08.12.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3336)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýndist það koma greinilega fram hjá hæstv. viðskmrh., að það samkomulag. sem vitnað er til, sé naumast unnt að kalla samkomulag, þó að Landssamband ísl. útvegsmanna hafi látið þessar beiðnir ganga áfram, en hitt er augljóst, að útgerðinni um land allt hefur verið neitað um aukinn skammt til sjómanna og útvegsmanna. Nú hefur hæstv. ráðh. lýst yfir því, að aukning skuli ná jafnt til allra sjómanna, og þykir mér vænt um að heyra það en einkennilegt er það, að þegar gengið er nú inn á þessa braut, þá skuli það vera gert á þann hátt að vísa þáll. um aukaskammt frá. Ef ástæða er til að afgreiða málið þannig, þá verð ég að segja, að það er einkennilegt, og þá væri rétt fyrir skömmtunaryfirvöldin að nema úr gildi þá heimild, sem fyrir hendi er til að veita útgerðinni aukaskammt, sem felur í sér töluverða rýmkun. Þó að ráðh. hafi nú lofað aukaskammti, þá hefur sú stefnubreyting einmitt gerzt í sambandi við flutning þessa máls hér. Það þarf vissulega að auka þennan skammt og afnema skömmtunarreglurnar viðvíkjandi sjómönnum og setja nýjar, sem eru meira miðaðar við þarfir þeirra. Það er einmitt ástæða til að samþykkja þessa till. vegna þess. sem hæstv. ráðh. sagði.