20.10.1947
Sameinað þing: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3278)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um mál þetta, en eins og mönnum er kunnugt, þá hefur þegar mikið verið rætt um það hér í Sþ. undanfarna daga. Hæstv. utanrrh. hefur farið ýtarlega í einstök atriði, og mun ég því ekki rekja málið lið fyrir lið, en aðeins svara því, sem mér þykir ástæða til.

Ég vildi þá fyrst drepa á það atriði, að þegar samningur þessi var gerður, þá hófu kommúnistar fyrstir manna upp raustir sínar og reyndu að þyrla ryki í augu manna með því að halda því fram, að hér væri um landráð og þjóðhættulegan samning að ræða, sem komið gæti þjóðinni á kaldan klaka. Hrakspár um framkvæmd samningsins voru miklar og ljóslega málaðar upp allar þær hörmungar og voði, sem íslenzka þjóðin ætti fyrir höndum, ef samningurinn væri gerður. Sú alda, sem í fyrstu reis vegna alls þessa, féll þó furðu fljótt niður, ekki vegna þess, að kommúnistar hættu æsingum sínum, heldur vegna dómgreindar almennings í þessu máli. Strax eftir að samningurinn var svo gerður, átti að gera samtök um að hindra framkvæmd hans, og síðar áttu svo þessi samtök að vera vakandi auga þjóðarinnar yfir því, hvernig stjórnarvöld landsins höguðu framkvæmd hans. Þetta hjaðnaði fljótlega niður, enda átti aldrei fjölmennu fylgi að fagna.

Eftir að samningurinn var samþ., þ. 5. okt., var haldið landsþing Alþfl., og féllst það á allt það, er Alþ. hafði gert varðandi þetta mál, og ég hef vissu fyrir, að um flokksmenn mína um allt land gegndi sama máli. Hitt er annað mál, að alls staðar á landinu fundust menn, sem töldu samninginn í sumum atriðum geta verið hættulegan okkur Íslendingum, og einmitt vegna uggs þess, sem var í sumum, þá var gætt sérstakrar varúðar varðandi mál þetta. Ég hygg, að þetta eina ár, sem liðið er síðan samningurinn var gerður, ætti að færa mönnum heim sanninn um, að ekkert hefur skeð, sem er hættulegt fyrir sjálfstæði og fullveldi okkar unga lýðveldis Íslands, og að viðskiptin við hina erlendu stórþjóð, sem samningurinn var gerður við, hafa í engu brugðizt vonum vorum. Eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram hér, þá gætir nokkurs misskilnings og ónákvæmni í ýmsum erlendum blöðum varðandi mál þetta, og hafa sum þeirra viljað halda því fram, að hér væri jafnvel um herstöðvasamning að ræða. Það er í raun og veru sízt að furða, þó að slíkur misskilningur slæddist inn í nokkur blöð erlend, þar eð einn flokkur í landinu sjálfu hefur róið og rær að því öllum árum, að hér sé einmitt um slíkan samning að ræða, og skirrist ekki við að láta það í ljós erlendis sem innanlands. Ég hef átt þess kost að ræða þetta mál við ýmsa ráðamenn Norðurlandaþjóðanna, að gefnu þeirra tilefni, og hafa þeir látið það álit sitt í ljós, að þeir hyggja, að virða beri íslenzku þjóðina fremur en hitt fyrir það, að hún gerði þennan samning, og vera má, að sumar af Norðurlandaþjóðunum eigi eftir að sigla í höfn jafnvandasömum málum og þessu, og óskandi, að þeim tækist það jafnfarsællega og okkur Íslendingum. Enn er eftir að taka ákvarðanir varðandi Svalbarða og Grænland, en hvort tveggja eru vandasöm mál. Þeirri skoðun, að með samningnum sé verið að ganga á landsréttindi Íslendinga og að þjóðinni stafi hætta af honum, eins og kommúnistar halda fram, hefur skotið upp á stöku stað erlendis, ef við nánari athugun viðkomandi manna hjaðnar sú trú algerlega niður, því að hún getur ekki byggzt á öðru en vanþekkingu á máli þessu. Og ég tel það víðs fjarri, að hin íslenzka ríkisstj., sem um samninginn fjallaði, hafi með samþykkt hans gengið á íslenzk landsréttindi eða í nokkru sett blett á þjóð sína.

Hvað snertir framkvæmd samningsins, er skýrslan um það atriði ljósasta og greinarbezta vitnið. Hún hefur nú birzt bæði í blöðum og útvarpi, svo að ég sé ekki ástæðu til að lesa hana hér. Kommúnistar hafa leyft sér hér að gefa í skyn, að hún mundi á ýmsa lund ósönn og fölsuð. Ég vildi leyfa mér að taka það fram, að 2 af þeim mönnum, sem skýrsluna gerðu, eru mér báðir kunnir að sérstakri samvizkusemi og árvekni í störfum sínum, og ég hygg, að þeir séu af fleiri en mér taldir einir beztu og færustu embættismenn, sem ríkið hefur á að skipa. Þessir menn eru þeir Gunnlaugur Briem og Gunnlaugur Pétursson. Ég mundi ekki leyfa mér að hugsa, að þessir menn hefðu látið nota sig til þess að gefa einhver svikavottorð um óhæfu, sem verið væri að drýgja. Með þessu er ég ekki að varpa skugga á hina tvo mennina, sem að skýrslunni hafa unnið. Ég þekki þá ekki eins vel, en hef aldrei heyrt þeirra getið að öðru en vöndugheitum og trúi því eindregið, að þeir mundu aldrei láta nota sig sem verkfæri til þess að hylma yfir eitthvað, sem illa er gert. Skýrslan er mjög ljós og skýr í öllum atriðum.

