15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (3356)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Eins og þessi till. ber með sér, er hér um tvær leiðir að ræða:

1. Að þessar vörur verði undanþegnar skömmtun og

2. að þær verði skammtaðar.

Ástæðan til þess, að ég hef nefnt báðar þessar leiðir, er sú, að ég vildi, að athugað væri gaumgæfilega, hvor leiðin skyldi valin.

En í sambandi við það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að litlar birgðir væru til af þessum vörum í landinu og að þeim, sem stóðu fyrir skömmtuninni, hefði verið það ljóst, vil ég aðeins segja, að það þykir mér harla einkennilegt.

Hæstv. ráðh. taldi, að svartur markaður mundi koma fyrir þessar nauðsynjavörur, ef engin skömmtun væri á þeim. Það má vel vera vegna núverandi ástands. En mér dettur í hug að spyrja hæstv. ráðh., hvort ríkisvaldið hafi engar ráðstafanir gert til að tryggja, að þessar vörutegundir flyttust inn í landið. Hæstv. ráðh. segir, að samkomulag sé um, að vinnuskór séu undanþegnir skömmtun. Það sér hver maður, hversu fráleitt það er, að íslenzkar afurðir, sem eru framleiddar úr íslenzku efni, séu skammtaðar, en það er staðreynd, að þetta er gert. Þess eru mörg dæmi, að menn hafa orðið að eyða skömmtunarmiðum sínum til að kaupa peysur. En ef það er samkomulag um að undanþiggja þessar vörur, hvers vegna var það ekki framkvæmt strax?

Annars vil ég lýsa ánægju minni yfir, að hæstv. ráðh. skuli hafa tekið vel í þetta mál, að vinnandi menn fái það mikinn fatnað, að þeir geti unnið störf sín.

Ég veit ekki, hvaða leið skömmtunaryfirvöldin finna í sambandi við þetta mál. Ég vona, ef sú leið verður farin að skammta áfram, þá verði skammturinn svo ríflegur, að hann nægi, því að frá þjóðfélagslegu sjónarmiði nær það engri átt, að menn, sem vinna erfiðisvinnu, verði að draga úr störfum vegna vöntunar á klæðum. Það er skaðlegt, og ég geri ráð fyrir, að hæstv. stj. sjái það eins vel og aðrir, og þess vegna sé stuðningur hennar við málið tryggður.