05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3323)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þessi till., sem hér liggur fyrir, er fram komin, er einfaldlega sú, að sá skammtur. sem sjómenn hafa fengið af kaffi og sykri, hefur hvergi nærri reynzt nægilegur fyrir þá, til þess að þeir geti fengið sér kaffi eins oft og þá langar til. Það má líka segja, að önnur aðalástæðan fyrir þessu sé sú, hversu margir það eru, sem sjóinn stunda um þetta leyti. Má segja, að á þessum tíma hafi sjósókn aldrei verið stunduð af svo mörgum. Þessir menn þurfa að vinna í vosbúð og kulda. Þeir þurfa oft að fá sér hressingu, en hún liggur í kaffi, og sæmir ekki að þessum mönnum, sem svo fagurlega eru kallaðir hornsteinar þjóðfélagsins, séu ekki veittir möguleikar til þess að fá slíka hressingu. Sjómönnum hefur verið veittur nokkur aukaskammtur, en sá skammtur nægir þeim hvergi nærri, vegna þess að þeir þurfa svo oft að fá sér aukasopa.

Ég ætla, ekki að fara nánar út í þetta, vegna þess að ég býst við, að um áramótin fari fram breyting á öllu skömmtunarkerfinu í landinu og þá um leið á þessu. Ég legg til, að þessu máli verði vísað til allshn., og vona, að Alþ. taki þessu máli vel.