29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Flm. (Áki Jakobsson) [frh] :

Herra forseti. Það er nú nokkuð á aðra viku, síðan mál þetta var hér síðast til meðferðar, og hafði ég þá ekki lokið ræðu minni, og eins og ég tók fram, var orðinn alllangur tími, frá því er ég talaði síðast og höfðu ýmsir talað á milli, t. d. hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., og eitt og annað, sem ég þarf því að svara, og mun ég koma að því síðar. En síðast var ég að ræða skýrslu flugvallarn., sem birtist í Morgunblaðinu og fleiri blöðum þann 17. okt. s. l. og var lögð fram sem varnarskjal hæstv. ríkisstj. og það eina, sem hún hafði fram að færa, og hefur hún ekki enn gefið frekari upplýsingar en drepið er á í skýrslunni, þó að þar vanti stórlega á, t. d. skýringar á tiltölulega óljósu orðalagi. Þegar ég hætti síðast, var ég að tala um framkvæmdina á því atriði samningsins, sem fallega er orðað í 6. gr. og hljóðaði upphaflega svo: „Í sambandi við rekstur flugvallarins munu Bandaríkin, að svo miklu leyti sem kringumstæður leyfa, þjálfa íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarrekstrar, svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins að svo miklu leyti sem frekast er unnt: Þetta var örlítið lagað í meðferð þingsins, þannig að felldir voru niður fyrirvarar, en þó ekki svo mikið, að efnisbreyting yrði, þannig að eins og þetta var samþ., er 6. gr. svo hljóðandi: „Í sambandi við rekstur flugvallarins munu Bandaríkin þjálfa íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarrekstrar, svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins.“ Það var fellt niður „eins og frekast er unnt.“ Það er allt og sumt. En í framkvæmdinni er engu breytt frá hinu upphaflega orðalagi, enda var breyt. sú aðeins gerð til að flagga framan í fólkið, en ekki til að framkvæma hana. Það átti að vera ein höfuðröksemdin með ágæti samningsins, að hér væru ekki til fagmenn, en hins vegar ætluðu Bandaríkjamenn af veglyndi sínu og góðvilja að þjálfa íslenzka menn, sem annars voru ætlaðir tornæmir í sambandi við flugvallarrekstur, svo að þeir gætu í vaxandi mæli tekið að sér störfin. Það var algerlega sniðgengið, að til var það mikið af fagmönnum, að þeir hefðu getað tekið þessi störf að sér að miklum hluta, einkum var sjálfsagt að hafa íslenzka verkstjórn. Í framkvæmdinni hafa svo Íslendingar verið taldir óhæfir til tæknilegra starfa, jafnvel þótt þeir væru faglærðir í Bandaríkjunum og hafi starfað á flugvöllum úti. Eru þeir svo látnir gegna ýmsum nauðaðmerkilegum störfum á vellinum. Í skýrslu flugvallarn. er reynt að telja fólki trú um, að þetta hafi batnað og að málinu sé haldið vakandi af ríkisstj., og býst ég við, að hæstv. utanrrh. upplýsi, að í þessu atriði hafi Bandaríkjamenn fallizt á sjónarmið Íslendinga. Skýrslan segir, að 19 íslenzkir menn vinni við tæknileg störf á vellinum. Þetta er ekki rétt. Eða telur hæstv. ríkisstj., að þeir, sem vinna að hreingerningum á flugvélum og sölu farmiða og almenna skrifstofuvinnu, vinni við tæknileg störf? En að þessum og þvílíkum störfum eru menn látnir vinna, sem hafa með ærnum kostnaði aflað sér mikillar þekkingar á stjórn flugvalla.

