17.10.1947
Sameinað þing: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (3272)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. lauk ræðu sinni í gær með því að segja, að stjórninni þætti sómi að því, hvernig samningurinn hefði verið framkvæmdur. Fyrst stjórninni þykir sómi að slíkri smán, má segja. að mál sé til komið, að farið sé að ræða þessi mál á þingi, og það má segja, að þjóðin eigi rétt á að vita, hvað þessum málum líður, fyrst tilfinningar stjórnarinnar fyrir því, hvað sé rétt og hvað sé rangt, eru ekki meiri en kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. í gær.

Þegar Keflavíkursamningurinn var gerður og þegar l. um aðflutningsgjöld voru lögð fyrir fjhn. hélt ég því fram, að nú væri um að gera að setja ákveðin og greinileg lagaákvæði um hvert einasta atriði í samningnum, þar sem Bandaríkjamenn ættu að hafa réttindi samkv. honum hér á landi, til þess að íslenzkir embættismenn hefðu ákveðinn rétt að standa á gagnvart hinum útlendu mönnum. Ég barðist fyrir því í n., að í staðinn fyrir að afgreiða l. sem óákveðnust, afgreiddi þingið ákveðin l., en fjhn. felldi það. Þingið og þjóðin þurfti að vita frá upphafi, hvar vegir Íslendinga lágu, þannig að samin væru l. um það, hvað ekki þyrfti að líða í sambandi við Keflavíkurflugvöllinn. Ég hef heldur ekki komizt hjá því að heyra það frá mörgum embættismönnum, m. a. á fundum n., að þeir vildu gjarnan fá eitthvað ákveðið að halda sig að, og Alþ. á sök á því, að þeir hafa það ekki. Það er rétt að allir viti, hver ber ábyrgðina í þessu efni. Þegar samningurinn um Keflavíkurflugvöllinn var samþykktur í október s. l., var lofað að sett skyldu l. um þetta. Þegar l. um aðflutningsgjöld voru í undirbúningi, var lofað reglugerð,. en þegar búið var að setja l., var svikizt um það. Nú lýsti hæstv. utanrrh. því yfir, að það ætti ekki að setja reglugerð, það ætti að skapa reglugerð. Hvað þýðir það? Það er búið að svíkja það að setja l., síðan er búið að lofa reglugerð og það svikið, síðan eiga að skapast reglur. Við hvaða skilyrði eiga þessar reglur að skapast? Undir handarjaðrinum á erlendu stórveldi, sem beitir sérhagsmunaaðstöðu sinni. Þetta ástand er búið að vera í ár. Við þetta eiga að skapast reglur. Við yfirdrottnun stórveldis eiga að myndast venjur. Svona er farið að því að innleiða nýlendustjórn. Þetta er það, sem ég vildi vekja eftirtekt Alþ. á. Ef halda á uppi íslenzkum l., verðum við að vita, hvað eru l. og hverju á að framfylgja. Það vantaði ekki yfirlýsingarnar, þegar Keflavíkursamningurinn var samþykktur, um íslenzka dómgæzlu, íslenzk l. og íslenzka yfirdrottnun. En hvar eru framkvæmdirnar?

Ég býst við, að menn trúi því, að þeir menn, sem skipaðir hafa verið til þess að sjá um hag landsins á þessu sviði, hafi gert það. Og það hefur ekki vantað viljann hjá þeim til þess að vera á verði. Till., sem komið hafa fram frá þessum mönnum benda til þess, að þessum mönnum er í mun að framfylgja því, sem þeir álíta, að horfi til heilla fyrir Ísland. En skýrslan sýnir, hvernig þessir menn berjast í bökkum og hvernig þeir verða að ganga inn á samþykktir, sem eru móti þeirra vilja, og mun ég koma nánar að því.

Ég vil benda á það, að Alþ. gerði rangt í því að láta íslenzkum embættismönnum ekki í té ákveðin lagafyrirmæli til þess að fara eftir. Þegar svo íslenzkir embættismenn eru að semja við hina erlendu menn, semja þeir við þá eins og einhverja, sem hefðu meiri völd. Íslenzkir embættismenn vildu ákveðin lagafyrirmæli. Alþ. gerði rangt í því að samþykkja ekki slík l. Nú er í þess stað verið að láta Ameríkumenn skapa sér venjur og sjálfur utanrrh. gekk svo langt að segja, að það ættu að skapast reglur. Það er ekki Alþingi Íslands, sem á að setja l. Nei, það eiga að skapast reglur. Ameríkumennirnir eiga að skapa reglur. Ég vil spyrja að því, hvort það hefði þýtt að bjóða nokkrum manni upp á þá ræðu, sem hæstv. dómsm.- og utanrrh. hélt hér í gær, hvort það hefði þýtt að bjóða nokkrum manni upp á hana 6. okt. fyrir ári síðan. Ef hún hefði verið haldin þá, hefði mönnum ofboðið. Nú á að venja menn við. Nú á að skapa venjur smátt og smátt, svo að menn sætti sig við þær.

Ég vil segja, að það er verið að skapa tvíbýli hér. Hér eiga að vera tvær þjóðir, þar sem önnur er yfirþjóð, en hin undirþjóð. Hér er verið að skapa tvíbýli, þar sem önnur þjóðin er valdalaus, en hin voldug. Það er verið að skapa tvíbýli, þar sem önnur þjóðin nýtur skattfrelsis, en Íslendingar eiga að bera skattana og borga tollana og sætta sig við hvers konar áþján eða skort, sem þarf að leggja á sig í þessu landi. Það er þetta ástand, sem nú er að byrja, og nú eiga að skapast reglur, sem stjórnin ætlar að skapa reglugerð upp úr seinna.

Ég vil taka það fram undireins, að ég mun í mínum málflutningi ganga út frá því að sömu l. eigi að gilda um alla, sem hér eru í þessu landi. Og ef svo er ekki, ef Keflavíkursamningurinn er brotinn á því sviði, þá er það stjórnin. sem á að svara til þess, því að í samningnum eru engin ákvæði, sem heimili henni að búa við neitt slíkt. Samningurinn heimilar, að þeir, sem á vellinum vinna vegna samgangnanna við Þýzkaland, skuli ekki borga hér tekjuskatt og það skuli ekki leggja á þá tolla eða opinber gjöld — eða á nauðsynjar þeirra. Að öðru leyti heyra þessir menn undir íslenzka löggjöf. Það liggur í augum uppi, enda var því haldið fram af mér frá upphafi í fjhn., að auðvelt ætti að vera að framkvæma þennan samning. hvað tolla snerti, með því að taka tolla af öllum þeim vörum, sem Bandaríkin flytja inn í landið. Þetta liggur svo í augum uppi, að það virðist dæmalaust, að önnur framkvæmd skuli hafa verið á höfð fram að þessu. Það eru íslenzk lagafyrirmæli að leggja toll á allar vörur, sem hingað koma, og íslenzk tollgæzla athugi þessar vörur og innheimti síðan toll af þeim. Hvaða vald í þessu landi tekur sér heimild til þess að brjóta þessi l.? Er íslenzka ríkisstj. jafnvel að brjóta þessi l. eða láta Bandaríkjamönnum haldast uppi að brjóta þau? Af hverju hefur ekkert verið gert í þessu? Af hverju er ríkisstj. að láta þessi lögbrot viðgangast? Er það vegna þess, að flugvallarn. hafi staðið svo illa á verði um Íslands hag? Ekki virðist það vera. Flugvallarn. var á sínum tíma öll sammála um það, eins og kemur fram í hennar áliti, þar sem segir í 5. gr. samningsuppkastsins:

„Þar sem nefndin telur óframkvæmanlegt að greina milli afnota eftir því, hvort um umboðsmann eða flugfélag er að ræða, og þar sem margir starfsmenn hljóta að vinna að báðum hlutverkunum og þar sem gestir hótelsins heyra sumir undir ákvæði samningsins um tollfrelsi, en aðrir ekki o. s. frv., telur n. óhjákvæmilegt að koma þeirri skipan á, að allar vörur, að undanteknu efni og áhöldum til bygginga og viðhalds, séu tollaðar. Enn fremur, að allir starfsmenn greiði tolla og útsvör, þó ef til vill að undanskildum þeim, sem eingöngu vinna fyrir Bandaríkjastjórn, sbr. 4. gr. samningsins. Tollur og útsvör skulu endurgreiðast umboðsmanninum í samræmi við starfsskiptinguna, samkvæmt nánara samkomulagi, þannig að öruggt sé, að ekki verði í framkvæmdinni lagðir tollar eða önnur gjöld á efnisnotkun eða störf í þágu stjórnar Bandaríkjanna og tillit tekið til sömu sérstöðu flugfara hennar og áhafna þeirra í þessum efnum, sbr. 4. og 9. gr. samningsins.“

N. var sem sé á þeirri skoðun, að það beri að leggja þessa tolla á, og það leiðir alveg af sjálfu sér. að það er ekki hægt að framkvæma þennan hlut öðruvísi. Ef það á að flytja inn alla mögulega hluti til Keflavíkurflugvallarins og selja Ameríkumönnum það svo tollfrjálst, eins og nú er gert, þá er engin tollgæzla lengur á Íslandi, þá er búið að skapa þarna gat, sem allt smýgur í gegnum. Það er ekki hægt að halda uppi tollgæzlu og eftirliti í þessu landi öðruvísi en að innheimta tollana strax og endurgreiða svo Bandaríkjunum það, sem þau eiga kröfu á að fá, og það virtist n. strax í upphafi, og mér þætti gaman að vita hvenær n. hefur fallið frá þeirri skoðun.

