14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Forseti (BSt) :

Ég mun svara þessu, um leið og ég tek málið á dagskrá.

Á dagskrá er tekið: Till. til þál. um, að ríkisstjórnin gefi þinginu skýrslu um þátttöku sína í Parísarráðstefnunni og samningaumleitanir um dollaralán, 5. mál. Sþ. þskj. 5. Útvarpsumr.

Út af ósk hv. 2. þm. Reykv. um það, að ég kveði upp úrskurð um tvö atriði, skal ég taka þetta fram: Það hefur verið venja frá upphafi Alþingis í nútímamynd, að flm. máls hafi gert grein fyrir því, þegar það er leitt inn í þingið, þegar það er rætt í fyrsta sinn, og munu allir hv. þm. kannast við það, að forseti gefur flm. orðið, þó að hann kveðji sér ekki hljóðs en það er annars ekki gert um aðra þm. og ekki um flm. nema við 1. umr. Þessari reglu hefur einnig verið fylgt um útvarpsumræður frá upphafi. Ég skal nefna nærtækt dæmi: Þegar Framsfl. var einn í stjórnarandstöðu og bar fram vantraust á þáverandi ríkisstj., þá var talið sjálfsagt, að hann hæfi umr., sem hann hafði heldur ekkert á móti. Það dæmi, sem hv. þm. vitnar til, að hann hafi talað fyrstur í máli, sem sósíalistar hafi ekki verið flm. að, þá var þar öðru máli að gegna, því að það var 3. umr. málsins, en ekki 1. eða eina. og mun hv. þm. hafa verið frsm. n. í því máli. Þess vegna verður sá háttur hér hafður, að fulltrúi Sósfl., sem jafnframt er flm. dagskrármálsins, tali fyrstur, en að öðru leyti hefur verið dregið um röð milli hinna flokkanna, sem ekki flytja málið. Málið er flutt af hv. 2. þm. Reykv., og ég veit ekkert, hvers konar skýrslu hæstv. utanrrh. kann að gefa hér. Málið hlýtur því að skoðast sem mál hv. 2. þm. Reykv. og Sósfl.

Um hitt atriðið, hvort umr. skuli lokið, þegar þessari útvarpsumr. er lokið, þá mæla þingsköp svo fyrir, að umr. um þáltill. sé lokið, þegar útvarpsumr. er lokið. Samt sem áður lít ég svo á. að ef fram kæmi till. um að vísa málinu til n. að þessari útvarpsumr. lokinni, þá mundi ég að sjálfsögðu bera hana upp, og ef hún yrði samþ., þá teldi ég rétt, — en það er aðeins skoðun mín, enda mundi það ekki heyra undir úrskurð minn, heldur hæstv. aðalforseta Alþingis, — að það væri skoðað sem önnur umr. málsins, þegar till. kæmi á ný til umr.

Samkvæmt þessu, sem ég hef sagt, þá fer þessi umr. fram á þann hátt, að flokkarnir tala í tveimur umferðum, fyrst 25 mín., síðar 20 mín., samtals 45 mín. Röðin er þessi: Sósfl., Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. Verður sama röð viðhöfð í báðum umferðum, því að það er einnig venja við útvarpsumr.

Samkvæmt þessu tekur til máls hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, og talar af hendi Sameiningarfl. alþýðu — Sósfl.