04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson) :

Mig furðar, að hæstv. heilbrmrh. skuli hampa því hér, að ómögulegt sé að fá vinnukraft til þess að afgreiða lyf handa Íslendingum. Við erum ekki nema um 130 þúsundir. Í Bandaríkjunum hins vegar eru 140 milljónir manna, og þar er ekkert mónópólskipulag á þessu, og gengur þetta samt allt fyrir sig þar. Og ég held, af því að það voru hér árið sem leið 2000 útlendingar við ýmis störf, að þá verði ekki hægt að álíta annað en að hægt væri að fá, a. m. k. um stundar sakir, einhverja útlendinga til þess að afgreiða lyf hér á landi. Og svo er verið að tala um. að það þurfi að halda þessu skipulagi, sem er, sem allt of mikið minnir á það einokunarskipulag, sem hér ríkti fyrir þremur öldum, og það virðist vera varið með því, að ekki sé hægt að fá menn til þess að afgreiða lyf hér. Og ég held, að það væri gott í þessu sambandi, ef hæstv. ráðh. vildi líta á það, sem t. d. má sjá á töflu í Reykjavíkur apóteki, að því apóteki hafa stjórnað frá fyrstu tíð að meiri parti útlendingar. Það eru færri Íslendingar, en fleiri útlendingarnir, sem þessari lyfjabúð hafa stjórnað, síðan hún var stofnsett hér. Og okkur hefur farnazt vel, meðan þeir útlendingar hafa stjórnað þessu. Þeir hafa ekki gefið okkur eiturlyf. — Og vill hæstv. ráðh. ekki í þessu sambandi líka minnast þess, að forstjóri Eimskipafélags Íslands var mjög lengi útlendur maður og gafst vel? Líka var fenginn útlendur maður til þess að stjórna símanum og gafst vel. Það er ekki frambærilegt, heldur heimska að detta í hug að segja það hér á Alþ., að það sé ekki hægt að fjölga apótekum hér í Rvík af þeirri ástæðu, að ekki sé hægt að fá menn til þess að vinna í þeim, þegar fleiri þúsundir útlendinga hafa verið hér við vinnu undanfarið. Sama þjóðin, sem hefur haft svo marga útlendinga í vinnu hjá sér, getur ekki sagt: „Við verðum að láta fólkið deyja drottni sínum, af því að við viljum ekki láta útlendinga koma nærri afgreiðslu lyfja hér,“ — þó að það séu útlendingar, sem lengi hafa unnið þetta hér.

Síðan kom hæstv. ráðh. að því, að ég væri hér með verkfallshótanir. Ég hef reyndar stundum verið riðinn við verkföll, þó ekki viðkomandi afgreiðslu lyfja. Ég var við riðinn verkfall hér í Rvík. Við höfðum rétta afstöðu og unnum nokkuð á. Og þó að ég sé saklaus af verkföllum sjómanna og útgerðarmanna, sem þeir gerðu í sambandi við síldarlöndun nú fyrir skemmstu, þá hef ég dáðst að þeim fyrir það. Það var rétt af þeim að fara svo að sem þeir gerðu. Það var farið andstyggilega að þeim. Og þeir sigruðu. Og ég vil segja, að alltaf þegar gerð er svona heimska af einhverjum eins og verkamönnum hér, þá kemur hefndin á eftir. Og hæstv. ráðh. ætti að vita, að það hefur komið oft fyrir, að launamenn hafa sagt, af ef ekki væri búið svo að þeim eins og þeir vildu, þá segðu þeir upp starfi. Og árið 1944 var það tekið fram í stjórnarsáttmálanum, að það ætti að fara aðallega eftir því, sem launamenn segðu. En hér er ég ekki að halda fram í þessu máli, sem fyrir liggur, að það eigi að fara eftir neinu öðru en því, sem fólkið í Rvík vill og þarf. Og úr því að þeir, sem í apótekunum vinna, vilja það sama, þá er allt gott og blessað. Ég vil þess vegna fullyrða það, að ef heilbrigðisstjórnin leyfir sér að halda áfram eins og hún hefur gert hingað til í þessum efnum, þá á hún skilið að fá þá mótstöðu eins og Dagsbrún fékk, þegar hún ætlaði að kúga sjómennina. Það þarf ekki mig til þeirrar andstöðu. En þeir, sem veita heilbrigðisstjórninni þá mótstöðu, hafa mína fullkomnu samúð.

