14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3254)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Þið hafið nú heyrt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um afstöðu sína til dollaralánsins um að forðast í allra lengstu lög að taka dollaralán. Þessi yfirlýsing á að blekkja þjóðina, þangað til þessi ríkisstjórn hefur sett þjóðina í slíka sjálfheldu, að ríkisstjórnin tekur dollaralánið að henni forspurðri og segir, að það hafi ekki verið um neitt annað að gera. Ég mun nú sanna, hvernig þessi ríkisstjórn og vald það, sem henni stjórnar, heildsalavaldið, íslenzka, vinnur með pólitík sinni að því að koma þjóðinni á skuldaklafa amerískra auðjöfra.

En áður vil ég minna þjóðina á eitt út af þeirri yfirlýsingu, er hér var gefin.

Einmitt svona yfirlýsingu gáfu núverandi stjórnarflokkar þjóðinni fyrir síðustu kosningar um andstöðu sína gegn því að leyfa Bandaríkjunum herstöðvar hér. Og þjóðin trúði þeim. — Og eftir að þessir flokkar höfðu sloppið í gegnum eldraun kosninganna, af því þjóðin treysti þessari yfirlýsingu þeirra, þá sviku þeir hana í tryggðum og leigðu Bandaríkjunum dulbúnar herstöðvar hér á landi.

En afturhaldið ætlar sér, ef það fær að drottna áfram, að brjóta mótstöðukraft þjóðarinnar svo á bak aftur, að það eigi alls kostar við hana. Skal ég nú rekja verk þessa afturhalds undanfarið og hernaðaráætlun þess nú gegn þjóðinni.

Haustið 1944 átti þjóðin yfir 500 millj. króna, innstæður erlendis. Við sósíalistar lögðum þá til, að þetta fé væri notað einvörðungu til nýsköpunar atvinnulífs vors og til þess að skapa traustari grundvöll efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar. Hver var afstaða afturhaldsins til þessa þá?

Annar hluti afturhaldsins, heildsalavaldið, lýsti algerum fjandskap sínum við þessa hugmynd og heimtaði tafarlausan niðurskurð á launum og lífskjörum almennings — og þáverandi fjármálaráðherra þess, Björn Ólafsson, lagði frumvarp fyrir Alþingi um lögboðna launalækkun hjá öllum launþegum (sept. 1944). Samtímis kröfðust svo heildsalarnir ótakmarkaðs innflutnings fyrir sjálfa sig á kostnað innstæðna þjóðarinnar. M. ö. o.: Annars vegar átti að stöðva atvinnulífið á Íslandi með vinnudeilum, hins vegar átti að eyða erlendu innstæðunum í gróðainnflutning fyrir heildsalana.

Hinn hluti afturhaldsins, núverandi landsbankavald, lýst því yfir, að aðalatriði nýsköpunarinnar — kaup á 30 nýjum togurum — væri fásinna, og barðist á móti nýsköpun atvinnulífsins með öllum þeim miklu áhrifum, sem þetta steinrunna embættisvald illu heilli hefur enn í okkar þjóðfélagi.

Hver hefði nú orðið afleiðingin, ef þessir samvöxnu tvíburar íslenzka afturhaldsins, heildsala- og landsbankavaldið, hefðu sigrað þá?

Afleiðingin hefði orðið innanlandsófriður, efnahagslegt hrun, eyðsla erlendu innstæðnanna í almennan innflutning, — engin nýsköpun.

Gæfa Íslands varð afturhaldinu yfirsterkari haustið 1944. Þess vegna hafa á undanförnum árum lífskjör íslenzkrar alþýðu batnað, fiskverð og kaupgjald hækkað, nýir markaðir unnizt. Þess vegna, siglir nú hver nýsköpunartogarinn í höfn eftir annan.

En afturhaldsöflin lágu ekki á liði sínu þennan tíma, og þau voru voldug. Heildsalavaldið átti Vísi og Morgunblaðið. Það átti Bjarna Ben. og Stefán Jóhann, og það átti völdin í Sjálfstfl. og Alþfl., þegar í odda skarst. — Fyrir tilstilli Sósfl. og þeirra, sem með nýsköpunarhugsjón hans börðust, tókst að bjarga þeim rúmum 300 millj. kr., sem til nýsköpunarinnar fóru. En fyrir tilstilli heildsalavaldsins í Sjálfstfl. var hinum hluta innstæðnanna eytt í almennan innflutning, þrátt fyrir harða baráttu Sósíalistaflokksins fyrir að bjarga þeim.

