05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (3437)

24. mál, síldarbræðsluskip

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Með þessari till., ef samþykkt yrði, er skorað á ríkisstj. að athuga, hvort tiltækilegt væri að smíða eða kaupa til landsins skip, er setja megi í síldarbræðsluvélar og nota sem fljótandi síldarverksmiðjur, og jafnframt er bent á, að athugað sé sérstaklega, hvort unnt væri að nota til þessa flugvélamóðurskip, sem munu vera á boðstólum. Ég flutti þessa till. hér á síðasta þingi, henni var vísað til allshn., en n. skilaði aldrei áliti um málið. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. nú, en vísa í því sambandi til grg. minnar fyrir henni í fyrra. Síðan hef ég rætt við ýmsa kunnáttumenn á þessu sviði, og þeir hafa flestir fullyrt, að það mundi bæði vera tiltækilegt og skynsamlegt að setja síldarbræðsluvélar í skip. Aðrar þjóðir hafa gert tilraunir og eiga að baki sér langa reynslu á þessu sviði, t. d. Norðmenn, þeir hafa haft bræðsluvélar í skipum til að bræða hval. Mér finnst það mjög athugandi, og síldargöngurnar gefa ríkt tilefni til þess að ganga úr skugga um, hvort ekki sé rétt að hverfa frá þeirri stefnu að byggja eingöngu á verksmiðjum í landi, en hafa í þess stað nokkurs konar hreyfanlegar verksmiðjur eftir því, hvar síldin heldur sig. Það er að vísu vitað fyrir löngu, að síldin er duttlungafullur fiskur, en reynsla síðustu ára hefur þó sýnt það bezt. Það er því augljóst mál, að ef vel tækist um framkvæmd eða rekstur síldarbræðsluskips, væri það mikil og þörf nýjung fyrir síldarútveginn.

Ég vona svo að hv. allshn. sýni þessu máli meiri áhuga en í fyrra og að sú athugun geti farið fram, sem hér um ræðir.