30.10.1947
Sameinað þing: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3302)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Hannibal Valdimarsson:

Ég hef ekki tekið þátt í þeim langdregnu umr., sem fram hafa farið um þáltill. þá, er hér liggur fyrir um framkvæmd samningsins um Keflavíkurflugvöllinn. Ástæðan er aðallega sú, að ég lít á þennan óhappasamning sem eins konar pólitíska grafskrift yfir þann forsrh., sem rataði í þá ógæfu að leggja hann sem læðing á þjóð sína. Taldi ég ekki ástæðu til að raska grafarró hans. Hitt er ljóst, að framkvæmd samningsins hefur verið slæleg, bæði af hendi þeirra trúnaðarmanna, sem kommúnistar settu til þess að fara með daglega framkvæmd samningsins, og einnig þeirra stjórnarvalda, sem seinustu mánuði hafa farið með æðstu stjórn utanríkismála og flugvallarmála, og ber því tvímælalaust að láta till., sem felur í sér óskir um, að haldið verði með meiri djörfung og árvekni á rétti Íslendinga gagnvart hinum samningsaðilanum, fara til n. og sæta þar fullkominni athugun og vandlegri afgreiðslu, eins og hæstv. utanrrh. hafði gefið fyrirheit um undir umræðum málsins. Þegar því fram kemur till. um að synja þál. um framkvæmd samningsins um Keflavíkurflugvöllinn um þinglega meðferð og afgreiðslu og seilzt er auk þess eftir traustsyfirlýsingu þingsins til handa stjórninni einmitt í þessu máli, þar sem hún hefur vægast sagt slælega framkvæmd að baki sér í viðkvæmu máli, þá læt ég ekki bjóða mér slíkt og segi nei.