29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3289)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég held, að fáum, sem hlýtt hafa á þessar umræður hér í gær, blandist hugur um, af hvaða toga þær eru spunnar. Ræður þær, sem hv. þm. sósíalista hafa haldið hér, hafa ekki verið haldnar fyrir íslenzk eyru, það hefur annað vakað fyrir ræðumönnum. Það á að reyna að vekja þá skoðun, að hér sé um mál að ræða. sem vakið hafi mikla athygli. Hv. 2. þm. Reykv. kvartar að vísu yfir því, hve almenningur lætur sér fátt um finnast, en auðvitað geta umræðurnar haft þýðingu út á við og verið ein skýring þess, hve flokkur hans hefur yfir miklu fjármagni að ráða. Það verður á einhvern hátt að vinna fyrir því, og kunnugum er það ljóst, en enginn flokkur hefur haft svipað fjármagn til umráða og þessi flokkur. Hann hefur ráð á að senda út heilar hersveitir, bæði um þetta land og önnur. Flokkurinn þykist vinna fyrir íslenzka verkamenn, en þeir hafa látið sér fátt um finnast, og flokkurinn átt erfitt með að safna fé hjá íslenzkum almenningi.

Í þessu máli hafa þm. andstöðunnar haldið þær lengstu ræður, sem ég minnist í minni þingtíð, haldið tveggja og hálfs tíma og upp í þriggja og hálfs tíma ræður að meðaltali um ekki neitt eða endurtekið það sama og talað um allt annað en fyrir liggur. Það er enginn vafi á því, að skýringin á þessu er utan þingheims hér. Að öðru leyti hafa þessar ræður verið fróðlegar og ánægjulegar og komið fram margs konar forn fróðleikur. Þó er bezt að líta á þær með gagnrýni, þótt ekki sé það að efa. að þessir hv. þm. hafa látið sitt bezta. Ég þarf sérstaklega að þakka þeim vingjarnleg orð í minn garð og nota þá tækifærið um leið til þess að þakka Þjóðviljanum þann áhuga, sem hann hefur á heilsufari mínu. Þessa þrjá daga, sem ég var veikur, birti blaðið daglega fregnir um heilsufar mitt eins og Morgunblaðið gerir, þegar einhver merkismaður er veikur. Þó skildist mér felast í þessu, að ég mundi lagður á flótta, að minnsta kosti var mikið um það talað, hvort ég kæmi aftur, og ég hef nú á ný átt kost á því að fá fræðslu í dag. Hv. þm. Siglf. ræddi jafnvel meira um mig persónulega en hv. 2. þm. Reykv., sem þó hefur sýnt lofsverðan áhuga í því efni. Hann fór mörgum orðum um það, hvað ég væri orðljótur og uppstökkur, og um fleiri slík einkenni, sem ég hefði. Mér fannst nú þessi lýsing meira minna á það, hvernig einn ákveðinn fulltrúi ákveðins stórveldis kemur fram í New York á þingi sameinuðu þjóðanna. Lýsingin virtist líkari honum en mér. Þótt hv. þm. Siglf. segði, að ég talaði óvarlega. þá hefur það komið fram, að þegar þessi hv. þm. ferðaðist um landið og hélt ræður í kosningaleiðangri fyrir flokkinn, þá var aðalinnihaldið í ræðum hans orð, sem höfð voru eftir mér. Hann mun hafa vitað sem var, að enginn mundi leggja trúnað á það, sem hann segði sjálfur, en líklegt, að svo yrði gert, ef ég væri borinn fyrir því. Hitt er eðlilegt og í samræmi við aðra framkomu þessa hv. þm., að þau orð, sem hann hafði eftir mér, voru ekki mín ummæli, heldur voru þau sótt í grein í Morgunblaðinu og slitin úr samhengi, svo að þau urðu að öfugmæli hjá hv. þm. Siglf., enda hefði hann ekki látið sér þau um munn fara annars. Hv. þm. Siglf. var mjög fjölfróður. Hann vissi hvað fór á milli mín og einstakra þm. í einkasamtölum. Hann vissi líka, að ég hefði komið illa fram á lokuðum flokksfundum, og gaf í skyn, að sumir hefðu þurft að leita verndar undan ofstopa mínum. Jafnkunnugur var hann símasamtali, sem farið hafði milli hv. þm. G-K. (ÓTh) og hv. 7. þm. Reykv. (JóhH), hann vissi glögg skil á því samtali. Þá vissi hann, hvað gerðist á skrifstofu Sjálfstfl., en sleppti þó því, að ég og hv. þm. G-K. hefðum flogizt á í skrifstofu Sjálfstfl., sem er þó sýnu sögumeira en það, sem hann fór með. Geta hv. þm. til þess að búa til skáldsögur virðist lítil, en þó hef ég verkað svo á hann, að yfir hann hefur komið skáldandi. Þegar ég fór utan nýlega — að vísu sýnu ódýrari ferð en hv. þm. Siglf. fór til Sandgerðis á sínum tíma —, þá var hv. þm. Siglf. líka staddur erlendis. Þegar ég kom úr siglingunni, komu út ljóðmæli um mig í Þjóðviljanum, þar sem því var lýst, hvað ég væri ljótur, en undir stóð bókstafurinn Á. Hv. þm. gat ekki lengur ráðið við skáldfákinn, er hann fann lyktina af mér. Annars er ég hissa á. að hv. þm. Siglf. skyldi ekki ganga lengra í söguburði um mig og mína klæki, því að ég hef frétt með vissu, að stúlka, sem var starfsstúlka á heimili mínu, hafi, þegar hún heim til eins kommúnista-forsprakkans, verið tekin til yfirheyrslu um það, hvort ég væri ekki æstur og skapstirður á heimili. Stúlkan var að vísu ekki viljug að láta uppi þá fræðslu, sem óskað var eftir. En það mátti þá laga það til í hendi eins og annað.