Ég býst við, að þetta mál fari til n., og væri þá mjög gott, að sú n. yfirheyrði þessa embættismenn um þessa hluti og um afstöðu ríkisstj. og einstakra ráðh. í þessu sambandi. Svo er hins vegar í þessari skýrslu. sem nú er lögð fram. Þar stendur: „Í samræmi við þetta samningsákvæði (þ. e. 9. gr. samningsins) hefur flugvallarn. gert samkomulag við fulltrúa Bandaríkjastjórnar og umboðsmann hennar á flugvellinum um, að ábyrgur fulltrúi Bandaríkjastjórnar eða umboðsmannsins láti hlutaðeigandi íslenzkum yfirvöldum í té nákvæma skrá yfir allar innfluttar vörur og gefi jafnframt yfirlýsingu um, að allar þessar vörur séu nauðsynlegar til rekstrar flugvallarins.“ Hvað er þetta? Er verið að afhenda Bandaríkjunum yfirumsjón með tollgæzlu á Íslandi? Þeir eiga að láta í té skrá yfir það, sem þeir hafa keypt, og þeir eiga að segja, hvað sé nauðsynlegt. Hver á að dæma um þetta? Eru það ekki íslenzk yfirvöld? Hvers konar samning er þarna verið að gera? Er verið að semja af Íslandi þann rétt, sem það hefur til æðsta valds í þessum efnum? Eigum við að taka við upplýsingum frá einhverjum amerískum embættismönnum um það, hvað flutt er inn? Eru það ekki íslenzkir tollgæzlumenn, sem eiga að ákveða, hvað kemur inn í landið og hvað er nauðsynlegt í sambandi við herflutningana til Þýzkalands, sem í hæsta lagi er 1/10 af því, sem kemur til Keflavíkurflugvallarins? Það er verið að selja Ameríkumönnum sjálfdæmi með þessu móti. Ég skil það vel, að íslenzka ríkisstj. sé reið yfir því, að það skuli vera birt plögg, þar sem það kemur fram, að embættismenn telja óframkvæmanlegt að framkvæma samninginn öðruvísi en að láta greiða tollana strax. Ríkisstj. veit það vel, að það verður fyrst og fremst skoðað henni til smánar, ef hún lætur embættismenn sína ganga inn á samning, sem er Íslendingum óhagstæðari en sá, sem upprunalega fékkst fram. Hver er það sem hefur valdið? Eru það ekki Íslendingar, sem hafa valdið? Hæstv. utanrrh. sagði í gær, að það væri meiri vandi að skera úr þessu en menn gerðu sér grein fyrir, það væri erfitt að greina þarna á milli, og talaði um, að Íslendingar hefðu ekki fært fram rökstudda grg. fyrir því, hvað Ameríkanar eigi að borga. Er það ekki Ameríkananna að segja til um, hvað mikið þeir eiga að fá endurgreitt af tollum og hvað mikið af flugvélum fer um flugvöllinn í sambandi við hernám Þýzkalands? Hvað þurfum við að sækja undir Ameríkana í þessum efnum? Þurfum við að færa fram rökstudda grg. við þá? Eigum við að koma til þeirra, og segja þeim, að þeir eigi að borga toll af þessu og þessu? Hvers konar ástand er þetta? Heyra þessir menn ekki undir íslenzk l., og eiga þeir ekki að borga Íslandi tolla? Svo geta þeir samkv. samningnum farið fram á að fá endurgreitt þetta og þetta, þegar þeir færa rökstudda grg. fyrir því, og þá getur ríkisstj. tekið til greina það, sem rétt er og sanngjarnt í þessum efnum. Ég býst við, að innflytjendur í Rvík vildu gjarnan sæta svona kjörum, að þeir gæfu yfirlýsingar um, hvað mikið þeir flytja inn, og lofuðu svo tollurunum að standa einhvers staðar. Svo segir hæstv. dómsmrh., að þetta sé allt á athugunar- og samningastigi. Hvað er á athugunar- og samningastigi? Er það réttur Íslendinga yfir eigin landi eða spursmálið um tollgæzlu í sambandi við innflutninginn til Íslands, sem er á athugunar- og samningastigi, og það einu ári eftir að samningurinn er gerður? Það kann vel að vera, að ríkisstj. sé enn á athugunar- og samningastigi. Afgreiðsla fjárl., gjaldeyris- og innflutningsleyfin og skömmtunarreglurnar benda til þess, að ríkisstj. hafi lengi verið á athugunar- og samningastigi. Það hefur ekki gengið það fljótt með þá hluti, sem hún er að gera. En þegar Ísland á í hlut gagnvart erlendu valdi, sem það hefur gert óheppilegan samning við, þá hlýtur þjóðin að krefjast þess af sínum embættismönnum, að þeir standi þannig á verði hvað þetta snertir, að það vald, sem Ísland hefur samkv. samningnum, sé notað til fullnustu. Það er ekki þarna um neitt að semja. Bandaríkjamenn geta gert uppástungu um, hvað mikið þeir vilja fá endurgreitt. Við eigum ekki að sækja það undir þá. Sem sé, í þessu máli, viðvíkjandi tollaívilnunum og tollinnheimtu hefur verið farið rangt að frá upphafi. Ég tók þetta atriði sérstaklega fyrir í fjhn. Nd. í sambandi við umr. um þetta mál í fyrra. Tollstjórinn var þá mættur á fundi n., og var rætt um þetta nákvæmlega og þá kom það í ljós, að ekki væri hægt að framkvæma þetta öðruvísi, og embættismenn sem hafa fjallað um þetta, hafa verið á sömu skoðun, svo að nýlega hefur verið gert samkomulag um þetta efni við Bandaríkjastjórn. Hvers konar framkvæmd er þarna á íslenzkum l.? Þarna er verið að brjóta íslenzk l. — semja af Íslendingum réttindi. Þarna, er verið að gefa sérstökum mönnum á Íslandi, sem eiga að heyra undir íslenzk l., önnur réttindi en aðrir menn á Íslandi hafa. Það er verið að gefa þeim sérréttindaaðstöðu, sem þeir eru nú þegar farnir að njóta í mjög ríkum mæli á Keflavíkurflugvellinum. Það er hægt fyrir hina amerísku verkamenn og starfsmenn (1000 talsins) að fá hvaða vöru sem er keypta tollfrjálsa. Af hverju eru tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvellinum? Samkv. hvaða fyrirmælum í íslenzkum l. er það? Ég þekki þau ekki. Ég sé ekki annað en þarna fari lögbrot daglega fram, og þetta styðst ekki við Keflavíkursamninginn. Samkv. honum hafa þeir starfsmenn, sem starfa vegna hernaðarflugvéla, sem fara til Þýzkalands, rétt til þess að fá að sleppa við toll, eða vörur til þeirra, hinir hafa það alls ekki, hinir eiga að borga það sama og hvaða Íslendingur sem væri. Það er því verið að brjóta l. á hverjum einasta Íslending með þessu framferði. Íslenzkir verkamenn, sem starfa á Keflavíkurflugvellinum, koma með íslenzka peninga eins og hinir, en þeir hafa ekki þennan rétt. Þeir eru undirþjóð og hafa ekki rétt til að kaupa vörur tollfrjálst. Það á að láta þá finna til þess, að þeir ráði ekki sínu eigin landi. Verkamennirnir hafa þarna sama kaup, en íslenzki maðurinn verður að borga toll af þeim vörum, sem hann kaupir, en amerísku verkamennirnir, sem vinna að öllu mögulegu öðru en herflutningum til Þýzkalands, þeir þurfa ekki að borga neinn toll. Þetta þýðir, að þarna er verið að skapa tvenns konar rétt — tvíbýli, það er verið að skapa yfirþjóð og undirþjóð á Íslandi. Íslenzk l. eru brotin hvað þetta snertir. Hitt gera svo Ameríkanar, að selja þessar vörur til Íslendinga á eftir með álagningu sér til handa. Ríkisstj. er að skipuleggja svarta markað á Íslandi með því að hleypa þessum amerísku vörum í gegnum toll án þess að láta leggja toll á þær, síðan selja Ameríkanarnir þetta um allt. Meira að segja vörur, sem eru ófáanlegar á Íslandi, eru seldar þarna tollfrjálst og seldar síðan út. Ég býst við, að Ameríkanarnir leggi tolla á þessar vörur, svarti markaðurinn hefur sín lögmál eins og annað brask. Amerískir starfsmenn verða svo eins konar tollheimtumenn, kaupmenn, sem geta verzlað við Íslendinga með góðum hagnaði með þær vörur, sem Íslendinga skortir. Það er einhvers staðar minnzt á þessa hluti í þessari skýrslu. Þar segir: „Flugvallarn. og umboðsmenn Bandaríkjastjórnar hafa rætt ýtarlega um ráðstafanir til að hindra óleyfilega sölu á tollfrjálsum vörum og meðferð erlendra peninga.“ Þeim er svo sem ljóst, að svartur markaður skapast af þessu. Og n. gefur svo í sambandi við þetta siðferðisvottorð, því að hún segir: „Og hefur n. gengið úr skugga um, að af hálfu fulltrúa Bandaríkjanna er leitazt við að gera allt sem unnt er til þess að koma í veg fyrir svartan markað.“ En það er ekki leitazt við að láta fulltrúa Bandaríkjastjórnar gera það, sem hægt er, til að koma í veg fyrir þetta, það er að borga tolla af þessum vörum, þegar þær koma til Íslands, því að það er ekki hægt með öðru móti að koma í veg fyrir þetta. Nei, siðferðisprédikanir megna ekki að koma í veg fyrir þetta. Það er m. ö. o. ekkert gert til þess að hindra þetta, það er ekki gert það eina, sem hægt er. Svarti markaðurinn fær að blómgast.

