16.10.1947
Sameinað þing: 8. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3269)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. lauk svo hér máli sínu, að ef allt yrði gert heyrinkunnugt varðandi framkvæmd flugvallarsamningsins, þá mundi það vekja ugg og óróa meðal þjóðarinnar. Sannleikurinn er nú sá, að trúnaðarmenn þessa hv. þm., sem hann valdi sjálfur í ráðherratíð sinni sem yfirmenn þessara mála, hafa betri aðstöðu til þess að segja til um þetta. Þessi hv. þm. skipaði sjálfur flugvallarstjóra á þeim flugvöllum, sem herinn varð að hverfa frá á miðju sumri í fyrra. Það má nú nærri geta, að þessi maður, sem hv. þm. setti sem flugvallarstjóra, hvort hann mundi ekki tala um það við hv. þm. Siglf., ef einhverjir hættulegir hlutir ættu sér stað á flugvellinum, og hv. þm. mundi ekki þykja það ógeðfellt að fá eitthvað það lagt upp í hendur sínar, sem skapað gæti óróa á meðal þjóðarinnar. Ég held þess vegna, að dylgjur hv. þm. séu aðeins, sem flest annað, sem hann hefur hér mælt, um að kenna þeim mönnum, sem hann hefur kallað til trúnaðar. Hv. þm. segir. að skýrsla stjórnarinnar sé til þess eins ætluð að hylja málið í skýi. Ég skal nú flytja hér skýrslu um þetta mál, og til þess að tryggja það, að skýrslan sé ekki að neinu leyti verk ríkisstj., þá er hún m. a. undirrituð af hr. flugmálastjóra, Erling Ellingsen, sem hv. þm. Siglf. skipaði æðsta mann þessara mála í ráðherratíð sinni. Og ef þessi skýrsla hljóðar nú á annan veg en hv. þm. óskar, þá er um að kenna þeim mönnum, sem þm. sjálfur hefur valið til trúnaðar, og er vart hægt að ætla, að þeir víki neinu til hagsbóta fyrir núverandi ríkisstj. — Og með leyfi hæstv. forseta hef ég lestur skýrslunnar um Keflavíkurflugvöllinn, sem flugvallarnefnd hefur gefið ríkisstj. Skýrslunni er skipt í kafla, og er fyrsti kaflinn um stjórn flugvallarins:

„Hinn 24. okt. 1946 skipaði utanrrn. sérstaka flugvallarnefnd til þess að semja við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um viðtöku og rekstur Keflavíkurflugvallarins og annað, er varðaði samvinnu íslenzkra og amerískra stjórnarvalda um afnot flugvallarins. Afhending flugvallarins fór fram 7. nóv. 1946, og var íslenzk löggæzla og tollgæzla sett á flugvöllinn sama dag, og hefur hún verið starfandi þar síðan og aukin í hlutfalli við aukinn rekstur þar.

Skömmu síðar var settur flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvöllinn í samræmi við 5. gr. samningsins um niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o. fl. Hlutverk flugvallarstjórans var fyrst og fremst það að hafa á hendi yfirstjórn flugvallarins og undirbúa í samráði við flugvallarn. og flugmálastjórn reglur um reksturinn.

Löggæzlu á flugvellinum annast sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu. sem hefur sérstakan fulltrúa með dómsvaldi starfandi á vellinum. Á flugvellinum er sérstök tollgæzla undir yfirstjórn fjmrn.

Samkv. 9. gr. samningsins skal ekki leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn eru flutt fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmann hennar eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samningsins.

Í samræmi við þetta samningsákvæði hefur flugvallarn. gert samkomulag við fulltrúa Bandaríkjastjórnar og umboðsmann hennar á flugvellinum um, að ábyrgur fulltrúi Bandaríkjastjórnar eða umboðsmannsins láti hlutaðeigandi íslenzkum yfirvöldum í té nákvæma skrá yfir allar innfluttar vörur og gefi jafnframt yfirlýsingu um, að allar þessar vörur séu nauðsynlegar til rekstrar flugvallarins, eins og ákvæði samningsins segja til um, enda fylgist íslenzkir tollgæzlumenn með venjulegum hætti með því, að það, sem raunverulega er flutt inn, sé í samræmi við það, sem upp er gefið.

Þetta fyrirkomulag á að tryggja það, að ekki sé farið í kringum ákvæði samningsins um vöruinnflutning, og ef tollyfirvöldin telja, að um óeðlilegan innflutning sé að ræða, ber þeim skylda til að hafa þegar í stað samráð við flugmálastjórnina og flugvallarn., sem tekur ákvarðanir þar að lútandi, áður en til afhendingar kemur. Með þessu geta íslenzk stjórnarvöld fylgzt og metið sjálfstætt, hvernig ákvæði 9. gr. samningsins skuli framkvæmd.

Flugvallarn. og umboðsmenn Bandaríkjastjórnar hafa rætt ýtarlega um ráðstafanir til að hindra óleyfilega sölu á tollfrjálsum vörum og meðferð erlendra peninga, og hefur n. gengið úr skugga um, að af hálfu fulltrúa Bandaríkjamanna er leitazt við að gera allt, sem unnt er, til þess að koma í veg fyrir svartan markað. Sérhverjum erlendum starfsmanni er tafarlaust vikið frá starfi, ef hann verður sannur að sök um brot á settum reglum í þessu efni. Ströng skömmtun er höfð á öllum munaðarvörum. Þá fær enginn starfsmaður greidd laun sín í erlendum gjaldeyri á Íslandi.

Í þessu sambandi má benda á, að vöruleifar frá tíð hersins eru seldar ríkisstj., sem síðan lætur ráðstafa þeim. Afhending til annarra innlendra aðila á þessum vöruleifum á sér ekki stað.