Í þessu sambandi er ekki hægt að komast hjá því að minnast á flugturninn, þar sem hin daglega stjórn vallarins fer fram. Þar hafa Íslendingar engan mann, þótt margir séu tiltækir, og gæti turninn alveg verið undir íslenzkri stjórn. Um þetta segir flugvallarn.: „Þess skal getið, að flugvallarn. fór á sínum tíma fram á það við félagið, að Íslendingar yrðu látnir gegna störfum í flugturni vallarins á kostnað Bandaríkjamanna. Var tekið vel í þetta mál, en þá voru ekki kunnáttumenn fyrir hendi. Þar sem nú er hægt að fá íslenzka kunnáttumenn, hefur málið verið tekið upp á ný. Um hitt þarf ekki að leita samkomulags, ef Íslendingar vilja setja mann í flugturninn á sinn kostnað. Það geta íslenzk stjórnarvöld gert, hvenær sem þeim lízt: Þarna er ruglingslega skrifað og næsta furðulegt, ef Íslendingar hafa farið fram á að gegna störfum í flugturninum, þegar engir voru til þess hæfir. N. fór auðvitað fram á þetta, af því að hæfir menn voru fyrir hendi, og ég fullyrði, að síðan Bandaríkjamenn fóru héðan með her sinn, þá hafa alltaf verið tiltækir menn til að starfa í flugturninum. Nú segir svo n., að málið hafi verið tekið upp á ný, vegna þess að n. finnur óróa almennings út af framkvæmd samningsins. Og nú, þegar kunnáttumenn eru fyrir hendi, þá átti ríkisstj. að setja mann strax í flugturninn, en það var ekki gert, heldur teknir upp samningar á ný. hæstv. utanrrh. fannst eðlilegt að taka upp samninga um atriði, er til álita kæmi, og honum virtist þykja eðlilegt, að íslenzka ríkisstj. þurfi að setjast að samningaborði við Bandaríkjamenn út af hverju einasta smáatriði, og taldi það vott um gáð samskipti vinsamlegra ríkja. Þessi orð sanna það, að hæstv. ríkisstj. framkvæmir ekki samninginn eins og hann væri samningur, þar sem við Íslendingar höfum okkar ákveðnu skyldur og ákveðin réttindi og Bandaríkjamenn sínar ákveðnu skyldur og ákveðnu réttindi. Það kemur á daginn, að samningurinn er aðeins yfirvarp og flugvallarn., sem sjá átti um stjórn Íslendinga á vellinum, er stöðug samninganefnd til að semja um allt í sambandi við veru Bandaríkjamanna á flugvellinum. Þetta er kjarni málsins. En Bandaríkjamenn vilja hafa hér alla smá hentisemi.

Eins og framkvæmdum er nú hagað um tölu starfsmanna á flugvellinum, virðast Bandaríkjamenn geta haft þar eitt þúsund, tvö þúsund eða bara eins og þeir kæra sig um, því að kallist þeir verkamenn, þá fá þeir landvistarleyfi og það jafnvel án þess, að sótt sé um það fyrir fram. Af þessu má sjá, að það er auðvelt fyrir Bandaríkjamenn að hafa mikið lið á vellinum, ef þeir bara segjast þurfa að hraða framkvæmdum, hvað sem þeir láta svo þessa menn gera. Þá reka Bandaríkjamenn einir á vellinum flugumferðastöð, loftskeytastöð, þar sem starfa um 50–60 menn. Sömuleiðis reka þeir þar veðurstofu, hótel, bakarí og þvottahús, en þar fá Íslendingar að vísu að vinna sem óbreyttir starfsmenn, en Bandaríkjamenn hafa yfirstjórn á öllum þessum stofnunum. Ef Íslendingar vilja gera aths. varðandi það, að einhver starfsemi Bandaríkjamanna á vellinum sé ekki í samræmi við flugvallarsamninginn, þá lætur ríkisstj. það fara fyrst til Bandaríkjastjórnar til þess að vita, hvort hún vill fallast á þessi sjónarmið okkar. Þetta tekur oft langan tíma, þó svo kannske að það sé fallizt á viðkomandi atriði, en með þessari meðferð geta Íslendingar aldrei tekið ákvörðun sjálfir. Af þessu er augljóst, að ríkisstj. lætur Bandaríkin hafa úrslitavald um allar framkvæmdir á flugvallarsamningnum, en hefur sleppt sínum rétti til úrslitaáhrifa, sem þó er ákveðinn í samningnum.

Í skýrslu flugvallarn. er getið um ráðstefnu, sem haldin var í Dublin í marz 1946. Þar segir svo, með leyfi forseta: „Á ráðstefnunni í Dublin í marzmánuði 1946 var m. a. ákveðið að leggja til, að Ísland hefði á hendi flugumferðastjórn á tilteknu svæði kringum Ísland. Var einnig óskað eftir sérstakri veðurþjónustu af hálfu Íslands vegna flugferða um Norður-Atlantshafið. Till. þessar voru síðan samþ. í stjórnarnefnd alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Á Dublinráðstefnunni lagði íslenzka sendinefndin fram rökstutt álit þess efnis, að Ísland sæi sér ekki fært að standa sjálft straum af kostnaði við þá þjónustu og stöðvar, sem mælt var með í samþykktum ráðstefnunnar, og áskildi sér rétt til alþjóðlegrar kostnaðarþátttöku fyrir milligöngu alþjóðaflugmálastofnunarinnar.“ Þessi krafa var ekki nema sjálfsögð, því að meginhluti þessarar starfsemi var fyrir aðrar þjóðir, þ. e. að leiðbeina erlendum flugvélum yfir Atlantshaf, og þar af leiðandi engin sanngirni í því, að Íslendingar bæru þennan kostnað einir, enda voru allir fulltrúar sammála um að Íslendingum yrði lagt til af fé stofnunarinnar. En þegar til framkvæmdanna kom, stöðvaði Bandaríkjastjórn þetta í bili, því að hún vildi setja Íslendinga í vanda út af þessu máli, svo að hægara væri að fá afnot af Keflavíkurflugvellinum, enda var því haldið fram af þeim, sem töldu sér hag í því að láta Bandaríkin hafa flugvöllinn, að einmitt vegna þeirra skuldbindinga, sem við hefðum tekið á okkur í Dublin, þá værum við til neyddir að láta flugvöllinn af hendi, þá að þetta væri blekking að því leyti, að við vorum alls ekki skuldbundnir til að reka þessa flugstöð, nema við fengjum styrk til þess. Þetta kemur líka betur í ljós síðar í skýrslunni, þar sem segir, að nú sé fengin aðstoð Bandaríkjanna til að fá umræddan kostnað endurgreiddan, en það var ekki fyrr en flugvallarsamningurinn hafði verið gerður.

