10.10.1947
Sameinað þing: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

9. mál, markaðsleit í Bandaríkjunum

Flm:

(Jónas Jónsson) : Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg. þessa máls, var það flutt hér í fyrra og vísað til nefndar, en sú n. skilaði ekki áliti, eftir því sem ég bezt veit, og kom því aldrei til kasta Alþ. að skera úr því, hvort henta þætti að verja fé til þeirra framkvæmda, sem hér er lagt til að hefjast handa um. Nú er ástandið breytt, svo að það, sem þá var nauðsynlegt, er orðið enn þá nauðsynlegra, og vænti ég því, að sú n., sem fær nú þetta mál til meðferðar, sjái, að það er rétt og nauðsynlegt að sinna því í fullri alvöru.

Till. gengur út á það, að lagt sé fram fé til að koma í kring sölu á hraðfrystum fiski í Bandaríkjunum í því skyni að skapa þar varanlegan markað fyrir þessa vöru. Það má kallast undarlegur hverfileiki hjá ráðamönnum okkar, að fyrir hér um bil 10 árum var lagt fram allmikið fé til að sýna íslenzkar vörur og íslenzka menningu í New York, eingöngu í því skyni, að þeirri sýningu fylgdi skipulögð markaðsleit. En upp úr þessu verður sú stefnubreyting, að ekkert er gert í þessa átt, þó að hér kæmi auk þess til greina, að við höfðum mikil samskipti við Bandaríkjamenn á stríðsárunum, margir þeirra voru hér, og miklir peningar runnu inn í landið frá þeim, þaðan bárust alls konar verkfæri og tæki og tækni, sem hafa t. d. gerbreytt búskap okkar og vegagerð. En samhliða þessu er eins og fallið hafi niður áhugi á því að halda áfram sýningu á vörum okkar vestra og allri landkynningu. Og hvernig er nú svo ástatt? Þannig, að við höfum hina mestu þörf á að verzla við Bandaríkin, eins og raunar allar Evrópuþjóðirnar, sem skortir dollaragjaldeyri, nema e. t. v. Portúgal, og búa við hallæri og vandræði vegna stríðsins. En hjá okkur, sem m. a. þurfum að flytja matinn til landsins, er þessi verzlunarþörf einna brýnust, því að segja má, að við þurfum að kaupa nálega allar nauðsynjar, bæði ætar og óætar, frá Bandaríkjunum, að fáum, t. d. kolum, undanskildum. Margir hér vilja ekki líta við bifreiðum, nema þær komi frá Bandaríkjunum, og tek ég það sem dæmi til að sýna, að smekkurinn hér er í þessu tilfelli orðinn svo háður áhrifum eða yfirdrottnun hinnar amerísku tækni, að ekki þýðir að bjóða Íslendingum vöruna, ef hún er ekki frá Ameríku, þótt hér sé um vöru að ræða, sem er fáanleg víðar.

En nú er ástandið orðið þannig í sambandi við verzlun okkar við Bandaríkin, að mér er kunnugt um, að fyrir stuttu varð eitt þeirra skipa, sem flytur hingað einna mestar nauðsynjavörur, að liggja fast í höfn vestra sökum þess að ekki var hægt að borga hafnargjöld þess og önnur nauðsynleg gjöld vegna gjaldeyrisleysis. Þessi vandi mun hafa verið leystur í þetta sinn með einhverjum Herkúlesarráðum, en þetta atvik er ljós bending um það, hve hörmulega við erum staddir, ef skip okkar geta ekki látið úr höfn, þar sem við kaupum nauðsynjarnar, sökum gjaldeyrisleysis. Í Evrópu er ekki hægt að fá amerískan gjaldeyri, það hefði árið sem leið átt að kenna okkur. Að vísu fékkst einhver amerískur gjaldeyrir frá Rússlandi, en ekki veit ég hve mikill, og markaðir eru þar mjög hverfulir og torsóttir. Það er því einsýnt, að ef ekki tekst að skapa markað í Ameríku fyrir stóra vörutegund, leiðir það til stærri vandræða hér en við viljum leiða hugann að. Því að allir sjá, hvernig Evrópa er eftir stríðið, að ég tali nú ekki um verðlagið þar. Ég vil þó benda á, að okkur veitir ekki af að halda við þeim mörkuðum, sem við þegar höfum hér í álfu, jafnframt verður þó á þetta að líta: Að frátalinni saltsíldinni til Svíþjóðar seljum við lítið til Norðurlandanna. Í Þýzkalandi er ástandið svo hörmulegt, og reyndar í fleiri löndum, að þar er naumast um eiginlegan markað að ræða nú. Í Frakklandi er gífurleg dýrtíð, og lítil viðskipti eigum við þar. Í Rússlandi er hugsanlegt að hafa einhvern markað, en hann er þá bundinn við lýsið, og það er sú vara okkar, sem allar þjóðir vilja. En erfiðleikarnir við að selja hraðfrystan fisk í Rússlandi — og Evrópu yfirleitt — eru þeir, að hér í álfu skortir mjög á, að kælitæknin sé nægileg, og ekki er hún svipuð og í Ameríku. Jafnvel í Englandi er byggt á ísuðum fiski, það hentar þeim betur atvinnulega séð. Það er einmitt líklegt, að þeir verði öðrum óháðir og standi á eigin fótum um þá framleiðslu, áður en langt um líður, en á meðan svo er ekki, vilja þeir viðhalda smekk fólksins fyrir ísfiskinum.