Hæstv. utanrrh. sagði, að tollgæzlumenn fengju að fylgjast með og hefðu aðstöðu til að skoða. En sú mildi. Er það eitthvað sérstakt til að þakka fyrir? Ef hann hefði sagt, að tollgæzlumenn skoðuðu þetta allt og rannsökuðu og tækju tolla af öllu, þá hefði hann getað tilkynnt, að íslenzk l. væru framkvæmd, en með þessu móti er verið að segja, að þeir hafi aðstöðu til þess að gera þetta, en það sé ekki gert. Nei, það er ekki til neins að ætla að reyna að blekkja menn um þessi efni með því að búa til skýrslu og láta lesa hana í útvarpið, meðan gengið er fram hjá að gera þá hluti, sem mesta þýðingu hafa til þess að halda íslenzkum l. í gildi. Á Keflavíkurflugvellinum er verið að skapa gróðrarstíu fyrir svartan markað, og því meira sem við Íslendingar leggjum á okkur til þess að spara innflutning og neita okkur um fleiri og fleiri vörur, því meira kemur þessi svarti markaður til með að blómstra og því meiri verða gróðamöguleikar hinna dulbúnu hermanna og því meiri siðspillingin í sambandi við þennan smánarblett á Íslandi. Það er sagt í skýrslu flugvallarn., að fulltrúar Bandaríkjanna hafi viðurkennt þessi sjónarmið í meginatriðum, að greiddir yrðu skattar og tollar af því, sem ekki heyrir beint undir innflutning til Þýzkalands, og hafi komið fram með ákveðnar till. um greiðslu tolla og gjalda af þessari starfsemi, en ennþá hafi ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir í þessu máli. Hvernig stendur á því, að ekki hafa verið teknar endanlegar ákvarðanir í þessu máli um það, hvaða skatta Bandaríkjafélögin skuli greiða á Íslandi? Það er sett fram eins og einhver kostur, sem hafi fengizt, að fulltrúar Bandaríkjanna hafa viðurkennt þau sjónarmið, sem við höfum haldið fram, að Bandaríkjamenn eigi að greiða eignarskatt, útsvar og tekjuskatt af öllum tekjum manna, sem ekki standa í sambandi við rekstur flugvallarins fyrir herflugvélar, sem fara til Þýzkalands. Var það eitthvað sérstakt, þótt þeir gengjust undir að viðurkenna íslenzk 1. og beygja sig fyrir þeim? Það var ríkisstj. að framfylgja þessum l. og sjá um þau. Það þurfti ekki að spyrja þessa menn, hvort þeir viðurkenni íslenzk l. eða ekki. Það er ekki verið að spyrja íslenzka borgara að því, þegar verið er að leggja þunga skatta á þá, hvort þeir viðurkenni það. En hér er sagt: Endanlegar ákvarðanir hafa ekki ennþá verið teknar. Af hverju ekki? Það er ekki verið að tvínóna við það, þegar verið er að leggja skatta á íslenzka borgara. Þá er hespað í gegnum Alþ. á 1–2 dögum 45 millj. kr. skatti. Íslenzka þjóðin er nógu góð til að borga. Ríkisstj. er ekki lengi að hugsa sig um að taka endanlegar ákvarðanir um svoleiðis hluti. Það er bara lagt á, og svo er gengið að mönnum, sem ekki borga skattinn. Þá er ekki verið að spyrja fólkið, hvort það viðurkenni það sjónarmið. En ef Ameríkanar eiga í hlut, þá er spurt: Viðurkennið þið þessi sjónarmið? Svo er frestað að taka endanlega ákvörðun. Af hverju er þetta? Eru menn á þessu landi, sem hafa annan rétt en Íslendingar? Við erum nógu lengi búnir að hafa tvíbýli í okkar landi, við viljum ekki hafa sérréttindaþjóð hér. Ég er ófróður í landafræði þarna suður frá, en mig langar til þess að fá upplýsingar við þessa umr. um það, undir hvaða hrepp Keflavíkurflugvöllur heyrir. Hvaða hreppur á að leggja útsvör á þessa menn? — nema það sé meiningin að undanþiggja þá útsvörum. Í 10. gr. Keflavíkursamningsins stendur: „Eigi skal leggja tekjuskatt á þær tekjur þess starfsliðs Bandaríkjanna, sem á Íslandi dvelur við störf, er leiðir af framkvæmd samnings þessa, er koma frá aðilum utan Íslands.“ Í fjhn. benti ég á, að hér væri eingöngu tekið fram um tekjuskattinn. Það er íslenzkt orð, sem hefur ákveðna bundna merkingu, og þar sem þessir menn heyra undir íslenzk l. með aðra skatta en tekjuskatt, þá þýðir það það, að útsvör eiga að leggjast á þessa menn í þeim hreppi, sem Keflavíkurflugvöllur heyrir undir. Eða er það kannske meiningin að sleppa þeim við útsvör? Ég vildi gjarnan fá að heyra það, hvort þessi yfirvöld þarna suður frá, oddviti eða hreppsnefnd, eru þegar búin að fá fyrirmæli um það frá ríkisstj., hvernig eigi að framfylgja þessum l. En mér er nær að halda, að það fari ekki svo fjarri, að meira að segja ríkisstj. gangi út frá því, að það þurfi enginn að velta því fyrir sér, hvernig eigi að leggja þessi útsvör á, heldur eigi að sleppa þeim, en það er nokkuð, sem ekki er samkv. bókstaf samningsins.

Þá talaði hæstv. utanrrh. um tolla í sambandi við efni, sem fer þarna í byggingar, og las í því sambandi upp úr skýrslu flugvallarn. Þar segir, „að Bandaríkjastjórn eigi að standa straum af miklum kostnaði í sambandi við rekstur flugvallarins, og þykir því ekki ástæða til að leggja tolla og skatta á þann kostnað þeirra, einkum þar sem öll óhreyfanleg verðmæti, sem Bandaríkjastjórn gerir á sinn kostnað á vellinum, eigi að verða eign íslenzka ríkisins að samningstíma liðnum.“ Mér sýnist þett eiga að þýða það, að það eigi að sleppa Bandaríkjunum við tolla og skatta á efni, sem flutt er þarna inn til bygginga. Hins vegar er það tekið fram í samningnum, að þetta eigi einvörðungu við um efni, sem standi í sambandi við flutninga hersins til og frá Þýzkalandi, að öðru leyti hafa þeir ekki þetta skattfrelsi. Að undanþiggja tollum og sköttum efni til annarra bygginga nær engri átt og er engin heimild til fyrir, enda er þarna verið að flytja þau rök fyrir því, að þessi verðmæti eigi seinna meir að verða eign íslenzka ríkisins. En ég vil spyrja: Þegar verið er að byggja skóla á Íslandi, sem eiga að verða eign íslenzka ríkisins, eru þá ekki teknir skattar og tollar í sambandi við slíkt? Það er ekki verið að undanþiggja sement og timbur undan tolli, þó að það eigi að fara í opinber mannvirki. Er þá einhver meiri ástæða til að undanþiggja slíkt undan tolli, þegar Bandaríkjamenn eru að byggja, þó að byggingarnar eigi að verða eign Íslendinga? Hvað mælir með því? Við Íslendingar komum sjálfir til með að semja um þetta seinna meir á einhvern hátt. Ég held, að við séum búnir að borga Bandaríkjamönnum nóg fyrir það, sem þeir hafa gert á Íslandi stríðsárin. Hvað margar milljónir erum við búnir að borga út úr landinu fyrir bragga og annað slíkt? Það skyldi vera, að það væri ekki nær 20 millj. kr., sem við erum búnir að borga út fyrir eignir yfirteknar hér. Það er engin ástæða til að vera að gera þetta ódýrara fyrir þá en einhvern og einhvern, sem er að byggja skóla eða annað slíkt. Því ekki að láta Ameríkumenn borga þetta? Það er sagt, að Bandaríkjastjórn eigi að standa straum af miklum kostnaði af vellinum. Hvaða óttaleg vorkenning er þetta? Það er ekki verið að tala um, að það megi ekki íþyngja Íslendingum. þeir mega bera byrðar. En það er ekki ástæða til að leggja tolla og skatta á það, sem Bandaríkjastjórn er að gera. Hvers konar hugsunarháttur er þetta?

Ja, ég verð að segja það, að þegar þessar tollaívilnanir eru bornar saman við það, er verið var að hækka tollana hér á síðasta þingi, á má með sanni segja, að ríkisstj. taki Bandaríkjamennina mildari tökum en Íslendinga sjálfa í því efni.

Varðandi skattskyldu þessara amerísku félaga hér í Keflavík þá eru þau að öllu leyti skattskyld hér á Íslandi. Ég held, að það væri mjög gott að fá dálítið meiri upplýsingar hjá ríkisstj. um afstöðu hennar gagnvart slíku. Ég er hræddur um, að skattinnköllunin verði eitt hneyksli eins og tollaálagningin og tollainnköllunin. Þessi amerísku auðfélög eiga að skattleggjast hér og það í fullum mæli, en það verður ekki gert, meðan ríkisstj. er haldin slíkri vorkunnsemi gagnvart Ameríkumönnum, vorkunnsemi, sem aldrei kemur fram hjá henni gagnvart Íslendingum sjálfum, gagnvart Íslendingum er það aðeins harkan og vægðarlausir skattar. Sem sagt, með tilliti til skatta búa Ameríkumenn hér við allt önnur kjör en Íslendingar, það eru sérréttindi Ameríkumönnum til handa, sem þarf að afnema. Ég býst nú við, að ríkisstj. hrökkvi ofurlítið við í hvert skipti, sem hún er skömmuð, og ef til vill mun hún því rjúka til og innheimta einhvern skatt af Ameríkumönnum hér á næstunni eða upp úr nýárinu, ella má hún eiga von á öðrum eldhúsdegi hér til viðbótar.

En varðandi það, sem Ameríkumenn þurfa að kosta til þess að hafa Keflavíkurflugvöllinn, langar mig til að segja, að ríkisstj. gerir sér áreiðanlega lítið ljóst, hvað þeir leggja mikið upp úr því að hafa hann. Þeir mundu jafnvel borga til þess mörg hundruð þúsund dollara eða milljón dollara. Fjárhagslega séð er völlurinn næstum ómetanlegur fyrir Ameríkumenn, eins og þeir hugsa sér það, enda er almennt gert grín að því í Ameríku, hvað við sleppum þeim billega með völlinn. Ameríkumenn eru að vísu „business“-menn og vanir því að kaupa upp þjóðir og lönd, en ekki svona billega. Svo er íslenzka ríkisstj. að vorkenna Ameríkumönnum og vill helzt meðhöndla þá eins og postulín. Það er eins og hún sé dauðhrædd við, að þeir kynnu að sleppa burt úr landinu, ef lagðir væru á þá tollar og skattar. Ég held, að hún ætti að miðla Ameríkönum einhverju af þeirri hörku, sem hún leggur til, að íslenzka þjóðin sé beitt, og láta lögtök á þeim ganga fyrir lögtökum á öðrum stöðum.

Ég ætla þá að koma að svarta markaðnum og eftirliti með smygli. Það er sagt, að hinum erlendu starfsmönnum hafi verið vikið frá störfum, ef þeir hafa orðið uppvísir að smygli. En hafa þessir menn verið dæmdir, settir í tugthús eða sektaðir? Mér er nær að halda, að þeir hafi verið látnir fljúga til Ameríku, t. d. starfsmaður sá, er varð uppvís að nylon-sokka smyglinu. Er hann í tugthúsi eða floginn til Ameríku? Ég veit ekki, hvað mikið af því, sem þessir menn hafa brotið af sér, er tugthússök, en geti þeir ekki borgað, geri ég ráð fyrir, að þeir eigi að sitja af sér.

Og hvernig er það með skömmtun til Ameríkumanna í Keflavík? Hefur þeim verið úthlutað skömmtunarseðlum, eða heyra þeir ekki undir íslenzk lög? Verða ekki allir menn hér á landi að lifa við sömu kjör í þessum efnum, eða hafa Ameríkumenn hér réttindi til allt annarra kjara en Íslendingar, og fá hinir fyrrnefndu að flytja inn allt, sem þeir vilja? Ég er hræddur um, að gengið sé út frá því, að þeir heyri ekki undir íslenzk skömmtunarlög. Eru einhverjir aðrir menn í þessu landi, sem hafa meiri réttindi en við, sérréttindi til að flytja inn hvað sem þeim sýnist, og undir hvaða lög heyra þeir þá? Ekki heyra þeir undir Keflavíkursamninginn. Að vísu eiga þeir samkv. honum að fá endurgreidda nokkra tolla af kornvöru, kaffi og slíku. En ég sé ekki annað en lög, sem sett eru á Íslandi, gildi fyrir alla, sem hér eru, en ég get bezt trúað, að íslenzk lög séu brotin og Ameríkumennirnir í Keflavík séu undanþegnir þeirri skömmtun, sem Íslendingar verða að sætta sig við. Eru það tvenn lög, sem gilda á Íslandi, eða eru það ein? Ég fæ ekki betur séð en að hér sé verið að brjóta lög. Ég hef alltaf haldið, og það er skýrt tekið fram í Keflavíkursamningnum, að Ameríkumenn á flugvellinum eigi að búa við sömu lög og við. Og hver verður afleiðingin af því, ef þeir eiga að fá að flytja inn allt, sem þeim sýnist, munaðarvöru sem nauðsynjavöru, svo að á sama tíma sem við erum að neita okkur um fleiri og fleiri vörur flytja Ameríkumenn yfirfljótanlegt inn af sömu vörum og öðrum. Þeir byggja jafnvel skóla og kirkjur á sama tíma og íslenzkar skólabyggingar eru stöðvaðar. Þetta, er brot á íslenzkum lögum, og ég get ekki séð, að Ameríkumenn hafi samkv. samningi neinn rétt til að búa við önnur kjör en Íslendingar hér. Öll íslenzk lög eiga að ná til þeirra. Við getum bara hugsað okkur afleiðingarnar af slíku misrétti. Það eru þegar farnar að finnast íslenzkar stúlkur suður á Keflavíkurflugvelli eftir nokkurra daga leit. Við getum hugsað okkur afleiðingarnar af því, ef Íslendingar neita sér um fleiri og fleiri hluti og nauðsynjar, en Ameríkumönnum er leyfður þrotlaus innflutningur á alls konar vörum. Eða er það kannske meiningin, að slíkt ástand eigi að dýpka og breikka bilið milli yfirþjóðar og undirþjóðar í landinu? Ég býst við, að Ameríkumenn og Bandaríkjastjórn mundu fyllilega skilja þetta sjónarmið. Þeir hafa sjálfir oft þurft að leggja hart að sér og skammta sér og það jafnvel á þeim tíma, er við þurftum þess ekki. En það þarf röggsemi okkar stjórnarvalda til að framfylgja því, að ein lög verði látin gilda í landinu. Hér er nú mjög að minnka um alls konar matvæli, t. d. svokallaðar dósa- og hilluvörur í búðunum, en að sama skapi eru þessar vörur fluttar tollfrjálsar inn til Keflavíkur og seldar Íslendingum á uppsprengdu verði.