Hv. þm. Siglf. vildi nú mjög gefa í skyn — ekki sagði hann það beint, heldur gaf það í skyn — að ég hafi hótað embættismönnum til að gefa skýrslu um flugvöllinn —, það hefði verið ákaflega undarlegt, ef þeir hefðu gert það, án þess að ég hefði haft slíkar hótanir í frammi. Það væri líka vitað, að ég hefði til að reka menn frá störfum. Og þessi hv. þm. vitnaði í það, að ég hefði rekið mann úr starfi í utanrrn. Ég lýsi þetta alger ósannindi. Það er ekki rétt. Og þeir, sem bera þessa sögu út um tiltekinn mann, sem mun að vísu vera flokksbróðir hv. þm. Siglf., gera þessum manni lítinn greiða með því að snúa ósk hans um að hverfa úr starfi upp í það, að hann hafi verið rekinn úr starfi. En þetta sýnir, að þeir menn, sem setja á menn eins og hv. þm. Siglf. allt sitt traust, geta heldur ekki verið óhultir fyrir því, að rangt sé skýrt frá um það, sem þeir gera. Hins vegar hef ég ekki getað komizt hjá að láta suma menn hverfa úr starfi. Þó hef ég ekki haft þá aðferð eins og hv. þm. Siglf. sem ráðh. hafði, er hann um síðustu áramót rak mann úr starfi fyrir engar nýjar og sérstakar sakir aðrar en höfðu verið til staðar alla ráðherratíð hv. þm. Siglf., heldur vegna þess, að þessi hv. þm. sem ráðh. þurfti að komast í skjól fyrir þeim axarsköftum, sem hann sjálfur hafði, þessi hv. þm. sem ráðh., gert sig sekan um. Hv. þm. Siglf. sem ráðh. rak þennan mann úr starfi til þess að klína, á hann skömminni af sínum eigin axarsköftum. Þetta hef ég aldrei gert og mun aldrei gera. Hins vegar hef ég neyðzt til að láta menn hverfa úr starfi. Ég neyddist til að láta einn mann hverfa úr starfi fyrir það, að hann var of nærgöngull um skömmtunarseðla. Þessi maður hefur nú að vísu orðið einn af rithöfundum Þjóðviljans til þess að halda uppi lögum og rétti í varnarskyni gegn árásum mínum. Þetta er einn aðal-lögfræðingur Þjóðviljans. Ég segi ekki, að hann fái laun hjá Þjóðviljanum. Þessi maður er heildsali, og getur vel verið, að flokkurinn þurfi styrks hans, vegna þess að efnahagur hans er góður, frekar en að Þjóðviljinn borgi honum. Ég er reiðubúinn til þess að ræða þetta eins og hvað annað, sem ég hef gert. Og ég skora á hv. þm. Siglf. að sanna. ef hægt er, að ég hafi rekið einn einasta mann úr starfi án tilefnis. Hins vegar fer vel á því, að þessi maður, sem ég rak úr starfi, og hv. þm. Siglf. geri með sér félagsbú. Þar hæfir hvor öðrum.

