15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (3366)

8. mál, skömmtunarreglur

Flm. (Katrín Thoroddsen) :

Herra forseti. Á þskj. 8 hef ég leyft mér að flytja till. til þál., sem hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að nema nú þegar úr gildi skömmtunarreglur þær á lífsnauðsynjum og öðrum vörum, er komu til framkvæmda frá og með 1. okt. s. l., en jafnframt geri ríkisstjórnin nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að settar verði aðrar skömmtunarreglur, er viðunandi séu, þannig að fullt tillit sé tekið til þarfa allra þeirra, er skömmtuninni eiga að hlíta. Skal þess sérstaklega gætt, að skömmtunarkerfið sé sem hagkvæmast í framkvæmd og að hagur þeirra, er stofna vilja ný heimili, sé ekki fyrir borð borinn, að erfiðismenn, barnshafandi konur, sjúklingar, börn og gamalmenni eigi kost á aukaskammti eftir þörfum. Þá hlutist ríkisstjórnin og til um, að jafnan séu fáanlegar allar þær vörur, er skömmtunin nær til.“

Það ætti ekki að þurfa að fylgja þessari till. úr hlaði með langri ræðu, henni fylgir ýtarleg grg., þar sem gerð er grein fyrir helztu ágöllum skömmtunarfyrirkomulagsins, auk þess sem hv. þm. hafa heyrt töluvert um þá rætt þegar til umr. var hér áðan þáltill. frá hv. 11. landsk. og hv. 8. þm. Reykv., auk þess sem varla fer hjá því, að hv. þm. hafi þegar áttað sig á ágöllum skömmtunarfyrirkomulagsins, og þeir munu varla hafa farið varhluta af vitneskjunni um þá gremju, sem gripið hefur almenning, og andúðina, sem skömmtunarfyrirkomulagið og aðdragandi þess hefur vakið. Nú er það að vísu svo, að enginn gerir svo öllum líki, og það skal fúslega viðurkennt, að erfitt mun í auðvaldsskipulagi að skammta svo, að allir megi vel við una. Hitt er svo allt annað mál, hvað menn geta sætt sig við. Flestum mun svo farið, að þeir vilja sitthvað á sig leggja til að bæta kjör sín eða koma í veg fyrir, að þau rýrni til muna, og munu Íslendingar ekki að því leyti vera frábrugðnir öðrum þjóðum, þeir eru auk þess seinir til vandræða, og langlundargeð þeirra er mikið. En það má ofbjóða langlundargeði Íslendinga, og svo mikið er víst, að þetta skömmtunarfyrirkomulag sættir íslenzka þjóðin sig ekki við.