Bandaríkjastjórn hefur, samkv. heimild í flugvallarsamningnum, falið félaginu Iceland Airport Corporation afgreiðslu þeirra flugvéla, sem annast flugsamgöngur við herlið Bandaríkjanna í Þýzkalandi. Þessi rekstur er að öllu leyti skattfrjáls samkvæmt l. nr. 95 28. des. 1946. Félagið annast jafnframt afgreiðslu á flugvélum einkaflugfélaga, bæði í Evrópu og Ameríku, þar á meðal flugvélum flugfélagsins American Overseas Airlines, en það flugfélag hefur rétt til loftflutninga um Ísland samkv. milliríkjasamningi frá 20. jan. 1945 milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku.

Flugvallarn. leit svo á, og ríkisstj. var sömu skoðunar, að ef Bandaríkjastjórn eða umboðsmaður hennar hefði aðra starfsmenn á flugvellinum en þá, sem stæðu í sambandi við eftirlitið í Þýzkalandi, þyrfti að tryggja, að slíkur rekstur væri á engan hátt betur settur en rekstur annarra félaga, erlendra og innlendra, sem nú reka sams konar starfsemi í landinu. Aðalsjónarmið n. var, að slíkt félag yrði að vera háð sömu skyldum og kvöðum og önnur félög. Fulltrúar Bandaríkjanna hafa viðurkennt þessi sjónarmið í meginatriðum og hafa komið fram með ákveðnar tillögur um greiðslu tolla og gjalda af þessari starfsemi. Hins vegar hafa ekki ennþá verið teknar endanlegar ákvarðanir í þessu máli.

Eftir að íslenzka ríkið eignaðist flugvallarmannvirkin á Reykjanesi, runnu að sjálfsögðu allar tekjur vallarins til ríkissjóðs. Það er augljóst mál, að það er mikið hagsmunamál fyrir íslenzka ríkið, að umferð verði sem mest um flugvöllinn. Um gjöld til flugvallarins hafa verið settar ýtarlegar reglur frá 25. marz 1947, og eru gjöldin innheimt af flugvallarstjóra.

Samkv. flugvallarsamningnum frá 7. okt. 1946, 2. gr., skyldi samin skrá af íslenzkum og amerískum stjórnarvöldum yfir þau mannvirki á flugvellinum, sem vera skyldu eign íslenzka ríkisins.

Flugvallarn., sem vann að þessu með fulltrúum frá ameríska sendiráðinu og fulltrúum ameríska hersins, gekk hinn 5. apríl s. l. frá þessari skrá. Samkv. skránni eignast íslenzka ríkið allar fasteignir á Keflavíkurflugvellinum, en auk þess ýmislegan útbúnað tilheyrandi eignunum, svo sem þvottahús og efnalaug, eldhús með föstum vélum, símakerfi vallarins, nema skiptiborð og símatól, aflstöðvarkerfi með spennistöðvum og leiðslum, vatnsleiðslur og frárennsli og rafvaka (generatora), 47 að tölu. Jafnframt hefur Bandaríkjastjórn skuldbundið sig til að flytja ekki af vellinum hreyfanleg tæki og útbúnað, sem ekki var afhentur Íslandi til eignar, en nauðsynlegur er til rekstrar, meðan samningurinn er í gildi.

Íslenzka ríkisstj. hefur hins vegar leyft umboðsmanni Bandaríkjastjórnar, sem fyrst um sinn annast rekstur flugvallarins, afnot af fasteignum og öðrum eignum á vellinum, meðan samningurinn er í gildi. Er þetta bundið við fasteignir, sem nauðsynlegar eru til rekstrar vallarins. Loks lofar Bandaríkjastjórn að halda flugvellinum og fasteignunum við, meðan samningurinn er í gildi, og enn fremur að selja Íslandi þau radíótæki, sem ríkið kynni að vilja kaupa að samningstíma loknum, fyrir 25% kostnaðarverðs. Verður að telja þetta mjög hagstæða samninga fyrir Ísland.

Meðal annarra eigna, er ríkisstjórnin tók á móti við afhendingu Keflavíkurflugvallarins, voru allmargir olíu- og benzíngeymar. Eldsneyti það, er á geymunum var við afhendingu, var í eign Standard Oil félagsins, og tók Olíufélagið h/f við þeim birgðum.

Endanlega hefur ekki verið gengið frá skiptingu geymanna milli hinna ýmsu olíufélaga. Er nú unnið að því að koma frambúðarskipan á olíu- og benzínverzlun á Keflavíkurflugvellinum, en þess skal getið, að flugvélar, sem skifta við önnur félög en Olíufélagið h/f, fá afgreitt benzín frá hinum olíufélögunum.

Strax eftir að flugvallarn. tók til starfa, gerði hún samkomulag við sölunefnd setuliðseigna um að sjá um niðurrif og sölu þeirra fasteigna á flugvellinum, sem afhentar höfðu verið Íslandi og ekki eru nauðsynlegar til rekstrar hans. Sölunefndin hefur rifið allmikið af skálum á vellinum og komið þeim í verðmæti. Mun láta nærri, að n. hafi selt fyrir ca. 700 þús. kr., en verja verður nokkurri upphæð til lagfæringar á landinu.

Þegar umræður fóru fram um flugvallarsamninginn, var ráð fyrir því gert, að Bandaríkjastjórn annaðist á sinn kostnað viðhald á flugvellinum og reisti þar einnig á sinn kostnað nauðsynlegar byggingar fyrir starfslið vallarins og fyrir ferðamenn, er um hann færu, sbr. 4. og 11. gr. samningsins og nái. meiri hl. utanrmn. Þar segir, að Bandaríkjastjórn eigi að standa straum af miklum kostnaði í sambandi við rekstur flugvallarins, og þykir því ekki ástæða til að leggja tolla og skatta á þann kostnað þeirra, einkum þar sem öll óhreyfanleg verðmæti, sem Bandaríkjastjórn gerir á sinn kostnað á vellinum, eigi að verða eign íslenzka ríkisins að samningstíma liðnum.

