26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3500)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætla að gera aðeins athugasemd við það, sem einn af mönnunum úr gamalli og dauðri nefnd var að segja hér áðan. Það er rétt, að skipuð var nefnd til að athuga, hvernig nota ætti sem bezt lóðirnar, þar sem nú er Gimli og bakaríið. Það var nokkuð fjölmenn nefnd. En þegar hún tók til starfa, kom í ljós, að togstreita milli skipulagsnefndar ríkisins og bæjarins varð svo mikil, að nefndin gat ekkert starfað. Málið liggur því óleyst enn eins og það var þá.

Út af þeim ummælum utanrrh., að ég hefði ekki gert meira en að leggja til, að þessar lóðir væru keyptar, vil ég segja þetta, að ég lagði til á sínum tíma við Akureyrarbæ og Reykjavíkurbæ, að þeir afhentu lóðir undir menntaskóla sína. Akureyrarbær gerði það strax, en Reykjavík ekki, og var það miður farið. Nú, hæstv. utanrrh. benti á, að hann hafi í fyrra gert till. um að lóðin undir olíustöðinni yrði tekin undir skólann, og er það vissulega spor í rétta átt. Það er bráðnauðsynlegt fyrir skólann í Reykjavík að fá stærri og meiri lóðir undir ýmsar byggingar, svo sem rektorshús, leikfimishús o. fl. Ef nú þessar lóðir verða teknar eignarnámi, ætti að banna að endurbyggja á þeim nema með leyfi ríkisstj.

Ég vil taka það fram út af ræðu hæstv. ráðh., að það er alveg nýtízku regla hér á Alþ. og algert nýmæli, ef það á ekki að þurfa að bera það undir Alþ., þegar kasta á alveg burt gömlu húsi og flytja það, þótt það kosti ekki nema 15 millj. Ég vil bara segja, að slíkt er vítavert að gera nema með samþykki Alþingis.