Hvað eftir annað varaði Sósfl. opinberlega við, í hvern voða væri stefnt með þessari eyðslupólitík heildsalavaldsins. Í ágúst 1946, þegar 100 millj. kr. voru enn óeyddar utan nýbyggingarreiknings og sósíalistar árangurslaust höfðu reynt að fá þær settar inn á nýbyggingarreikning, var rituð grein í Þjóðviljann af Jónasi Haralz, þar sem sýnt var og sannað, að með sams konar eyðslustefnu í gjaldeyrismálum yrði gjaldeyrisinnstæða landsmanna uppurin í ágúst 1947.

En allt kom fyrir ekki. Hvaða viðvaranir sem gefnar voru, þá sat heildsalavaldið sem áður við sinn keip.

Svo myndaði heildsalavaldið þessa núverandi stjórn sína 4. febr. 1947. Þessir ráðherrar vissu það allir, hvernig gjaldeyrisástand þjóðarinnar var, þegar þeir tóku við. Þeir vissu líka, hvaða ráðstafanir voru óhjákvæmilegar þá strax, ef ekki átti að stefna að þurrð erlendra inneigna. Þjóðin verður að ætla, að flokkur myndi stjórn til þess að gera ráðstafanir, sem þeir álíta nauðsynlegar. Ef menn aðeins setjast í ráðherrastólana og gera ekki neitt, þá er það vegna þess að þeir ætla sér eitthvað ákveðið með aðgerðaleysinu.

Núverandi ríkisstjórn gerði ekki neitt, sveikst um allar ráðstafanir til þess að spara gjaldeyrinn og lét heildsalavaldið halda áfram að eyða, þangað til enginn eyrir var eftir. Þá hljóp stjórnin í útvarpið, fórnaði höndum til himins, lézt vera aldeilis hlessa og sagði þjóðinni, að gjaldeyririnn væri reyndar búinn. Svo sagði hún, að yrði að lækka kaupið — og lét Landbankann taka 30 millj. kr. lán erlendis. Þar af 1 milljón dollarayfirdráttar í Ameríku.

Vissi ríkisstjórnin ekki, hvert þessi þrotlausa fégræðgi heildsalavaldsins var að leiða þjóðina? Auðvitað vissi hún það. Og heildsalavaldið fór heldur ekki dult með kröfur sínar.

Samstundis og innstæðurnar eru búnar, birtist í heitasta fylgisblaði núverandi ríkisstjórnar, heildsalablaðinu Vísi, ritstjórnargrein, þar sem þess er krafizt, að nú sé tekið dollaralán.

Greinin birtist 11. ág. Rökstuðningurinn er mjög eftirtektarverður.

Í fyrsta lagi er það fært fram, að sé ekki tekið dollaralán, þá verði að skera niður innflutning við heildsalana, og slíkt álítur blaðið óhæft.

Í öðru lagi er svo sagt orðrétt: „Geti Bandaríkin ekki selt vörur sínar og Evrópuþjóðirnar ekki keypt, hlýtur af því að leiða stórfelldustu kreppu, sem skollið hefur yfir þennan heim, samfara umróti og byltingum víða um lönd.“

M. ö. o.: Heildsalarnir, herrar ríkisstj., krefjast þess, að þegar þeir geti ekki lengur eytt innstæðum þjóðarinnar, þá fái þeir að eyða skuldum hennar. Og Vísir bendir á annað um leið: Hagsmunir Bandaríkjanna krefjast þess líka, að Ísland taki dollaralán. — Auðvaldið vestanhafs er að kafna í allsnægtunum, sem alþýðan þar framleiðir og fær ekki að njóta sjálf. Þess vegna eiga önnur lönd að taka dollaralán og gangast um leið undir pólitískt ok auðdrottna Ameríku. Það er ekki ódýrt að gera Ameríkumönnum þann greiða að létta þeim kreppubyrðina: Það á að kosta efnahagslegt sjálfstæði viðkomandi þjóðar.

Bandaríkjastjórn lét ekki á sér standa að benda á, hvað hún vildi. Hún lét stefna þeim ríkjum, sem hún hugsaði sér að ná pólitísku tangarhaldi á, til Parísar í júlí í sumar til þess að ræða um dollaralán. Íslenzka heildsalastjórnin hlýddi utanstefnunni. — En að aflokinni utanför, þykir henni sem öðrum slíkum fyrrum hentara að halda lítt á lofti boðum hins erlenda yfirdrottnara síns, en vinna að framkvæmd þeirra með leynd. Stjórnin veit, að þjóðin er andvíg erlendri lántöku, og því verður að koma henni að óvörum, þegar tími er kominn til.

