29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3292)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Ég heyrði ekki fyrstu orðin hjá hæstv. utanrrh., en mér skildist, að þau væru ekki snertandi það mál, sem hér er til umr., og held ég, að þau hafi aðallega snúizt um það, að ég vítti hann fyrir ummæli í garð embættismanns, sem hafði hér enga aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér. Taldi hæstv. utanrrh. hann andstyggilegan og sagði, að hann hefði svikizt um sín störf og reynzt óhæfur til þeirra. — Í sambandi við ræðu hæstv. menntmrh. vil ég taka það fram, að það var ekki ég, sem upphaflega dró þennan embættismann hér inn í umr. Það gerðu hæstv. utanrrh. og hæstv. menntmrh., áður en ég gerði hann að umtalsefni.

Hæstv. utanrrh. reyndi ekki með einu orði að hrekja neitt af þeim ummælum mínum, að óhæfilegt væri, hve ýmsar framkvæmdir í sambandi við Keflavíkurflugvöllinn hefðu dregizt og hversu hæstv. ríkisstj. hefði verið undanlátssöm við Bandaríkjamenn í þessum málum. Einasta vörn hans var þessi: Áki Jakobsson var jafnundanlátssamur, þegar hann var ráðh. — Við skulum nú athuga aðstöðu fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum. Í herverndarsamningnum við Bandaríkjamenn féllst hv. Alþ. á, að hér dveldi amerískur her í 6 mánuði, eftir að samningurinn væri útrunninn. Þessir bandarísku hermenn áttu ekki að falla undir íslenzk lög. Þess vegna var aðstaða fyrrv. ríkisstj. þannig um þetta 6 mánaða skeið í sambandi við að koma fram einu eða öðru á flugvellinum — þar með innheimta gjöld og koma þar fyrir íslenzkum starfsmönnum —, að hún var útilokuð í framkvæmd, þar eð um bandarískt herlið var að ræða. Skoðun fyrrv. utanrrh. var sú, að meðan herinn dveldi hér, væri ekki um það að sakast, þótt ekki væri hægt að koma þessu við, því að þetta lagaðist, þegar þessir 6 mánuðir væru liðnir, og þá horfði málið öðruvísi við. Þessar staðreyndir kippa öllum rökum undan ræðu hæstv. utanrrh., og ef hann hefði tekið þær með í reikninginn og komið með þessar skýringar, hefði hann getað sparað sér þau mörgu orð, sem hann lét hér falla um, að ég hefði skapað fordæmi fyrir að leita samkomulags við Bandaríkjamenn. Þegar ákveðið var að setja þessa reglugerð, var ekkert ákveðið um það í samningnum, hvort Bandaríkjamenn ættu að greiða þessi gjöld, meðan herinn væri hér, og var því ekki um annað að ræða en að leita á náðir utanrrn. og bera þetta fram, en flugvallarn. starfaði í umboði þess, líka meðan herinn dvaldi hér. Þannig eru þessi atriði úr ræðu hæstv. utanrrh. gersamlega tilefnislaus og hin langa ræða hans gerð að engu, þegar þessar skýringar hafa verið gefnar. — Aðalatriðið er, að aðstaða Íslands til að framkvæma samninginn og fá fullkomin yfirráð yfir vellinum kom ekki til framkvæmda, fyrr en ameríska herliðið var farið, af því að það neitaði algerlega að hlýða fyrirskipunum Íslendinga. Hins vegar horfir málið öðruvísi við, eftir að starfslið er komið á völlinn, sem heyrir undir íslenzka lögsögu, eins og skeður í apríl s. l. Þá er hægt að setja reglugerð og taka af skarið af hálfu hæstv. ríkisstj., sem ekki var hægt að gera áður. Ég verð að segja það, að það er lélegur málstaður, sem hefur ekkert annað sér til varnar en þetta: „Áki Jakobsson stóð sig ekki betur, þegar hann var í ríkisstj.“ — og forðast að svara fyrirspurnum og athugasemdum, sem hér koma fram, t. d. varðandi starfsmannahald á vellinum. Hæstv. utanrrh. spurði mig, hvað margir íslenzkir fagmenn væru á takteinum til þessara starfa. Ég veit, að í fórum hæstv. ríkisstj. eru upplýsingar um alla þá menn, sem eru menntaðir á þessu sviði. Í skýrslu þeirri, sem hér hefur verið lögð fram, er því haldið fram af flugvallarn., að 19 menn starfi þarna við tekniska flugþjónustu. Ég upplýsti, að þetta orð gæti átt við svo margvísleg störf, t. d. menn, sem sópa völlinn, setja flugvélarnar í gang, og þá, sem vinna í afgreiðslusal. Ég spurði hæstv. ráðh., við hvaða tekniska þjónustu þessir 19 menn störfuðu. Það hefur líka verið sneitt hjá því að svara, hvort eigi að taka íslenzka starfsmenn í flugturninn, sömuleiðis varðandi fyrirkomulag á olíusölu, því að á því sviði ráða Bandaríkjamenn öllu. Þessi framkoma öll sýnir, hve hæstv. ríkisstj. er í algerri vörn í þessu máli og treystir sér ekki að halda sér við efnið og gefa upplýsingar, heldur dregur inn í umr. ýmis aukaatriði.

Hæstv. utanrrh. sagði í upphafi ræðu sinnar, að hann vildi láta ræða málið ýtarlega og athuga í n., og ég lagði áherzlu á, að það yrði fengið þingnefnd til meðferðar, sem skyldi svo athuga ýmis vafaatriði, sem fram komu í skýrslu flugvallarn., kallaði hana t. d. á fund og spyrði um eitt og annað, sem þar er talað um með loðnu orðalagi. Nú hafa stjórnarfl. hins vegar komið sér saman um að losna við frekari umr. um málið, og þess vegna er það, að hv. 1. þm. Árn. stendur hér upp og gerir grein fyrir rökst. dagskrá, sem hann er flm. að ásamt tveim öðrum hv. þm., og finnst hæstv. ríkisstj. það líta betur út, að till. komi úr hópi þm. En út af því, sem hv. 1. þm. Árn. var að tala um alvöruleysi í umr. af hálfu okkar sósíalista, vil ég taka það fram, að hann hefur enga aðstöðu til að dæma um slíkt, því að hann hefur verið lítið hér við umr. fyrr en í dag, þegar honum er fengin þessi till. upp í hendurnar og falið að bera hana fram.