17.10.1947
Sameinað þing: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3271)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af tveim atriðum, sem komu fram hjá hv. þm. Siglf. Að öðru leyti er ekki ástæða til að bæta við það, sem fram hefur komið í skýrslu, sem gefin hefur verið, og ræðu utanrrh. Þessum tveim atriðum mætti segja að mér bæri að svara.

Annað atriðið var það, hvort innheimt væru lendingargjöld af flugvélum, sem um Keflavíkurflugvöllinn fara og ekki koma undir samninginn. Þessu vil ég svara. Þetta gjald er innheimt. Innheimtan er komin í lag, og er, að því er ég bezt veit, ekki hægt að ásaka hina erlendu aðila um það, að hún var ekki alltaf í lagi, heldur er hér um ótrúlega vanrækslu að ræða af þeim, sem áttu að sjá um þessa innheimtu, og þá innheimtu átti hann að sjá um, flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvellinum, sem settur var af fyrirspyrjanda, meðan hann var ráðh. Það kvað svo rammt að þessu, að einn af hinum erlendu mönnum kom til mín og spurði mig, hvernig stæði á því, að þessi gjöld væru ekki innheimt. Ég kom alveg af fjöllum og taldi, að þetta mundi ganga alveg af sjálfu sér. Svo var gefin skipun um að koma þessu í lag, en á meðan hann var við þetta, maðurinn, sem hv. þm. Siglf. hafði skipað, var þetta enn í ólagi, en því hefur verið kippt í lag, síðan hann fór.

Hitt atriðið, sem ég mætti líka svara, var um olíudælurnar, sem stjórnin hefur líka tekið við í sambandi við framkvæmd samningsins. Um þessar dælur er það að segja, að stjórnin ræður yfir þeim, því að henni hafa verið afhentar þær, en Olíufélaginu h/f eru heimiluð afnot af þessum dælum til bráðabirgða, en það er verið að vinna að því að koma þessu máli í lag. Það er vandasamt að koma þessu í gott horf, vegna þess að það er aðeins ein leiðsla að öllum tönkunum, og það þarf að vinna að því, að öll félögin geti haft afgreiðslu þarna. Það er sem sé verið að vinna að frambúðarskipan þessara mála.

Ég vil taka það fram, að flugmálastjóri hefur yfirráð yfir þessum tönkum, en hann hefur látið Olíufélaginu h/f þá í té til bráðabirgða. Hvað verður ofan á um þessi mál, veit ég ekki, en það er verið að vinna, að því og ég vona, að það takist að fá heppilegt fyrirkomulag fyrir alla aðila, en það er víst, að þessum olíudælum ræður íslenzka flugmálastjórnin alveg yfir.

Þá er það eitt, sem ekki snertir mig, en félmrh., og það er það, að ekki séu komnir Íslendingar til starfa á Keflavíkurflugvelli, sem er þýðingarmikið mál. Afskipti mín eru þau, að ég átti tal um þetta við flugmálastjóra, að þarna yrðu látnir menn í samvinnu við utanrrn. og í skýrslunni, sem lesin hefur verið, er gerð grein fyrir því, hvaða hagnaður hefur orðið að sameiginlegum störfum flugmálastjóra og flugvallan. í þessu máli. Eftir að flugmálastjóri og flugráð hafði tekið við þessu, átti ég enn á ný tal við þessa aðila um það, hvað hægt væri að gera til þess að koma þessu í framkvæmd, og er mér kunnugt um, að eftir að flugvallastjóri og flugráð tók við, hefur komizt meiri skriður á málið, og er nú unnið að þessu af fullum krafti af flugvallastjóra og flugvallarn., eins og utanrrh. tók fram í ræðu sinni.

Ég skal að síðustu minnast á eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Siglf. Hann talaði um, að hægt væri að reka Keflavíkurflugvöllinn með 50 mönnum. Það er dálítið einkennilegt að heyra þetta, þegar vitað er, hvað margir menn eru á Reykjavíkurflugvellinum. Ég hef þó ekki talað við n. um þetta, en bráðlega mun verða hægt að gefa skýrslu um rekstur flugvallanna, og þá mun koma fram, hvað mikið þetta er út í bláinn, og einnig mun koma í ljós það, sem viðgengizt hefur undir stjórn hv. þm. Siglf. Út í það skal ég þó ekki fara í sambandi við þetta mál. Það kemur í ljós, þegar skýrslurnar liggja fyrir.