Gagnrýni hefur komið fram um léleg húsakynni á vellinum, sérstaklega í íslenzkum blöðum og enn fremur af hálfu útlendinga, sem farið hafa um völlinn. Var þess vegna unnið að því af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, að sem allra fyrst yrðu gerðar ráðstafanir til að bæta afgreiðslu og aðbúnað á vellinum, og tók flugvallarn. þetta til athugunar skömmu eftir að hún tók til starfa.

Í byrjun maímánaðar, eða aðeins einum mánuði eftir að herinn yfirgaf flugvöllinn, samþykkti ríkisstj. byggingu á bráðabirgðaflugstöð á vellinum. Hafði n. ásamt sérfræðingum flugmálastjórnarinnar athugað uppdrætti, sem Bandaríkjastjórn hafði lagt fram í því skyni, og voru gerðar á þeim nokkrar breytingar. Var einróma lagt til af hálfu allra aðila, er um málið fjölluðu, þar á meðal skipulagsstjóra, að uppdrættirnir yrðu samþykktir af ríkisstj., enda bar brýna nauðsyn til að bæta afgreiðsluskilyrði á vellinum, þar sem sýnt var, að byggingar varanlegrar aðalflugstöðvar mundu ekki fullgerðar á þessu ári. Var samþykkið bundið því skilyrði, að húsið yrði notað í þessum tilgangi til eins árs.

Um sama leyti fékk ríkisstj. í hendur uppdrætti að varanlegum mannvirkjum á flugvellinum. Voru uppdrættir þessir þegar teknir til athugunar af flugvallarn. — Einnig var skipulagsstjóra falið af hálfu ríkisstj. að aðstoða n. í þessu efni. — Eftir mjög rækilegar athuganir og eftir að hinum upphaflegu uppdráttum hafði verulega verið breytt í samræmi við kröfur íslenzkra stjórnarvalda, voru uppdrættir samþykktir að fullkominni flugstöð með nauðsynlegum hótelherbergjum og öðrum þeim breytingum. sem brýnust þörf er á.

Byggingarframkvæmdum á flugvellinum miðar nú óðum áfram. Bráðabirgðaafgreiðslustöðin er næstum fullbúin, og mun hún bæta verulega öll afgreiðsluskilyrði á flugvellinum frá því, sem nú er. Bygging aðalflugstöðvar er hafin. Enn fremur er hafin bygging á húsi fyrir matarforða, þvottahús. brauðgerð o. s. frv. Hefur skipulagsstjórn og flugvallastjóra ríkisins verið falið að hafa umsjón með öllum byggingarframkvæmdum á vellinum og eftirlit með því, að byggt sé samkv. því samkomulagi, sem þegar hefur verið gert. Er öll samvinna um byggingarnar hin ákjósanlegasta.

Samkv. 6. gr. flugvallarsamningsins er ráð fyrir því gert, að umboðsmaður Bandaríkjastjórnar þjálfi íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarrekstrar, svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins, og er gert ráð fyrir því, að þeir, sem starfa samkv. 6. gr., séu í þjónustu Bandaríkjanna og taki laun af þeim.

Hins vegar leiðir það af eðli málsins, sbr. einkum 5. gr. samningsins, að Íslendingum er heimilt að hafa hverja þá starfsemi á vellinum, sem þeir kjósa og ekki hindra þau takmörkuðu réttindi, sem Bandaríkjamönnum eru veitt í 4. gr. En ekki hefur verið gert ráð fyrir, að Bandaríkin beri kostnað af þeim mannvirkjum eða þeirri starfrækslu, sem Íslendingar halda þar uppi sín vegna, sbr. einnig 8. gr. samningsins.

Þegar í upphafi lagði n. áherzlu á að koma sem flestum Íslendingum að við vinnu á flugvellinum. Var haft fyrir augum, að kostnaður félli ekki á ríkissjóð í því sambandi, en hins vegar reynt að koma mönnum í sem flestar starfsgreinar og að Ameríkumenn greiddu kaup þeirra. 15. júní s. l. voru starfandi á flugvellinum 96 Íslendingar í þjónustu Iceland Airport Corporation. Af þeim störfuðu 19 að tekniskri flugþjónustu. 57 unnu í eldhúsum, þvottahúsum og á hótelinu, en 20 að venjulegum verkamannastörfum.

Samkv. upplýsingum frá flugvallastjóra ríkisins munu nú alls starfa í þjónustu Iceland Airport Corporation 79 Íslendingar. Ástæðan til, að þeim hefur fækkað, er m. a. sú, að allmargir þeirra, sem fyrst réðust til vallarins, reyndust illa, hurfu frá vinnu fyrirvaralaust og létu ekki sjá sig meir. Flugvallastjóri ríkisins aðstoðar nú félagið við ráðningu fleiri Íslendinga, en fram til þessa hefur félaginu veitzt örðugt að ráða Íslendinga til starfa vegna hinnar miklu atvinnu, sem undanfarið hefur verið í Reykjavík og annars staðar.

Þess skal getið, að flugvallarn. fór á sínum tíma fram á það við félagið, að Íslendingar yrðu látnir gegna störfum í flugturni vallarins á kostnað Bandaríkjamanna. Var tekið vel í þetta mál, en þá voru ekki kunnáttumenn fyrir hendi. Þar sem nú er hægt að fá íslenzka kunnáttumenn, hefur málið verið tekið upp á ný. Um hitt þarf ekki að leita samkomulags, ef Íslendingar vilja setja menn í flugturninn á sinn kostnað. Það geta íslenzk stjórnarvöld gert, hvenær sem þeim lízt.

Þegar sýnt þótti, að samdráttur yrði á byggingarframkvæmdum í Rvík, hóf n. og flugvallastjóri ríkisins viðræður við fulltrúa Bandaríkjastjórnar og fulltrúa hins ameríska byggingarfélags, er vinnur að mannvirkjagerð á vellinum, um, að félagið tæki eins marga íslenzka verkamenn til að vinna að byggingarframkvæmdum á flugvellinum og frekast væri unnt.