Varðandi það mál í einstökum atriðum, sem hér hefur verið rætt, þá er sannleikurinn sá, eins og ég hef áður drepið á, að þrátt fyrir hinar mjög löngu umr. er það í sjálfu sér ákaflega fátt, sem nýtt hefur komið fram í umr., og ég skal ekki þreyta hv. þm. á því að taka upp aftur það, sem ég hef áður sagt, sem var skýrt og allir gátu áttað sig á. sem vildu. En hv. þm. Siglf. gerði að meginmáli hjá sér, að ég hefði vanrækt að setja reglur, sem ákvæði væru um í 7. gr. flugvallarsamningsins, og lætur eins og ég hefði haldið fram því á sínum tíma, að þessar reglur ættu að taka yfir alla skapaða hlutt. og hefur hv. þm. öðru hverju lesið part úr gr. þessa samnings. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa alla 7. gr. samningsins. Hún hljóðar svo: „Ríkisstj. Íslands setur, að höfðu samráði við ríkisstj. Bandaríkjanna, reglur um rekstur, öryggi og því líkt, er varðar not allra flugfara af flugvellinum.“ Það blandast engum hugur um það, sem þetta les, að þarna er fyrst og fremst með þessum reglum átt við umferðarreglur á sjálfum flugvellinum. Þetta var skýrlega tekið fram í fyrra og margyfirlýst. Og það er furða, að hv. þm. skuli láta annað uppi nú. Hitt kemur ekkert þessu atriði samningsins við, að það var öllum ljóst, að við framkvæmd flugvallarsamningsins mundu ótal atriði vakna upp, sem menn í upphafi höfðu ekki gert sér grein fyrir. Það er ekki hægt að gera sér grein fyrir þeim atriðum í upphafi fremur en með ákvæðum samningsins, þegar samningurinn er gerður. Fram úr þeim atriðum verður að ráða, eftir því sem atvikin ber að höndum í sambandi við framkvæmd samningsins, sem þarf að setja reglur um. Sum þessi atriði geta Íslendingar kveðið á um einir. og sum geta Bandaríkjamenn kveðið á um einir. En um flest atriðin verður að semja á milli þessara tveggja aðila, af því að þar er um framkvæmd samningsins að ræða. Þetta er öllum ljóst og kemur ekkert við þeim reglum, sem í 7. gr. samningsins eru ákvæði um. — Það má taka það fram aðeins sem dæmi um nákvæmni hv. þm. Siglf., að hann talaði um það hér á dögunum sem hneyksli af minni hendi, að ég hefði í sambandi við lagasetningu, sem gerð var um flugsamgöngur. lýst yfir, að það væri að kenna flugvallarn., að þessar reglur hefðu ekki enn verið settar. Sannleikurinn er, að ég var af landi brott, þegar þessi löggjöf var sett, og sagði því ekki neitt um þetta mál né annað í sambandi við meðferð þessa máls á Alþ. Hitt kann vel að vera, að ég hafi einhvern tíma látið uppi, að gert hefði verið ráð fyrir, að tilmæli um að setja reglur, sem ákvæði eru um í 7. gr. samningsins, kæmu frá flugvallarn. Og það rekst ekkert á þetta, þó að ég hafi sagt nú, að gert hafi verið ráð fyrir, að till. um þetta ættu að koma frá flugvallarstjóranum í Keflavík og hann hafi vanrækt að gera þessar till. Þetta stend ég við, og vil ég lesa það, með leyfi hæstv. forseta, sem sjálf flugvallarn. segir um þetta: „Skömmu síðar var settur flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvöllinn í samræmi við 5. gr. samningsins um niðurfelling hervarnarsamningsins frá 1941 0. fl. Hlutverk flugvallarstjórans var fyrst og fremst það að hafa á hendi yfirstjórn flugvallarins og undirbúa í samráði við flugvallarn. og flugmálastjórn reglur um reksturinn.“ Þarna er nákvæmlega sagt það, sem ég hef haldið fram, að þessi flugvallarstjóri í Keflavík hafi átt að gera till. um þessar reglur og síðan flugvallarn. að undirbúa þær. Till. um þessar reglur hafa aldrei komið í hendur utanrrn., og hv. þm. Siglf. fær fyrrv. flugvallarstjóra í Keflavík ekki með nokkru móti af því þveginn, að hann vanrækti gersamlega að semja uppkast að þessum reglum. Maðurinn var flugvallarstjóri frá mánaðamótum okt.-nóv. í fyrra og þar til fram á sumar nú, og ég held, að hvorki flugvallarn. né nokkur annar aðili hafi fengið uppkast eða till. um þessar reglur frá þessum flugvallarstjóra allan þann tíma — áreiðanlega fékk utanrrn. ekki neinar slíkar till. frá honum —. þó að það sé ómótmælanlegt, að eitt aðalstarf þessa, manns hafi átt að vera að gera uppkast að þessum reglum. Og það er óneitanlega hart að gengið hjá hv. þm. Siglf., fyrrv. flugmrh., að ásaka okkur nú fyrir að hafa ekki sett þessar reglur, þegar maður, sem hv. þm. Siglf. sem fyrrv. ráðh. valdi og setti í starf flugvallarstjóra, þar sem eitt hans aðalstarf átti að vera að gera till. um þessar reglur — þegar þessi maður er mikinn hluta úr ári í embætti flugvallarstjóra án þess að gera sérstaklega mikið í því starfi og getur ekki einu sinni sett saman till. um þær takmörkuðu reglur, sem ráðgerðar eru samkv. 7. gr. flugvallarsamningsins. Og ég verð að ítreka það, að starfræksla slík sem þessi gefur — því miður — tilefni til þess, að yfir henni sé lýst óánægju hér á hæstv. Alþ. Hitt er alveg rétt, að aumingja pilturinn, fyrrv. flugvallarstjórinn, á á þessu minni sök en hv. þm. Siglf. sem ráðh. á sínum tíma — og það var eitt af því fáa, sem hv. þm. Siglf. sagði rétt um þetta mál — af því að piltur þessi var aldrei vaxinn sínu starfi. Sökin er því hjá hv. þm. Siglf. sem ráðh. og valdsmanni í þessu efni.