Ég er að vísu ekki vel að mér í lögum — ég skal játa það —, en ég veit þó, að samkv. íslenzkum l. er bannað að flytja áfengan bjór til landsins og brugga hann í landinu. Ég veit ekki betur en Ameríkumenn bruggi hér áfengan bjór, svo mikið er víst, að bílum, sem eru hlaðnir áfengum bjór, er ekið hér um göturnar. Samkv. hvaða l. er þessi bjór hér á ferðinni, hvort sem hann er nú fluttur inn eða bruggaður í landinu? Ekki samkv. Keflavíkursamningnum. Eða er kannske brugghús hér handa Bandaríkjamönnum til að brjóta íslenzk lög á Keflavíkurflugvellinum? Ég vænti upplýsinga um þetta mál frá réttum aðilum. Ég veit, að áfengur bjór er hér í landinu. Ég get ekki sannað, hvar hann er búinn til, en ég veit, að það er lögbrot að brugga hann hér og flytja hann inn. Ameríkumenn hafa engan rétt til að brjóta þessi lög, og ég efast um að Bandaríkjastjórn hafi farið fram á það. En hitt veit ég, að bjórbrugg handa hernum tíðkaðist hér á hernámsárunum, á meðan herinn var ekki undir íslenzkum l., og nú er það, að íslenzka ríkisstj. man í þessu tilfelli ekki eftir að láta líta svo út sem hernáminu og fylgikvöðum þess sé af létt, man ekki eftir að láta líta út fyrir, að Keflavíkursamningurinn sé ekki herstöðvasamningur. Marga Íslendinga langar í bjór, en það er ef til vill gott, að þeir fá hann ekki, en hitt er víst, að Ameríkumenn fá hér bjór - og í krafti hvaða laga og undanþágu fá þeir hann? Það er nú að verða erfitt að fá hér maltöl og fleiri næringarríka drykki, en í Keflavík er hægt að fá áfengan bjór. Það fer að vaxa munurinn á yfirþjóðinni og undirþjóðinni, ef slíkt tvíbýli á að haldast.

Það er áfengiseinkasala hér á landi í höndum ríkisins, og ég veit ekki til, að veitt sé nein undanþága frá þessum l. um áfengiseinkasölu í Keflavíkursamningnum. Ég veit ekki til þess, að Ameríkumenn í Keflavík hafi nokkurt leyfi til að flytja inn brennivín og whisky, en ég þykist vita, að það sé þó gert, þó ekki í gegnum íslenzku áfengiseinkasöluna. Þeir Ameríkanar í Keflavík, sem teljast halda uppi flugsamgöngum við Þýzkaland, hafa einir rétt til að fá endurgreiddan toll af víni og öðrum neyzluvörum sínum samkv. samningi. En tala þeirra manna er ekki nema 10% af öllum þeim, sem nú hafa bækistöðvar á flugvellinum, og þó að reiknað væri með ósviknu fylliríi einu sinni í viku þeim til handa sem hæfilegu magni, þá væri aðeins um hverfandi lítinn hluta alls þess áfengis að ræða, sem flyzt til Keflavíkur, án þess að það sé tollað. Hefur Bandaríkjastjórn með undanþágu verið leyft að flytja áfenga drykki til Íslands og sleppa, við álagningu? Hvar er þá sú undanþága og hver hefur veitt hana? Sé hér ekki um neina undanþágu að ræða, sem ekki var a. m. k. gerð í Keflavíkursamningnum og væri brot á íslenzkum l., þá vil ég þó benda á, að ég veit ekki betur en brennivín og whisky sé stanzlaust flutt inn til Keflavíkur. En ef það er nú gert, þá er mér spurn: Hvað margir Ameríkumenn hafa verið teknir og kærðir fyrir smygl og látnir sæta ábyrgð? Eða er það meiningin, að þeir eigi að hafa rétt til að flytja inn áfengi þvert ofan í íslenzk lög og selja það ef til vill Íslendingum? Er ekki nóg, að þessir útlendingar séu sínir eigin tollheimtumenn og skattheimtumenn á Íslandi, eiga þeir einnig að taka hér að sér hlutverk áfengiseinkasölu ríkisins? Og er ekki tóbakseinkasala hér? Flytja Ameríkumenn hér tóbakið inn í gegnum hana? Hvernig stendur þá á því, að það er tollfrjálst? Ef því er neitað, að þetta tóbak sé flutt inn tollfrjálst, og hvort sem er, þá óska ég eftir því, að skýrt sé frá því opinberlega, hvaða tekjur tóbakseinkasala ríkisins hefur haft af öllu því tóbaki, sígarettum og vindlum, sem flutt hefur verið inn til Keflavíkur. Mér er nær að halda, að allt það tóbak og áfengi, sem Ameríkumenn hafa flutt inn til Keflavíkur, sé með öllu utan við einkasölur íslenzka ríkisins á þessum vörum. Ég er ákaflega hræddur um það. Og ég held, að ríkisstj. hefði þegar leiðrétt mig, ef ég hefði sagt einhverja helvítis vitleysu í þessu efni eins og með hreppstjórann áðan. Ég er því hræddur um, því miður, að þetta sé rétt hjá mér. Er það af því, að hér séu herstöðvar, sem heyra ekki undir íslenzk l. og hafa allt annan rétt en landsmenn? Gáir ríkisstj. hér ekki að því að halda uppi yfirskipinu? Gleymir hún því, að íslenzk l. eiga að gilda fyrir útlendingana í Keflavík?

Hér voru sett l. um fjárhagsráð í fyrra og öll fjárfesting á Íslandi lögð undir það með vilja Alþ. Já. meira að segja var sjálft Alþ. og dýrmætasta vald þess, fjárveitingavaldið, sett undir þetta ráð að hálfu leyti og ofurselt því. Maður skyldi því ætla, að þetta valdamikla fjárhagsráð væri ekki í vandræðum með Ameríkanana hér. Auðvitað þarf fjárfestingarleyfi í Keflavík. En ég vil spyrja um, hvaða byggingarleyfi og fjárfestingarleyfi fjárhagsráð hefur veitt þar. Hér í Reykjavík bíður bæjarstjórnin eftir svari frá fjárhagsráði um það, hvort hún megi gera hér höfn, bygging iðnskólans hefur verið stöðvuð, en suður á Keflavíkurflugvelli er verið að byggja heilt þorp, jafnvel með kirkju og skóla, að því er sagt er, — og hvar eru leyfi fjárhagsráðs fyrir þeim byggingum? Það þarf leyfi íslenzku ríkisstj. til þessara hluta, það þarf leyfi fjárhagsráðs, en það þarf umfram allt að framfylgja íslenzkum l. En ég er anzi hræddur um, að því hafi verið sleppt að sækja um leyfi til fjárhagsráðs til byggingarframkvæmdanna í Keflavík. Jafnvel þó að hér sé verið að stöðva byggingar skóla og húsa fyrir opinberar stofnanir, er ég hræddur um, að í Keflavík hafi ekki aðeins verið brotin l. um fjárhagsráð, heldur og önnur l. Mér heyrðist hv. utanrrh. vera að tala um byggingu þorps þar suður frá og að flugvallarn. hefði á endanum fallizt á að leyfa þær framkvæmdir, verið óánægð með það, en fallizt á það, af því að Ameríkumenn hefðu þegar verið byrjaðir að byggja og næstum því búnir. Þetta er gott dæmi. Íslenzk yfirvöld og ríkisstj. þykjast vera óánægð með framkvæmdir Ameríkumanna í Keflavík, en beygja sig síðan með þeim rökum, að þeir hafi verið búnir að ganga svo langt í leyfisleysinu. Slík er virðing íslenzkra yfirvalda fyrir íslenzkum l., þannig er hverju sviðinu af öðru sleppt við yfirþjóðina í landinu.

