyrir skort á lærðum mönnum til að annast afgreiðslu lyfja og veita búðunum forstöðu. En því er ekki til að dreifa hér, því að lyfjafræðingarnir hafa boðizt til þess að taka að sér forstöðu þeirra. Hin afsökunin er sú, að heilbrigðisstjórnin og landlæknir hafa haft í undirbúningi löggjöf um lyfjasölu, en ágreiningur hefur orðið um einstaka atriði í frv. þessu, en hins vegar mun hér einnig vera á ferð annað frv., og mun þessum tveimur frv. bera margt í milli. Hér skal ekki dæma. hvort frv. kann að vera betra, en það má ekki tefja, að lyfjabúðunum verði fjölgað. Ég skil ekki þá hræðslu heilbrigðisstjórnarinnar við að veita ný lyfsöluleyfi, og ég tel það markleysu eina að vera að bíða eftir því, að ný heildarlöggjöf verði sett, en til þess telur hæstv. heilbrmrh. litlar líkur, a. m. k. á þessum vetri. Nú er málum svo háttað, að vald það, sem heilbrigðisstjórnin hefur í þessum efnum, styðst við margra alda tilskipun konungs um lækna og lyfsala. Tilskipun þessi er frá 4. desember 1672 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Enginn má halda nokkra lyfjabúð, nema að hann hafi þar til allranáðugast leyfisbréf Vort og hafi unnið Oss eið.“ Þetta vald konungs er nú fært yfir á hæstv. heilbrmrh. Og því hefur hann ekki gefið út hið allra náðugasta leyfisbréf sitt til lyfsölu hér í Reykjavík?

Ég er þakklátur hv. þm. S-Þ. fyrir það að bera fram þessa till. Ég hafði að vísu í undirbúningi till., sem miðar í svipaða átt. en hætti auðvitað við að flytja hana, er ég frétti, að hv. þm. S-Þ. hefði borið fram sína till. En mér virðist eftir þá reynslu, sem fengin er, að þá sé nauðsynlegt, að flutt yrði frv. hér á Alþ., þar sem heilbrigðisstjórnin sé skylduð til þess að veita leyfi til lyfjafræðinga til að starfrækja lyfjabúðir. Eftir þeirri reynslu, sem fengin er. er ég ekki alveg viss um. hvort annað ráð muni duga.

Þessi þáltill. fer nú til hv. heilbr.- og félmn. Það gleður mig, að hæstv. ráðh. hefur tekið máli þessu betur en heilbrigðisyfirvöldin hafa áður gert. Ég vona, að mér verði gefinn kostur á því fyrir hönd bæjarstjórnarinnar að ræða við n. um málið. Og ef hæstv. ráðh. telur sig ekki geta gefið yfirlýsingu um það, að hann muni gefa út og veita leyfi til lyfjasölu í Rvík, þá virðist mér vera þess full nauðsyn, að mál þetta verði leyst með lagasetningu.