Forsaga þessa máls er sú, að í aprílmánuði s. l. tjáði sendiráð Bandaríkjanna ríkisstj., að gert væri ráð fyrir, að byggingarfélagið Metcalfe-Hamilton — Cansas City Bridge Company þyrfti á 484 verkamönnum að halda við byggingu húsa á flugvellinum, sem hefjast ætti á sumrinu. Þar eð þá fór í hönd mesti annatími í atvinnulífi Íslendinga, taldi ríkisstj., að ekki væri unnt að beina vinnuaflinu inn á þá braut að svo stöddu, en réttur áskilinn til þess að koma verkamönnum á flugvöllinn á hentugri tíma. Með því að framkvæmdum á flugvellinum varð eigi frestað, var Bandaríkjastjórn leyft að flytja inn verkamenn til að vinna að þessum framkvæmdum, og munu nú vera á flugvellinum um 380 amerískir verkamenn. Þessir menn vinna. eingöngu að nýbyggingum á vellinum, og ber þess vegna ekki að telja þá meðal hins venjulega starfsliðs, sem þarf til að reka völlinn.

Tillögum íslenzkra stjórnarvalda um verkamenn á flugvöllinn hefur verið mjög vel tekið af fulltrúum Bandaríkjastjórnar. Hafa þegar verið ráðnir 25 smiðir til vinnu á vellinum auk annars verkafólks, eða samtals um 57 menn, og mun tala þeirra tvöfaldast innan skamms. Þeir fá kaup í samræmi við íslenzka kjarasamninga. Þá fá þeir fæði, húsnæði, rúmföt og aðra aðhlynningu fyrir kr. 68 á viku. Er nú mikil eftirspurn eftir vinnu á vellinum af hálfu Íslendinga, og er óhætt að gera ráð fyrir, að góð samvinna verði um lausn þessa máls við fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Er talið víst, að strax upp úr næstu áramótum verði hægt að ráða miklu fleiri Íslendinga til vinnu.

Þá hafa Bandaríkjamenn óskað eftir, að Íslendingar tækju við veðurstofu flugvallarins að eins miklu leyti og unnt er. Var óskað eftir 12–14 starfsmönnum í þessu skyni. Samkv. upplýsingum veðurstofunnar mun skortur á kunnáttumönnum gera það að verkum, að ekki verður unnt fyrst um sinn að verða við þessari ósk.

Undanfarið hefur verið unnið ötullega af hálfu flugvallastjóra ríkisins í samvinnu við flugvallarn. að því að koma sem flestum Íslendingum að tæknilegum störfum á flugvellinum, og verður því starfi haldið áfram. Eru allar horfur á því, að Íslendingum fari fjölgandi í þessum starfsgreinum, en ameríkumönnum fækkandi.

Í þessu sambandi er rétt að benda á það, að í umr. um flugvallarsamninginn á Alþ. kom fram, að Bandaríkjamenn teldu nauðsynlegt að hafa um 600 manna starfslið til rekstrar flugvallarins. Nú mun erlent starfslið vallarins vera 603 menn samtals.

Á ráðstefnunni í Dublin í marzmánuði 1946 var m. a. ákveðið að leggja til, að Ísland hefði á hendi flugumferðastjórn á tilteknu svæði kringum Ísland. Var einnig óskað eftir sérstakri veðurþjónustu af hálfu Íslands vegna flugferða um Norður-Atlantshaf. Tillögur þessar voru síðan samþykktar í stjórnarnefnd alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Á Dublin-ráðstefnunni lagði íslenzka sendinefndin fram röstutt álit þess efnis, að Ísland sæi sér ekki fært að standa sjálft straum af kostnaði við þá þjónustu og stöðvar, sem mælt var með í samþykktum ráðstefnunnar, og áskildi sér rétt til alþjóðlegrar kostnaðarþátttöku fyrir milligöngu alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Hinn 1. nóv. 1946 tók flugmálastjórnin að sér alla flugumferðastjórn á hinu tiltekna gæzlusvæði í samræmi við ákvarðanir Dublin-ráðstefnunnar og alþjóðaflugmálastofnunarinnar, enda komu þessar ákvarðanir þá einnig til framkvæmda á öðrum gæzlusvæðum á Norður-Atlantshafi. Árlegur rekstrarkostnaður Íslands við umrædda flugþjónustu mun verða um 4 millj. kr. Þessi mál hafa verið ýtarlega rædd í flugvallarn., og tryggði n. sér aðstoð Bandaríkjanna til að fá þennan kostnað endurgreiddan af alþjóðaflugmálastofnuninni.

Meðan her Bandaríkjamanna réð yfir Keflavíkurflugvellinum, rak hann þar fjarskiptastöðvar, sem nauðsynlegar voru við rekstur vallarins. Fjarskiptastöðin í stjórnturni flugvallarins hlýtur að fylgja turnþjónustunni. sem ennþá er í höndum Bandaríkjamanna. Um aðalfjarskiptastöð vallarins, sem hefur sambönd við bækistöðvar Bandaríkjamanna vestan hafs og austan, skal þetta tekið fram:

Á s. l. vetri skýrði fulltrúi Bandaríkjastjórnar póst- og símamálastjórninni frá því, að þeim væri óhjákvæmileg nauðsyn að nota þessa stöð til þess að endurvarpa milli bækistöðva þeirra herstjórnarskeytum og sérstökum veðurfréttum vegna flugs hernaðarflugvélanna, sem um ræðir í flugvallarsamningnum. Aðrar sambandsleiðir milli nefndra stöðva töldu þeir hafa of miklar tafir í för með sér.

Ríkisstj. hefur þess vegna samkv. 4. gr. samningsins og 1. gr. l. nr. 95 frá 1946 fallizt á að leyfa Bandaríkjastjórn að reka þessa fjarskiptastöð fyrir skeyti sérstaks eðlis með vissum takmörkunum og undir eftirliti landssímans.

Auk framangreindra mála hafa fjöldamörg smærri mál komið til kasta flugvallarn., sem hún hefur leyst, ýmist á eigin hönd eða í vinsamlegu samstarfi við fulltrúa Bandaríkjastjórnar, eins og fundargerðir n. bera með sér.