En það, sem ríkisstjórnin leynir þjóðina, segja amerísk blöð henni. Amerísk blöð hafa undanfarið verið beztu heimildirnar fyrir íslenzku þjóðina um, hvað Sjálfstfl. á Íslandi ætli sér gagnvart þjóð sinni. — Þannig var það einnig fyrir síðustu kosningar. Þá sögðu amerísk blöð, að herstöðvamálið fengist ekki afgreitt fyrir kosningar, en eftir kosningar yrðu herstöðvarnar veittar. Þau reyndust sannspá.

Fyrirskipanirnar frá Wall Street og Washington til erindrekanna á Íslandi vilja leka út í Ameríku. Svo er það og um dollaralánið.

Í ameríska tímaritinu „World Report“ frá 15. júlí í sumar er birt skýrsla efnahagssérfræðinga Bandaríkjaþings (Subcommittee on Foreign Economic Policy of the House of Representatives) um hvað hin ýmsu ríki Evrópu þurfi að taka mikið dollaralán. Þar er Íslandi ætlað að taka 20 millj. dollara, eða 130 millj. kr.

Fyrirskipunin er skýr. Spurningin er, hvenær þjónarnir hér þora þjóðarinnar vegna að hlýða henni. Þeir þora það ekki enn.

En þegar heildsalavaldið íslenzka og heimsveldið ameríska hefur heimtað það sama af þjóðstjórnarflokkunum undanfarin ár, hafa þau þá ekki knúið það í gegn, þó það kostaði tryggðrof við þjóðina. og samningsrof við aðra flokka?

Niðurstaðan er: Gjaldeyrisskortur Íslendinga er skapaður af heildsalavaldinu og þjónum þess í ríkisstjórn. Þetta vald mun heldur ekki skirrast við að binda Ísland á skuldaklafa Ameríku, ef það fær að drottna áfram yfir þjóðinni.

Og nú skulum við athuga, hvernig heildsalastjórnin á öðrum sviðum vinnur að því að steypa landinu í efnahagslega glötun.

Við skulum fyrst athuga um verðið á útflutningsafurðum okkar.

Lífskjör íslenzku þjóðarinnar eru undir því komin, hvaða verð við fáum fyrir fisk og fiskafurðir. Baráttan fyrir háu verði á útflutningsafurðunum er barátta fyrir lífsafkomu okkar allra, barátta fyrir, hverja hlutdeild Íslendingar skuli fá í gæðum lífsins og efnahagslegri menningu mannkynsins. Hver sá Íslendingur, sem reynir að lækka verðið á útflutningsafurðum okkar, er vargur í véum.

Allar viðskiptaþjóðir okkar reyna auðvitað að hækka verð á sínum vörum og lækka hjá okkur. En hér á Íslandi gengur ríkisstjórnin og þá fyrst og fremst utanríkismálaráðherra fram fyrir skjöldu og heimtar í víðlesnasta blaði landsins lækkun á útflutningsafurðum Íslendinga. Og hann lætur ekki þar við sitja. Hann notar vald sitt yfir afurðasölunni til þess að láta selja íslenzku vörurnar fyrir lægra verð en hægt er að fá fyrir þær.

Hraðfrysti fiskurinn er seldur til Englands fyrir 6 pence enskt pund, þegar hægt er að fá 12–13 pence á meginlandinu, — eða ef maður vill líta á sama samninginn öðrum augum: Síldarlýsið er selt fyrir 95 sterlingsp. tonnið til Englands, þegar hægt er að selja það á 130–140 sterlingspund annars staðar. Síldarmjölið er selt á 30–32 sterlingspund tonnið til Danmerkur og Bretlands, þegar hægt er að selja það á 38–42 sterlingspund annars staðar.

Þannig mætti lengi telja.

Með þessum dæmalausu aðförum er sjávarútveginum og allri þjóðinni valdið tjóni, sem nemur tugum milljóna króna.

Hvers vegna bregðast þessir trúnaðarmenn í æðstu stöðum ríkisins svona herfilega trausti þjóðarinnar?

Í fyrsta lagi vegna þess að heildsalavaldið heimtar, að sjávarútvegurinn láti því í té frjáls pund og dollara, svo heildsalarnir geti haldið áfram að kaupa hjá gömlu- samböndunum sínum í Ameríku og Englandi, því þá er léttara fyrir um fjárflóttann, en það er nú talið, að ísl. auðmenn eigi 400 millj. ísl. kr. í erlendum gjaldeyri í þessum löndum.