Meðan Bandaríkjamenn höfðu hér herlið, þá ráku þeir hér loftskeytastöð, þar sem störfuðu um 60 menn. Þessa stöð reka þeir enn, þó að þeir hafi klippt af sér hnappana og stöðin sé algerlega óþörf fyrir hernámið í Þýzkalandi, þar sem íslenzka stöðin gæti auðveldlega annazt þá skeytasendingu, sem þörf væri á. Ef Íslendingar mættu ekki vita um innihald skeytanna, þá er auðvelt að senda dulmálsskeyti, enda nauðsynlegt hvort sem er. Það er fullvíst, að Bandaríkin hafa enga heimild eftir flugvallarsamningnum til þess að reka hér loftskeytastöð, og þegar aðgætt er, að stöðugt fleiri hernaðartækjum er stjórnað með loftskeytum, þá getur þessi rekstur Bandaríkjanna verið mjög hættulegur. Mér er ekki kunnugt um, hvaða tæki eru til staðar í þessari umræddu loftskeytastöð, en margt bendir til þéss, að þarna séu tæki til að stjórna mannlausum flugvélum og loftsprengjum. Það er því nauðsynlegt, að þarna sé fylgzt með í hverju smáatriði, en það er einungis hægt með því, að Íslendingar hafi alla verkstjórn þarna sjálfir.

Þá er að lokum eftirmáli í skýrslu flugvallarn., og í honum kemur fram yfirlýsing um það, að reglugerð verði ekki sett fyrst um sinn. Þar segir svo, með leyfi forseta: „Samkvæmt framangreindri skýrslu er það ljóst, að myndazt hafa reglur um flestöll þau atriði, er varða flugvöllinn og rekstur hans, en hins vegar hefur ekki þótt tímabært, vegna takmarkaðrar reynslu Íslendinga um rekstur slíkra flugvalla, að setja strax reglugerð um reksturinn, eins og ráð er þó fyrir gert í 7. gr. flugvallarsamningsins.“ Það er fullvíst, að flugvallarn. er ekki að skýra frá sinni skoðun, þegar sagt er í skýrslunni, að það sé ekki tímabært að setja reglugerð. Nei, þarna eru skipanir frá hærri stöðum. Það hefði þótt slæmur áróður, ef því hefði verið haldið fram um það leyti, sem harðast var deilt um flugvallarsamninginn, að engin reglugerð mundi verða sett um reksturinn. Þá hefðu samningamennirnir talað um tilhæfulausan róg. Það hefur verið deilt hart á Arnór Hjálmarsson, fyrrv. flugvallarstjóra, og það meðal annars fyrir það, að hann hafi ekki sett neina reglugerð um starfsemina á flugvellinum, en svo upplýsir flugvallarn. fyrir hönd sinna yfirmanna, ríkisstj., að það verði engar reglur settar fyrst um sinn. Svona er málflutningurinn. Ég tel, að þessi skýrsla flugvallarn. gefi þjóðinni góðar upplýsingar um þessi mál. Ríkisstj. lætur Bandaríkjamenn algerlega vera einráða um framkvæmd samningsins, en allar aðgerðir ríkisstj. miða að því að slá ryki í augu almennings. Skýrsla flugvallarn. ætti að vera nægilegt tilefni til þess, að Alþ. láti til sín taka í þessu máli, en þó að það verði ekki nú, þá mun koma að því, að þjóðin vill fá að vita nákvæmlega um þessi mál, og þá verður þetta plagg, sem ríkisstj. hefur látið gera, gott sýnishorn um það, hvernig haldið hefur verið á málstað Íslands, hvernig haldið hefur verið á þeim rétti, sem Bandaríkin gengust undir jafnhliða því að fá hér dýrmæt réttindi.