Samkv. framangreindri skýrslu er það ljóst, að myndazt hafa reglur um flestöll þau atriði, er varða flugvöllinn og rekstur hans, en hins vegar hefur ekki þótt tímabært vegna takmarkaðrar reynslu Íslendinga um rekstur slíkra flugvalla að setja strax reglugerð um reksturinn, eins og ráð er þó fyrir gert í 7. gr. flugvallarsamningsins.

Í tilefni af grein í „Þjóðviljanum“ hinn 5. þ. m. um „framkvæmd herstöðvasamningsins“ vill flugvallarn. aðeins taka fram, að þær „áætlanir um rekstrarfyrirkomulag á Keflavíkurflugvellinum“, sem um ræðir í blaðinu, voru samdar af flugmálastjóra, og lagði hann þær fyrir n. sem umræðugrundvöll, en n. hefur ekki tekið afstöðu til þeirra í heild. Meginþorra þeirra atriða, sem í þessum „áætlunum“ greinir, hefur þó, eins og að framan getur, verið ráðið til lykta. Aftur á móti hefur ekki verið talið fært vegna stórkostlegra útgjalda ríkissjóðs og skorts hæfra manna að taka að sér að svo komnu máli aðra þætti flugvallarrekstrarins en þá, sem hér hafa verið taldir.

Reykjavík, 13. okt. 1947.

Gunnl. Pétursson, Gunnl. E. Briem, G. Briem, E. Ellingsen.“

Menn sjá nú, að þessi skýrsla gefur töluvert aðra mynd af þessu máli en hv. þm. Siglf. og Þjóðviljinn hafa viljað vera láta. Menn kunna þá að spyrja að því, hvernig á því standi, að flugvallarn. hafi látið fara frá sér það plagg, sem bæði Þjóðviljinn hefur birt glefsur úr og prentað er sem fskj. í þáltill. hv. þm. Siglf. sem álit flugvallarn. Ég get ekkert sagt um. hvernig á þessu stendur, en hitt veit ég, að flugmálastjóra ofbauð svo, þegar hann sá Þjóðviljann 5. okt. s. l. með þeim tætingi og rangfærslum, sem þar voru birtar úr trúnaðarskjölum, að hann tók sig til og skrifaði utanrrn. svo hljóðandi bréf:

„Í tilefni af grein þeirri, er birtist í „Þjóðviljanum“ hinn 5. þ. m. og nefnist „Framkvæmd herstöðvasamningsins“, skal því hér með lýst yfir, að þar nefnd skjöl flugvallarn. eru ekki komin í hendur greinarhöfundar fyrir minn tilverknað, og er mér algerlega ókunnugt um, hvernig eða hvar hann hefur fengið áðurgreind skjöl eða aðrar upplýsingar um málefni Keflavíkurflugvallarins.

Reykjavík, 6. október 1947

Erling Ellingsen.“

Flugmálastjóri sá sig þannig sóma síns vegna til neyddan án kvaðningar frá utanrrn. að tilkynna því, að hann ætti engan þátt í þeim ósóma og rangfærslum, sem birzt höfðu í Þjóðviljanum daginn áður, og er þetta ærinn dómur yfir þeim fleipurmönnum, sem þarna hafa verið að verki. — Um það athæfi, sem Þjóðviljinn hefur gerzt sekur um og hv. þm. Siglf. veitir nú atbeina sinn til undir þinghelginni, sem sé að taka skjal úr plöggum n., sem einn nm. hefur skrifað sem sínar till., og gefa þær síðan út sem till. n. í heild, þótt vitað væri, að n. í heild vildi ekki fallast á þessar till. eins og þær lágu fyrir, þarf ekki að fara mörgum orðum. Ég held, að það séu engar ýkjur, þótt slíkur verknaður væri kenndur við skjalafals. Hins vegar sé ég sem dómsmrh. ekki ástæðu til — þótt til þess væri að vísu full ástæða — að láta hefjast handa út af þessu, en er beinlínis glaður yfir að fá tilefni til að gera alþjóð grein fyrir þessu máli. Það liggur skýrt og ljóst fyrir, og í því er ekkert að dylja, heldur hefur ríkisstj. sóma af því og þar af leiðandi áhuga fyrir, að sem mestar umræður verði um málið, en andstæðingarnir verða sér þar með starfsaðferðum sínum til sömu skammar eins og þeir verða hvarvetna annars staðar, sem þeir koma fram. Það er beinlínis ávinningur fyrir ríkisstj., að öll plögg séu lögð á borðið, og málstaður þeirra manna, sem þurfa á því að halda að ræna skjölum og birta síðan undir röngu nafni, minnir óneitanlega á tiltekinn mann, sem einu sinni var í ráðherrasessi og lét senda niður í skrifborð eða skjalasafn samstarfsmanns síns og stela plöggum og leggja fram á Alþ. sem sínar till.