Hvað er að segja um vinnu Íslendinga þarna suður frá? Hæstv. utanrrh. upplýsti, að 19 ynnu við tæknistörf. En eru það nefnd tæknistörf, þegar t. d. flugmaður er látinn vinna að því að afgreiða flugfarþega? Og svo eru 57 Íslendingar þar við eldhússtörf, sem negrar eru látnir vinna í Ameríku. Þetta eru störfin sem Íslendingar eru látnir vinna í Keflavík, eins og til að undirstrika muninn á yfirþjóðinni og undirþjóðinni. Og svo er talað um, að íslenzkir starfsmenn reynist þar illa, en ég býst nú við, að það verði fremur talið þessum mönnum til lofs en lasts, er fram líða stundir. Þessi aðferð er fyrir neðan allar hellur. Það er vitað mál, að það er íslenzka ríkisstj., sem hefur í sínum höndum yfirstjórn Keflavíkurflugvallarins, ef hún vill, og getur látið Íslendinga gegna þar öllum störfum, sem þeir frekast eru hæfir til, og Bandaríkjastjórn er vitanlega nógu skynsöm til að taka fyrirskipanir íslenzku stjórnarinnar góðar og gildar í því efni. Aðstaða ríkisstj. hér er svo sterk, að hún þarf ekki að óttast, þótt hún standi fast á málstað Íslendinga. Það eru Bandaríkin, sem eiga undir okkur að sækja í Keflavík, en ekki öfugt, en ég býst við, að margur Íslendingurinn hafi fundið og finni til þess, að hér sé að skapast ástand, sem við vonuðum að vera lausir við. Og það er hart, að flutt skuli vera á Alþingi önnur eins skýrsla og flutt var hér í gær, einu ári eftir að samningurinn um flugvöllinn er gerður, og þar sem Íslendingar áttu að fá fullt vald yfir vellinum, — að þá skuli meginið af þeim Íslendingum, sem við völlinn vinna, vera eldhússtarfsmenn og hótelþjónar. Þetta er fullveldi og réttur Íslendinga yfir vellinum. Svona er það einnig, ef litið er á þá staði vallarins, þar sem það gildir mestu, að Íslendingar geti ráðið, t. d. flugturninn, þar sem flugvallarn. hefur farið fram á, að Íslendingar gegndu þar störfum á kostnað Bandaríkjanna. Segir í skýrslu flugvallarn., að vel hafi verið tekið í þetta mál, en þá hafi ekki verið kunnáttumenn fyrir hendi, en nú séu þeir til og málið hafi verið tekið upp á ný. Þarf samkomulag um það, ef kunnáttumenn eru fyrir hendi, að þeir gegni störfum í flugturninum á kostnað Bandaríkjanna? Nei. Það er réttur Íslendinga, og um það þarf ekkert samkomulag. Um það aftur á móti, að Bandaríkjamenn þjálfi íslenzka menn, til þess að þeir verði færir um að taka þessi störf að sér, eins og þeir skuldbundu sig til að gera að einhverju leyti með flugvallarsamningnum, þarf samkomulag. En þetta hvort tveggja hafa Bandaríkjamenn svikið. Þeir hafa ekki tekið íslenzka kunnáttumenn til starfa í flugturninum, né heldur hafa þeir þjálfað aðra, svo að þeir gætu seinna tekið að sér þau eða þvílík störf. Og svo er það þetta aumingjalega orðalag á skýrslu n., það hafi verið „vel tekið í þetta mál“, mál, sem Íslendingar hafa rétt til að ráða einir. Hvað á svona orðalag að þýða?

Það var upplýst í gær, að Ameríkumenn væru að hefja stórfelldar byggingarframkvæmdir á flugvellinum og hefðu í því skyni flutt inn 380 byggingaverkamenn. Það hefur líklega ekki staðið á fjárfestingarleyfi fyrir þessum framkvæmdum, né á landvistarleyfi fyrir þessa 380 verkamenn. Umsóknir um þessi landvistarleyfi hafa vafalaust gengið til viðkomandi n., eins og þegar frændur okkar á Norðurlöndum óska að koma hingað. Eða kannske hefur gleymzt að tala við n., og kannske hefur mannaflinn komið inn í landið án þess að fá landvistarleyfi? Þeir eru kannske ekki aðeins settir hærra en Íslendingar, heldur og hærra en Norðurlandabúar yfirleitt? Það væri gaman að fá upplýsingar um þetta. Þetta skeður sem sé einmitt á sama tíma, og Norðurlandabúum er vísað úr landi með þeim forsendum, að vinna fari hér minnkandi. Hvaða ástæða var til að vísa þeim burt, þegar flytja þarf inn verkamenn til starfa, á flugvellinum? Íslendingar hefðu kosið, að þessir Norðurlandabúar hefðu verið teknir í vinnu á flugvellinum, ef þeir hefðu viljað það, heldur en að fluttir væru inn til þess verkamenn frá Bandaríkjunum. En þessir Norðurlandabúar hafa ef til vill ekki þótt nógu fínir til að vinna fyrir Bandaríkjamenn þarna suður frá. En í sambandi við þá bandarísku verkamenn, sem vinna á flugvellinum hér, væri fróðlegt að fá að vita, hvort til er spjaldskrá yfir þessa menn og fyrri störf þeirra og herþjónustu. Það þarf að gefa skýrslu um, hvaða störf þeir hafa stundað, hversu lengi þeir hafi verið í herþjónustu og hvaða stöður þeir hafi skipað og hvenær þeir hafi hætt herþjónustu. Það væri gaman að fá að heyra, hvenær fataskiptin voru höfð. Og eins er það um hina svo kölluðu lögreglumenn. Það þarf að gefa skýrslu um þeirra fyrri störf og hve lengi þeir hafi gegnt störfum sem herlögreglumenn. Þeir menn, sem vilja af fremsta megni dylja, að á Keflavíkurflugvelli sé herstöð, þeir reyna að telja mönnum trú um, að á vellinum séu aðeins óbreyttir verkamenn, en ekki hermenn. Ríkisstj. hefur því auðvitað slegið þann varnagla, að þeir, sem inn eru fluttir til starfa á flugvellinum, séu venjulegir verkamenn, en ekki nýafvopnaðir hermenn. Þessir Bandaríkjamenn, sem vinna á vellinum, eru auðvitað útsvars- og skattskyldir samkv. íslenzkum l., og væri fróðlegt að vita, hvernig þau lagafyrirmæli eru framkvæmd. Það er minnzt á það í skýrslu flugvallarn., að verkamennirnir á flugvellinum fái kaup samkvæmt íslenzkum kjarasamningum. En hvað fá bandarísku verkamennirnir? Það væri fróðlegt að fá það upplýst. Það er nauðsynlegt að fá að vita, hvort þeir vinna þar samkv. íslenzkum kjarasamningum eða hvort þeir vinna þar samkvæmt samningum milli bandarískra atvinnurekenda og verkamanna eða hvort þeir eru þar samkvæmt samningum Bandaríkjastjórnar og hennar eigin hers. Það þarf að fá fram, með hvaða kjörum þeir vinna þarna, og ef þeir hafa þarna aðeins mála eins og venjulegir hermenn, er það þýðingarmikið rannsóknaratriði fyrir okkur Íslendinga.

