26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3502)

34. mál, eignarnám lóða vegna Menntaskólans í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum, sem komið hafa hér fram og í fólst ásökun á fjvn. fyrir trassaskap í afgreiðslu mála og fyrir að fara óþinglega með mál, vildi ég aðeins segja nokkur orð. Ég vísa algerlega á bug þessum ásökunum. Það er algerlega ástæðulaust að vera að ásaka fjvn. Hún hefur ábyggilega skilað mun betur af sér málum en sumar aðrar nefndir þingsins. Gangur þessa máls er sá, að í fyrra var því vísað til fjvn. þann 15. nóv., og tók nefndin það fyrir á fundi 6. des. Þar var ákveðið að senda það til umsagnar menntmrh. og fjmrh. Þar sem ekki var vitað þá, hverjir mundu taka sæti í hinni nýju ríkisstjórn, sem ekki var enn mynduð, varð einhvern veginn ekkert úr þessu, og fékk nefndin aldrei svar. Þegar svo nýja ríkisstj, kom, var málið aftur tekið fyrir á fundi í n. Þar var mér falið að tala við ráðherrana, en þeir höfðu þá engan tíma vegna þess, hversu mörg mikilvæg mál biðu afgreiðslu þeirra. Enn var svo málið tekið fyrir í n. í apríl, og var mér þá enn falið að tala við ráðherrana. Þeim viðræðum lauk með því, að samkv. beiðni ráðherra yrði málið ekki afgreitt frá n. fyrr en eftir nánari athugun. Svona hefur þá málsmeðferðin verið. Ég veit ekki, hvort hún er þingleg eða ekki. En hv. þm. geta þó séð, að n. hefur ekki legið á liði sínu og ástæðulaust er að ásaka hana fyrir trassaskap, en sá hv. þm., sem það gerði, hefði að minnsta kosti getað leitað sér upplýsinga um gang málsins í n., áður en hann kom hér inn í þingið með ásakanir sínar. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram.