27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

10. mál, dýrtíðarvarnir

Frsm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál til athugunar, rætt það á nokkrum fundum sínum og komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri æskilegast, að þm. ættu aðgang að þeim gögnum, sem eru talin í þessari þáltill. Það hefur enn fremur komið í ljós við eftirgrennslan, að nokkuð af upplýsingum þar að lútandi, sem talað er um í þáltill., liggja fyrir í stjórnarráðinu. Og hæstv. forsrh. hefur tjáð okkur, að að sjálfsögðu mundi verða aflað frekari upplýsinga um þessi atriði, eftir því sem þurfa þætti. Hins vegar er síðari hluti þáltill. nokkurs konar stefnuyfirlýsing um það, hvaða stefnu Alþ. hugsaði sér að taka í dýrtíðarmálunum eða að hverju skuli stefnt. — Ég býst við, að ekki sé svo mikill ágreiningur um það, hvert skuli stefnt í því efni, en frekar um leiðirnar að þessu marki. Og þar sem allshn. er kunnugt um, að þetta mál, sem þáltill. er um, er til sérstakrar meðferðar hér og líkur eru til, að ekki verði þess langt að bíða, að hæstv. ríkisstjórn leggi fram ákveðnar till. um þetta efni, taldi n. ekki tímabært að leggja fram neinar sérstakar yfirlýsingar í þessu máli, heldur væri rétt að bíða átekta, þar til þinginu gæfist tækifæri til þess að fjalla um málið á allt annan hátt heldur en aðeins að gefa yfirlýsingar.

Eftir atvikum taldi allshn. rétt að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar með rökst. dagskrá, sem hér er prentuð með nál. og verður væntanlega borin upp við atkvgr. — Hef ég svo ekkert frekar um þetta mál að segja fyrir hönd n.