Hæstv. utanrrh. minntist á, að á flugvellinum væri ekki um að ræða venjulega lögreglumenn, heldur vinnupólití. — Það er nú svo. Við vitum, að í Bandaríkjunum hafa stóratvinnurekendurnir prívatlögreglu, njósnara og slagsmálahunda, til þess að njósna um pólitískar skoðanir verkamanna, hvort þeir séu í verkalýðsfélögum o. s. frv. og til þess blátt áfram að reka eftir þeim við vinnuna, eins og siður var í Suðurríkjunum að reka áfram þræla. Það virðist sem hæstv. utanrrh. hafi ekkert við þetta að athuga. En amerísk vinnulöggjöf, sem kúgað hefur verið upp á verkamenn þar, nær alls ekki til þeirra verkamanna, sem hér vinna. Þeir eru undir íslenzkum lögum og njóta íslenzkra réttinda og íslenzks frelsis. Ef bandarískir auðhringar ætla að fara að koma hér á vinnuþrælkun, þá er það nokkuð, sem íslenzk alþýða kærir sig ekki um. Það má vera, að hæstv. utanrrh. hafi ekkert á móti því, að sú lenzka kæmist á á flugvellinum, og ekki ólíklegt, að ef hún kæmist á, þá mundu sumir íslenzkir auðmenn vilja taka hana upp. Það er því bezt að reyna að girða fyrir það í tíma, að slíkt geti átt sér stað. Hæstv. utanrrh. vildi láta líta svo út, að þessi vinnupólití væru Íslendingum óviðkomandi. En svo er alls ekki. Bandaríkjaverkamennirnir hér eru undir vernd íslenzkra laga og búa ekki við amerískt þrælahald og þrælkun verkalýðsfélaga, sem þar hefur verið komið á gegn harðvítugri mótspyrnu verkamanna. Bandarísku auðmennirnir hafa hér engan rétt til að innleiða kúgunaraðferðir sínar, og það er nauðsynlegt, að Íslendingar standi þar fast á móti og það nú þegar. Við getum lært ýmislegt tæknilegt af Bandaríkjamönnum, en við ættum ekki að taka okkur til fyrirmyndar það, sem lakast er í fari þessarar ágætu þjóðar, en það er einmitt það, sem auðjöfrarnir hafa innleitt. Á móti því verður að berjast hér.

Þá vil ég minnast á rekstur fjarskiptistöðvarinnar. Ef ég man rétt, þá var hún eitt af því, sem flugvallarn. var sammála um að leggja höfuðáherzlu á, að yrði undir íslenzkri stjórn, og segir svo í áætlun um rekstrarfyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli, með leyfi hæstv. forseta: „Öll þessi fjarskipti, að undanskildum teleprintum hjá flugfélögum, álítum við, að hljóti að verða undir íslenzkri stjórn, bæði samkv. flugvallarsamningnum og fjarskiptalögunum, og breytir það engu um þetta, þótt í fyrstu verði að nokkru leyti og sums staðar ef til vill að mestu leyti að notast við starfskrafta umboðsmanna Bandaríkjastjórnar“. En nú segir í skýrslu flugvallarn., með leyfi hæstv. forseta: „Á s. l. vetri skýrði fulltrúi Bandaríkjastjórnar póst- og símamálastjórninni frá því, að þeim væri óhjákvæmileg nauðsyn að nota þessa stöð til þess að endurvarpa milli bækistöðva þeirra herstjórnarskeytum og sérstökum veðurfréttum. vegna flugs hernaðarflugvélanna, sem um ræðir í flugvallarsamningnum. Aðrar sambandsleiðir milli nefndra stöðva töldu þeir hafa of miklar tafir í för með sér. Ríkisstj. hefur þess vegna samkv. 4. gr. samningsins og 1. gr. l. nr. 95 frá 1946 fallizt á að leyfa Bandaríkjastjórn að reka þessa fjarskiptastöð fyrir skeyti sérstaks eðlis með vissum takmörkunum og undir eftirliti landssímans.“ Þarna er því látið undan, þar sem eftirlitið var nauðsynlegast, og hér er um að ræða beinan hluta úr herstöð. En fjarskiptastöðin er einmitt sú stofnun, sem Íslendingar þurfa sérstaklega að hafa eftirlit með, ef þeir vilja reyna að taka á sig ábyrgðina á gerð flugvallarsamningsins. En hæstv. ríkisstj. hefur látið undan, enda þótt allt vald í þessu efni væri í hennar höndum.

Eftir að sambandslagasamningurinn var gerður við Dani, var lögð áherzla á, að við yfirtækjum allt það, sem við höfðum rétt til að taka í okkar hendur, svo sem hæstarétt, landhelgisgæzluna o. s. frv. Það var okkar öryggis- og sjálfstæðismál. Nú virðist það vera stefna ríkisstj. að láta sífellt undan Bandaríkjamönnum og yfirtaka ekki þær stöðvar og þau mannvirki, sem við eigum fullan rétt á. Ég held, að breyta þurfi alvarlega um stefnu, ef við viljum sýna, að íslenzk l. gildi á Keflavíkurflugvellinum. Það er sama, hvort í smáu eða stóru er, það er eins og ríkisstj. áliti, að Keflavíkurflugvöllurinn sé ekki lengur hluti af Íslandi, og hún rankar ekki við sér, fyrr en farið er að rífast og skammast. Til dæmis voru bílarnir með amerískum merkjum og alls ekki merktir Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það var ekki fyrr en Þjóðviljinn skammaði stjórnina fyrir þetta, að merkin voru sett á bílana. Og það vantar algerlega að embættismönnunum íslenzku sé innprentað að framfylgja íslenzkum I. Það er ekki ennþá ljóst, hver hreppamörkin eru þarna suður frá. Völlurinn tilheyrir víst einum fjórum hreppum, og væri fróðlegt að vita, hvernig skiptingin er. Hvernig er með benzínskömmtunina á flugvellinum, og hvernig er með skattana af bílunum? Hvar sem drepið er niður, er eins og ríkisstj. sé ekki ljóst, að völlurinn sé íslenzk eign og undir ísl. l. Það er fyrst, þegar farið er að gera hark, að þeir hrökkva við. Þá byrja þeir á því að afsaka sig, og síðan þjóta þeir í Bandaríkjamenn til að reyna að gera eitthvað, sem þeir geti bent á, og í óðagoti sínu gera þeir svo óhagstæða samninga um mál, sem þeir geta sjálfir ráðið. Öll skýrslan, sem utanrrh. lagði fram, virðist samm í þeim tilgangi að þvo Bandaríkjamenn og svo ríkisstj. hreina út af sleifarlaginu, sem ríkir á Keflavíkurflugvellinum. Ég gæti bezt trúað, og skýrslan ber það raunar með sér, að hún sé fyrst samin, eftir að Þjóðviljinn réðst á framkvæmdirnar þar og eftir að sú till. frá hv. þm. Siglf., sem hér um ræðir, kom fram. Sem sagt, ekkert er gert áður og orðalag skýrslunnar er þannig, að tilgangurinn skín út, en hann er sá að þvo Bandaríkjamenn og ríkisstj. hreina og samt að vera í sem minnstri mótsögn við ummæli viðkomandi embættismanna. Hvernig skyldi svona skýrsla vera til kominn og hvað skyldi hæstv. utanrrh. eiga mikið í henni? Íslenzkum embættismönnum er sagt fyrir, hverjar skýrslur þeir skuli gefa, og þeir beygðir, enda hefur hæstv. utanrrh. verið fljótur að víkja embættismönnum frá, ef honum hefur ekki líkað við þá eða honum hefur þótt líkindi til þess, að þeir gætu komið upp um sig. Ef til vill eiga embættismennirnir þar syðra slíkt á hættu. Ef til vill skoðar hæstv. utanrrh. það sem sitt hlutverk að kúga íslenzka embættismenn til að láta undan Bandaríkjamönnum. Það þarf þá ekki að sökum að spyrja, hvernig fari, þegar æðsti embættismaðurinn beitir valdi sínu til að slaka til. Þá þýðir lítið fyrir hina smærri embættismenn að standa á rétti landsmanna. Ef þingið ætlar sér að rannsaka þessi mál til hlítar, þá þarf að kalla embættismennina til yfirheyrslu, þar sem ráðherrarnir eru ekki við, svo að upplýst verði, hvað ráðherrarnir hafa fyrir þá lagt. Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, var það mikil ógæfa, að embættismennirnir fengu ekki strax ákveðin lagafyrirmæli til að standa í gegn hinu erlenda valdi. Þá hefði verið reynt að halda fram íslenzkum lögum. Það er því nauðsynlegt, ef Alþ. vill halda uppi sóma þjóðarinnar, að kalla embættismennina til yfirheyrslu og rannsóknar á þeim brotum á íslenzkum lögum, sem framin hafa verið, og þeim tilslökunum á rétti Íslendinga, sem gerðar hafa verið. Það var næsta aumingjalegt hjá hæstv. utanrrh., þegar hann talaði alltaf um það, sem undirmenn ríkisstj. hefðu gert, og skaut sér á bak við þá. Það hefði þó mátt búast við, að frá ríkisstj. kæmi undirmönnunum uppörvun til að standa á rétti landsins, ekki sízt þegar flokkur, sem kallar sig Sjálfstæðisflokk, á mann í sæti utanrrh. En því fer víðs fjarri, að embættismennirnir fái þessa uppörvun frá ríkisstj. Þvert á móti er þaðan reynt að beygja þá undir hið erlenda vald. Á sama tíma gerist það svo, að þegar hlutlaust er sagt frá ástandinu á Keflavíkurflugvellinum, þá hindrar stjórnarliðið í útvarpsráði, að sá maður, er gaf hlutlausa lýsingu á ástandinu, flytji framar erindi í útvarpið. Ef ríkisstj. vildi afstýra hættunni, sem stafar af dvöl hinna erlendu manna á flugvellinum, þá mundi hún hafa forgöngu um að vara menn við því, að ástandið á flugvellinum smitaði út frá sér, og skapa andlegan og siðferðislegan múr um völlinn. Ef ríkisstj. ætlaði sér að halda vörð, ekki eingöngu um hagsmunamál landsbúa, heldur og um siðferðisástandið í landinu, mundi hún vara við því, að ástandið á flugvellinum sýkti út frá sér, og mundi reyna að skapa gegn því þjóðarmetnað. En þessu fer svo fjarri, að hlutlausum lýsanda er meinað að koma skoðunum sínum á framfæri við þjóðina. Þegar flutt er erindi í útvarpið um ástandið á Keflavíkurflugvellinum og sagt skýrt og skorinort frá því, sem þar ber fyrir augu, þá þykir það skapa of sterkan þjóðarmetnað og þeim, sem þetta gerði, vikið frá störfum við útvarpið. Það væri ef til vill hættulegt, ef stúlkunum þætti smán að því að fara suður á Keflavíkurflugvöll. Nei, það má ekki skapa svona undirlægjuhátt, og þeir menn, sem vinna að því, hafa ekki mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart sinni eigin þjóð. Við fengum næga reynslu af því í stríðinu, að við verðum að vera á verði, þegar tvíbýli er í landi voru. Það má ekki láta erlenda menn suður á Keflavíkurflugvelli flytja inn alls konar vörur tollfrjálst og eftirlitslaust, meðan við Íslendingar leggjum á okkur skort til þess að spara, og gefa þessum mönnum þannig kost á því að selja okkur sjálfum á svörtum markaði. Sérréttindi þessara manna skapa þeim líka aðstöðu til þess að láta Íslendingana, sem þarna vinna, og aðra þá, sem þeir ná til, líta upp til sín og vita, að þeir séu yfirþjóðin, enda virðist ríkisstj. einnig líta svo á. Ég býst við, að það væri þarfara fyrir Sjálfstfl. að láta æskulýðsfélagið svo nefnda, Heimdall, brýna fyrir æskunni hættuna, sem þjóðinni stafar af Keflavíkurflugvellinum og því, sem þar gerist, - en það eru víst færri ræðurnar, sem hníga að því á fundum Heimdallar —, heldur en túlka utanríkisstefnu Bandaríkjanna og bera óhróður og lygar um kommúnista. Annars er það víst ólæknandi sýki, sem Heimdallur er þungt haldinn af.