Þó er það vitað mál, að skömmtun, sem sett hefði verið, ef rétt hefði verið að farið, hefði verið tekið með stillingu og jafnaðargeði af mörgum eða flestum og jafnvel fögnuði líka. Menn hefðu kannske skoðað það sem fyrirheit um, að nú ætti að fara að haga innflutningnum skynsamlega. Að vísu hefur íslenzka þjóðin vitað minnst um alla þá óhófseyðslu, sem átt hefur sér stað, en það gat ekki hjá því farið, að þeir, sem um þessi mál hugsa, áttuðu sig á því, að þessi óráðsía gat ekki gengið lengur, hér þurfti að verða gagnger breyt. á, það var nauðsynlegt að hætta að flytja inn skran, leikföng, skart og alls konar óþarfa. Það má vel vera, að margt hafi verið flutt inn til augnagamans og ánægju, en margt hefur verið flutt inn, sem raun er á að horfa. Til þess að skömmtunin kæmi að fullum notum var nauðsynlegt, að hún kæmi fyrirvaralaust. Að því var vikið hér áðan við umr. 2. máls á dagskrá, að alið hefði verið á orðrómi um skömmtun, og sé ég því ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það, en hins vegar tel ég, að það sé rétt, að vítt sé hér í sölum Alþ. sú aðferð, sem viðhöfð hefur verið, að láta seytla. út orðróminn um, að skömmtun væri yfirvofandi og æsa upp áfergju einstaklingshyggjumanna um að sölsa til sín vörur, hvort sem þeir hafa not af þeim eða ekki. Um skömmtunarkerfið sjálft og dráttinn, sem varð á framkvæmd þess, ætla ég ekki heldur að tala. Ég geri hér í grg. grein fyrir því, hverjar ástæður ég tel helzt til þess, að þessi dráttur hefði getað verið réttlætanlegur, en það er, að tímatöf hefði orðið af nákvæmri rannsókn vörubirgða og útvegun þeirra nauðsynja, sem gengnar voru til þurrðar, athugun á mismunandi þörf hinna ýmsu þjóðfélagsþegna svo og samanburður við víðtæka reynslu annarra þjóða, sem fullkomna vöruskömmtun hafa haft um margra ára bil. Nú er það vitað, að flestar þessara þjóða hafa hér erindreka, og hefði því verið auðvelt að fá hjá þeim kerfi, sem svo hefði mátt samræma íslenzkum staðháttum. Raunar var svo að heyra á hæstv. viðskmrh. áðan við umr. um 2. dagskrármálið, að Íslendingar væru ekkert upp á það komnir að fara eftir því, sem aðrar þjóðir hefðu gert. Ég álít, að það sé skylda okkar að notfæra okkur reynslu annarra þjóða í þessum efnum, að svo miklu leyti sem hún getur samrýmzt þörfum okkar. Ekki þarf annað en líta á skömmtunarseðilinn til þess að sjá, hversu óviðunandi þetta skömmtunarkerfi er. Hvers vegna ekki að nefna hlutina réttum nöfnum, svo sem brauð, hreinlætisvörur o. s. frv.? Hinn fáránlega prentaði skömmtunarseðill leiðir til óþæginda og tafar í hinum daglegu viðskiptum, og vil ég nefna hér eitt dæmi af mörgum. Krakki var sendur í brauðbúð til þess að kaupa hálft franskbrauð og hálft rúgbrauð. Þegar hann kom í búðina, var búið að klippa burtu alla reitina, en fjölskyldan varð að vera brauðlaus í 3 daga, þangað til loksins, að það fékkst leiðrétting á þessu. Auk þess klaufaskapar og skorts á brjóstviti, sem seðillinn ber með sér, þá er hann líka langt frá því að vera sanngjarn. Hæstv. viðskmrh. sagði áðan, að þeir, sem um þessi mál hefðu fjallað, hefðu sýnt samgirni og skilning. Mér virðist, að vafi geti leikið á því, t. d. hvað snertir benzínskammtinn. Benzínskömmtunin rýrir óhjákvæmilega atvinnumöguleika bílstjóra á vöru- og leigubílum og fyrirmunar læknum í stórum bæjum og héruðum að stunda sjúklinga sína sem skyldi, á sama tíma og benzíni er eytt í alls konar snatt- og skemmtiferðir, óþarfar með öllu. Hægt hefði verið að afla upplýsinga varðandi lækna, t. d. hversu marga sjúklinga þeir hefðu og hversu stór læknissvæði, og veita þeim svo benzínskammt eftir því.

