17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (3470)

29. mál, áfengisnautn

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég held, að hinar mörgu till., sem liggja fyrir þessu þingi um áfengismál, sýni greinilegar en kannske flest annað, hvers konar úrræðaleysi og öngþveiti ríkir í þeim málum, ekki aðeins hjá þjóðinni, heldur og á hæstv. Alþ. Mér virðist einnig, að efni þeirra till. beri það sorglega með sér, hvílík eindæma kákstefna er uppi meðal þeirra manna í þessu máli, sem vilja nú boða þjóðinni nýja og betri siðu í þessum efnum. En um þetta mál í heild skal ég ekki fara mörgum orðum. Það, sem ég vildi fyrst og fremst segja hér, er ekki að ræða um ölið, eins og hv. þm. Borgf. gat sér nú til um. Það er nú nefnilega þannig, að þó að sá hv. þm. verði sem ölóður, strax og hann heyrir það mál nefnt, þá er því nú ekki þann veg farið með mig. Ég læt honum það eftir að fást við það mál í tíma og ótíma og skal ekki fara um það neinum orðum hér, enda þótt ég sé að sjálfsögðu sammála því, sem hv. þm. Barð. mælti um það mál. (PO: Og líka því, sem hann sagði um Fagranesið og að styrkja það til að flytja brennivín?). Ég heyrði það ekki. Hins vegar veit hv. þm. Borgf., hvaðan það skip var fengið. Skipið var fengið beint frá höfuðstað kjördæmis hans. Ég skal ekki fullyrða um það, hvað með það var gert áður en það kom vestur. En fyrir vestan veit ég ekki til þess, að það hafi verið notað til slíkra flutninga. En vel má vera, að það hafi verið notað til þeirra hluta meðan það gekk á milli höfuðstaðar landsins og kjördæmis hv. þm. Borgf.

En ég vildi segja það, að ég er að nokkru leyti samþykkur allshn., en hef skrifað undir nál. með fyrirvara um afgreiðslu þessa máls, sem er að nokkru leyti vegna fyrri liðar brtt. hennar. Ég vil láta í ljós þá skoðun, að ég tel mjög hæpið, að það kæmi að nokkru gagni í þessu efni, þó að l. um héraðabönn væru látin koma til framkvæmda. Ég hef hugsað þetta mál töluvert. Og því meir sem ég hugsa, því vantrúaðri verð ég á það, að þau l. kæmu að nokkru gagni, þó að þau kæmu til framkvæmda. Og ég held, að þeir hv. þm., sem búa í héruðum, þar sem engar áfengissölur eru, geti nokkurn veginn dæmt eftir reynslunni í þessum efnum. Er það virkilega þannig, að í þeim héruðum, þar sem engar áfengisútsölur eru, sé minna drukkið og meiri hófsemd í meðferð áfengis en þar, sem áfengisútsala er á næstu grösum? Ég held, að svarið verði neikvætt. Ég hef komið í héruð, þar sem næsta áfengisútsala er hundruð km í burtu, og ég hef hvergi séð meiri né almennari ölvun en á þessum stöðum. Og mega svo aðrir telja sér trú um, að lokun áfengisútsalanna hingað og þangað um landið hafi siðbætandi áhrif í þessum efnum. Ég get ekki verið þeirrar skoðunar.

