26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (3342)

33. mál, fiskþurrkun við hverahita

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál er að vissu leyti á leið til framkvæmda. Hæstv. útvegsmálaráðh. er að láta gera tilraunir inn við Elliðavog, sem ganga í sömu átt, og málið er flutt í samræmi við vilja útvegsmanna. Rannsóknin mundi ganga út á það, hvort ekki hentaði að nota húsakost í Vesturbænum, nærri hitaveitunni, þar sem hægt væri að þurrka saltfisk við hveravatn. Hveravatnið, sem Reykjavík hefur yfir að ráða, er mjög mikið, að minnsta kosti að vori og sumri. Ég hef aflað mér upplýsinga hjá manni, sem fengizt hefur við saltfisksölu, og hann telur, að innan skamms muni þetta verða þýðingarmikið mál fyrir útveginn. Hann telur, að með þeirri tækni, sem við nú höfum, sé hægt að þurrka léttsaltaðan fisk fyrir hitabeltislöndin á hálfum mánuði í heppilegum húsakynnum.

Ég geri ráð fyrir því, að Vesturbæingar komist að við þessa vinnu, en þeir eru einhverjir beztu saltfiskþurrkendur, sem til eru. Við Elliðavog er það fólk úr Kleppsholti, sem að þessu vinnur. Nú er allmikil viðleitni í þá átt að selja mikið magn af fiski til Þýzkalands, og standa vonir til, að það muni takast, ef þetta bregzt, getur orðið erfitt með togarafiskinn, og vaxandi erfiðleikar, eftir því sem flotinn stækkar. Mest er öryggið, ef hægt er að hafa hraðvirk fiskhús til fiskþurrkunar, sérstaklega þegar Eimskip fær sín nýju skip og hægt er að flytja fiskinn til hitabeltislandanna, t. d. Suður-Ameríku.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég tel bezt, að málinu verði vísað til allshn., en ekki fjvn., því að hér er ekki hugsað um framkvæmdir að svo stöddu.