Ég hef áður farið út í þær fullyrðingar, að álitsgerðin, sem birt var með till., hafi aðeins verið umræðugrundvöllur, en sannleikurinn var að þetta voru till. n., sem ríkisstj. hafnaði, enda sést af skýrslunni, að skoðun ríkisstj. er sú að gera aðeins það, sem Bandaríkin hafa áður fallizt á, en flugvallarn. ræður þar engu um. Smokkar hæstv. utanrrh. sér undan því og ábyrgðinni, sem hann ber á því að hafa forkastað þessari till., sem þessir fagmenn lögðu fyrir stjórnina, en tekur upp framkvæmd, sem í einu og öllu gefur Bandaríkjamönnum frjálsari hendur án tillits til þeirra hagsmuna, sem Íslendingar hafa gætt þarna, og þess réttar, sem Íslendingum er æskilegt að hafa þarna. Hæstv. utanrrh. gerði mikið úr því, að ég hefði, eins og hann orðaði það, stolið þessum plöggum, sem ég birti með þáltill. minni, og bar á mig þjófnað og skjalafölsun. Ég vil benda á. að flugvallarn. og enginn þeirra manna hefur talið það nokkurt leyndarmál. Íslenzka þjóðin hefur fullan hug á að í samræmi við hennar samning sé allt á hreinu. Samningurinn var gerður í því skyni, að Bandaríkin gætu haft samgöngur við Þýzkaland og staðið við skuldbindingar gagnvart bandamönnum sínum. Þótt þetta sé ekki leyst af okkar hendi. er nauðsynlegt fyrir stjórnina að gera allt opinbert í þessum málum. Þessi skjöl hafa því farið víðar frá sölum nm., og ekkert hefur verið tjáð um það fyrr en þessi skýrsla um framkvæmd á samningnum, sem nú er fram komin. Sú nauðsyn hefur vaknað hjá ríkisstj. að leyna sem mestu fyrir almenningi upplýsingum varðandi þessi mál. Nú var síðasti þáttur í starfi hæstv. utanrrh. í sambandi við flugvallarmálið að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja, að almenningur fylgdist með því, hvað skeður þarna, og að hægt væri að koma til almennings upplýsingum um, hvernig ástandið er.

Hæstv. utanrrh. talaði um í þessu sambandi, að ég hefði stolið plöggum úr skúffu hjá hæstv., samgmrh. í sambandi við hafnargerð. Ég get ekki látið hjá líða að minnast nánar á þetta mál. Frá því að fyrrv. stjórn var mynduð, hefur þetta mál verið á döfinni. Var stöðugt hamrað á því, að gengið yrði frá þessu máli og ákvörðun fengin um það af fagmönnum, hvort þarna væri heppilegur staður til hafnargerðar. Fyrir kosningarnar 1946 lofaði samgmrh. því á kosningafundi á Sandi og Ólafsvík og víðar að hraða rannsóknum í málinu og láta það fram koma án tafar. Ekkert var gert til að rannsaka þetta fyrr en seinni hluta sumars. Og samgmrh. gerði ekkert til að koma málinu á framfæri. Þá samdi ég frv. og byggði á upplýsingum, sem þá voru kunnar um rannsóknir, sem fram fóru. og lagði það fyrir þingið, til þess að tryggt væri, að þetta kæmi fram á þingi, því að sýnt var að hæstv. samgmrh. ætlaði ekki að bera það fram og þannig liggja á þessu máli. Ég samdi þetta frv., þar sem samgmrh. hafði ekki gert það þrátt fyrir loforð hans persónulega á kosningafundi þar vestra. Því var það að ég lagði málið fram, enda málið að vissu leyti skylt þeim störfum, sem ég hafði, sem voru atvinnumál og sjávarútvegsmál, því að við svo búið er ekki um að ræða, að fólkið geti búið þarna lengur, ef ekki verða bætt hafnarskilyrði, og þar með liggja ónotuð önnur dýrmætustu þorskveiðamið Íslands.

