27.10.1947
Sameinað þing: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (3388)

8. mál, skömmtunarreglur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. er nú alveg kominn upp að vegg. Hann viðurkenndi, að Þjóðviljinn hefði, hvenær sem tækifæri gafst, gagnrýnt fyrirkomulagið á takmörkun vörusölunnar, enda ekki annars úrkosta fyrir hv. þm., því að í Þjóðviljanum var þrástagazt á því, hve fáránlegt fyrirkomulagið væri og hversu auðvelt væri að fara á bak við það. Þetta hefur nú sannazt. Hvað viðvíkur sögusögnum manna á milli er hins vegar auðveldara að skjóta sér undan. Ég tók dæmi, sem ég get sannað hvenær sem er, en hér tel ég ekki vera réttan vettvang til þess. En hv. þm. sagði eitt, sem mér þótti bæði skömm og gaman að heyra. Hann sagðist hafa góða aðstöðu til að fylgjast með rekstri eins verzlunarfyrirtækis hér í bænum og sagðist hafa komizt að því, að nótufyrirkomulagið svokallaða hefði dregið úr vörusölunni, eða hafi sem sagt komið að notum. Ég hef fyrir löngu orðið þess var, að þótt grípa þyrfti til þessara ráðstafana án rækilegs undirbúnings, þá bar það þann árangur, að hamstrið hætti að mestu, þrátt fyrir áróður kommúnista á móti því. Það er hins vegar mikið verk að koma á víðtækri skömmtun, og ekkert kerfi verður fundið, sem ekki má finna að í upphafi. Sérstökum erfiðleikum olli og að þurfa að senda skömmtunargögnin til oddvita út um allt land.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara um þetta mál öllu fleiri orðum. Ég tel, að það, sem af hálfu ríkisstj. hefur verið haldið fram um þetta, hafi reynzt rétt. Ég hef heldur aldrei mótmælt því, að gagnrýna mætti kerfið, og má sumt laga um næstu áramót, og annað hefur verið lagað án tillits til gagnrýni kommúnista, og var undirbúningur þess hafinn áður en málið kom fram.