En það, sem ég fyrst og fremst vildi minnast á, er síðari liður brtt. hv. n., sem ég hef skrifað undir með fyrirvara, þ. e. a. s. varðandi afnám þeirra fríðinda, sem vissir embættismenn ríkisins hafa haft varðandi kaup á áfengi og tóbaki. Ég get lýst því sem minni skoðun, að mér fyndist það fyllilega athugandi mál, að engir af ráðamönnum eða embættismönnum ríkisins nytu slíkra fríðinda, ekki heldur þeir, sem með æðstu stjórn fara, eins og forseti Íslands og utanrrh., sem risnuskylda hvílir að vísu á. Ég held, að sú leið, sem hv. n. hefur farið í þessu, sé með öllu ófær, að leggja til, að ákveðin æðstu stjórnarvöld landsins, sem fara með framkvæmdarvaldið, njóti slíkra fríðinda. — Ég vil í þessu sambandi rifja upp það, sem gerzt hefur hér á þingi nú í haust, fyrst og fremst það, að hér hafa farið fram umr., þar sem beint hefur verið þvílíkum svigurmælum til hæstv. forseta Alþ., bæði sameinaðs þings og deilda, að furðu sætir, þessara æðstu embættismanna þingsins. Þessi ummæli hafa verið á þá leið, að þeim væri ekki treystandi til þess að njóta slíkra fríðinda. Þeim hefur verið borið það á brýn, að þeir notuðu forsetabrennivín til þess m. a. að afla sér fylgis, og ekki aðeins til þess, heldur til þess að gera þm., sem sérstaklega hefðu áhuga fyrir því að fá sér í staupinu, handgengna sér með því að veita þeim sitt ódýra risnu- og forsetabrennivín. Ég álít, að þessi ummæli og allur tónninn í þeim hafi verið með þvílíkum gersamlegum siðleysisblæ, að það hafi verið alveg furðulegt af Alþ. að ætla að undirstrika réttmæti þeirra ummæla með því að samþykkja till. eins og þá, sem hv. allshn. leggur hér til í 2. tölul. brtt. sinnar. Ég skal ekki fara að gefa forsetum þingsins neitt siðferðisvottorð. Þeir þarfnast þess ekki. En Alþ. þarfnast þess, að einstökum alþm., sem illa hafa gát á tungu sinni, liðist ekki að setja slíkan blett á hæstv. Alþ.,samþ. sé þessi liður till. Heiður Alþ. þarfnast þessa. Ég hika ekki við að fullyrða, að þessir hv. þm. hafa með framkomu sinni sett blett á heiður þingsins, sem mundi verða miklu stærri, ef Alþ. tæki undir ummæli þeirra með því að samþykkja till. eins og þessa. Ég álít, að það væri hreint og beint móðgun við Alþ. að samþykkja slíka till. En það er engin móðgun við forsetana eða embættismenn ríkisins að láta þá hafa þessi fríðindi um áfengiskaup. Ég lít á þessi fríðindi sem sára lítils eða einskis virði, og mér hefur heyrzt á öllum forsetum þingsins, að þeir kærðu sig lítið um þau. Það er alveg furðulegur skilningur, að það eigi í þessu efni að setja þá, sem gegna þeim embættum að fara með framkvæmdarvaldið, skör hærra um þessi sérstöku fríðindi en sjálfan löggjafann. Þetta er varla takandi alvarlega. (JJ: Á löggjafinn að fara á fyllirí?). Ég held, að hvorki löggjafarnir né þeir, sem fara með framkvæmdarvaldið, eigi að fara á fyllirí. En ég býst ekki heldur við, að þessi fríðindi séu veitt til þess, að þessi stjórnarvöld skemmti sér á þann hátt, sem hv. þm. gerði aths. um.

Ég skal ekki fara lengra út í að ræða þetta. En ég vil lýsa yfir, að ég vil ekki taka þátt í slíkum skrípaleik, sem hér er verið að leika, Alls ekki. Ég vil ekki láta ata saklausa menn auri og taka undir slíkt athæfi með því að samþykkja till. eins og þessa. Og ég er alveg óhræddur við að láta í ljós þá afstöðu mína. Ég hef aldrei sótzt eftir því að vera talinn í hópi þeirra manna, sem sífellt þykjast vera að flytja einhvern siðbætandi boðskap og benda á nýjar skynsamlegar leiðir í þessum vandamálum þjóðarinnar, en hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita hennar krafti. Því að það er gert með till. þeim, sem bornar hafa verið fram í þessum málum hér á þessu þingi.

Ég vil svo í samræmi við það, sem ég hef sagt um 2. tölul. þessarar brtt. hv. meiri hl. allshn., leyfa mér að flytja brtt. við þennan lið á þá leið, að niður verði felld síðustu orðin í þessum tölul.: „þeim, er fara með framkvæmdarvaldið“. Og ég vil fastlega vænta þess, að hv. þm. láti það ekki henda sig að ganga frá þessu máli eins og lagt er til í 2. tölul. brtt. hv. meiri hl. allshn., því að ef það væri samþ., held ég, að það gæfi allt of mikinn höggstað á þessari stofnun, Alþ., ef þann veg yrði tekið á þessum málum eins og gert er ráð fyrir í þessum tölul.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að nauðsyn beri til þess að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að draga úr áfengisnautn meðal þjóðarinnar. En öll framkoma þeirra manna og aðgerðir, sem hér þykjast vilja þessum málum bezt á þessu þingi, miðar því miður að því gagnstæða.