08.12.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3332)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Í umr., sem fóru fram um þetta mál, síðast þegar það var rætt á þingfundi, lét hæstv. viðskmrh. þau orð falla, að ég gæti vel skemmt mér við það, ef ég vildi, að telja mér trú um, að þáltill., sem fram hefðu verið bornar, hefðu haft svo og svo mikil áhrif til bóta í þeim málum, sem þær hefðu fjallað um. Ég geri ráð fyrir því, að það sé að sjálfsögðu gaman fyrir mig að skemmta mér í sambandi við þessi mál, en hitt er þó þýðingarmeira, að þeir, sem eiga að njóta góðs af þessu í framkvæmd, vegna þess að þessu máli var hreyft, geti notið þess. Það er raunhæfara og skemmtilegra, að þeir geti notið þess, en þó að ég hefði skemmtun af þessu.

Í þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir, er sagt það sama sem hæstv. viðskmrh. hélt hér fram á síðasta fundi, að upplýsingar lægju fyrir frá skömmtunarstjóra um það, að aukaskammtur af kaffi og sykri til sjómanna væri veittur eftir því, sem farið væri fram á. Nú er það svo með sjómenn sem aðra, að þegar auglýstar eru ákveðnar reglur um skömmtun og annað slíkt, þá reikna þessir aðilar með því, að þessar skömmtunarreglur eigi að haldast, og staðreyndin er sú, þrátt fyrir þetta bréf frá skömmtunarstjóra, að sá skammtur af kaffi og sykri, sem sjómenn hafa fengið til síðustu daga, hefur verið það lítill, að hvergi hefur nægt, og það var ástæðan, sem ég sagði, að væri fyrir því, að þessi till. er flutt. Hvað síðan hefur gerzt, hvort nú er allt laust hjá skömmtunarstjóra til sjómanna, veit ég ekki, það færi betur, en þá hefur náðst sá tilgangur, sem ætlazt var til með þessari till. Mér fyndist eðlilegast, að þessi till., sem hér liggur fyrir, fengi venjulega afgreiðslu, færi til n., sem athugaði um það, hvort ekki er þörf á því að auka kaffi- og sykurskammt til sjómanna.

Í sambandi við það, sem frá er sagt í rökstuddu dagskránni, að samvinna hafi tekizt um lausn málsins við Landssamband íslenzkra útvegsmanna, þá vil ég segja það, að það er ánægjulegt, að skömmtunaryfirvöldin skuli hafa samvinnu við L. Í. Ú., en ég vil benda hæstv. ráðh. og öðrum á það, að L. Í. Ú. er ekki og hefur ekki verið aðili fyrir íslenzka sjómannastétt, það eru samtök útvegsmanna, en ekki sjómanna. Mér hefði fundizt eðlilegra, að hæstv. viðskmrh., vegna þess flokks, sem hann kennir sig við, hefði tekið dálítið meira tillit til verkalýðssamtakanna en hér er gert ráð fyrir, því að þau eru fyrst og fremst aðili í þessu máli, en ekki L. Í. Ú. Ég tel ekki þörf að ræða frekar um þetta mál, en vænti þess, að þessi rökstudda dagskrá verði felld, umr. frestað og till. vísað til allshn.