Í öðru lagi vegna þess að Landsbankinn styður þessa skaðlegu verzlunarpólitík heildsalavaldsins og fórnar hagsmunum sjávarútvegsins og þjóðarinnar fyrir heildsalana, með því að hindra jöfnunar(clearing)-samninga við þau lönd, sem vilja greiða okkur hátt verð fyrir vöruna, en geta látið okkur gnægð vara í té með góðu verði, ef aðeins innkaup þjóðarinnar eru framkvæmd af fullri hagsýni eftir áætlun. En það vill heildsalavaldið ekki, því að það gerði heildsalana óþarfa. Landsbankanum tekst í þessu máli að fremja þá fásinnu, sem honum tókst ekki, er hann vildi hindra kaup nýsköpunartogaranna. Nú fær hann sem sé að fara öllu sínu fram.

Í þriðja lagi valda því pólitískir hleypidómar. Heildsalastjórnin vill komast hjá því að verzla við þau lönd, sem hæst verð vilja greiða, því að það eru mestmegnis þau meginlandslönd, sem ekki eru lengur undir arðráni engilsaxnesku auðhringanna. Þess vegna er tækifærum til góðrar sölu á íslenzkum afurðum í þessum löndum sleppt.

Í fjórða og síðasta lagi verður svo ekki komizt hjá því að álykta, að hugsanleg séu vísvitandi skemmdarverk af hendi afturhaldsins. Það er grunsamlegt, að afturhaldið hefur nú í mörg ár alltaf heimtað verðlækkun á íslenzku útflutningsafurðunum. Haustið 1944 taldi það slíka verðlækkun óhjákvæmilega, og verðlækkunin hefði skollið yfir Íslendinga í ársbyrjun 1945, ef svona stjórn eins og nú hefði setið að völdum, stjórn með ólæknandi verðlækkunardeilu á heilanum. En vegna þess að nýsköpunarstjórnin var þá mynduð, þá hefur á undanförnum árum, fyrir harðfylgi okkar sósíalista, tekizt að hagnýta möguleikana út á við til þess að hækka fiskverðið um 50% og næstum fjórfalda síldarolíuverðið.

Og það, sem gerir framferði þessara herra grunsamlegast, er, að næstu orðin, sem þeir segja á eftir því, að verðlækkun sé óhjákvæmileg, er, að það verði tafarlaust að fara fram launalækkun. Það gefur fulla ástæðu til þess að ætla, að með þeirri verðlækkun, sem þeir nú vinna að, séu þeir að reyna að skapa átyllu til allsherjarlaunalækkunar.

Ykkur kann að finnast þetta ljótt, góðir áheyrendur, og Eysteinn var að barma sér yfir slíkum ásökunum hér áðan. Í barnslegri einfeldni haldið þið, að það séu ekki til menn á Íslandi, sem þannig vilja skaða land vort og þjóð. — En ég verð að hryggja ykkur með því að minna á, að þetta er ekki neitt nýtt, sérstaklega ekki um menn af sama sauðahúsi og Bjarni Ben. Það hefur m. a. s. komið fyrir, þegar slíkum mönnum hefur þótt útlendingar bjóða of hátt í fisk ísl. fiskimanna, að þeir hafa mútað slíkum útlendingum með stórfé, til þess að láta vera að hækka þannig fiskverðið hér heima. Sum ykkar muna ef til vill enn Gismondi-samninginn.

Niðurstaðan af þessum athugunum er: Ríkisstjórnin vinnur markvisst að því í þjónustu heildsala og landsbankavaldsins að selja íslenzkar afurðir fyrir lægra verð en hægt er að fá. Þannig skaðar hún landið um milljónatugi og eykur gjaldeyrisskortinn, sem hún síðan reynir að hagnýta sem átyllu til árásar á lífskjör alþýðu.

Fyrir íslenzku fiskimennina kemur þetta framferði svona út:

Fyrst er vara fiskimannsins seld að honum forspurðum af ríkisstj., oftast eftir kröfu Landsbankans og í þágu heildsalanna fyrir lægra verð en hægt er að fá fyrir hana. Síðan er gjaldeyririnn, tekinn af fiskimanninum með lagavaldi og afhentur heildsalanum, svo hann geti stórgrætt á honum. Og síðan er svo af Landsbankanum gengið að fiskimanninum, eins og nú verður gert, og báturinn hans boðinn upp, af því reksturinn þoldi ekki hvort tveggja í senn: áföll frá hendi náttúrunnar og svona „aðgerðir“ frá hálfu yfirvaldanna. Hvað hefðu svona aðfarir verið kallaðar, ef venjulegir menn fremdu þær? Ég þori ekki að segja orðið hér, því að ég er hræddur um, að forseti mundi hringja.

En hvað heita svona aðfarir, þegar það eru ráðherrar og aðrir æðstu menn landsins, sem framkvæma þær? — Ég býst við, að dómsmálaráðherrann muni á síðum Mgbl. kalla þær „baráttu gegn kommúnismanum“. Og það hafa þá fyrr verið framin ódæði undir því yfirskini.

Þá skulum við athuga í öðru lagi stefnu stjórnarinnar, hvað markaðina fyrir útflutningsafurðir okkar snertir.

Ríkisstjórnin virðist telja markaðina í Bandaríkjunum og Bretlandi eftirsóknarverðustu markaðina.

Í Bandaríkjunum hefur fiskur okkar hingað til, verið seldur fyrir hálfvirði móts við það, sem meginlandsþjóðir Evrópu borga. Og Bandaríkin eru fallvaltasti markaður veraldarinnar, og nú vofir þar yfir ægilegasta viðskiptakreppa veraldarsögunnar og hefst jafnvel á næsta ári. Fyrir þá Íslendinga, sem muna kreppuna hér 1931 og síðar, er því augljóst, hve fallvalt er að treysta hið minnsta til frambúðar á amerískan markað, þó sjálfsagt sé að hagnýta hann, meðan hann borgar vel.

Næst hinum ótrygga ameríska markaði virðist ríkisstjórnin treysta á markaðina í Englandi og Vestur-Evrópu. Ýmsir þeir markaðir eru oss góðir nú og sjálfsagt að hagnýta þá sem bezt næstu ár. En mikil hætta er á, að þeir verði ekki traustir til frambúðar. Englendingar, Hollendingar, Frakkar, Þjóðverjar eru allt gamlar fiskveiðiþjóðir, sem flestar hafa öldum saman veitt fisk hér á Íslandsmiðum, og líklegt er því miður, að þær geri það líka í stórum stíl, þegar þær hafa náð sér aftur eftir hörmungar styrjaldarinnar. Þessi lönd verða því stopulir framtíðarmarkaðir fyrir okkur Íslendinga, ef vér ætlum að vera ein mesta fiskframleiðsluþjóð heimsins.

Í Suður-Evrópu verða vonandi góðir framtíðarmarkaðir fyrir íslenzkan fisk sem oft áður, en vart stærri.

En einhverjir eðlilegustu markaðir fyrir afurðir íslenzkrar fiskveiðiþjóðar eru þau meginlandsríki Evrópu, sem ekki liggja að úthöfum. Við Íslendingar höfum unnið stærstu landvinninga okkar í markaðsmálum nú eftir stríð með því að opna Sovétríkin og Tékkóslóvakíu fyrir fiskafurðum okkar, fyrir tilstilli okkar sósíalista. Ísland hefði einnig getað unnið markaði í Póllandi, Ungverjalandi. Austur-Þýzkalandi o. fl. ríkjum þar, ef sinnuleysi og fjandskapur ísl. afturhaldsins hefði ekki komið í veg fyrir það. En meðan lönd eins og Bretland er að gera samninga við Pólland, Ungverjaland og Júgóslavíu til 2 og 3 ára, þá lýtur hinn voldugi utanríkisráðherra Íslands, Bjarni Ben., ekki svo lágt að tala við þessi ríki, nema þá til að eyðileggja samninga við þau.

Hv. ráðherra undrast, af hverju þessi Austur-Evrópulönd greiði hærra verð en t. d. England, og leyfir sér alls konar dylgjur í því sambandi. Þeir ættu að spyrja Dani, af hverju þeir fái 6,50 kr. fyrir smjörkílóið hjá Rússum, þegar England ekki vill borga nema 4,50. — Austur-Evrópulöndin borga hærra af því þar eru engir auðhringar, sem taka milliliðagróðann á kostnað framleiðenda og neytenda, eins og t. d. feitmetishringurinn enski, — og ef til vill knýr skorturinn þá líka nú til þess að greiða meira fyrir okkar vörur.

Ísland þyrfti, til þess að tryggja framtíð sína hvað markaði snertir, að geta selt allt að helmingi framleiðslu sinnar á þessum mörkuðum Austur-Evrópu.