Hv. þm. Siglf. gerði mjög mikið úr því, að það væru fleiri menn á Keflavíkurflugvellinum en um hefði verið talað á sínum tíma. Nú er það sannað í þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir, að talan 600 til starfrækslu flugvallarins er nákvæmlega sú sama og fyrrv. utanrrh. gerði grein fyrir hér á Alþ., að þurfa mundi til rekstrar vallarins. Þarna bætast við nokkur hundruð verkamenn, sem sérstaklega hefur verið samið um, vegna þess eins, að ekki var hægt á þeim tíma að leggja til íslenzka verkamenn til þeirra nauðsynlegu framkvæmda, sem þarna þurfti að gera og vissulega eru ekki síður gerðar til hags fyrir okkur Íslendinga en fyrir Bandaríkjamenn, eins og ég mun víkja nánar að, áður en ég lýk máli mínu. Hv. þm. Siglf. hefur það eftir einhverjum sérfræðingum síns flokks í flugmálum, að hægt mundi vera að anna þeim störfum á flugvellinum, sem stæðu í sambandi við hernám Þýzkalands, með 50 mönnum. Það lá fyrir í gögnum í fyrra, þegar mál þetta var hér rætt, að til þess að halda vellinum við eða halda uppi einhverri bráðabirgða starfrækslu á honum, án þess að um fullkominn flugvöll væri að ræða, þyrfti a. m. k. um 50 menn. Sannleikurinn er sá, svo sem allir gera sér ljóst, ef þeir hugleiða það, að svo stóran völl sem Keflavíkurflugvöllinn verður að starfrækja eða hafa í lagi nær án tillits til þess, hversu margar vélar koma þar dag hvern. Aðalatriðið er, að völlurinn verður að vera í lagi og öll starfræksla hans verður að vera trygg, þegar á vellinum þarf að halda. Bandaríkjamenn fóru ekki leynt með það í fyrra, að til þess að halda vellinum í lagi þyrfti um 600 manns, og þeirri tölu treystu íslenzk stjórnarvöld sér þá ekki til að hnekkja, og málrófsmenn í andstöðufl., sem ekki hafa látið undir höfuð leggjast að skrafa mikið um þetta mál, hafa aldrei getað sýnt fram á, að í of hafi verið lagt um þá tölu, enda er sannleikurinn sá, að þessi tala er sízt of há, miðað við þann gífurlega fjölda starfsmanna, sem hafður er á stórum flugvöllum í öðrum löndum. Vita þó allir þeir, sem einhvern tíma hafa ferðazt með flugvélum um Keflavíkurflugvöllinn, að hann er með stærstu flugvöllum, og einmitt stærð hans gerir það að verkum, hversu mikla þýðingu hann hefur fyrir flugferðir um norðanvert Atlantshaf. Ástæðan til þess, að við margir hverjir samþykktum samninginn við Bandaríkin í fyrra, var ekki eingöngu sú, að við töldum okkur þetta meinfangalausa greiðasemi við vinveitta þjóð, heldur hitt, að við sáum, að það yrði okkur gersamlega ofraun að viðhalda þessum stóra velli á eigin kostnað, og töldum við það þjóðarsmán, ef slíkur völlur yrði ekki starfræktur áfram, úr því að hann væri á annað borð fyrir hendi. Kom þetta m. a. greinilega fram á nál. meiri hl. utanrmn. í fyrra og var þá rækilega tekið fram í umr. Og þótt ekki sé sérstaklega mikil umferð um Keflavíkurvöllinn af herflugvélum til Þýzkalands, þarf engu að síður að halda flugvellinum í fullkomnu lagi, til þess að hann geti gegnt hlutverki sínu, sem ekki síður er til ómetanlegs gagns fyrir Íslendinga sjálfa en alla þá, sem ferðast yfir norðanvert Atlantshafið. Þessari starfrækslu verður einmitt að halda í sama horfinu, þótt umferðin um flugvöllinn til Þýzkalands sé ekki meiri en hv. þm. Siglf. vildi vera láta, en ég hef ekki fyrirliggjandi fullkomin gögn yfir til að fullyrða, hversu mikil er. — Varðandi tollgreiðslur, sem Bandaríkjamenn, er starfa við flugvöllinn, eiga að inna af hendi, er það ljóst, að þeir eru tollfrjálsir um vöruflutninga samkv. samningnum, meðan þeir fara ekki fram úr þeim fjölda starfsmanna, sem sérfræðingar töldu nauðsynlegan til þess að reka flugvöllinn á sómasamlegan hátt. Ef við getum fært rökstudda grg. fyrir því, að sá fjöldi sé óhæfilega mikill — en það hefur enn ekki verið hægt —, væri hægt að leggja tolla á þá menn, sem sannanlega færu fram úr þeirri tölu, sem hæfileg væri. Einnig væri hægt að banna þeim hér yfirleitt landvistarleyfi, ef menn svo kysu, en af því að þessir menn eru þarna til að halda vellinum við sem eins konar varastöð fyrir allar flugferðir yfir Norður-Atlantshaf, en sú varastöð er Bandaríkjunum sérstaklega nauðsynleg vegna þess sambands, sem þau verða að halda uppi við Þýzkaland, meðan það er hersetið, þá er hér erfiðara að greina á milli, hvaða tolla þeir eigi að greiða og hverja ekki, heldur en hv. þm. Siglf. vildi vera láta. Það er að vísu rétt, að hægt væri fyrir ríkisstj. að setja um þetta einhverjar reglur, og hefðu tollayfirvöldin með samráði við ríkisstj. slíkt í hendi sér, hvenær sem væri. Við verðum aðeins að gæta þess að brjóta ekki þann samning, sem löglega hefur verið gerður, og áður en endanlega yrði gengið frá þessum málum, hefði ríkisstj. talið eðlilegt og sjálfsagt að athuga, hvernig þessari starfrækslu er raunverulega háttað, sem sé hvað það er, sem þarna fer um af flugvélum, sem ekki sé hægt að segja, að sérákvæði samningsins taki til. Fyrr en þetta liggur fyrir, er mjög erfitt að setja reglur eða taka þær ákvarðanir, sem hér um ræðir, en eins og ég gat um áðan, liggur það ljóst fyrir, að meginhluti þess bandaríska starfsliðs, sem dvelur á flugvellinum, nýtur óhjákvæmilega þeirra hlunninda, sem flugvallarsamningurinn ákveður. — Ég mun ekki ræða þetta mál ýtarlega hér, vegna þess að það er enn á athugunar- og samningsstigi, og verður þess auðvitað gætt að halda þar til hins ýtrasta á rétti Íslands.