Átakanlegast kemur klaufaskapurinn e. t. v. fram á stofnauka nr. 13, en hann er ódeilanlegur og heimilar innkaup karla á alfatnaði eða yfirhöfn, en kvenna á tveim kjólum eða kápu, er kaupast verður í senn á sama stað. Allir hljóta að sjá, hversu hagkvæmara það hefði verið öllum, sem hlut eiga að máli, að hafa stofnaukann í fleiri reitum, svo að skipta mætti gildi reitanna niður á þann veg, að allir til samans heimiluðu kaup áðurgreinds fatnaðar, en ella mætti fá fyrir hvern reit um sig færri eða fleiri flíkur eða fatahluta, svo sem pils, buxur, peysur, vesti o. s. frv. Þetta hefði verið ólíkt hentugra og vitlegra á alla lund, og fyrirkomulag líkt þessu hefur verið viðhaft víða hér á Norðurlöndum. Þá finnst mér, að taka ætti tillit til vörugæða, og útheimta þau efni eða föt, sem veigameiri eru, fleiri reiti, að undanteknum fatnaði unnum úr íslenzku efni. Hæstv. viðskmrh. gat þess áðan, að íslenzkar ullarvörur, aðrar en dúkar, mundu ekki verða skammtaðar. Hvers vegna ekki að segja þetta fyrr? Mestur hluti manna hefur ekki haft hugmynd um þessar hugleiðingar hæstv. viðskmrh. og hefur því eytt miðum sínum einmitt fyrir þessum vörum. Sú saga gengur nú í bænum — en ég sel hana ekki dýrari en ég keypti hana —, að þetta ákvæði um tilbúnu fötin hafi verið sett vegna þess, að í landinu er nú til mikið af þessum fötum, sem ekki ganga út, og þau hafa ekki einu sinni selzt til Danmerkur, þó annars hafi nokkuð af slíku verið selt þangað.

Hvað B-reitunum viðvíkur, þá hefur mikið verið rætt um þá og ritað í blöðin, og mun ég ekki fara mörgum orðum um þá, en öllum hlýtur að vera ljóst, hversu fjarstætt og óhentugt það er að láta þá gilda bæði fyrir fatnaði og búsáhöldum.

Þá eru það M-reitirnir, sem gilda fyrir hreinlætisvörum. Um þær vörur er það að segja, að þær eru nú ófáanlegar. Ég kom í búð í gær og ætlaði að kaupa handsápu, en fékk það svar, að ekki mætti selja þá sápu, er til væri, og sama máli gegnir víðar í búðum. Það gegnir furðu, að innflutningnum skuli þannig háttað, og mér virðist hann minna átakanlega á útúrdrukkinn mann, sem á lokadaginn ráfar á milli verzlana og kaupir alls konar skran og óþarfa, en gleymir að kaupa nauðsynjavörur til heimilisins. Nokkuð hefur fólk reynt að bæta sér sápu- og þvottaefnisleysið með því að búa til sápu í heimahúsum, en hvort tveggja er, að sápa þessi er óhæf til hörundsþvottar og að mjög mikil slysahætta stafar af tilbúningi hennar. Sumum hefur tekizt að búa hana til, en öðrum ekki.

Um kornvöruskammtinn er það að segja, að hann er allt of knappur. Það er vitað mál, að misjafnt er, hversu margar hitaeiningar á dag menn þurfa með til þess að vel sé. Talið er, að menn, sem ekki vinna erfiðisvinnu, — svo sem alþingismenn, skrifstofumenn o. fl. — þurfi 2000 til 2200 hitaeiningar á dag, en erfiðismenn þurfi aftur á móti 3000 til 3300 hitaeiningar daglega. Á matvælaseðlinum er gert ráð fyrir 163 g af kornvöru fyrir manninn á dag, eða sem næst 830 hitaeiningar, sé skammturinn notaður til hlítar. Við þetta bætist svo sykurinn, sem er 50 g á dag og gerir því ca. 200 hitaeiningar. Gert er ráð fyrir 200 g af kartöflum yfir daginn, svo allt þetta samtals yrði um það bil 1200 hitaeiningar yfir daginn. Allir hljóta að sjá, hversu þetta er ófullnægjandi skammtur fyrir skrifstofumann, hvað þá heldur fyrir erfiðismann, og því auðsætt, að nauðsyn er á aukaskammti. sérstaklega handa verkamönnum. Hvað snertir sláturgerð í heimahúsum, þá getur hún auðvitað ekki komið til greina með svo naumum kornvöruskammti, og er það í mesta máta illa farið, jafnkjarngóð fæða og slátur er.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða þetta frekar, en vildi gera það að till. minni, að reynt væri að auka innflutning á þeim nauðsynjavörum, sem ekki er hægt að vera án, og að ekki sé verið að glepja fólk með ýmiss konar fyrirmælum um eitt og annað hér að lútandi. Ég legg til að umr., sem er aðeins ein, sé frestað og málinu vísað til hv. allshn.