23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3376)

8. mál, skömmtunarreglur

Einar Olgeirsson [frh.] :

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem ég átti eftir að segja í sambandi við það, sem hæstv. viðskmrh. hafði talað um, að við sósíalistar vildum skapa öngþveiti í landinu. Það kemur úr hörðustu átt, að þeir, sem hafa völdin, skuli vera að fara með þá staðlausu staðhæfingu, að stjórnarandstæðingar séu að skapa öngþveiti í landinu. Hæstv. ríkisstj. hefur völdin, það er hún, sem ræður, hvaða ástand er. Og allan þann tíma, sem hún hefur farið með völd í landinu. hefur allt miðað að því að skapa öngþveiti. Eitt af því fáa, sem hæstv. ríkisstj. nákvæmlega setti fram í upphafi, sem hún ætlaði að gera, var að halda dýrtíðinni niðri. En í staðinn fyrir að gera nokkurn hlut í þá átt hefur dýrtíðin aukizt. Hvernig er nú ástatt í fjármálunum? Það sést bezt af því, að fjárlfrv. er ókomið fram enn, einsdæmi í sögu þingsins. Hvernig eru gjaldeyrismálin? Þar horfir til fullkomins öngþveitis, svo að stórkostlegur atvinnurekstur virðist vera að stöðvast. Það er ekki annað að sjá en stór iðnaðarfyrirtæki stöðvist bráðlega og að áður en langt líður, stöðvist útgerðin líka. Á síðasta þingi bárum við sósíalistar fram till., sem, ef samþ. hefðu verið, hefðu afstýrt því öngþveiti, sem nú ríkir í þjóðfélagsmálunum, að koma á áætlunarbúskap hjá þjóðinni, spara í rekstri og tryggja öllum atvinnu, en flokkarnir, sem styðja ríkisstj., vildu ekki sinna þeirri till., heldur létu undan þrýstingi heildsalanna, sem eru undirrót öngþveitisins. Ég vísa því til heimahúsanna öllu því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um, að stjórnarandstæðingar væru að skapa öngþveiti í landinu.