Hæstv. utanrrh, efaði það, sem ég sagði, að nóg væri að hafa 50 manna lið á flugvellinum til þess að reka hann sæmilega. Það getur verið, þó að ekki sé mikil umferð, að það verði að hafa stóran flugvöll tiltækan fyrir samgöngur yfir Atlantshaf. Þá geta þeir ekki lagt þær skuldbindingar á Íslendinga, að þeir haldi þessum flugvelli við. Ef þjóðir, sem halda flugferðum yfir Atlantshaf án viðkomu á Íslandi, telja það þýðingarmikið að hafa hér svo stóran flugvöll, þá er það samningsatriði þeirra þjóða við Íslendinga. Þá gætu Íslendingar tekið að auka starfsemi sína gegn því, að viðkomandi þjóð borgi kostnaðinn. Annað kemur ekki til mála en til komi borgun af hverju sæti, sem yfir Atlantshaf fer, og einnig, að þær flugvélar, sem fara án viðkomu á Íslandi og hafa rétt til lendingar, að þær borgi ákveðna upphæð af hverju sæti eða farþega. Þetta er ekki óeðlilegt, þó að þessu sé haldið fram, að við þurfum endilega að hafa þann fullkomna rekstur á flugvellinum hér, sem miðaður er við mestu umferð, sem hugsanleg er, að kynni að lenda hér. Og það er gert á móti betri vitund að halda slíku fram og gera mikinn í augum Íslendinga þann kostnað, sem af því leiðir að reka flugvöllinn. Það er staðreynd, að það er hægt að reka flugvöll þannig, að þessar venjulegu flugvélar geti komið hér við, og enn fremur þær, sem Bandaríkin senda með viðkomu hér til Þýzkalands, sem er þrisvar til sex sinnum á viku, með lið, sem er milli 40–50 manns. Þetta stendur óhaggað og ómótmælt, þannig að sú tala, sem þeir gáfu upp, er út í hött, því að þeim eru ætluð önnur stærri verkefni, sem sé að halda uppi stórfelldum, nýtízku flugvelli, sem er alltaf til á hvaða augnabliki sem vera skal. Hæstv. utanrrh. taldi mjög erfitt að greina á milli, af hverju bæri að greiða toll eða ekki og hvað af starfseminni heyrði undir undanþágu, og taldi ekki hægt fyrir íslenzk stjórnarvöld að ákvarða um það, heldur bæri að semja við Bandaríkin og sætta sig við það, sem þau féllust á. Ósamræmið við alla framkvæmd á innheimtu tolla er ein sönnun þess, að ríkisstj. skoðar Bandaríkin hafa rétt umfram íslenzka þegna í þessu sem öðru. Vitanlega er ekki um annað að ræða en að einstaklingar, sem eru á vellinum, lúti íslenzkum lögum, og þá á stjórnin að setja reglugerð um, hvað skuli teljast nauðsynlegt í sambandi við samgöngur við Þýzkaland, og láta síðan innheimta þetta. Hann notar þessar aðferðir til þess að vera viss um, að embættismenn stjórnarinnar, sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu og tollstjórinn í Reykjavík, séu ekki að valda ríkisstj. óþægindum með því að nota íslenzka reglugerð gagnvart Ameríkumönnum. Þá eru opinberir starfsmenn teknir undir fjmrn., til þess að tryggt sé, að Bandaríkin verði ekki fyrir neinum óþægindum. Þá viðurkenndi hæstv. utanrrh. það, að Íslendingar geti svipt Ameríkumenn landvistarleyfi, sem við teljum að athuguðu máli, að ekki sé þörf á til að reka völlinn í sambandi við Þýzkaland. Þetta er mjög þýðingarmikið fyrir okkur, ef við erum ekki bundnir við þessa 600 manna tölu, sem þeir gáfu upp. Þess vegna tel ég, að ríkisstj. eigi að láta fara fram rannsókn á, hvað mikið starfslið þeir þurfa að hafa á Íslandi til þess að hafa samgöngur þær, sem ráð er fyrir gert í samningnum. Til þess að ekki sé hægt að ásaka Íslendinga fyrir hlutdrægni, er þeir vilja tryggja þau réttindi, sem búið er að veita með þessum samningi, þá er hægt að fá fagmenn frá nágrannalöndum okkar, t. d. Englandi eða Norðurlandaþjóðunum, til að taka þátt í þessari rannsókn. Meðan þetta er ekki gert, þá getur hæstv. utanrrh. ekki á nokkurn hátt mótmælt staðhæfingu minni um. að ekki þurfi nema 50 starfsmenn til þess að annast rekstur flugvallarins. En það er víst ekki hætta á, að núverandi ríkisstj. geri neitt í þessu, því miður. Þá sagði hann, að flugvallarstjóri hefði haft sem aðalverk að semja reglugerð. Já, segjum það. En flugvallarn. samdi líka, og voru till. hennar um fyrirkomulag á rekstri flugvallarins frumdrög að reglugerð, en þegar til kom, ónýtti hún frumdrögin að reglugerð og vildi hvorki sjá, heyra né ræða þau til þess að valda Bandaríkjunum ekki óþægindum í bága við það, sem þeir kjósa. Þó að flugvallarstjórinn fyrrverandi hefði komið með slíkt uppkast, býst ég ekki við, eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. utanrrh. gaf um andstöðu sína á þessum manni, að hann hefði getað haft meiri áhrif. Hæstv. utanrrh. sagði, að hann væri andstyggð á að horfa. Ég býst ekki við, þó að hann hefði komið með till., að hann hefði fundið náð fyrir augum ríkisstj. frekar en flugvallarn. Samt sem áður leyfir hæstv. utanrrh. sér að halda því fram, að það hafi getað talizt eitt af stórum afbrotum Arnórs Hjálmarssonar að hafa ekki samið þessa reglugerð, sem stjórnin nú ákvað að semja ekki fyrst um sinn. Svona er meðferðin á málinu, hvað snertir þennan starfsmann, sem hér er dreginn inn í umræðurnar, en hefur þó enga aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér út af þeim árásum, sem tveir ráðherrar hafa gert á hann. Ég vil undirstrika það, sem áður hefur komið fram í þessum umræðum í sambandi við okkar starf á vellinum, að það verður í lausu lofti og ekki annað en glundroði, ef ekki eru settar fastar reglur um starfsemina. Íslendingar hafa ekki aðstöðu til að rækja verk sín án þess að hafa ákveðna reglugerð, sem kveður skýrt á um hvert verk, sem fer fram á vellinum, og að hve miklu leyti Bandaríkjamenn á Íslandi starfrækja völlinn og hvað Íslendingum er heimilt að skipa Ameríkumönnum og í hvaða efnum Íslendingum ber að taka tillit til skuldbindinga sinna gagnvart samningnum. Öll starfsemi á vellinum er ekki annað en fálm út í loftið, og lítils virði, ef þessi reglugerð er ekki sett. Stjórnin sér, að ef hún setur þessa reglugerð og hún heimilar Bandaríkjamönnum þau afnot, sem þeir hafa, þá hefur hún reist sér minnisvarða í augum þjóðarinnar, sem hún óttast, og þjóðin veit, hvernig málum er komið og hvernig hún heldur á rétti hennar gagnvart Ameríkumönnum. Það er grundvallaratriði í fyrsta lið þáltill. minnar, að Alþ. fyrirskipi stjórninni að setja þessa reglugerð, þar sem ekki var hægt að taka upp í samninginn þau atriði, sem nauðsyn krefur í sambandi við starfræksluna, en það á að gerast í reglugerðinni. Á forsendum þeim, að Alþ. féllst á að samþykkja þennan samning, hefur ríkisstj. lofað að gera þessa reglugerð. Þess vegna er það höfuðatriði, að þessi reglugerð verði sett og Alþ. gefist tækifæri til þess að taka til sinna ráða með þessari till., sem ég hef flutt.

