29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3298)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Það er merkilegt, að þessir þm., hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Reykv., geta ekki sagt eitt einasta orð satt um þetta mál. Hv. þm. hélt því fram, að stjórnin hefði eytt öllum tíma þingsins í þetta mál og sagði, að ég hefði talað eftir hverja ræðu í málinu. Ég kvaddi mér alls ekki hljóðs eftir hina löngu ræðu hv. þm. Siglf., heldur beið þar til hv. 2. þm. Reykv. hafði flutt sína ræðu, því að ég vissi, að með því gat ég slegið tvær flugur í einu höggi.

Hv. þm. sósíalista hafa haldið því fram, að framin hafi verið lögbrot í sambandi við framkvæmd samningsins. Ég hef hér hvað eftir annað upplýst hið sanna í málinu, en það er það, að af hálfu ríkisstj. hefur ekkert verið gert annað en það, sem að beztu manna yfirsýn er talið felast í samningnum. Hins vegar hafa ákvæði samningsins verið lögfest, og er það því bein lagaskylda að framkvæma hann, en ekkert annað gert en það sem í samningnum felst að ráði beztu og færustu manna. Hvað viðvíkur tollamálunum vísast til skýrslu flugvallarnefndar og segir þar á bls. 3: „Samkv. 9. gr. samningsins skal ekki leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmann hennar eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samningsins.“ Hafa Bandaríkjamenn gengið í aðalatriðum að sjónarmiði Íslendinga í þessum málum.

Það var eftirtektarvert í ræðu hv. þm. Siglf., að honum þótti afleitt, að málin hafa leystst með samkomulagi. Íslenzka ríkisstj. hefur staðið örugglega á verðinum um hagsmuni landsins og náð sínu fram með sanngirni og hófsemi, en hefur ekki talið vænlegt að efna til fjandskapar við aðrar þjóðir. Tilgangur kommúnista er aftur á móti sá að reyna að skapa úlfúð milli Íslands og Bandaríkjanna. En þeir, sem á móti þeim eru, álita, að halda beri svo á málunum, að vinátta megi vera ríkjandi og gott samkomulag milli Íslands annars vegar og allra annarra þjóða hins vegar. Það þola kommúnistar ekki, og er því eitt aðaláhugamál þeirra — fyrir utan að skamma mig persónulega — að skapa úlfúð milli okkar og Bandaríkjamanna.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði fjálglega um sjálfstæði landsins. Það er alveg furðulegt, að maður með annan eins hugsunarhátt og skoðanir skuli tala svo sem þessi hv. þm. gerði. Þetta mál hefur nú verið rætt hér í þinginu lengi og ýtarlega, og skiljanlegt, að þm. beri fram till. um það, að ríkisstj. sé bezt treystandi til að halda vel á málstað Íslendinga, og geri ég því ráð fyrir. að hv. þm. geti fallizt á fram komna dagskrártill.