Nú hafa ríkin þar, sem kunnugt er, komið á hjá sér áætlunarbúskap, þannig að þau eru nú í haust að gera samninga sín á milli og við aðra um innkaupin næstu 3–5 ár.

Ísland getur gert slíka samninga, ef það gerir þá nú þegar, og tryggt þannig kreppulausa örugga markaði með föstu verði til margra ára, og þessi lönd hafa undanfarin ár greitt hæst verð fyrir vöru okkar.

Alla þessa samningamöguleika, alla þessa markaði í Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu og öðrum löndum þar eystra er nú ríkisstjórnin að eyðileggja, líklega með þeim afleiðingum, að þeir að fullu glatist Íslandi og ýmsar þessara þjóða fari jafnvel sjálfar að gera út hingað norður í stórum stíl. Og með lygaherferðinni í Morgunblaðinu gegn þessum ríkjum er utanríkisráðherrann að reyna að telja þjóðinni trú um, að engu sé þar að tapa, því hjá þessum þjóðum, sem nú vinna allra þjóða bezt að nýsköpun atvinnulífsins, sé ekkert nema svartnætti harðstjórnarinnar. Svo langt gengur þessi ósannindaherferð, að það er reynt eins og af utanríkisráðherra að berja það inn í þjóðina, að Rússar, sem í ár gerðu samning við Ísland um að kaupa af okkur fyrir 96 millj. króna, vilji ekkert af okkur kaupa! — Í þessum rykskýjum blekkinganna á að dylja hættulegustu skemmdarverkin gagnvart hagsmunamálum Íslendinga.

Svo langt gengur þröngsýnin og ofstækið hjá þessum mönnum, að þeir láta sér ekki nægja að eyðileggja fiskmarkaðina, sem hægt væri að skapa í þessum löndum, heldur eyðilögðu þeir í sumar fyrir bændum möguleikann að ná ágætum hrossamarkaði, sem hægt var að fá í Póllandi. Þeir munu verða að svara til saka fyrir það skemmdarverk sem önnur, áður en langt um líður.

Annars skora ég á ríkisstjórnina út af þeim gífuryrðum, sem hún hefur um markaðsmálin, að stofna til útvarpsumræðna um þau sérstaklega á jafnréttisgrundvelli.

Íslendingar! Ég hef einu sinni áður frá þessum stað í nafni míns flokks varað þjóðina við, hvað yfir henni vofði, ef hún notaði ekki þá strax það tækifæri, er byðist, og skapaði nýja stjórn í því skyni. Það var í sept. 1944, og við Íslendingar bárum þá gæfu til þess að afstýra innanlandsófriði og nota dýrmæt tækifæri til uppbyggingar atvinnulífs vors, sem ella hefðu glatazt að fullu.

Ég vil nú aftur vara þjóðina við, að ef hún notar ekki það tækifæri, sem nú er til þess að tryggja öruggan framtíðarmarkað fyrir t. d. helminginn af útflutningi vorum með samningum við Austur-Evrópulöndin, þá er það tækifærið ef til vill glatað að fullu og öllu. Þessi ríkisstjórn notar það ekki. Hún og hennar lið felldi allar tillögur okkar þar að lútandi í vor og hefur síðan markvist unnið að því að eyðileggja markaðsmöguleikana þar eystra. Ef þjóðin, og þá fyrst og fremst samtök framleiðslustéttanna. ekki tekur í taumana, áður en það er orðið of seint, þá tekst þessari ríkisstjórn að vinna óbætanlegt skemmdarverk gagnvart íslenzkum sjávarútvegi, sem getur eyðilagt framtíð hans með því að svipta hann öruggustu og beztu mörkuðum.

Ég hef nú lokið yfirlitinu yfir aðfarir heildsalavaldsins og þessarar stjórnar þess í gjaldeyris- og markaðsmálunum.

Það sýnir sig, að heildsalavaldið og nú síðast þessi stjórn sem verkfæri þess hefur eytt gjaldeyrisinnstæðum Íslendinga og heimtar svo dollaralán tekið, þegar þær eru búnar, — að ríkisstjórnin selur íslenzkar útflutningsafurðir þjóðinni til stórtjóns fyrir lægra verð en fáanlegt er, til þess að þjóna gjaldeyrislegum hagsmunum heildsalanna, og að ríkisstjórnin er af pólitísku ofstæki eða vegna amerískra fyrirskipana að eyðileggja öruggustu framtíðarmarkaðina, sem Ísland þarf að vinna til þess að vera stór fiskveiðiþjóð. — Með þessum aðferðum er verið að leiða efnahagslegt hrun yfir þjóðarheildina, svo að nokkrir milljónamæringar hennar geti safnað meiri auði erlendis.

