04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Barð. sagði, að lyfjafræðingarnir hefðu komið til sín og beiðzt þess, að heilbr.- og félmn. hv. Ed. flytti lagabálk um nýskipan lyfsölumálanna. Það dreg ég ekki í efa. Er ég tók við heilbrigðismálunum, lá fyrir frv., sem samið var af mþn., og var það lagt fyrir n. lyffræðinga og lyfsala. En er málið var athugað nánar, varð ágreiningur á milli lyfjasveinanna og lyfsalanna. Ég eyddi nokkrum tíma til þess að athuga, í hverju sá ágreiningur lægi og hvernig miðla mætti málum, en það reyndist erfitt að koma á sættum. Lyfjafræðingarnir skiluðu gagngerum brtt. við frv., sem aðrir aðilar gátu ekki fallizt á, og var ég þar með í hópi. Sem stendur er því ekkert samkomulag á milli samtaka lyfjafræðinganna og ríkisstj. Ég lét breyta frv. nokkuð, til þess að koma til móts við lyfjafræðingana. En eftir að hafa íhugað þær breyt., sem gera þyrfti, gafst ég upp við að leggja þetta mál fyrir þetta þing. Ég gat ekki séð, að hægt væri að leggja þetta mál fyrir þingið nema það væri vel undirbúið og tekizt hefði að jafna helztu ágreiningsefnin, svo að þm. botni í því. Það kann að vera, að úr þessu rætist fljótlega, og ætti að verða hægt að leggja þetta fyrir haustþingið, er ágreiningsefnunum hefur verið fækkað. Það er misskilningur hjá hv. þm. Barð., að það sé stefna mín, að kaupfélögin eigi að hafa einkarétt til þess að selja lyf. Það hefur aldrei komið til mála, en nú er hægt að veita þeim lyfsöluleyfi, og það hefur komið til mála, svo framarlega sem uppfyllt eru viss skilyrði.

Hv. þm. minntist á nýtt starf, sem verið hefur ráðstafað. Það er rétt, að maður hefur verið ráðinn til þess að hafa eftirlit með lyfjabúðum, sem verið hefur ófullnægjandi. En hann á að hafa með höndum stundakennslu við lyfjafræðiskólann og auk þess lyfjafræðistörf fyrir Tryggingastofnun ríkisins í Reykjavík. Helming launa hans greiðir Tryggingastofnunin, en hinn helminginn lyfjafræðiskólinn. Þetta á því ekki að kosta ríkissjóð neitt.