Eitt af því, sem hv. þm. Siglf. gerði að árásarefni á mig, var, að ég hefði sagt, að hverjum góðum Íslendingi hefði verið raun að horfa upp á starfræksluna á flugvellinum, meðan þessi maður var flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvellinum. Það var reyndar svo, að vesöldin var svo mikil í þessu efni, að t. d. hafði flugvallarstjórinn ekki mannskap í sér til þess að útvega íslenzka flaggstöng á flugvöllinn. Og loksins, þegar þetta var orðið þjóðarhneyksli, urðu Bandaríkjamenn að hlaupa til og setja þar upp einhverja flaggstöng. Það er eðlilegt, að Íslendingum geðjist illa að slíkri starfrækslu sem þessari, og um það er ekki óþarfi að hafa nokkuð ströng orð. Þetta er svo fyrir neðan allar hellur, af því að ekki þarf neina sérstaka þekkingu á flugmálum til þess að koma þarna við almennri háttvísi. — Hv. þm. Siglf. vildi halda fram, að þessi maður, flugvallarstjórinn fyrrv., hefði engum sökum veri barinn. Sannleikurinn er sá, að annað liggur fyrir samkv. skýrslu flugvallarn., nefnilega að maðurinn hafi ekki gegnt því höfuðstarfi, sem hann var skipaður til að gegna, að semja till. um þessar reglur, sem um hefur verið rætt. Og hvernig fórst honum svo þetta starf að öðru leyti? Hann var settur til þess að innheimta gjöld af flugvélum, sem kæmu á völlinn. Hæstv. flugmrh. upplýsti, að það hefði alveg undan fallizt að innheimta þau gjöld, þar til því var kippt í lag, eftir að nýir menn voru búnir að taka við þessum málum. Hv. þm. Siglf. segir, að þetta hafi verið vegna þess, að maðurinn hafi ekki fengið nægar upplýsingar. Það er rétt, að maðurinn, þegar hann var búinn að vera um það bil hálft ár eða meira flugvallarstjóri, rankar allt í einu við sér um, að hann hafi ekki fengið nægar upplýsingar og snýr sér til flugmrn. um það. Hvað skeður svo? Málið er tekið strax upp við Bandaríkjamenn, sem láta þessar upplýsingar strax í té og segja, að þær hafi alltaf verið til reiðu, ef þeirra hefði verið óskað. Og segjum að Bandaríkjamenn hefðu t. d. ekki látið þessar upplýsingar í té, þó að einhver þessara manna, sem við flugvöllinn störfuðu, hefði farið til þeirra um það, þá spyr ég: Hvers konar flugmrh. var það, sem var við völd í október, nóvember, desember, janúar og fram í febrúar s. l., sem hafði skipað þennan mann sem flugvallarstjóra? Ef maðurinn starfar þarna á vellinum allan þennan tíma — og hann segir nú, að hann hafi ekki fengið þessar upplýsingar — en hefur á þessu tímabili, sem ég nefndi, ekki mannrænu til þess að segja viðkomandi ráðh. um það, að hann fái ekki nauðsynlegar upplýsingar hjá Bandaríkjamönnum, er það þá ekki viðkomandi ráðh. fyrrv., hv. þm. Siglf., sem vanrækt hefur í þessu efni? Gæti það nú ekki verið? Bæði eru skærin góð. Og allra sízt ætti hv. þm. Siglf. að tala um það sem einhverja niðurlægingu fyrir núverandi ríkisstj., að við hefðum leitað til Bandaríkjanna til samþykkis á ýmsum atriðum, sem samningurinn tekur til, þegar svona er um starfræksluna á flugvellinum og frammistöðu fyrrv. flugvallarstjóra og fyrrv. flugmrh., hv. þm. Siglf. Ég spyr nú: Eru nokkur atriði flugvallarsamningsins, sem eiginlega glöggar heyra undir Íslendinga að kveða á um en það, hvaða gjald skuli greiða af flugvélum? Er nokkuð, sem hægt er að hugsa sér, sem íslenzkur ráðh. ætti frekar að setja reglur um á eigin spýtur viðkomandi rekstri Keflavíkurflugvallarins en að setja gjaldskrá um lendingu flugvéla á íslenzkri grund? Ég held, að ekkert sé auðsærra, sem Íslendingar geti ákveðið á eigin spýtur í sambandi við rekstur flugvallarins, heldur en þetta. En hvernig var þessari framkvæmd háttað, þegar hv. þm. Siglf. var ráðh.? Hann hafði heimild til þess að setja þessa gjaldskrá, en hann bara gerði það ekki. Hann segir, að Ólafur Thors hafi bannað sér það. Ja, bara að hann hefði þá alltaf verið hlýðinn Ólafi Thors. En það liggur ekkert fyrir, sem sýni að Ólafur Thors hafi nokkur afskipti af þessu máli haft. En í bréfi frá flugmálastjóra frá 15. marz 1947, sem ekki er stílað til utanrrn., heldur flugmrn. — hvað segir í því? Það er þetta: „Gjaldskrá þessi hefur verið lengi á döfinni. Á fundi flugvallarnefndanna hinn 12. nóv. 1946 lagði ég fram gildandi gjaldskrá Reykjavíkurflugvallarins og tjáði amerísku n., að hugmynd mín væri sú að fá samþykkta samsvarandi gjaldskrá fyrir Keflavíkurflugvöllinn, en að ég óskaði, að þeir tjáðu mér áður, ef þeir hefðu eitthvað við hana að athuga eða einhverjar tillögur fram að færa: — Þarna stendur berum orðum, að það er flugmálastjórinn, Erling Ellingsen, nánasti vinur og trúnaðarmaður hv. þm. Siglf., meðan sá hv. þm. var ráðh., sem segir: „Ég óskaði, að þeir — þ. e. ameríska nefndin — „tjáðu mér áður, ef þeir hefðu eitthvað við hana að athuga eða einhverjar tillögur fram að færa.“ Síðar segir í þessu bréfi flugmálastjórans: „Tók umboðsmaður A. O. A., Capt. Hunter, að sér að athuga þetta mál. Síðan hefur dregizt um marga mánuði, að svar fengist frá Capt. Hunter, þar til nú fyrir skemmstu, að hann, að fengnum nokkrum skýringum, lýsti yfir, að gjaldskráin væri aðgengileg frá hans sjónarmiði.“ — Það er sem sagt ekki fyrr en Ameríkanarnir eru búnir að leggja á sitt samþykki, sem flugmálastjórinn telur rétt að bera þetta mál undir flugmrn., og þarf enginn að halda, að Erling Ellingsen flugmálastjóri, nánasti samstarfsmaður þáverandi flugmrh., hafi tekið upp þann þátt málsins í algerri óþökk þess ráðh. eða farið á bak við hann með það. Nei, þvert á móti, þeir hafa komið sér saman um það, þessir tveir embættismenn, að senda þetta til Ameríkananna til umsagnar. Og þeir hafa komið sér saman um, að það væri ekki rétt að semja gjaldskrána, fyrr en Ameríkanarnir hefðu veitt sitt samþykki. Og þáverandi ráðh., hv. þm. Siglf., lætur líða nóvember, desember, janúar og nokkuð af febrúar s. l. án þess að gera meira í málinu, nema það að hneigja sig fyrir Ameríkananum. Jú, það mátti athuga málið. Og þessi fyrrv. hæstv. flugmrh. hneigði sig fyrir Ameríkananum ósköp ljúfur og prúður. Svo ræðst hv. þm. Siglf. á okkur hér fyrir það, að við skulum ekki hafa gert ákvarðanir um ýmis atriði einir, heldur leitað samkomulags við Ameríkumenn, atriði, sem ekki er hægt að ráða til lykta með einhliða ákvörðunum, heldur þarf um samkomulag. Og ef það væri nú eitthvað ljótt að leita samkomulags við Ameríkumenn í þessum efnum — ætli hv. þm. Sigl., meðan hann var ráðh., hafi þá ekki skapað fordæmi um það? Það er kannske gott að áliti hv. þm. Siglf. að skella skuldinni á sinn undirmann og gera hróp að öðrum, þegar maður er kominn sjálfur úr ábyrgð, og segja: Það gerist ekkert! — þó að ekkert hafi gerzt, meðan maður sá, er hrópin gerir, var sjálfur við völd, í þessu tilfelli hv. þm. Siglf. Þetta var í raun og veru aðalatriðið í ræðu hv. þm. Siglf., þessi mín orð í dag, sem ég hef nú rætt. Og um þetta sagði svo hv. þm.: En sú lítilmennska að leita til Bandaríkjamanna, en gera þetta ekki sjálfur. — Ja, hvað gerði hann sjálfur, þegar hann var ráðh.? Svona er þetta allt saman, þar sem þessi maður kom nærri. Ég ætla ekki að rekja það í einstökum atriðum hér.