Ríkisstj. virðist alls ekki gera sér ljósa þá hættu, sem okkur stafar af sambúðinni á Keflavíkurflugvellinum, bæði andlega og siðferðislega, enda kemur það greinilega fram í orðum utanrrh., sem hann viðhafði hér í gær, þar sem hann segir, að það hafi verið meinfangalaus greiðasemi að láta Bandaríkin fá afnot af Keflavíkurflugvellinum. Það má mikið vera, ef þessi orð eiga ekki eftir að verða söguleg og hafa illar afleiðingar. Þó vildi ég óska, að þjóð vorri verði forðað frá því. Bandaríkin líta á Keflavíkurflugvöllinn sem herstöð, og það er ekki á okkar valdi, eins og nú er um búið, að það geti ekki orðið herstöð þar, hvenær sem er, og Bandaríkin hafið þaðan árásir á Evrópu. Ég lagði það til í utanrmn., að gengið yrði þannig frá flugvellinum, að hægt væri að sprengja hann upp, ef til stríðs drægi, en það var að engu haft, en eins og nú er fyrir komið, er hægt að hefja þaðan árásarstríð, án þess að við höfum hugmynd um. Við vitum, að það fara fram stríðsæsingar í Bandaríkjunum, og þó að við vonum, að ekki verði stríð, þá getum við aldrei verið fullkomlega viss. Ef illa tækist til, þá erum við algerlega ofurseldir Bandaríkjunum. Þau geta misnotað flugvöllinn, hvenær sem er, og við getum gert okkur í hugarlund, hvaða afleiðingar það hefði fyrir þjóðina. Það var sagt, þegar þessi mál voru rædd, að Íslendingar gætu ekki afstýrt því, að landið yrði tekið, og það er alveg rétt, en ef slíkt kæmi fyrir, þá vissum við, hvað til stæði, og gætum ef til vill forðað helming þjóðarinnar frá tortímingu, en litlar líkur væru til þess, ef hafnar yrðu hér árásir að okkur óvörum. Við vonum, að Bandaríkin bregðist ekki, en það er ekki af því, að ríkisstj. hafi ekki tekið alla áhættuna af því. En, það var nú bara meinfangalaus greiðasemi að veita Bandaríkjunum afnot af flugvellinum, segir utanrrh., en þó var hér um að ræða réttindi, sem Bandaríkin hefðu áreiðanlega borgað margar milljónir dollara fyrir. Það má segja, að úr því að það var gengizt inn á þá hættu og smán, sem fólst í þessum samningi, þá hefði alveg eins mátt taka fyrir hann, og það var raunar ekki nema til þess að bæta heimskunni ofan á smánina að gera það ekki.

Við vitum það úr sögunni, að þjóð vor hefur fyrr orðið að gera neyðarsamninga, en þeir hafa þó stundum orðið okkur hjálp vegna þess, að fast var á rétti þjóðarinnar haldið og vitnað til þess, að þjóðin var þvinguð til að gera þá. En í sambandi við flugvallarsamninginn virðist allt gert til þess að rýra rétt vorn og eyða þeirri staðreynd, að við höfum lánað þarna dýrmæt réttindi. Þetta ástand verður að breytast. Það verður að sjá svo um, að öll íslenzk lög gildi gagnvart þeim mönnum, sem starfa á einn eða annan hátt við flugvöllinn, og það má gjarnan láta Bandaríkin vita, að við séum þess fullkomlega meðvitandi, hvað flugvöllurinn er dýrmætur. Það gerir ekkert til. þó að bandarísku herforingjarnir hætti að spjalla um það og henda gaman að, hvað Íslendingar séu heimskir að láta Bandaríkin hafa Keflavíkurflugvöllinn fyrir ekki neitt.

Mér þótti vænt um það, þegar ég sá greinina í „Times“ 1941, um það leyti er Bandaríkin voru að taka hér við hernáminu. Þar segir, að Íslendingar séu erfiðir viðureignar, þeir séu svo viðkvæmir í sjálfstæðismáli sínu. Ég held, að það væri alveg óhætt að láta Bandaríkin finna til þess, að við séum viðkvæmir fyrir sjálfstæði okkar og sjálfstjórn, í stað þess að bæla niður gagnrýnina og það svo ákveðið, að maður, sem lýsir ástandinu þar syðra eins og það er, skuli vera rekinn frá hljóðnema ríkisútvarpsins fyrir fullt og allt, auk þess sem starfsmennirnir á flugvellinum eru látnir hlíta vægari lögum en þjóðin sjálf. Íslendingar eru enn viðkvæmir fyrir sjálfstæði lands og þjóðar. Því er það fullkomin hneisa að heyra utanrrh. tala á Alþ. eins og hann væri málflutningsmaður Bandaríkjanna, já utanrrh., sem á að vera vörður Íslands og hefur sæmilegan lagalegan grundvöll til þess að standa á.

Því fer fjarri, að það sé sómi fyrir ríkisstj., hvernig haldið hefur verið á framkvæmd flugvallarsamningsins. Alþ. ætti að sjá sóma sinn í því að afmá þann smánarblett að svo miklu leyti sem hægt er og vera á verði um það, að betur verði á þessum málum haldið, svo að afstýrt verði eftir föngum þeirri ógæfu, sem flugvallarsamningurinn er fyrir íslenzku þjóðina.