Þá fór hæstv. ráðh. út í það, að mér hafi gengið eitthvað vondar hvatir til viðvíkjandi landlækni með flutningi þessa máls. Mér finnst þetta bera vott um afturför hjá þessum hv. þm., frá því sem ég þekkti hann fyrir nokkrum árum, afturför í gáfum. Því að þessi maður veit, að ég hef stofnað tvö af þessum fjórum apótekum, sem í Rvík eru, án þess að núverandi landlæknir kæmi nokkuð nærri því, og því honum hvorki til gagns né gleði. Ég tók að mér að leysa þetta mál eins og heilbrigðir menn vildu þá, og það vil ég enn, að verði gert. Og svo kemur hæstv. ráðh. og segir, að ég, sem hef gert meira en nokkur annar maður hér í hv. d. í þessum efnum til lagfæringar á sínum tíma, ég flytji þetta mál til þess að ná mér niðri á landlækni, Það er fjarstæða. Hæstv. ráðh. verður að viðurkenna, að ég hef látið verkin tala í þessu efni. En hann sjálfur hefur ekki gert það. Hann hefur ekki notað í sambandi við þessi mál þá skynsemi, sem honum er gefin, því að gangur þessa máls er honum til minnkunar og landlækni til skammar. Og það er auðvelt að leysa það, og enginn veit það betur en ég, sem hef gert það, sem gert hefur verið í þessu fyrir 20 árum. Það er ákaflega gagnslítið að ráðast á mig eins og gert hefur verið hér, því að ég hef í flestum atriðum getað látið verkin tala. Og það verður því erfiðari aðstaða hæstv. ráðh. sem lengra líður viðkomandi þessu máli og ekkert er gert í því af heilbrigðisstjórninni.

Þá leyfði hæstv. ráðh. sér að halda því fram, að ég væri að koma með þetta mál hér fram til þess að tyfta landlækni, þetta mál, sem er mesta áhugamál Reykvíkinga nú og tveir borgarstjórar hafa þurft að glíma við, þó að ég kæmi með réttlætismál hér fram, sem nauðsynlegt er að vinda bráðan bug að að leysa. Og sú röksemd finnst mér léttvæg, að landlæknir sé sérlega hæfur til síns starfs af því, að hann eyði litlum peningum. En hvers vegna er það? Það er af því, að hann gerir svo lítið.

Hv. 1. þm. N-M. talaði um það hér, að lyfjabúðirnar verzluðu með hluti, sem þeim bæri ekki að verzla með. Og það hefur verið sagt, að ég hafi lagt til, að Vilmundur Jónsson yrði landlæknir. Jú, hann var duglegur maður fram að því, en óduglegur síðan. En ég hef gefið honum tækifæri. Og svo þegar að því kemur að ræða um það, sem menn greinir á um viðvíkjandi hans starfi, hvernig hann hefur staðið í stöðu sinni, þá er því að svara frá minni hendi, að þegar ég veitti honum embættið fyrir 20 árum sem ráðh., veitti ég honum bein fyrirmæli um að líta eftir lyfjabúðunum. Hvernig hefur hann brugðizt við þeirri skyldu sinni? Hann hefur ekki gert það. Og til hvers ætti hann þá að hafa aukið embættiskostnaðinn? Sannleikurinn er sá, að ástæðan til þess, hve embættiskostnaðurinn er lítill hjá landlækni, er, að hann gerir ekki neitt. Hér liggur fyrir staðfesting á því frá hv. 1. þm. N-M., og hæstv. ráðh. játar, að það séu að þvælast stórir lagabálkar fram og aftur, sem hefði átt að vinna meira að af landlækni og skrifstofu hans. Og hv. þm. Barð. hefur upplýst, að það er ekki hægt að bera við andúð lyfsala í bænum, að lyfjabúðamál Reykvíkinga eru í því ófremdarástandi, sem þau eru nú. Það er landlæknir, sem stendur á móti því, að gert sé það, sem gera þarf í þessum efnum. Hann þarf enga aukningu á embættiskostnaðinum til þess að halda hlutunum í því ófremdarástandi. sem hann hefur gert.