Hv. þm. Sigl. hélt því mjög fram, að það hefði verið vanrækt að taka til starfa á Keflavíkurflugvellinum íslenzka, tæknilega starfsmenn, og hélt því fram, að í því efni hefði verið sýnd mjög mikil vanræksla. En hvað gerði hann í þessu, meðan hann var ráðh.? Getur hann nefnt, að hann hafi einu sinni farið fram á nokkuð í þessu efni? Það er kannske ekki að búast við því, að hann kæmi um það nokkru í gegn, vegna þess að aðferð þessa hv. þm. og atferli er að sýna undirlægjuhátt, þar sem hann þarf að vera á oddinum og þar sem hann getur ekki otað öðrum fram. En tilgangur hans var sá um stjórn þarna á flugvellinum að hafa þá stjórn þannig, að það hlyti að skapast ágreiningur milli Íslendinga og Ameríkumanna, og flugvallarstjórinn var valinn í því skyni að koma á slíkum ágreiningi, og maðurinn hagaði allri starfsemi sinni þar í því skyni, að ágreiningur yrði sem mestur milli Íslendinga og Ameríkumanna. Þess vegna er ekki að furða, þótt mjög hafi breytzt til bóta, eftir að nýir menn tóku við stjórn þar, sem vildu leysa málin — að vísu friðsamlega —, vegna þess að þar hafði verið maður að starfi, sem skipaður var til þess að leysa ekki neitt mál, heldur til þess að koma á sem mestum ófriði og illindum.

En hvað var það, sem hv. þm. Siglf. gerði til þess að koma Íslendingum í störf þarna á flugvellinum, meðan hann var ráðh.? Hann var ráðh. um margra mánaða skeið, meðan hann hafði tækifæri til þess að reyna það. Ég veit ekki til, að hann hafi gert neina tilraun til þess. — Hv. þm. Siglf. segir nú, að það sé ósatt, að menn séu hér ekki til, sem færir séu til að taka að sér þessa svo nefndu turnþjónustu. En þegar hann athugar málið, verður hann að játa, að skýrsla flugmálastjóra segir rétt til um þetta, en hann sjálfur, hv. þm., hefur rangt fyrir sér um það. Í skýrslunni er ótvírætt um þetta sagt. Og hvor haldið þið að hafi réttara fyrir sér og hafi betur vit á þessu máli, Erling Ellingsen flugmálastjóri, sem segir, að tæknilega menntaðir menn til þessarar þjónustu hafi ekki verið til hér, eða hv. þm. Siglf? Ja, hv. þm. Siglf., segist kannske vita þetta betur, eins og hann telur sig vita betur en við vitum, sjálfstæðismenn, hvað gerist á fundum í Sjálfstfl.

Hv. þm. Siglf. talaði mikið um það, að Íslendingar væru látnir gegna óvirðulegum störfum á Keflavíkurflugvellinum, störfum, sem negrar gjarnast væru látnir vinna, þar sem þeir væru fyrir hendi. Þessi rök hans koma illa saman við andúð þá á kynþáttahatrinu, sem blað hans hefur verið að prédika, og eftir því sem þar hefur komið fram, ætti ekki að vera skömm að því að vinna þessi verk. Ég skal ekkert segja um verkin, sem Íslendingarnir vinna úti á Keflavíkurflugvellinum, en ég vil segja það, að það dugar ekki að hafa þann hátt, sem hann hafði og kemur fram hjá honum og hans flokksmönnum, að setja menn í stöður án þekkingar og reynslu. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að menn séu látnir vinna sig upp á flugvellinum. Þeir þurfa að kynna sér ýmiss konar störf. Ég spyr menn, sem þekkja til starfa á íslenzkum skipum: Er ekki reglan, þegar maður kemur óvanur um borð, að láta hann fyrst vinna venjuleg verk? Maður er ekki settur strax að skipstjórn eða látinn bera ábyrgð á mannskap skipsins og farmi. Slíkt kæmi ekki til fyrr en eftir nokkurn tíma. En hv. þm. Siglf. hefði ekki þótt undarlegt, þótt við hefðum gert eitthvað á borð við þetta, enda þótt það hefði orðið til þess, að árekstrar hefðu orðið á milli okkar og Ameríkumanna, árekstrar, sem hefðu hlotið að koma fyrir, ef við hefðum heimtað stöður, sem við höfðum ekki menn til að gegna.

Ég bara spyr: Hvað marga tæknilega menntaða menn eigum við, sem Bandaríkjamenn hafa ekki fengizt til að taka? Já, hvað marga? Það er leiðinlegt, að við skulum ekki hafa menn til að gegna þessum störfum, en þegar verið er að koma upp flugþjónustu hér í Reykjavík og um allt land, þá er ekki undarlegt, þó að ekki séu menn til þess að skipa í vandasamar stöður á Keflavíkurflugvellinum, og það, sem hægt væri að saka Bandaríkjamenn um, væri, ef þeir neituðu að taka við tæknilega færum mönnum, sem Íslendingar stingju upp á. Ég spyr: Hvað reyndi hv. þm. Siglf. að koma mörgum tæknilega menntuðum mönnum inn, meðan hann var ráðh., og hvað hefur Erling Ellingsen reynt að koma mörgum inn, og hvað hafa Bandaríkjamenn neitað að taka marga? Það er fyrst, þegar búið er að svara þessu, sem hægt er að taka fullyrðingar hans fyrir annað en marklaust raus.

Ég skal nú ekki dvelja frekar við einstök atriði í því, sem hv. þm. sagði. Ég held þau hafi verið fá fleiri og öll á sömu bókina lærð. Ég skal aðeins svara fyrirspurnum, sem hann gerði.

Hann spurði, hvað hefði verið gert til að rannsaka mál stúlkubarns, sem lenti í vandræðum suður á Keflavíkurflugvelli. Það hefur verið fyrirskipuð rannsókn, og það hefur verið farið með það mál eins og venja stendur til. Það er leiðinlegt, þegar slík óhöpp vilja til, en ég held að ekki sé ástæða til að rifja það upp hér. Það er engin ástæða til að blása upp um það pólitísku moldroki, þótt slík ógæfa komi fyrir aumingja stúlku.