Þá sagði hæstv. utanrrh., að Bandaríkjamenn hefðu ekki rétt á flugvellinum og þeir hefðu ekki löggæzluna, hún væri í höndum Íslendinga. Ég bendi á atriði í skýrslunni, sem skýrir frá því, að mig minnir, að ef Ameríkumaður gerir sig sekan um ólöglega sölu tollfrjálsrar vöru Ameríkumanna á vellinum, þá er hann þegar fluttur af landi. Ef amerískir menn gera sig seka um að brjóta þannig íslenzk lög með því að selja tollfrjálsa vöru, sem tollskyld er, eiga þeir að heyra undir íslenzk lög. Ef Ameríkumenn rannsaka þetta sjálfir og gera fyrst ráðstafanir í þessu sambandi, þá eru þeir að framkvæma önnur lög en íslenzk. Ég skal ekki draga í efa, að þeir vilja fyrirbyggja, að amerískir hermenn reki slíkan markað. Ef þeir hafa menn til að líta eftir því, hvort þeir gera þessa hluti, þá eru þeir að framkvæma löggæzlu á Íslandi. Löggæzlan á að vera algerlega íslenzk, og þeir Bandaríkjamenn, sem þar eru til varðgæzlu, geta eingöngu gert það að tilkynna Íslendingum, að þessi eða hinn hafi brotið íslenzk lög eða reglur. Ef löggæzlan er íslenzk, þá geta Ameríkumenn ekki refsað sínum mönnum með því að senda þá úr landi, því að það eru Íslendingar, sem ákveða, hvort þeir hafa landvistarleyfi eða ekki og enginn getur flutt þá burtu, án þess að íslenzk stjórnarvöld komi þar að, þess vegna er ekki hægt að beita slíkum refsingum gegn þessum mönnum. Það er sýnilegt af upplýsingum flugvallarn., að þetta varðlið flugvallarins framkvæmir sín störf eins og þetta væri löggæzla. Það kemur heim við það, sem þessir menn segja, og þeir koma fram við Ameríkumenn eins og þeir væru löggæzlumenn og hefðu sama starf með höndum og hernaðarlögreglan hafði. Það hafa komið tvö leiðinleg atvik í sambandi við telpu út af Keflavíkurflugvellinum. Í annað skiptið tapaðist hún í nokkra daga. Það væri gott að fá upplýsingar hjá hæstv. utanrrh., hvernig með slík mál er farið, og heyra hann gera grein fyrir þessu. Það er í alla staði ótækt fyrir Íslendinga, að Ameríkumenn eigi að hafa nokkra löggæzlustarfsemi á hendi. Það er fullvíst, að erlendir menn, sem eiga að gæta þess, að samborgarar sínir brjóti ekki íslenzk lög, eru ekki eins næmir í því starfi og íslenzkir löggæzlumenn. Og þeir mundu ekki vera eins nákvæmir við meðborgara sína, þegar þeir eru ekki að starfa fyrir sitt þjóðfélag, þó að ekki væri hægt að bera á þá hreina sviksemi, enda er það svo, að okkar umráð yfir vellinum eru nauðsynleg og að Íslendingar vaki yfir því, að þarna, fari fram ýtarlegt eftirlit með öllu starfi vegna þessarar löggæzlu, og um leið sé þess gætt, að ekkert fari fram nema það, sem er heimilt gagnvart samningnum. Höfuðverkefni íslenzkra starfsmanna, sem á vellinum eru, á að vera að líta eftir því.

