15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (3359)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er vafalaust rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það er þörf að gera meira en að endurtaka þá smávægilegu gagnrýni, sem hér hefur komið fram, þegar næsta mál kemur á dagskrá.

Hæstv. ráðh. spyr. hvernig eigi að fara að því að skammta verkamönnum vinnufatnað og skó. Það er von, að hæstv. ráðh. spyrji svona. Hann hefur víst aldrei heyrt getið um verkalýðshreyfingu. Það mætti benda honum á að leita þangað, spyrja þar um, hvað járnsmiðir þurfi, hvað sjómenn þurfi, hvað hafnarverkamenn þurfi o. s. frv. Það er ekki annað en að leita til mannanna sjálfra og samtaka þeirra, þeir vita, hvar skórinn kreppir. Ef menn vilja sýna nokkra samvizkusemi, þá verður að fara þá leið, og þá er fullkomlega hægt að setja reglur um, hvað menn þurfi í hverri starfsgrein. Það er undarlegt að ráðast í svona skömmtun án þess að hafa fyrir að kynna sér vilja og þarfir mannanna sjálfra.

Hæstv. ráðh. segir, að stj. hafi ekki viljað fara út í að mismuna mönnum. Hvað er það, sem verið er að gera hér? Það er einmitt verið að mismuna mönnum. Spursmálið er: Hver er þörf manna? Það er það, sem á að fara eftir. Það er ekki rétt, að ég og hæstv. ráðh. hafi sama skammt og erfiðismenn. Við getum vel slitið fötum okkar meira en við gerum, en sjómaðurinn, verkamaðurinn, járnsmiðurinn og bóndinn og aðrir slíkir menn slíta fötum margfalt meira en við og þurfa því meira. Skömmtunin hlýtur að miðast við þörfina. Þess vegna er verið að mismuna mönnum með núverandi fyrirkomulagi. Hér er verið að gera stéttum manna misjafnlega hátt undir höfði, það er verið að ganga fram hjá þörfinni. Hæstv. ráðh. sá ekki annað ráð en að verkamenn og sjómenn fengju undanþágu fyrir þessum þörfum sínum og það væri fært inn á spjaldskrá. Ég er hissa, að menn skuli halda slíku fram. Ég sé ekki betur en hægt sé að nota aðra handhægari aðferð, en það er að ráðfæra sig við viðkomandi stéttir eða félagsskap þeirra og fá að vita, hver meðaleyðslan er, og þá er hægt að reikna út, í hvaða hlutfalli menn skuli fá vinnufatnað. Þá þarf enga undanþágu. Þá er aðeins verið að veita mönnum það, sem þeim ber með fullum rétti. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til, að menn fari að sækja um undanþágu og færast inn á spjaldskrá. Þess vegna finnst mér frá mínum bæjardyrum málið liggja ákaflega ljóst fyrir. Með slíku móti er hömstrun útilokuð, og ætti ekki að geta komið til greina, að verkamaður keypti vinnuföt oftar en hann þarf. Hitt er vitað, að slit á þessum fötum er ótrúlega mikið t. d. bæði hjá járnsmiðum og sjómönnum.

Ég álít því, að það sé langt í frá, að hæstv. ráðh. hafi með þessu skömmtunarfyrirkomulagi komið sér hjá því að mismuna mönnum, heldur þvert á móti er verið að mismuna mönnum.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki vilja fara að mismuna mönnum í mat. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að vitleysan komist svo langt. Það mætti nú fyrr vera óstjórn á okkar landi en farið væri að skammta þann mat, sem við framleiðum á okkar landi. En ef skammta þyrfti mat og ætti að gera það eftir sömu reglum og hafðar eru við núverandi skömmtun, þá lízt mér ekki á það.

Ég held því, að viðskiptaráð ætti vel að athuga þessi mál, áður en það gengur inn á undanþágukerfið, og íhuga, hvort ekki væri nær að ræða við verkalýðsfélögin, hversu mikil þörfin er, og afhenda skömmtunarseðla samkvæmt því, eftir því í hvaða starfsgrein menn vinna.

En út frá því, sem hæstv. ráðh. talaði um, að hér væri verið að heimta svo mikinn innflutning á sumum sviðum, að ekki væri hægt að verða við þeim kröfum sökum innflutningserfiðleika, þá langar mig til, að hæstv. stj. léti frá sér heyra um innkaupaáætlunina til landsins, hvernig hún hyggst að ráðstafa þeim gjaldeyri, sem þjóðin hefur til umráða, hvað einstakar greinar snertir. Það er ekki hægt að ræða neitt raunhæft um þörf og möguleika á innflutningi, fyrr en slíkur raunveruleiki liggur fyrir. Það heyrir ekki undir þessa till., en ég vil segja, út frá ræðu hæstv. ráðh., að þingið þarf að fá slíkar upplýsingar, áður en allar röksemdir um innflutningserfiðleika verða teknar gildar.