Hv. þm. sagði, að ef Bandaríkjamenn tækju upp refsingar á sínum mönnum hér fyrir að brjóta tollafyrirmælin, þá væru þeir að taka að sér verkefni, sem íslenzk yfirvöld ættu að hafa. Það segir um þetta í skýrslu flugvallan.: „Mönnum er tafarlaust vikið frá, ef þeir brjóta samninginn.“ Já, er hægt að segja, að brotið sé gegn okkur með þessu? Þetta varð efni í eitthvað hálftíma pistil. Það er hægt að láta síma út á land um mikla mælsku, þegar efnið er ekki meira en þetta. Ég vona, að þetta verði greitt í þeirri mynt, sem hv. þm. kemur bezt.

Hv. þm. talar um, að n. hafi gert till. um reglur um flugvöllinn og að það sé ósatt hjá n., að hún hafi ekki gert þessar till. En ég spyr: Hvort halda menn, að hann viti betur um þetta eða Erling Ellingsen, Gunnlaugur Pétursson. Gunnlaugur Briem, Gunnlaugur S. Briem og ég. sem átti að hafa tekið við till.? Allir þessir aðilar neita, að nokkrar till. hafi komið fram. Hv. þm. sagði, að ekkert væri athugavert við það, þótt hann hefði birt þessar till., og sagði, að enginn hefði álitið það trúnaðarmál. Já, ef svo var, hvers vegna tók þá Erling Ellingsen sig til og lýsti því yfir í utanrrn., að hann ætti engan þátt í því, að till. hefðu verið birtar í Þjóðviljanum? Og ég spyr hv. þm., ef hann er sannfærður um. að hér sé ekkert óhreint: Af hverju sagði hann ekki, hvar hann fékk þessi gögn? Er það ekki það gamla, að sá, sem fer í felur, skammast sín? Ef ekki væri eitthvað að skammast sín fyrir, þá færi hann ekki í felur. En það er vegna þess, sem hv. þm. verður að játa, að hann vill heldur liggja undir grun en segja frá hinu sanna. En annað er það, að það er ekki skaði fyrir mig eða stjórnina, að þetta komi fram, því að stjórnin hefur gott af því, að þetta mál sé rætt á þingi, eins og gert hefur verið. Og stjórnin mun standa því betur á verði, sem málið er rætt betur. En því betur koma í ljós óheiðarlegar aðferðir hv. þm. Siglf. og félagsbræðra hans, sem hafa tekið þessi skjöl í heimildarleysi og segja síðan, að þau séu frá flugvallarn., sem ekki hefur gert þessar till. og öllum kemur saman um, að séu einkatill. Erlings Ellingsens, sem þeir eru ekki búnir að taka afstöðu til, hvað þá að bera fram við mig.

Hv. 2. þm. Reykv. ræddi hér ákaflega langt mál, talaði hér í 2½ tíma, og vona ég, að hann hafi ekki illt af því. Hann eyddi ákaflega litlum tíma — eða ekki nema klukkutíma — í að tala um heimspólitíkina frá 1842 og sannaði áþreifanlega, að því er honum fannst, að Bretar og Bandaríkjamenn væru árásarþjóðir. Hann vitnaði í ritgerð, sem hann hafði sjálfur samið í fyrra, og fannst það örugg sönnun þess, að Bretar væru árásarríki, sem við mættum búast við öllu illu af. Ég skal ekki ræða þetta, en það vil ég segja, að það er ekki mikil spurning um það, hvort meiri hætta stafi af þingræðisríkjum eða einræðisríkjum.

Hv. þm. talaði um. að við hefðum þolað miklar búsifjar af Bandaríkjunum. Á stríðsárunum bjuggu Bandaríkjamenn þannig að okkur, að við höfum áreiðanlega átt við betri kjör að búa en nokkur önnur þjóð, þar sem herlið var. Bandaríkjamenn urðu fyrstir til að viðurkenna lýðveldi okkar. Það er rétt, að Bandaríkjamenn fóru hér fram á herstöðvar, en þeir sættu sig við, þegar þeim var neitað. Og ég bið menn — líka hv. 2. þm. Reykv., sem er greindur maður — að hugsa um það, hvort öll ríki veraldar hefðu sætt sig við það, að svona lítið kotríki hefði neitað um herstöðvar, hvort menn gætu ekki látið sér detta í hug eitthvert ríki, sem hefði brugðizt öðruvísi við en Bandaríkjamenn gagnvart okkur. Ef hv. 2. þm. Reykv. getur svo lagt höndina á hjartað og svarið hér frammi fyrir þingheimi, að ekkert ríki mundi hafa brugðizt verr við en Bandaríkjamenn, hefur hann meiri brjóstheilindi og minni greind en ég held, að hann hafi. Það er ákaflega erfitt að tala um það við suma, menn, hvað er árásarþjóð eða ekki. Það er erfitt að tala um það við menn, sem hafa haldið því fram, að helzta árásarþjóð heimsins séu Finnar, menn sem tala aðra tungu í þessu efni en við og aðrir Íslendingar og allir menntaðir menn, hvar sem er í heiminum. En segjum nú svo, að ásakanir hv. 2. þm. Reykv. um árásarvilja Bandaríkjanna væru sannar og réttar og búast mætti við, að þeir steyptu sér yfir menn þá og þegar, heldur hann, að þá ætti að byrja á að sprengja upp Keflavíkurflugvöllinn og láta eina flugvöllinn vera hér í Reykjavík, þar sem meira en, hluti þjóðarinnar er saman kominn? Ef Bandaríkjamenn eru eins illir og hv. þm. vill vera láta, hlýtur hann að sannfærast um af þeirri forsendu, að það er nauðsynlegt bjargráð að sjá til þess, að annar flugvöllur en Reykjavíkurflugvöllurinn sé til, og meðan sá möguleiki er fyrir hendi, að einhver þjóð kunni að fara með stríð og hefja árás, þá er sjálfsagt fyrir okkur að hafa þann hátt á að koma í veg fyrir, að eini flugvöllurinn sé hér, þar sem fólkið er saman komið. Ég lít svo á, að nauðsynlegt sé að hafa þá, öryggisráðstöfun á að flugvöllurinn sé ekki inni í miðri borginni, en ég trúi ekki á það stríðstal, sem uppi er. Ég trúi því, að þjóðirnar muni með góðvild komast hjá því að láta nýja styrjöld brjótast út. Ég lít svo á, að rekstur Keflavíkurflugvallarins sé nauðsyn, sem Íslendingar eigi að hafa samvinnu við Bandaríkjamenn um, eins og nú er, og að við eigum ekki að líta á það eins og stríðshættu eða ógnir. En ef ég héldi, að stríðshætta væri yfirvofandi, væri ég viss um, að við gerðum rétt í því að gera ráðstafanir til þess, að Keflavíkurflugvöllurinn væri starfræktur, þannig að átökin yrðu um hann.