Hv. þm. Siglf. talaði mikið um það, að vanrækt hefði verið að gera reglugerð þá. sem ráð sé fyrir gert í 7. gr. flugvallarsamningsins. Vil ég í þessu sambandi benda á þær skýringar, sem flugvallarn. í niðurlagi skýrslu sinnar gefur á því, að þessi reglugerð hafi ekki enn verið gerð, nefnilega að n. hafi með samþykki ríkisstj. talið eðlilegt að fá nokkra reynslu á þessum málum, áður en reglugerð yrði sett. Þar að auki vil ég benda á það, sem segir í upphafi sömu skýrslu, með leyfi hæstv. forseta: „Hlutverk flugvallarstjórans var fyrst og fremst það að hafa á hendi yfirstjórn flugvallarins og undirbúa í samráði við flugvallarn. og flugvallarstjórn reglur um reksturinn.“ — Hinn góði flugvallarstjóri, sem hv. þm. Siglf. skipaði fyrir réttu ári og starfaði fram á mitt sumar og réðst í ýmsar miður heppilegar framkvæmdir, er hafa haft ærinn kostnað í för með sér fyrir íslenzka ríkið, en samkv. skýrslu n. hafði sem aðalhlutverk að semja tillögur að þessari reglugerð, hefur aldrei látið ríkisstj. neitt frá sér heyra um hana. Ef því um einhverja vanrækslu er að ræða, þá liggur hún fyrst og fremst hjá þeim góða manni, sem hv. þm. Siglf. skipaði sjálfur, en nú hefur verið létt störfum af, og sannleikurinn er sá, að það breytti mjög til hins betra um ýmiss konar undirbúning í þessum málum, þegar þessu fylgifé hv. þm. Siglf. hafði verið létt af ríkissjóði. Ég skal að vísu játa, að maðurinn er ekki sérstaklega áfellisverður fyrir það að hafa ekki samið þessa reglugerð, vegna þess að á þessi mál þurfti að fá einhverja reynslu, áður en hægt væri að semja um þau reglugerð af fullkomnu viti. Það situr því sízt á þeim mönnum, sem bera ábyrgðina og létu undir höfuð leggjast að sjá um að semja þessa reglugerð, að standa hér upp og ásaka aðra fyrir þeirra eigin athafnaleysi.

Ég skal svo aðeins geta þess, að þær reglur, sem ráð er fyrir gert samkv. 7. gr. flugvallarsamningsins, eiga auðvitað að miklu leyti við það, ef Íslendingar sjálfir halda uppi verulegri starfrækslu á vellinum, en nú hefur sjálfstæð starfræksla Íslendinga á vellinum ekki verið ýkja mikil, vegna þess að okkur hefur að miklu leyti nægt Reykjavíkurflugvöllurinn, og þess vegna hefur þessi reglugerðarsetning orðið síður aðkallandi en ella. Hitt er svo fjarri sanni, að það sé af hlífð við Bandaríkjamenn, að þessar reglur hafa ekki verið settar. Sannleikurinn er þvert á móti sá, að hvað eftir annað hefur verið talfært við mig, hvort ekki væri rétt að setja þessar reglur og ljúka þeim sem allra fyrst. Það er í ákvörðunarvaldi íslenzku stjórnarinnar að setja þær reglur, meðan þær eru ekki, og eins eftir að þær eru komnar, eru Íslendingar einráðir á vellinum um allt, sem þeir vilja ráða, einungis þannig, að þeir mega ekki brjóta móti sjálfum samningnum, sem fær Bandríkjamönnum mjög takmörkuð réttindi, eins og ég hef oft bent á. En reglurnar verða sízt til að auka rétt okkar Íslendinga. Þær tiltaka aðeins um þann íslenzka rétt, sem er daglega beitt á þessum velli, sem að öllu leyti er undir okkar yfirstjórn og umsjá.

Það er gefið í skyn í þeirri till., sem hér liggur fyrir, að Bandaríkjamenn hafi sérstakt lögreglulið á Keflavíkurflugvelli, og hv. þm. Siglf. lét svo, að þessir menn á Keflavíkurflugvelli hefðu nærri því eða alveg sama rétt og sendiherrar. Þetta er hin mesta fjarstæða. Það hafa fleiri en einn og fleiri en tveir af þessum Bandaríkjamönnum á vellinum verið dregnir fyrir lög og dóm af íslenzkum dómstólum fyrir brot á íslenzkum lögum. Íslenzk lögregla er á vellinum og íslenzkir tollmenn, sem hafa aðstöðu til að skoða — og eiga að skoða samkv. fyrirmælum frá ríkisstj. — allt, sem látið er á land og til vallarins kemur. Og svo langt hefur verið gengið til þess að sjá um, að löggæzla á vellinum fari vel úr hendi, að sérstakur lögfræðingur er þar með dómaravaldi til þess að fylgjast með af hálfu dóms- og löggæzluvaldsins í landinu. Hitt er auðvitað þessu gersamlega óskylt mál, þó að Bandaríkjamenn hafi einhverja umsjónarmenn með sínum mönnum þarna suður frá. Það er alveg tilsvarandi því, að verkstjórar eru hafðir og aðrir slíkir til þess að gæta þess, að vinna sé skaplega innt af höndum. Auk þess er beinlínis eðlilegt, að Bandaríkjamenn hafi umsjónarmenn til þess að gá að því, að þeirra menn, sem þarna eru samkv. sérstökum milliríkjasamningi, brjóti hvergi í bága við þann samning. Þessir menn hafa ekkert vald á íslenzkri grund og eru hér sem hverjir aðrir borgaralegir menn, sem lúta í einu og öllu íslenzkum lögum.

Það er líka algerlega rangt, sem einhvers staðar hefur verið sagt, að Bandaríkjamenn hafi sérstakan löggæzlumann þar. Þeir einu löggæzlumenn, sem þar eru, eru íslenzkir löggæzlumenn. Ástæðan til þess, að þarna er stundum Bandaríkjamaður við hliðina á þeim íslenzka, er sú, að hann skal fylgjast með ferðum Bandaríkjamanna sjálfra til þess að sjá um, að þeir fari ekki í heimildarleysi frá sinni vinnu, komi heim á tilskildum tíma og þess háttar, og getur ekki á nokkurn hátt talizt þeim til áfellis, heldur þvert á móti.