Gallinn er sá með Evrópumarkaðinn, að Englandi frátöldu, að þar, sem reynt hefur verið að beita „clearing“, er vöruverðið svo gífurlega hátt á móti okkar vöru, að það skapar okkur mikinn vanda. Fiskútflytjendum getur þótt ávinningur í því að flytja út fisk og lána til Grikklands, Póllands og Tékkóslóvakíu, það er þeirra hagur, en það er ekki hagur fyrir þjóðina í heild, bæði að lána og fá síðan uppsprengdar og rándýrar vörur í staðinn. Hér hljóta skoðanir neytenda og framleiðenda að verða nokkuð skiptar. En þegar frá er skilið það, sem alltaf mun verða reynt, að selja til meginlandsins, þá er eftir sú höfuðröksemd gegn því, að þær þjóðir hafa ekki þær vörur, sem við þurfum, og það er þörfin, sem mestu varðar.En við þurfum og fáum vörur af öllu tagi frá Bandaríkjunum, vörur, sem fólkið vill fá.

Nú stöndum við betur að vígi að því leyti, að við framleiðum góða vöru, hraðfrysta fiskinn, en ef Ameríka gengur undan, sé ég ekki annað en mikill voði sé fyrir dyrum. Við höfum varið hundruð milljónum króna í þennan atvinnuveg, og það er ágætt, þar sem önnur hlið peningsins er hraðfrystihúsin, en hin bátarnir. Með þessum atvinnuvegi hagnýtum við kosti landsins, að það liggur svo nálægt fiskimiðunum, þá kosti, sem við getum einir hagnýtt, en togaraveiðar geta aftur á móti aðrir stundað hér líka, sú veiði er alþjóðleg. Ef ekki skapast varanlegur markaður fyrir þessa vöru okkar, er voði fyrir dyrum. Þess er t. d. skemmst að minnast, er sendinefndir okkar sátu í Moskvu og London í fjóra mánuði s. l. vetur og gengu á eftir Rússum og Englendingum með grasið í skónum, unz komið var fram í júní. Það sjá allir, hvílík aðstaða okkar er í þessu efni. Og niðurstaðan varð sú, að samningamönnunum tókst að særa út nokkurn markað fyrir hraðfrysta fiskinn í London og Moskvu með því að gefa lýsið með honum. Þetta var hin hörmulegasta útreið fyrir bátafisk okkar, við gátum ekki losnað við hann nema með því móti að gefa með honum þá framleiðsluvöru, sem við erum stoltastir af. síldarlýsið. Þetta sýnir, að Rússar og Englendingar vildu bara gera það fyrir okkur að kaupa fiskinn, ef honum fylgdi tilskilið magn af lýsi. En þegar feitmetishungrið minnkar í heiminum, er þessi möguleiki einnig úr sögunni. Þessi reynsla sýnir allgreinilega, að markaður er mjög takmarkaður fyrir þessa góðu vöru okkar, hraðfrysta fiskinn.

Bandaríkin eru mesta kælitækniland veraldarinnar. Þar eru stór frystihús í borgunum, vagnar búnir kælitækjum, frystiklefar í sambandi við búðirnar, ísskápar á heimilunum, og í flestum járnbrautarvögnum er lofthitinn dempaður með kælitækni. Sú tækni gengur í gegnum daglegt líf manna í Bandaríkjunum og er meiri en í nokkru öðru landi. Þangað er hægt að selja fiskinn, ef skynsamlega er á haldið, en til þess þarf að gera mikið átak. Bandaríkjamenn eru ekki sérstök fiskneyzluþjóð, þó að fiskimiðin við strendurnar séu allvel notuð. En allur hinn svokallaði Missisippidalur er illa settur um fiskneyzlu, þangað flyzt aðeins vatnafiskur norðan frá Kanada, sem er ekki sambærilegur við okkar fisk undir neinum kringumstæðum, en Kanadamenn hafa hagnýtt sér mikla. kælitækni, og á því byggist þessi fisksala þeirra. Ég hef náttúrlega ekki aðstöðu til að gera mig að dómara í þessu efni, en sem leikmaður held ég því fram, að hægt sé að leggja okkar fisk á borð við Kanadafiskinn og fá viðurkennt, að hann sé betri, enda þótt við verðum að flytja hann margfalt lengri leið, en þar kemur aftur til greina, að okkar fiskur er miklu betri frá náttúrunnar hendi. Ég hygg því, að við getum þrýst okkar fiski inn á markaðinn í Missisippidalnum og tryggt þannig, að við getum „eksisterað“, en til þess þarf vitanlega mikinn áróður og elju.