Þá sagði hæstv. utanrrh., að það hefði verið slæmt að halda mönnum þarna — ekki reyndar í starfinu fyrir Bandaríkin á þann hátt, sem aðstæður væru á vellinum, eins og ég hefði haldið fram heldur fyrir það, að fyrrv. flugvallarstjóri væri slík andstyggð á að horfa, að enginn hefði haldizt þar við á hans tíma. Nú, síðan hann fór, eru menn ólmir í að fá starf á vellinum. Ég býst við því, að það sé eitt af afrekum ríkisstj. í sambandi við fjárhagsráð að draga svo úr atvinnu í Reykjavík og annars staðar, að Íslendingar þurfi nauðsynlega að leita sér atvinnu þarna. Auðvitað leita þeir að atvinnu þarna til þess að hafa eitthvað, en hver maður, sem getur komizt hjá því, kýs heldur að starfa annars staðar.

Nú er amerískt félag að reisa ýmsar byggingar í sambandi við flugvöllinn, og ég vil spyrja hæstv. utanrrh., hvenær þetta félag hefði fengið byggingarleyfi á Íslandi, því að ég veit ekki til, að hægt sé að starfrækja erlent félag sem byggingarfélag hér á landi nema með sérstakri löggjöf um þá hluti. Og ég veit, að ýmis íslenzk félög hefðu viljað taka þessar byggingar að sér, en fram hjá því er gengið og Ameríkumenn fá að hafa sína hentisemi á þessu. En um starfsliðið til þessara hluta er það þannig, að ég býst við. að ríkisstj. þyrfti ekki að hafa mikið fyrir því að fá það til þessara starfa.

Höfuðatriði þessa máls felst í 1. tölul. þessarar þáltill. á þskj. 26, það, að Alþ. feli ríkisstj. að setja nú þegar reglugerð um starfrækslu Keflavíkurflugvallarins og að framkvæma samninginn yfirleitt þannig, að Bandaríkjamenn séu ekki látnir hafa einhliða rétt til að gera það, sem þeim gott þykir að gera hér. En skilyrði fyrir því, að þeir séu ekki einráðir um það, er, að þessi reglugerð verði sett. Og það gefur hæstv. Alþ, alveg sérstakt tilefni til að taka afstöðu til þessa máls, að hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir gegn skýrslu flugvallarn., að hún ætli sér ekki, nema Alþ. þá leggi eitthvað fyrir hana um það, að setja þessa reglugerð strax. Hún sem sagt setur ekki reglugerðina, ef hæstv. Alþ. ekki leggur fyrir hana að gera það. Og það hefur gefið Alþ. alveg sérstaka ástæðu til þess að taka hér röggsamlega í sínar hendur þetta mál, vegna þess að þetta var ein höfuðforsendan fyrir því. að samningurinn var gerður um Keflavíkurflugvöllinn hér á Alþ., eftir því sem talsmenn samningsins lýstu yfir, þegar hann var hér á döfinni, og margir hv. þm. hafa líka álitið, að þessi reglugerð yrði sett. Þetta er höfuðatriði málsins og það, sem skiptir mestu máli, enda má, með því setja ýtarlegar reglur um starfrækslu vallarins, kippa ýmsu því í lag. sem aflaga hefur farið í framkvæmd ríkisstj. á flugvallarsamningnum. Og með því að koma þannig í lag framkvæmd samningsins, verður þessi samningur til minnsts skaða fyrir íslenzku þjóðina, því að eftir því sem við framkvæmum þennan samning strangar, eftir því verður skaði okkar af að hafa gert þennan samning minni og við verðum betur undir það búnir að geta sagt honum upp.