Í skýrslu flugvallarn. er ýtarlega gert grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til þess að koma íslenzkum mönnum inn í starfrækslu á flugvellinum. Hv. þm. sagði, að þeir Íslendingar, sem á vellinum hafa verið, hafi horfið þaðan af því, að þeir hafi ekki unað þeirri niðurlægingu, sem þar hafi verið við að búa. Það er eftirtektarvert í þessu sambandi, að mjög hefur fjölgað þarna starfsmönnum upp á síðkastið, og nú er mjög sótt eftir vinnu þarna af Íslendinga hálfu. Skyldi það ekki ef til vill standa að einhverju leyti í sambandi við það, að orðið hafa stjórnendaskipti á vellinum, að sá framkvæmdastjóri, sem hv. þm. Siglf. skipaði og flestum góðum Íslendingum, sem um völlinn fóru, var sönn raun að horfa upp á, er nú horfinn af vellinum, og nú eru teknir við miklu betri stjórnendur. Það mun gera það að verkum, að viðhorf þessara mála er nú allt annað en áður var, meðan enn voru þar drefjar af óstjórn og sukki hv. þm. Siglf. Það er líka eftirtektarvert, að eftir að þessi flugvallarstjóri hv. þm. Siglf. hvarf úr sögunni, er fyrst farið af nokkurri alvöru að vinna að því, að Íslendingar séu þarna ráðnir til starfa. Hann virtist ekki hafa á því áhuga eða skilning, þó að hv. þm. Siglf. láti af því, að mjög mikilsvert sé. Hitt, sem hv. þm. Siglf. talaði um, að Íslendingar ættu að hafa þarna með höndum ýmsa starfrækslu á kostnað Ameríkumanna — ja, ég vil nú segja, að slíkan grímuleik vil ég ekki fella mig við og teldi slíkt Íslendingum sízt til sóma. Íslendingar eiga, eins og gert er ráð fyrir með settum flugvallarsamningi, annars vegar að koma mönnum inn í þjónustu Bandaríkjamanna til þess að læra af þeim og kappkosta, að það verði sem flestir, til þess að við fáum sem fyrst hæfa menn. Hins vegar eiga þeir, eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg og fjárhagsgeta okkar leyfir, að taka sjálfir heila flokka starfrækslu í okkar hendur og reka þá sjálfir á okkar kostnað. Hitt verð ég að segja að er einhver fyrirlitlegasta leppmennska, sem ég hef heyrt getið um, þegar hv. þm. Siglf. heimtar, að einhver starfræksla þarna verði kölluð íslenzk, en kostuð af Ameríkumönnum. Það er sams konar sjálfstæði og þessi hv. þm. er þekktur að því að vilja innleiða í fleiri málum, að láta líta út sem um sjálfstæði sé að ræða, en dansa eftir línu, sem kemur einhvers staðar utan úr heimi.

Ég hef nú rakið þau atriði, eftir því sem ástæða er til, sem fram komu í ræðu hv. þm. Siglf. En til dæmis um málflutning hans í heild vil ég aðeins geta þess, að hv. þm. vill láta líta út sem sérstaklega tortryggilegt, að Bandaríkin hafa reist vönduð hús suður á Keflavíkurflugvelli. Sannleikurinn er nú sá, að þegar uppdráttur kom fyrst að þeim byggingum til íslenzkra stjórnarvalda, sem Bandaríkjamenn ráðgera og eru að koma upp suður þar, var fyrirhugað að hafa þessi hús að meira eða minna leyti úr bráðabirgðaefni. Íslenzk stjórnarvöld vildu hins vegar ekki sætta sig við það, með því að okkur væri betra að eignast hús úr varanlegu efni, hvenær sem samningurinn félli niður. Og skattfrelsi og tollfrelsi, sem Bandaríkjamönnum var veitt þar syðra, var rökstutt meðal annars með því í nál. meiri hl. utanrmn., að Bandaríkjamenn greiddu svo mikið endurgjald í mannvirkjum þeim, sem þarna ætti að reisa, svo að það hefur alltaf verið ráðgert af Íslendinga hálfu, að mannvirkin yrðu varanleg, yrðu góð eign Íslendinga. Var það beinlínis eftir kröfu íslenzku stj., að ráðstafanir voru gerðar til þess, að þau yrðu byggð úr betra efni og á öruggari hátt en fyrst var ætlað. Að vísu er rétt, að sum þessi mannvirki eru sett öðruvísi niður en sumir menn íslenzkir, sem á þetta litu, hefðu talið æskilegt með okkar einkahagsmuni fyrir augum. Bandaríkjamenn höfðu hins vegar enga heimild til að byrja á þessum byggingum fyrr en íslenzk stjórnarvöld höfðu samþ., að þau yrðu reist á þeim stöðum, sem gert var. Og íslenzka stj. féllst ekki á að samþykkja, að reist yrðu mannvirki á þann hátt, sem gert var, fyrr en hún hafði fengið till. frá sínum trúnaðarmönnum. En þeir sögðu í bréfi, dags. 13. júní 1947. með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt vér teljum, eins og að framan segir, að Camp Massey sé mjög óheppilega valinn staður til frambúðar fyrir íbúðarhverfi, leggjum vér til við hið háa ráðuneyti, með tilliti til þess, hvernig málum er komið, að fallizt verði á byggingu íbúðarhúsa í Camp Massey, samkvæmt tillögum U. S., fyrir þá fjárveitingu, er þeir hafa nú til umráða í þessu skyni.“

Þetta er undirritað af Herði Bjarnasyni, Agnari Kofoed-Hansen og Erling Ellingsen, einmitt þeim trúnaðarmanni, sem hv. þm. Siglf. setti æðstan til að gæta þessara mála af sinni hálfu, og hefur hann óskertan trúnað enn í dag, eftir því sem ég veit bezt. Þetta atriði eitt nægir til að sýna, af hvílíkum óheilindum þetta mál hefur verið flutt af hv. þm. Siglf.

Ég vil nú vænta þess, að þetta mál hljóti rækilegar umræður og athugun í n., til þess að allir hv. þm. eigi kost á að kanna sem bezt, hvílíka staðlausa stafi hv. þm. Siglf. hefur hér farið með.