05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (3430)

19. mál, benzínskömmtun og söluskattur af benzíni til einkabifreiða

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég er ánægður með þessar upplýsingar um meðferð málsins í hv. fjvn. Ég vissi, að meðflm. minn að þessari till. mundi sjá svo um, að ekki mundi dragast lengi að afgreiða þetta mál. En í þessu sambandi vil ég nota tækifærið og segja hæstv. ríkisstj. frá því, að hér er að skapast stórkostlegur svartur markaður með benzín, og má því ekki dragast miklu lengur, að till. okkar hv. 2. þm. Rang. verði afgreidd. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. veit það, að á bak við hana á sér stað stórkostleg sala á benzíni milli manna. Ég vildi segja henni frá þessu, en svarti markaðurinn getur valdið ríkissjóði stórkostlegu tjóni.