05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (3327)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Mér heyrðist hæstv. ráðh. segja, að engu skipi hefði verið neitað um aukaskammt. Ég vefengi ekki, að þetta sé rétt hjá honum. En ég hef orðið var við, að margir sjómenn hafa kvartað undan því, að skammturinn hafi verið samt sem áður of lítill af þessu, sérstaklega af kaffi. Það kann að vera, að þeir hafi ekki vitað um það örlæti, sem hefur nú gagntekið skömmtunaryfirvöldin, sérstaklega nú eftir að þessi þáltill. er komin fram hér á þinginu, því að það skal sagt skömmtunaryfirvöldunum til verðugs hróss, að þeir, sem um þau efni hafa ráðið, hafa tekið tillit til till., sem komið hafa fram á þingi um þessi efni, þó að þær hafi ekki verið samþ. — Annars virðist mér rétt, að sá skammtur, sem sjómenn fá, sem mun rétt vera, að hafi verið sá sami allt frá því árið 1939, verði aukinn. Það hafa verið standandi kvartanir um þetta, þó að skipin hafi oft að vísu komizt hjá vandræðum, vegna þess að þau hafa getað fengið kaffiseðla t. d. hjá öðru fólki, sem ekki hefur verið á skipunum, og jafnvel fengið hjá verzlunum eitthvað smávegis án þess að skila seðlum. En það hafa verið standandi kvartanir um þetta hjá sjómönnum, allar götur frá því að skömmtunin byrjaði. En mér virðist eðlilegast að auka fasta skammtinn til sjómanna af þessum vörum, því að við getum vel veitt okkur þann lúksus að láta sjómenn okkar hafa kaffi til að drekka — og nægan sykur með —, þegar þeir þurfa að bíða lengi eftir að geta losað skip og þurfa svo annars að vinna á öllum tímum sólarhringsins.

En annað mál snertir þetta mál dálítið. Eins og vitað er, eru rökin fyrir skömmtun á vörum nú þau, að verið sé að spara gjaldeyri. En mér finnst gengið of langt í því að spara gjaldeyri til útgerðarinnar. Ég hitti í morgun sjómann og smáútvegsmann hér, sem á bát, sem hefur orðið fyrir því óláni að hafa eyðilagt djúpnót og grunnnót á Hvalfirði og beðið við það um 60 þús. kr. skaða. Nú stendur hann uppi nótalaus og verður að hætta veiðum, nema hann taki annarra manna nætur á leigu, og þyrfti hann þá að borga 15% af verði nótanna í leigu eftir gangverði. Og ástæðan fyrir því, að hann hefur komizt þannig í þrot, er sú, að þótt hann hafi fyrir löngu sótt um gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir nót, sem sérstaklega er til þess gerð að veiða með henni í Hvalfirði, þá hafði honum ekki einu sinni verið svarað, fyrr en síldveiðin hófst hér nú. Þá fékk hann allt í einu svar, og nú er hann búinn að fá leyfi fyrir þessu. En honum kemur þetta ekki að gagni a. m. k. ekki á þessari vertíð. Nú stendur þessi maður uppi nótalaus, vegna þess að ekki var sinnt um það sennilegast af gjaldeyrisástæðum — að láta hann hafa gjaldeyris- og innflutningsleyfi í tæka, tíð. — Ég vil sérstaklega benda hæstv. ríkisstj. á það, að það er ákaflega varhugavert að knepra við sjávarútveginn gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir nauðsynjum hans í sparnaðarskyni. Við eigum, eftir því sem við getum, að búa þannig að þeim mönnum, sem að útveginum vinna og reka þessi atvinnutæki og færa okkur gjaldeyrinn, að þeir sjái það í einhverju, að það sé munað við þá, að þeir inna af höndum mjög þýðingarmikla starfsemi í þjóðfélaginu.

Ég vildi sérstaklega fá upplýsingar um það hjá hæstv. viðskmrh., hvort ríkisstj. hefur gert á síðasta ári sjálf ráðstafanir til þess að afla þessara smáriðnu nóta, sem hagkvæmastar eru til veiða í Hvalfirði, eða hvað hún hefur gert til þess að veita einstaklingum leyfi til þess að útvega þessar nætur, hvar sem þær er helzt að fá, frá Ameríku, Englandi eða annars staðar frá, og enn fremur, hvort þetta tilfelli, sem ég nefndi, er eina tilfellið, þar sem einstaklingi hefur verið neitað um gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir slíkum nótum, eða hvort það er regla hæstv. ríkisstj. að veita ekki þessi leyfi fyrr en síldveiði er byrjuð í Hvalfirði.