26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (3496)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég hygg, að það sé á misskilningi byggt, sem fram hefur komið hér, að ágreiningur sé milli bæjarstjórnar og ráðuneytisins út af þessu máli. Bæjarstjórnin var búin að gefa samþykki sitt til, að skólinn yrði reistur í Laugarnesi, en seinna sáu menn svo fram á, að hentugra væri að reisa þarna aðrar byggingar, og var útgerðarmönnum í bænum afhent landið undir fiskstöð, en bæjarráð vísaði þá á golfskálahæðina sem hentugan stað fyrir menntaskóla. Allt fór þetta fram án þess, að um nokkra misklíð væri að ræða. Hv. þm. S-Þ. sagði að vafasamt væri, að ráðuneytið hefði nokkurn rétt til þess að flytja skólann án þingssamþykktar. Ég hygg, að ekki sé verið að flytja skólann, þótt hann yrði settur í núverandi útjaðar bæjarins. Bærinn hefur stækkað afar mikið síðustu árin og fer ennþá ört stækkandi, svo að það, sem voru úthverfi fyrir nokkrum árum, eru nú orðin svo að segja miðbærinn. Mér virðist því ekki nema rétt að hafa það fyrir augum, þegar ráðizt er í jafnmikla byggingu sem menntaskóla. Hitt má vel vera, að Alþ. vilji velja stað fyrir skólann, og er í sjálfu sér ekkert við því að segja. Annars er ekki venja, að það ákveði neitt um slíkt, og ég hygg, að ríkisstj. hafi oft ákveðið annað eins og þótt hún ákvæði, hvar menntaskólinn yrði reistur.

Eins og ég hef annars áður tekið fram, þá finnst mér ekki nema sjálfsagt, að hv. allshn. fái í hendur öll gögn í máli þessu, svo að hún geti kynnt sér það vel og borið fram till., ef hún vill, það varðandi. Ég hef þegar beðið formann byggingarnefndar skólans, sem er rektor sjálfur, að senda ráðuneytinu till. um fyrirkomulag byggingarinnar, m. a. með það fyrir augum, hvernig nýbygging gæti sem fljótast bætt úr hinni brýnu húsnæðisþörf skólans. Ég fer svo ekki lengra út í mál þetta að sinni, en vænti, að ég eigi í bili engu ósvarað.