Um það atriði, sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Reykv., þegar hann lagði fram fyrirspurn fyrir ríkisstj. um uppsögn þessa samnings, þá er dálítið fróðlegt að hugleiða svör hæstv. ráðherra. Þau voru ákaflega loðin. Hæstv. utanrrh. svaraði fyrstur, og hann sagði, að þeirri spurningu, hvort samningnum yrði sagt upp eða ekki, væri ekki hægt að svara nú. Það færi eftir því, hver reynsla fengist af framkvæmd samningsins, og því, hvernig hæstv. Alþ. og ríkisstj. kynni að líta á það mál, þegar þar að kemur. Ég held, að ekki sé hægt að hafa óákveðnara orðalag á svari um þetta. Það er hægt að minna á, að allir, sem töluðu með þessum samningi, þegar hann var gerður, lögðu á það geysilega áherzlu, að þetta væri aðeins til fimm ára samningurinn gilti aldrei lengur — eða 6½ árs með þeim frestum, sem tilheyra uppsögn samningsins. Það þótti þá illkvittni af sósíalistum, að við vildum ekki láta Ameríkumenn hafa þennan samning til fimm ára aðeins. Nú vilja þessir menn, sem töluðu um, að Alþ. samþykkti samninginn aðeins til fimm ára, þegar þeir vildu fá þingið til að samþykkja hann, ekkert ákveðið segja um það, hvort samningnum verði sagt upp, þegar fimm árin eru liðin. Þeir vilja hafa allt þar laust og óbundið. Hæstv. utanrrh. sagði, að ef reynsla af samningnum yrði góð, virtist opin leið til þess, að samningurinn yrði framlengdur. En reynslan af samningnum þetta ár, sem liðið er, síðan hann var gerður, er frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj. góð í alla staði. Það er tekið fram í skýrslu flugvallarn., að ekkert sé upp á að kvarta um samvinnu í sambandi við samninginn, sem fram hefur komið af hendi Ameríkumanna. Og samvinnan er góð af þeirri sök, að íslenzka ríkisstj. knýr aldrei neitt fram við Bandaríkjamenn, heldur ber aðeins fram beiðnir til amerísku stjórnarinnar, og ef Ameríkumenn ekki fallast á þær beiðnir, er ekkert sagt. Með þessu móti er gott samkomulag. Og a. m. k. vill ekki hæstv. ráðh. svipta sig möguleikanum til þess að fallast á, að þessi samningur verði framlengdur. — Hæstv. forsrh. gekk eiginlega skrefi lengra, því að hann sagði, að það sýndist svo, að eftir fimm ár mundu Íslendingar ekki verða færir um að stjórna á flugvellinum, sem sagt, að eftir fimm ár þyrftum við Íslendingar að fara til Ameríkumanna og biðja þá að stjórna flugvellinum og þjálfa Íslendinga, svo að þeir geti tekið við stjórn hans. Þetta ákvæði hefur nú einmitt staðið í samningnum, að Ameríkumenn eigi að þjálfa þannig Íslendinga. Það verður sjálfsagt sett á tveimur stöðum í samningnum eftir fimm ár. — En þetta atriði, að hæstv. ráðherrar vilja ekki gefa skýr svör í þessu efni, það er mjög þýðingarmikið atriði í þessu máli, af því að margt, sem aflaga hefur farið t stjórn vallarins, skiptir minna máli, ef skýrar yfirlýsingar ríkisstj. lægju fyrir um. að samningurinn yrði ekki framlengdur. Þó að Ameríkumenn brjóti tollal. og l. um firðviðskipti o. fl., skipti það miklu minna máli, ef það lægi fyrir, að samningurinn gilti aðeins til 5 ára, en þá yrði honum sagt upp, eins og upphaflega var um talað. Og hæstv. ríkisstj. gæti skapað miklu meiri kyrrð um þetta mál, ef hún lýsti þessu yfir. En hæstv. ríkisstj. vill það ekki, heldur hafa þær dyr opnar að geta fallizt á að framlengja samninginn, ef Bandaríkjamenn sækja það fast. — Nú munu fara fram kosningar til Alþ., áður en þessi samningur rennur út, ef kjörtímabilið verður ekki framlengt. Og þær fara fram vafalaust, áður en þessi samningur rennur út. Ég býst við, að allir þessir menn lýsi þá yfir við undirbúning þeirra kosninga, að vitanlega komi það ekki til mála að framlengja þennan samning. Og kjósendur munu kjósa frambjóðendurna eftir því, hverju þeir lýsa yfir í sambandi við þennan samning. Svo verður kannske kallaður saman skyndifundur í Alþ. nokkrum vikum eftir kosningarnar og sagt þar, að þar sem ástæður hefðu breytzt, síðan kosningar fóru fram, þá sé ástæða til að framlengja samninginn, og þá verður samningurinn sennilega framlengdur á þessum forsendum, því að menn, sem gáfu hátíðlegar yfirlýsingar og fluttu æstar ræður í útvarpið um það óheyrilega glapræði, sem það yrði, ef Íslendingar færu að gera samning um afnot erlendra þjóða af landi sínu — þeir stóðu upp hér í Alþ. og mæltu með því, að Bandaríkin fengju herstöðvar á Íslandi, undir yfirskini þess, að þeir þyrftu að hafa samgöngur við hernámslið sitt í Þýzkalandi. Þannig býst ég við, að í framkvæmdinni reyndist það um framlenging flugvallarsamningsins, ef Alþ. tekur hér ekki röggsamlega í taumana með því að leggja fyrir ríkisstj. að halda þannig á málinu, að allur vafi sé af tekinn um það, hvernig framkvæma skuli samninginn og hve lengi hann skuli gilda.

Ég vil svo ekki lengja mál mitt frekar, þó að fleiri atriði hafi fram komið, sem ég hef ekki haft tíma til að víkja að enn. En ég vil að lokum leggja til, að umr. um þetta mál verði frestað og málinu verði vísað til hv. allshn.