23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

8. mál, skömmtunarreglur

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð. Það er eftirtektarvert, að þeir menn, sem hafa unnið að þessu skömmtunarkerfi, hafa eingöngu litið á þann hóp, sem þeir eru úr. Við skulum taka til dæmis, að skrifstofumaður getur fengið ein föt til 1. maí, eða frakka. Það er gott fyrir hann, að hann getur komizt af með það. En aftur á móti verkamenn, sem stunda erfiðisvinnu, hvernig er búið að þeim? Útkoman verður sú eftir þessu kerfi, að verkamenn geta fengið til vinnufata, nærfata og alls annars 100 kr. hver einstaklingur, en af því, sem er til sparnaðar, geta þeir fengið 8–9 sinnum meira. Hvernig í lifandi ósköpunum halda menn, að þjóðfélagið verði rekið svona? Haldið þið, að þessir menn, t. d. verkamenn og bændur, gangi meira í sparifötum en verkamannafötum? En þetta er sjónarmið þeirra manna, sem vinna að skömmtuninni. Þeir hafa ekki séð út fyrir sinn hring.

Síðan kom önnur undanþága, er gekk í þá átt, að vanfærar konur skyldu fá 300 króna aukaskammt til kaupa á vefnaðarvöru, en svo er ekkert hugsað um það, að aukaskammt þurfi fyrir sápu, eftir að barnið er fætt. Tveggja til þriggja ára barn getur fengið frakka og föt út á sinn skömmtunarseðil, en svo er því ekki nægilega séð fyrir leikfötum, sem það þarfnast til daglegra nota. Það eru svo miklar gloppur á þessu skömmtunarfyrirkomulagi, að ég get ekki látið hjá líða að benda á þessi atriði, en ekki af því að ég sé á móti skömmtun, þegar hún er nauðsynleg þjóðfélaginu, en í því tilfelli verður að miða hana við þarfir þjóðfélagsins, en ekki eins og hér hefur verið gert.

Það kann að vera, að hæstv. viðskmrh. sé kominn svo langt frá veruleikanum, að hann sé búinn að gleyma því, að verkamenn vildu heldur kaupa sér föt, sem þeir gætu skýlt sér í við vinnu, en að kaupa spariföt, og það er alls ekki svo langt síðan verkamenn höfðu þannig ástæður, að þeir hefðu tök á að kaupa sér slík föt, en þótti gott, ef þeir höfðu tök á að fá sér vinnuföt. Það er því áreiðanlega fyrsta skilyrðið hjá hverri þjóð, sem verður að búa við skömmtunarfyrirkomulag, að búa svo að fólkinu, sem vinnur útivinnu og við framleiðslustörfin, að það hafi nægan vinnufatnað til þess að það geti haldið þeirri vinnu áfram.

Furðar mig því mjög á því, hversu hæstv. viðskmrh. er næmur fyrir ádeilum hv. 2. landsk. þm., því að hann sagði í öðru orðinu, að hann væri alveg með því að breyta og laga þetta skömmtunarkerfi, sem nú er í gildi, en hvers vegna er þá ekki eins gott að semja skömmtunarkerfið upp á ný og byggja á þeirri reynslu, sem fengizt hefur í þessum efnum? Er ég sannfærður um, að ef sú leið yrði farin, fengist mjög mikil úrbót á þessu skömmtunarfyrirkomulagi, frá því sem það er nú.