10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

29. mál, áfengisnautn

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mjög mörg orð um þetta mál, a. m. k. að svo stöddu. Þn. fékk margar till., sem snerta áfengi og áfengisneyzlu í landinu, og meiri hl. hennar varð ásáttur um að bera fram brtt. við þáltill. á þskj. 30.

Ég skal fyrst taka fram af hálfu meiri hl. n., að hann lítur svo á, að það sé ekki hægt með öllu fyrirvaralaust að fyrirskipa stórkostlega skömmtun og takmörkun af hálfu löggjafarvaldsins án þess að séð sé fyrir tekjum ríkinu til handa í stað þeirra miklu fjárhæða, sem ríkið hlýtur að missa við slíkar ráðstafanir, ef maður má miða við þá reynslu, sem fengin er nú í þessum efnum síðustu ár. Hins vegar hygg ég mér sé óhætt að fullyrða, að meiri hl. n. telur, að mjög alvarlega horfi í þessum efnum hjá þjóðinni, hvað áfengisneyzlan er mikil og hvernig með áfengi er farið. En þó að þannig sé ástatt um málið, verða þeir, sem bera ábyrgð á fjárreiðum ríkisins, að hafa í huga, að það er ekki hægt með skyndiráðstöfunum fyrirvaralaust að ganga svo frá þessu máli, að ekki sé ríkinu séð farborða með þennan tekjumissi, sem það verður fyrir. Af hálfu okkar meiri hl. er það líka fullkomin alvara, að á þessu máli verði þannig tekið, að þær ráðstafanir, sem settar verða, komi að tilætluðum notum. Það hefur enga þýðingu í þessu máli, að gerðar séu aðrar ráðstafanir en þær, að áfengisneyzla meðal þjóðarinnar minnki stórkostlega. Ég ætla, að það mætti tæplega minna vera en áfengisneyzla minnkaði upp undir það um helming. Af minni hálfu get ég tekið fram, að mín vegna mætti neyzlan gjarnan minnka miklu meira, því að ég hef ekki trú á því, að það sé gott að neyta áfengis að neinu ráði. Með þetta fyrir augum, þetta viðhorf til málsins, þýðir ekkert að leggja hér til annað en það, sem maður ætlar, að komi að einhverju gagni. Þjóðin er ekki betur á vegi stödd, þótt við gerum hér einhverjar ályktanir í þessu máli, sem hafa á engan hátt það í sér fólgið, að neyzla áfengra drykkja meðal þjóðarinnar minnki verulega við það. Það er þá ekki nema að sýnast og þjóðin ekki betur komin með þess konar vinnubrögðum. — Það er tæplega hægt að hugsa sér, að þetta mundi hafa í för með sér minni skerðingu fjármuna fyrir ríkissjóð á ári en 10–20 millj., og ef það á að skella því á fyrirvaralaust, án þess að gera neinar ráðstafanir, þá held ég, að það geti valdið ekki litlum erfiðleikum, og mér skilst, að af hálfu okkar hér, sem eigum að sjá fjármálum ríkisins farborða, séu slík vinnubrögð ekki viðhlítandi og því beri að haga framkvæmd þessa máls, sem annarra, í fullri ábyrgð.

Eins og hv. þm. sjá á þessum till., vakir það fyrir meiri hl., að tekin verði upp skömmtun, að l. um héraðabönn komi til framkvæmda, að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að uppræta leynisölu, sem nú á sér stað í stórum stíl. Af hálfu okkar meiri hl. vil ég og taka fram, að fyrir okkur vakir það, að hæstv. ríkisstj. undirbúi þessi l. með þeim ráðum, sem hún getur við komið, þannig að Alþ. geti á sínum tíma fljótlega tekið ákvarðanir einmitt í þessum efnum, sem leiði það af sér, að neyzla áfengra drykkja meðal þjóðarinnar minnki stórkostlega frá því, sem nú er.

Ég get svo sagt persónulega, að ég hef ekki minnstu trú á takmörkunum í þessum efnum nema tekin verði upp skömmtun á áfengi. Í fyrra, þegar þessi mál lágu fyrir Alþ., komu meðmæli frá bindindismönnum með héraðabönnum einum. Ég hef ekki minnstu trú á slíkum ráðstöfunum út af fyrir sig. Ég hygg, að þessar ráðstafanir verði að haldast í hendur.

Ég vil svo taka það fram, — og hygg, að flestir líti þar líkt á, — að það er mikið alvörumál, hve mikill hluti uppvaxandi æsku er hneigður til þess að hafa áfengi um hönd og því miður oft í of stórum stíl. Ég hygg, að skemmtanalífið gerist nú oft með þeim hætti, sem veldur vafalaust þeim, sem þátt taka í því, máske aðeins stundargleði, en á þann hátt stundargleði, sem varir vafalaust stutt og skilur eftir sínar minningar, sem ég hygg, að séu jafnvel nokkuð galli blandnar, eins og oft hefur verið, ef mikið hefur verið haft um hönd af áfengum drykkjum á gleðisamkomum. Þetta er þjóðfélagsmein, sem nauðsynlegt er að reyna að bæta og laga og þolir ekki bið.

Viðvíkjandi þeim atriðum, sem ekki hafa verið tekin upp, eins og t. d. það atriði, sem fyrir liggur í till., að áfengi sé ekki veitt í veizlum, vil ég segja það, að ég held, að það sé tæplega hægt fyrir Alþ., það sé tæpast tilhlýðilegt að leggja á bann við slíku meðan ríkisvaldið heldur uppi sölu áfengra drykkja, að lagt sé bann við því að hafa vín um hönd í opinberum veizlum, sem haldnar eru hjá æðstu stjórnarvöldum landsins. Þetta ber ekki þannig að skilja, að ég telji það neitt sáluhjálparatriði af minni hálfu, en mér finnst þetta engin háttvísi af hálfu hins opinbera. Það annast þessa sölu, útvegar þessa vöru, en bannar hana svo í veizlum, sem æðsta stjórn landsins heldur. Slíkt væri í alla staði mjög óviðeigandi.

Þá er það viðvíkjandi 2. tölul. þessarar till., þar sem lagt er til að koma á þeirri skipan, að engir fái áfengi undir útsöluverði, en þó haldist sú venja, sem verið hefur um þetta efni gagnvart æðstu stjórnarvöldum landsins. Í þeim lið er vitaskuld engin bindandi ákvörðun og kemur því málinu ekkert við, heldur er það tekið þar inn í til þess að gera ekki mörg mál úr raunverulega einu máli, og það, að meiri hl. n. fellst á þessa till., stafar af því, að þing eftir þing er nú farið að gera þessi svokölluðu sérréttindi að umræðuefni, og verður að játa, að þær umr., sem fram hafa farið um þessi mál, hafa hvorki verið skemmtilegar né þinginu til sóma, og það er af þessum ástæðum, að meiri hl. kemur inn á þau mál, til þess að þurfa ekki að endurtaka þing eftir þing umr. um mjög lítið atriði.

Ég sé svo ekki að svo vöxnu máli ástæðu til að segja um þetta fleiri orð. Ég vil vænta þess, ef Alþ. getur á þessar till. fallizt, að þá geri hæstv. ríkisstj. þær ráðstafanir, sem í till. felast, fljótt og vel.

Hv. minni hl. n. mun gera grein fyrir afstöðu sinni, og fyrir fram skal ég ekkert minnast á hana.