Nú skulum við athuga stefnu stjórnarinnar inn á við. Þar hafa aðaláhugamál hennar verið þessi þrjú, eftir verkunum að dæma:

1) Koma á atvinnuleysi,

2) stofna til allsherjarstöðvunar atvinnuveganna með vinnudeilum milli atvinnurekenda og verkamanna,

3) koma á launalækkun.

Ríkisstjórnin hefur auðsjáanlega falið fjárhagsráði það hlutverk að koma atvinnuleysinu á. Það ráð er nú sem óðast að stöðva atvinnuframkvæmdir í landinu, drepa niður framtak manna, hindra byggingarstarfsemi og aðrar framleiðslugreinar, meðan það hins vegar ætlar að sliga þjóðina með heimskulegustu skriffinnsku og skömmtunarfargani, sem þekkzt hefur hér á landi, — og er þá mikið sagt. Með fjárhagsráði leggur nú landsbankavaldið hönd dauðans á athafnalíf Íslendinga. Þar ríkja nú þau sjónarmið, sem töldu það fásinnu að kaupa 30 togara. Í greipum þess valds er nú sú bjartsýni kyrkt, sem gagntók þjóð vora fyrir ári síðan. Ég býst við, að allir framkvæmda- og áhugamenn Íslands hafi fundið nágustinn frá þessum stofnunum síðustu mánuðina. Og hver er tilgangurinn með því að læsa blómlegt atvinnulíf Íslendinga í helgreipar atvinnuleysisins? Tilgangurinn er að lækka launin í þágu milljónamæringanna í Reykjavík, en þeir treysta sér ekki til atlögu við verkalýðinn, nema svelta hann til undirgefni með atvinnuleysinu fyrst. Bjarni Ben. hótaði þessu atvinnuleysi í vor. Hann er að koma því á núna. — En hann á eftir að sjá m. a. s. Óðinsmennina gera upp reikningana við hann fyrir það drengskaparbragð.

Ríkisstjórnin hefur nú í tvígang reynt að stöðva atvinnulíf Íslendinga. Í sumar kom hún í heilan mánuð í veg fyrir samninga milli atvinnurekenda og verkamanna og ætlaði sér að eyðileggja síldarvertíðina fyrir þjóðinni, en þá tóku samtök útvegsmanna og verkamanna ráðin af henni. Nú í haust knúði hún stærstu atvinnurekendurna til þess að segja upp samningum og ætlaði að stöðva atvinnulíf þjóðarinnar 15. október. Henni hefur þó ekki tekizt það í bili. Atvinnurekendur og verkamenn hafa enn framlengt samninga sína. En stjórnin undirbýr þriðja tilræðið, og það getur dunið yfir fyrr en varir, svo að þjóðin þarf að vera viðbúin að taka mannlega á móti árásum þessarar afturgengnu þjóðstjórnar, hvort sem þær heita gengislækkun eða gerðardómur eða nýtt form launalækkunar að þessu sinni.

Af hverju er stjórnin að reyna að stofna til vinnustöðvana, sem geta eyðilagt atvinnulífið um margra mánaða skeið og valdið Íslandi óbætanlegu tjóni?

Af því þessi stjórn er í þjónustu þeirra 1–200 milljónamæringa í Reykjavík. sem eiga samkvæmt eigin skattaframtali upp undir 500 milljónir króna í skuldlausum eignum miðað við söluverð. — Þessir auðkýfingar heimta nú launalækkun hjá almenningi, svo að þeir geti féflett það fólk, sem missir allt, ef verðlag er lækkað, sölsað undir sig eignir þeirra millistétta- og alþýðumanna, sem eignazt hafa íbúðir eða atvinnutæki á undanförnum árum, og drottnað yfir alþýðunni í krafti atvinnuleysisins, eins og þeir gerðu fyrir stríð.

Til þess að þjóna þessari auðmannastétt er stjórnin að reyna að eyðileggja þá velmegun og þau batnandi lífskjör, sem íslenzk alþýða hefur skapað sér á undanförnum árum.

Íslendingar! Hver verður afleiðingin, ef ríkisstjórnin fær að halda áfram þeirri pólitík, sem ég nú hef lýst, að hún rekur inn á við og út á við?