Hv. þm. talaði um hin ákaflega miklu lögbrot, sem ættu sér stað í sambandi við Keflavíkurflugvöllinn. Ég hef áður sagt, að það eru ýmis atriði, sem óleyst eru varðandi Keflavíkurflugvöllinn, atriði sem hvorki ég né neinn annar gerðu sér grein fyrir, að upp mundu koma, þegar samningurinn var gerður. En það er fullt útlit á því, að þau leysist, og það hefur ekkert komið fram, sem bendir til þess, að þau verði ekki leyst á vinsamlegan og hagkvæman hátt fyrir Íslendinga.

Eitt af því, sem nokkur vafi hefur leikið á, er innflutningur Bandaríkjamanna til landsins. Því er haldið fram, að það felist í samningnum, að Bandaríkjamenn megi hafa innflutning á efni, nauðsynlegum útbúnaði og vörum, sem þeir þurfa á að halda. Ég fullyrði ekkert um þetta, en hef litið svo á, að þangað til athugun hefði farið fram á þessu, væri eðlilegt, að Bandaríkjamenn legðu sér til efni og nauðsynjar, þ. e. hefðu sinn eigin innflutning. Það horfir öðruvísi við með þá, sem ekki hafa erlendan gjaldeyri. Þarna er tiltekinn hópur erlendra manna, sem hefur sérstöðu varðandi tollgreiðslur og innflutning að einhverju leyti. Það getur því legið mjög nærri að láta þá lifa sínu lífi með sínar nauðsynjar, og það er mjög hæpið frá okkar sjónarmiði séð að fara að draga þá undir íslenzkt fyrirkomulag. Með því móti einmitt skapast sú hætta, að þeir blandist Íslendingum.

Ég hef sagt í fyrri ræðu minni, að það er ekki búið að leiða öll málin til lykta ennþá. En ég neita, að nokkur misskilningur hafi átt sér stað eða nokkuð það, sem hægt er að leggja til lasts í sambandi við þetta. Allt, sem gert hefur verið, hefur verið gert eftir ráðum færustu þjóðréttarfræðinga, sem hafa rannsakað þau atriði, er til greina gátu komið, og stjórnin hefur farið yfir þau atriði, sem þessir menn hafa talið að í samningnum fælust. Stjórnin hefur enn ekki tekið endanlega afstöðu til þessara atriða allra, og álít ég á þessu stigi málsins ekki heppilegt, að færð verði fram frekari rök en hér eru færð fyrir meðferð þessa máls.

En ég vil endurtaka það, að ekkert óheimilt hefur átt sér stað, aðeins það, sem heimilt er samkvæmt l. Allar dylgjur um annað eru úr lausu lofti gripnar, og er algerlega ósæmilegt að viðhafa slíkt hér á þingi. Látum vera, að því sé beint gegn mér. Það er ekki verra en að vera landráðamaður, en að stefna slíku gegn vinveittri þjóð er algerlega ósæmilegt, auk þess sem það er ótækt af hv. þm. að blanda viðkvæmu utanríkismáli saman við innanlandsdeilur.

Hv. þm. sagði, að það væri greinilegt, að við ættum að taka afgreiðslu á víni og tóbaki til þessara manna sem brot á samningnum. Ég þori að fullyrða, að þetta fær ekki staðizt. Í 9. gr. segir: „Eigi skal leggja neina tolla eða önnur gjöld á“ o. s. frv. Tóbaksálagningin er að vísu ekki tollur, en það er önnur gjöld, svo að ekki er heimilt að taka það. Ég tek ekki við ásökunum um brot í þessu efni, því að þær fá ekki staðizt.

Hv. þm. fór að tala um afurðasöluna. Það hefði verið betra, ef hann hefði notað tækifærið til að tala um það við hljóðnemann. Af hverju var þá stungið upp í hann að tala? Ég vil nú segja það, að ekkert er hægt að færa fram því til stuðnings, að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir framleiðslu okkar, þótt Einar Olgeirsson og hans nótar hefðu verið í stjórn. Menn kaupa fyrir peninga, en ekki fyrir skoðanir og sannfæringu. Þetta benti ég á í útvarpsumr. á dögunum, og hann treysti sér ekki til að hnekkja þessu. Nú segir hann, að ég hafi haldið fram því, sem hann ferðaðist um landið til þess að halda fram sjálfur. Hv. 2. þm. Reykv. segir, að það hafi verið vanrækt af núverandi ríkisstj. að leita markaða erlendis fyrir afurðir okkar, og segir, að ef ekki hefði verið mynduð stjórn árið 1944 og sú stjórn, sem þá var mynduð, hefði ekki verið leitað þessara markaða. Hv. 2. þm. Reykv. veit vel, að ég átti ekki síður þátt í því en hann, að ýtarlegar tilraunir voru gerðar til þess að taka upp samninga um sölu á okkar afurðum til þjóða í Mið-Evrópu og Austur-Evrópu. Þetta liggur fyrir þannig, að að var bókað í bókum utanrmn. á sínum tíma. Ég hafði sama hug á þessu eins og hann. Og það hefur aldrei verið gerð jafnmyndarleg og róttæk tilraun til þess eins og á þessum síðustu árum að ná mörkuðum í Austur- og Mið-Evrópu fyrir okkar afurðir. Þar hafa verið boðnar vörur okkar hvað eftir annað og sendir menn í þessum erindagerðum land úr landi, sem dvalið hafa þar mánuðum saman. Að vísu hefur það stundum ekki borið árangur. Svo kemur hv. 2. þm. Reykv. hér og segir, að ef þetta hefði verið reynt, þá hefði allt farið öðruvísi. Hvað er það í þessu efni, sem hefur verið látið undir höfuð leggjast að reyna? Getur þessi hv. þm. bent á eitt einasta atriði?