Þó að ég segi hér fáein orð um það, hvernig ég gæti hugsað mér dreifingu vörunnar, þá játa ég, að ég hef aðeins ferðazt lauslega um það land, sem hér er um að ræða, en ég hef talað við ýmsa menn, er hafa verið vestra. Og ég held, að reyndin verði sú, að okkar ríkisstj. verði að hafa nokkra menn vestra í bili til að breiða út þekkingu á fiskinum og sýna hann víða um landið og komast í samband við ýmis sölusambönd og fyrirtæki, t. d. samband veitinga- og gistihúsaeigenda. Það er trú mín, að þetta beri tilætlaðan árangur, af því að okkar fiskur er góður. Nú hefur þetta ekki verið gert, og við það hefur þegar mikið tapazt, t. d. frá því í fyrra, er ég bar þetta mál fram.

Það eina, sem gert hefur verið í þessa átt, er að hraðfrystihúsin hafa haft einn mann í New York, sem að vísu er mjög duglegur, en hann hefur verið bundinn, því að ég hygg, að hann hafi ekki haft verulegt fé til að auglýsa vöruna eða menn í sinni þjónustu til að kynna fiskinn. Í öðru lagi hefur honum verið uppálagt að selja fiskinn á ábyrgðarverði, sem að vísu er ekki óeðlilegt, en af því að það er svo hátt og miklu hærra en venjulegt markaðsverð, hefur svo sem ekkert selzt, og er það að vonum. Það er hliðstætt því t. d., að Sambandið framleiddi kaffi á Akureyri og ætlaði síðan að selja það í samkeppni við Ludvig David í Reykjavík, en á helmingi hærra verði. Það er öllum ljóst, að Ludvig David mundi fá allan markaðinn.

Ég álit, að eitt af því fyrsta, sem við verðum að viðurkenna, sé það, að ef við ætlum að vinna markað í einhverju landi, sé ekki til neins að selja hærra verði en markaðsverði. Þetta vitum við frá Bandaríkjunum og Rússlandi. Þeirra innflytjendur segja: Við kaupum ekki af ykkur hærra verði en markaðsverði.

Það hefur verið deilt um það, að mér skilst, að hraðfrystihúsin hafi sent skip vestur. Verðið, sem fæst fyrir farm Vatnajökuls, er langt fyrir neðan ábyrgðarverðið, svo það hefur verið gagnrýnt, að þetta var reynt. Þá komum við að því, hvar við eigum að selja okkar fisk. Er nokkur meining í því að ætla að selja okkar fisk helmingi dýrara en aðrar þjóðir selja sína vöru? Við verðum að bjóða fiskinn fyrir það verð, sem er á heimsmarkaðinum. Við viljum selja dýrara en aðrar þjóðir til þess að þurfa ekki að þrengja að okkur, og vitanlega viljum við halda því á meðan við getum. Nú er mönnum farið að skiljast, að ýmislegt bendi til þess, að við getum ekki lengur selt eins vel og við gerðum á stríðsárunum. Við verðum að sætta okkur við markaðsverð, og markaðsverðið er skapað af Kanadamönnum og Norðmönnum. Allt, sem við verðum að gera, er að selja ekki dýrara en aðrir. Nú spyr ég ykkur: Er nokkur von til þess, að við getum lifað hærra en Norðmenn, Bretar, Svíar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn? Getum við lokað augunum fyrir því, að við verðum að lækka dýrtíðina, þannig að við stöndum á sama grundvelli og allar aðrar þjóðir í kringum okkur? Ef við ekki gerum það, höfum við ekkert til að borga með. Sumir eru að tala um að taka lán. Ef við gerðum það, hvar mundum við selja til þess að borga það?

Ég vil benda á það, að sökum þess að okkar stj. selur vörurnar til stjórna annarra landa, er ekki frjáls verzlun á Íslandi. Bæði kaupmenn og kaupfélög verða að óska þess, að þetta taki enda. Einn kosturinn við Ameríkuverzlunina er það, að hún er frjáls, ef við höfum normal vöru, sem við getum selt við normal verði, og er okkur því nauðsynlegt að gera Ameríku að okkar höfuðmarkaðslandi.

Ég óska þess svo, að þessu máli verði að umr. lokinni vísað til hv. fjvn., og vildi ég gjarnan heyra frá hæstv. ríkisstj. og hv. form. fjvn., hvort þetta sé ekki svo mikið mál, að æskilegt væri að því væri hraðað.