Afleiðingin verður, að þjóðin glatar efnahagslegu sjálfstæði sínu.

Þessi stjórn, sem í dag þorir ekki að kannast við það, að hún ætli að taka dollaralán, mun, ef henni tekst að fá fram þá stöðvun atvinnulífsins, er hún stefnir að, hrópa upp — þegar allt framleiðslulíf hefur verið stöðvað mánuðum saman fyrir hennar tilstilli, — „það verður að bjarga þjóðinni frá hungri með því að taka dollaralán“ — og gera það.

Ríkisstjórnin er vitandi vits að skapa forsendurnar að því verki, sem hún ætlar sér að vinna: að koma Íslandi á skuldaklafann hjá Bandaríkjaauðvaldinu.

Íslendingar! Hvað verður þá um raunverulegt pólitískt sjálfstæði okkar, þegar skuldaokið væri aftur lagt á herðar þjóðarinnar? 1951 getum við sagt upp Keflavíkursamningnum, þurrkað þann smánarblett nýju yfirþjóðarinnar af okkar landi. En hér á landi eru ríkir og voldugir menn, sem ekki vilja segja þeim samningi upp. Ef við erum komnir á skuldaklafa Bandaríkjanna, þá mun sá voldugi lánardrottinn þjarma þannig að skuldunautnum, að ekki verði upp sagt þeim smánarsamningi.

Ef áfram verður haldið á þessari afturhalds- og kúgunarbraut og sú árás tekst, sem auðkýfingar Reykjavíkur og ríkisstjórn þeirra nú undirbýr á alþýðu landsins, þá er aftur hafin nýlenduþrælkun í landi voru, þar sem forríkir höfðingjar kúga alþýðuna í skjóli erlendrar yfirþjóðar.

Við minnumst þess, að fyrir 700 árum, þegar höfðingjavaldið var þó ekki líkt því eins auðugt á Íslandi og nú, þá tókst því sakir skefjalausrar valdagirndar sinnar að glata frelsi þessarar þjóðar um aldaraðir.

Það eru því síðustu forvöð að stinga við fótum. Samtök framleiðslustéttanna í landinu og allir þeir, hvar í flokki sem þeir standa, sem vilja tryggja velferð og frelsi atvinnustéttanna, á Íslandi gegn ásókn auðvalds og afturhalds erlends og innlends, þurfa að taka höndum saman til þess að sigra það steinrunna afturhald, sem nú ætlar að leggja til höfuðorrustu við allt, sem gæfa og framtíð Íslands byggist á.

Og fyrsta skrefið til sigursins er, að verkamenn, fiskimenn, bændur, allir launþegar og millistéttir Íslands sameinist sem órjúfandi múr gegn árásum þeim, sem auðkýfingastétt Reykjavíkur og ráðherrahandbendi hennar hyggjast nú að hefja á lífskjör fólksins.

Þið þekkið þessar árásir, og þið þekkið árásarliðið.

Það er þjóðstjórnardraugurinn afturgenginn, sem íslenzkur vorhugur enn er að glíma við. Þrisvar hefur hann verið kveðinn niður. Fyrst var þjóðstjórn þrælalaganna drepin í skæruhernaði verkalýðsins gegn gerðardómslögunum. Síðan var vofa þjóðstjórnarinnar, utanþingsstjórnin sællar minningar, kveðin niður, er hún hóf launalækkunarherferðina. Og í sumar féll þessi stjórnardraugur í viðureigninni við Dagsbrún, en þrjózka stjórnarinnar er meiri en svo, að hún viðurkenni dauða sinn. Því situr hún nú sem Fróðárhirð, sem ekki fer, fyrr en dyradómur þjóðarinnar er upp yfir henni kveðinn. Og ef sá dyradómur verður eitthvað svipaður og í Eyrbyggju forðum, þá mun Stefán Jóhann segja, er hann gengur út: „Setið er nú, meðan sætt er. “Eysteinn sauðamaður mun mæla: „Fara skal nú, og hygg ég, að þó væri fyrr sæmra.“ En Bjarni Ben. mun fara síðastur með hinum fornkveðnu orðum: „Fátt hygg ég hér friða, enda flýjum nú allir.“

Við skulum vona, að næsti dyradómur þjóðarinnar yfir afturhaldsöflunum verði nægilega magnaður til þess, að reimleikana taki af í stjórnmálum Íslands og alþýða landsins megi fá að njóta ávaxtanna af erfiði sínu í friði fyrir afturgöngum liðins tíma.