15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (3360)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál, það hefur fátt nýtt komið fram. — Hv. 2. þm. Reykv. virtist þetta allt svo auðvelt, það væri ekkert annað en að afla sér upplýsinga í verklýðsfélögunum og hjá viðkomandi aðilum um það, hversu marga fatnaði eða hversu marga skó viðkomandi atvinnugrein þyrfti, þá væri allt auðvelt og málið þar með leyst. Hann virtist kenna því um, að ég vissi ekki, hvað verklýðsfélög væru, þó hann mæli þar gegn betri vitund, en mér heyrðist hv. 11. landsk. upplýsa, að skömmtunarstjóri hefði leitað til Alþýðusambandsins til að hafa samvinnu um þetta. En þó að þessar upplýsingar væru fyrir hendi, þá er málið ekki leyst með því, og það er það undarlega með atvinnugreinir okkar Íslendinga, að sami maðurinn getur verið járnsmiður (gervismiður) í dag og sjómaður á morgun, og eftir örfáa daga getur hann svo farið að vinna í enn annarri atvinnugrein. Hvernig skömmtunarmiða á nú að úthluta svona manni? Hvaða fataskammt á sá maður að fá, sem er svo laus í sínu starfi, að hann getur verið í einu í dag og öðru á morgun? Þetta á við um marga menn úti um land, og þó að það sé mest af því í Reykjavík, að menn séu fastir í sinni stöðu, er þó ákaflega mikið af hinu, að menn fari úr einu í annað og því ekki gott að segja um, hversu mikið þeir muni þurfa af þessum fatnaði. Hvernig á þá að úthluta þessum mönnum skömmtunarseðlum? Er þá hægt annað en að úthluta aukaskammti? Ég sé ekki, að það sé til önnur lausn á þessu stigi málsins. En það er auðséð, að það er ekkert annað, sem fyrir hv. þm. vakir, en að gera þessar reglur eða þessa framkvæmd á allan hátt sem tortryggilegastar, það er það eina, sem fyrir þessum hv. þm. vakir, því að skynsamleg rök fyrir þessu skortir alveg.