Í umr. þessum hefur helzt verið fundið að því, að ekki hafi verið í upphafi gerð sú reglugerð, sem þurfi, um framkvæmd samningsins, t. d. hvað viðvíkur flugvallargjöldunum. Ég hygg, að það út af fyrir sig geti ekki haft neina úrslitaþýðingu fyrir framkvæmd samningsins í heild. Ég tel, að ýmis tormerki hafi verið á að setja þessa reglugerð, strax eftir að samningurinn var gerður, vegna þess, að rétt gat verið að afla sér reynslu og nánari þekkingar um ýmis atriði, og ég hygg, að það hafi verið það, sem vakti fyrir hæstv. fyrrv. atvmrh. Nú hefur hæstv. menntmrh. hins vegar upplýst, að dráttur þessi hafi verið óhæfilega langur, og er því auðvitað ekki bót mælandi. Hvað viðvíkur byggingum á Keflavíkurflugvellinum, þá hafa kommúnistar fyllzt reiði mikilli út af því, að þegar um byggingar þessar til handa Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur verið að ræða, þá hafi ekki skort fjárfestingarleyfi eða annað slíkt, sem annars eru vandkvæði á að afla fyrir Íslendinga sjálfa. Ég vil benda á það, að Bandaríkin vildu einmitt hafa þessar byggingar óvandaðar bráðabirgðabyggingar, en íslenzka ríkisstj. taldi íslenzkum hagsmunum betur borgið með því að hafa þessar byggingar varanlegar og vandaðar, með því að Íslendingar koma sjálfir til með að eignast þær og allt það, er fast er þarna suður frá. En þetta er aðeins ein tilraun kommúnista til þess að vekja tortryggni og óánægju með aðgerðir stjórnarvaldanna.

Það mun koma í ljós, ef menn gera sér það ómak að skoða mál þessi niður í kjölinn, að þeir menn, sem um þessi mál hafa fjallað, hafa haldið eins vel og unnt var á málefnum Íslendinga og í engu borið hagsmuni þeirra fyrir borð. Hitt er annað mál, að þegar um jafnvíðtækan samning og þetta er að ræða, þá hljóta alltaf að rísa upp nokkur vafaatriði varðandi framkvæmd hans, en ég vil ítreka það, að ríkisstj. vill halda uppi þeim skýringum varðandi mál þetta, sem sýna, að íslenzkir hagsmunir hafa verið bornir fyrir brjósti og munu einnig vera það. Bandaríkjastj. hefur heldur í engu sýnt, að hún vilji ekki halda samninginn, og alltaf þegar vafaatriði hafa komið fram, hefur þeim lyktað með samkomulagi, sem Íslendingar þurfa ekki að kvarta yfir. Bandaríkin hafa alltaf sýnt lipurð varðandi vafamálin.

Ég hygg, að slá megi föstu, að íslenzk stjórnarvöld hafi reynt að framkvæma samninginn með hagsmuni Íslendinga fyrir augum og að í engu hafi verið gengið á rétt þeirra, og í öðru lagi, að Bandaríkin hafi ekki sýnt vilja á að virða ekki samninginn.

Ég hygg, að íslenzkum hagsmunum sé bezt borgið með því að halda samkomulagi og góðri sambúð við allar þær þjóðir, sem í engu hafa sýnt það, að vilja ganga á rétt okkar. Við Íslendingar, sem erum fámenn þjóð og valdalítil, höfum ekki efni á því að koma okkur út úr húsi hjá neinni þjóð, allra sízt hjá stórveldi eins og Bandaríkjunum, sem við höfum yfirleitt reynt að orðheldni og lipurð.

Það er engin ástæða til að vera að troða illsakir við Bandaríkin út af samningi þessum, því að hann getur enga hættu haft í för með sér fyrir landið eða þjóðina. Reynslan ber því ótvírætt vitni, að þær hrakspár, sem spáð var, er samningurinn um Keflavíkurflugvöllinn var gerður, hafa ekki staðizt, en ég vil að lokum taka undir með samráðherrum mínum, hæstv. utanrrh. (BBen) og hæstv. menntmrh. (EystJ), að gefnu tilefni, er spurt var að því, hvort við værum því hlynntir, að samningurinn gengi úr gildi strax og hann væri útrunninn, að það fer eftir framkvæmd og reynslu af samningnum, hvaða afstaða verður tekin til málsins, þegar hann rennur út. Það getur enginn vitað, hvernig ástandið verður í heiminum þá, og það er vafasamt, að Íslendingar geti einir, svo að í lagi sé, rekið þennan flugvöll, sem er með þeim stærstu í heimi. Ég tel lítil líkindi til þess, að íslenzka ríkið hafi fullkomið bolmagn til að reka hann, því að samgöngur um hann verða miklar og þýðing hans fyrir alheimssamgöngur er mikil. En það getur skapazt aðstaða til að reka hann í samráði við aðra aðila, t. d. alþjóðaflugsamtök eða aðra, án þess að nokkur hætta sé búin íslenzku þjóðinni af þeim erlendu mönnum, sem hingað kæmu. Það er beint vantraust á þjóðina, að hér sé verið að stofna sjálfstæði hennar í hættu vegna nokkurra útlendinga, sem dvelja í landinu.