29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3291)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða þetta mál það mikið, að það er eiginlega heldur leiðinlegt að bæta þar miklu við. Manni virðist eftir þeim ræðum, sem farið hafa fram um málið, ekki sízt í seinni tíð, þá sé málið orðið það upplýst, að tæpast sé þess að vænta, að fleiri ný atriði komi í ljós við umr. en búið er að minnast á og sum margoft. Tilgangurinn með þessari þáltill. hjá hv. flm., þm. Siglf., á að vera sá að ýta á eftir ríkisstj. með að framkvæma ákvæði flugvallarsamningsins og gera það þannig, að Íslandi henti sem bezt, og það án tafar. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja af hálfu hæstv. ríkisstj. og flugvallarn., verður ekki annað séð en að þeir menn, sem mest afskipti hafa haft af þessum málum ásamt hæstv. ríkisstj., hafi reynt að sinna þeim eftir ýtrustu föngum. Þess ber að gæta í þessu sambandi, að þegar núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, voru liðnir margir mánuðir, frá því að þessi samningur kom í gildi, og er þess vegna ekki hægt að færa henni það til sektar, að ekki sé búið að vinna að málum, sem gera átti, áður en hún kom til valda, en fyrir hennar atbeina og störf er nú búið að leysa mörg atriði af því, sem átti að leysa í framkvæmd þessa samnings, og er það vel farið. Það er líka upplýst, að allmörg atriði eru óleyst, sem verið er að vinna að. Alþ. treystir því, að hæstv. ríkisstj. leysi þau mál af sinni hálfu, eftir því sem hún bezt getur, og reyni að láta sitja í fyrirrúmi íslenzka hagsmuni og réttindi, en ekkert hefur komið fram, að mér virðist, sem bendir til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki reynt í þessu máli að vinna þannig af fullri alúð og festu, að hagsmunum Íslendinga væri vel borgið. Öðru máli gegnir um þau atriði, sem óútkljáð eru, að um þau getur maður ekki slegið neinu föstu, á hvern hátt takast kann að leysa, en fullvíst virðist mér, að hæstv. ríkisstj. hafi fullan áhuga á að láta lausn þeirra mála fara sem bezt úr hendi. Hygg ég, að auðvelt sé fyrir hæstv. ríkisstj. og hv. Alþ. að koma sér saman um leiðir til úrlausnar. Það er hins vegar í alla staði eðlilegt og æskilegt — og ég hygg, að af hálfu hæstv. ríkisstj. verði engin hindrun lögð í veg fyrir það —, að menn fái vitneskju um gang þessara mála. — Kann ég mjög illa við, hversu meðmælendur þessarar þáltill. viðhafa mikinn orðaflaum og endurtekningar í þessum umr., og finnst mér þar gæta allt of mikils alvöruleysis, ef þeim finnst málið skipta svo miklu fyrir Íslendinga og hvernig það sé framkvæmt og leyst, svo sem þeir vilja vera láta. Ég held, að þeir geti ekki haft trú á því, að þeir geri íslenzkum málstað mikið gagn með því að flytja þetta mál eins og þeir gera. Ég vil ekki slá neinu föstu um, hvað fyrir þeim vakir — það skiptir ekki svo miklu máli —, en þeim missýnist hrapallega á þann hátt, sem þeir túlka það. Hygg ég, að afgreiðsla þess, hvað Ísland snertir, verði ekki lakari, þótt hv. Alþ. sitji ekki lengur yfir því, og álít því hyggilegast, að þessu máli verði þegar ráðið til lykta. Ég hef þess vegna ásamt tveim öðrum hv. þm., þeim hv. 1. þm. Reykv. (PM) og 7. landsk. þm. (GÍG), leyft mér að bera fram svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Í því trausti, að ríkisstj. gæti hagsmuna Íslands örugglega við framkvæmd samningsins um Keflavíkurflugvöllinn, telur Alþ. ástæðulaust að gera nú frekari samþykkt og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Mun ég svo afhenda hæstv. forseta þessa rökst. dagskrá og sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um málið.