23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

8. mál, skömmtunarreglur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þá innsýn, sem hann hefur gefið okkur í þá nýju embættisfærslu, sem virðist hafa verið tekin upp hér á Íslandi. Mér virðist þetta embættisbréf, sem hæstv. ráðh. las upp frá skömmtunarstjóra, vera með þeim endemum, að aldrei fyrr hafi verið lesið upp annað eins embættisbréf á Íslandi. Staðlausar slúðursögur eru sem sé fluttar í embættisbréfi frá skömmtunarstjóra, einum voldugasta embættismanni ríkisins, sem þó að vísu hefur verið kosningasmali íhaldsins, og síðan eru þessar slúðursögur lesnar upp á Alþ. sem sönnunargagn fyrir rakalausum staðhæfingum, sem hæstv. viðskmrh. hefur sjálfur haft í frammi. Ef hæstv. ráðh. vildi sýna lit á því að sanna mál sitt, væri honum nær að höfða mál og rannsaka, hvernig í þessu máli liggur. En af hverju gerir hann þetta ekki? Af því að fyrsta greinin, sem kom hamstrinu af stað, kom í Morgunblaðinu, og þess vegna forðast hann að minnast á það blað. Og hvers má vænta af skömmtunarstjóra, að hann beri á borð fyrir menn, sem eru honum undirgefnir, eða menn, sem þurfa að bera upp erindi sín við hann, ef hann getur verið þekktur fyrir að bera svona slúðursögur á borð fyrir sinn yfirmann, hæstv. ráðh., og hvernig er eiginlega háttað röksemdafærslu hæstv. viðskmrh., þegar hann kemur með þetta plagg sem sönnunargagn og segir, að nú þurfi ekki lengur vitnanna. víð, því að sjálfur skömmtunarstjórinn segi þetta í bréfi til ráðh.? Eigum við að fara að búa við svona embættisfærslu í okkar þjóðfélagi og auka vald þeirra manna, sem svona koma fram, og hvert er komið rétti þeirra manna, sem eiga undir slíka embættismenn að sækja? Vil ég mega vænta þess, að þetta bréf verði birt, til þess að þjóðin fái að vita, hvað fer á milli hæstv. ríkisstj. og hennar trúnaðarmanna.

Þá kom hæstv. viðskmrh. að því, að það hefði orðið að prenta skömmtunarseðlana í svo miklum flýti, af því að ríkisstj. hefði ekki ákveðið að taka upp skömmtun fyrr en síldin brást. Þetta stemmir líka við það, að þegar ég var með till. um skömmtun í sambandi við frv. um fjárhagsráð í fyrra, þá sagði form. fjhn. í Nd., sem var talsmaður hæstv. ríkisstj., að ekki næði neinni átt að samþ. svona till., sem mundu þýða skömmtun. Það er auðséð, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft neina fyrirhyggju í þessu máli, hún sá ekki, að hvort sem síldin mundi bregðast eða ekki, var nauðsynlegt að taka upp skömmtun. Þetta fyrirhyggjuleysi hæstv. ríkisstj. kemur einnig heim við það, sem eitt stjórnarblaðanna, Tíminn, segir í leiðara sínum í dag í sambandi við ráðstafanir til lækkunar dýrtíðarinnar. Þar segir svo — með leyfi hæstv. forseta —: „Meiri hluti stjórnarinnar taldi hins vegar ráðlegra að fresta ráðstefnunni til haustsins, en undirbúningurinn varð samt því miður ekki betri en það, að næstum strax varð að fresta ráðstefnunni, þegar hún kom saman um miðjan september, því að gögn vatnaði af hálfu stjórnarinnar, og munu þau fyrst vera að fæðast nú.“ Þannig eru störf hæstv. ríkisstj. varðandi eitt aðalvandamál þjóðarinnar, að ekki er einu sinni, búið að ganga frá nauðsynlegum gögnum eða semja till. frá hæstv. ríkisstj. í hendur þeirrar ráðstefnu, sem skipuð var til þess að vinna að úrlausn þessa máls, þegar hún kom saman, heldur eru þau fyrst að fæðast nú.

Þá kom hæstv. viðskmrh. inn á punktakerfið. Öfugt við skoðun hans á punktakerfinu, sé ég ekki betur en að með því kerfi sé auðvelt að skipuleggja gjaldeyrissparnaðinn og ráða því, hvaða vörur við kaupum fyrst og fremst inn í landið, þannig að vörur, sem við þyrftum að greiða dollara fyrir, mundi þurfa að afhenda fleiri punkta fyrir heldur en þær vörur, sem við kaupum frá löndum, sem „clearing“-viðskipti eru við. Gætum við þannig hagað viðskiptum þjóðarinnar í samræmi við það, sem okkur hentar bezt um vörukaup á hverjum tíma, og álít ég, að punktaskömmtunarkerfið sé alls ekki eins þungt í vöfum og hæstv. ráðh. vildi vera láta. Þetta kerfi útheimtir aðeins eitt, og það er hugsun, en af henni er hæstv. ríkisstj. hins vegar mjög fátæk.

Við þessa framkomu hæstv. ríkisstj. í þessum málum bætist svo það, að á sama tíma sem hún prédikar fyrir landslýð, að nú verði allir að fórna og spara, þá er ekki við það komandi, að þeir aðilar, sem fá stærsta sykurskammtinn, eins og Cooa-Cola- og sælgætisverksmiðjurnar, þurfi að skerða sinn skammt. Hæstv. ráðh. kom sér hjá því að tilnefna, hvaða magn það væri, sem þessar verksmiðjur notuðu, en ég get kannske fengið upplýsingar um það seinna, ef þær fást ekki hjá honum. Þessi staðreynd á sér stað samtímis því, sem hæstv. ríkisstj. er að gera aðrar ráðstafanir í sambandi við fjárhagsráð beinlínis til þess að stöðva atvinnu manna og skapa atvinnuleysi, eins og t. d. hvað byggingar snertir, þótt nægilegt byggingarefni sé til.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri mörgu að svara viðvíkjandi ræðum okkar, en auðsætt þykir mér nú, að það á að liggja á upplýsingum varóandi mál þetta, en kannske verða þær gefnar, þegar málið kemur í nefnd.