Hv. 2. þm. Reykv. segir, að ég hafi varið meginhlutanum af mínum starfstíma sem ráðh. til þess að halda fram við þjóðina, að það þyrfti að lækka verð á íslenzkum afurðum. Ég hef aldrei heyrt aðra eins fjarstæðu sem þessa. En hins vegar hef ég sagt þjóðinni, að ekki þýði til lengdar að setja ábyrgðarverð á afurðirnar eða eitthvert Ákaverð. Ef við ætluðum að nota einhvern Ákavísdóm í sölu okkar afurða, þá mundum við engum ugga koma út. — Við eigum vitanlega að reyna að ná eins háu verði fyrir okkar afurðir eins og hægt er, og við eigum að gera það með eins mikilli alvöru og festu eins og við getum og eins og við höfum gert á þessu ári að ráði beztu manna. En það þýðir ekkert fyrir okkur að lifa hér í þeim hugarórum, að við ráðum sjálfir yfir einhverju hámarksverði eftir okkar ljúfustu óskum. Það væri ósköp gott, ef við réðum yfir verðinu á afurðunum — gott fyrir okkur.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um það, að það væru kannske einhverjir í Sjálfstfl. aðrir en ég — ekki vildi hann segja, að það væri hver annar í þeim flokki sem væri —, sem mundu geta fengið hærra verð fyrir afurðirnar og hægt mundi vera fyrir sósíalista að styðja til að vera ráðh. í mínu sæti, — það fyndist kannske einhver í Sjálfstfl. slíkur, ekki væri það útilokað, ef ég bara færi frá. Það er gott að fá að vita þetta, sérstaklega eftir ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem sagðist vera hissa á því, að hv. þm. V-Húnv. væri ekki enn búinn að átta sig á því, að ekki væri hægt að vinna með Sjálfstfl. (SigfS: Það er sannarlega furðulegt.) Svo kemur núna hv. 2. þm. Reykv. og er að biðla til okkar sjálfstæðismanna um, að við leggjum til mann í stjórn, þar sem hann segir — jú, að við megum eiga mann í stjórn, ef það sé bara ekki ég. — Það er svo sem ekki í fyrsta skiptið, sem þeim ber ekki saman, þessum flokksmönnum. Mér er sagt, að þeir hafi haldið fund á sunnudaginn í nýju mjólkurstöðinni og þar hafi fyrsti ræðumaður sagt, að ef einhverjir aðrir úr Sjálfstfl. tækju við í ríkisstj. en þessir vondu menn þess flokks, sem nú eru í stjórn, þá gæti ýmislegt lagazt, sem aflaga færi. Ég veit ekki hvort hv. 6. þm. Reykv. var jafnskeleggur á móti Sjálfstfl. á þeim fundi eftir þessa ræðu eins og hann var hér í gær. En það á kannske við um hann þetta orðtak: Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri. — Það er kannske ekki að furða, þó að hv. 6. þm. Reykv. sé dálítið reiður út af því, að komizt hefur upp um hann og hans flokksbræður um jafnmikil óheilindi eins og í þessu efni.

Það hefur komið mjög fram í þessum umr., að sósíalistar hafa talið, að við, sem vorum með Keflavíkursamningnum á sínum tíma og höfum séð um framkvæmd á honum, hefðum gert landi og þjóð mikla skömm og hefðum leitt mikla hættu yfir okkar land. Ég held satt að segja, að það sé ákaflega vandlifað, til þess að þeir góðu kommúnistar telji ekki, að hætta sé leidd yfir landið og svo að þeir telji ekki, að verið sé að ofurselja þjóðina með því að veita rétt til herstöðva og annað slíkt. — En í því sambandi er kannske ekki úr vegi að geta þess, að á síðasta sumri fóru Rússar fram á að fá herstöðvar í Noregi. Þar voru þá engir með því nema kommúnistar, svo að um það var synjað. Og við héldum hinir, að engar herstöðvar væru til í Noregi. Og það var brýnt fyrir okkur að standa eins vel á verði í þessum efnum eins og Norðmenn. — En mig langar til að minnast hér á, hvað stendur í grein í blaðinu Rauði flotinn, sem gefið er út í Rússlandi — einu sannsöglasta blaði í heimi, náttúrlega — þann 10. september 1947. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Bandaríkin og Bretland sýna mikinn áhuga fyrir landvörnum Noregs. Hafa Ameríkumenn náð undir sig eftirliti með kjarnorkurannsóknum þeim, sem fram fara í Bergen undir handleiðslu amerískra vísindamanna. Allir helztu flugvellir Noregs eru í höndum Breta og Bandaríkjamanna með „leigu“-kjörum. Hinu sama máli gegnir um norskar hafnir. Þar eiga Bretar og Bandaríkjamenn aðgang að eftirlitslausu, og komu þangað mörg brezk og bandarísk herskip árið sem leið. Háttsettir brezkir og amerískir herforingjar halda áfram að sækja Noreg heim.“ — Það var eins og þegar herforinginn mikli, Bob Williams, kom hingað til landsins.